1891

Ísafold, 11. júlí 1891, 18. árg., 55. tbl., forsíða:

Enn um brúartoll.
Þó vér hvorki biðjum, né bjóðum, fáum vér oft það sem vér viljum.
Hr. Tryggvi Gunnarsson hefir í 48. tbl. Ísafoldar 17. júní þ.á. sagt, að ég verði enn að taka hina fyrri grein hans um brúargæslu til íhugunar. Ég get ekki þekkt, að ég hafi neitt gott af að lesa þessa ritgjörð hans oftar en ég er búinn, og má vera að mér takist ekki heldur að sannfæra hann.
En þó okkur ekki takist að sannfæra hvor annan um það, sem okkur hér ber á milli, þá er ekki óhugsandi, að við getum sannfært fleiri eða færri nær eða fjær um það, hvort hyggilegra sé, að setja fastan brúarvörð við Ölvesárbrúna og tolla hana, eða hafa eftirlitið lauslegt og tolla hana ekki.
Það sem okkur hér ber á milli, er ekki annað en það, að hann vill hafa lengjuna breiða, en ég við hafa hana mjóa og ná sama tilgangi, hvað endingu á brúnni við kemur. Mér hefir aldrei dottið í hug að halda því fram, að brúargæsla væri óþörf. Þvert á móti hefi ég verið honum samdóma um það, að hirða á brúm og vegum og viðhald hafi ekki verið í því lagi, sem það hefði átt að vera og vel getað verið, - án þess þó að setja fasta gæslumenn. Það eru eins miklar ástæður til að hugsa og segja, að þó nú væri sett föst brúargæsla og lagður á brúartollur, og eftir lengri eða skemmri tíma yrði það niðurstaðan, þó brúin nú ekki verði tolluð, að tolla hana og hafa fastan brúarvörð. Það hefir ólíklega verið spáð og þó ræst. Og það mun samkvæmara framfarastefnu tímans, að gera allar samgöngur sem léttastar og greiðastar.
Að gólfið í brúnni slitni o. fl., verður óumflýjanlegt, úr því að hún er gerð til almennra afnota, og fúnaði jafnt þó engin skepna stigi fæti á hana, og enginn brúarvörður getur varnað því.
Það getur þó ekki verið hugsunin, að brúarvörðurinn eigi að teyma undir hverjum manni.
Nú vita það allir, að einn maðurinn fer harðara en annar, án þess að sagt verði að hann fari ógætilega, einn hesturinn er harðari í sporum en annar, hvort sem honum er riðið eða hann er rekinn eða hann er teymdur. Færi nú brúarvörður að gerast mjög smámunalegur í þessu, mundi hann fljótt verða óvinsæll, og staðan yrði honum allt annað en þægileg.
Til að mála brúna, sjá allir að ekki þarf fastan mann, því ekki getur komið til þess, hvernig sem á stendur, að mála hana oftar en tvisvar á sumri, enda væri tilgangslaust að gera það á vetrum. Þó það ætti að sópa hana á hverjum degi og þvo hana á hverju laugardagskvöldi, þá gæti bóndinn á Selfossi séð um það.
Við göngum nú báðir jafnt fram hjá reynslunni í þessu efni - þar sem þetta er nú fyrsta brú í sinni röð, sem lögð er hér á landi. Hefði Ölvesá og Þjórsá báðar verið brúaðar undir eins, svo verið settur fastur brúarvörður við aðra, en hinnar gætt lauslega, þá væri það fyrst eftir 10 ár eða lengri tíma, að sjá hefði mátt, hver munurinn var. Hann vill byggja allt á erlendri reynslu. Við því hættir mörgum, sem lengi hafa verið erlendis - og getur oft verið gott en stundum viðsjált. Við höfum marga fallega flíkina fengið bæði frá Dönum og öðrum þjóðum, en betra hefir verið að sníða margar af þeim upp, ef vel átti að fara.
Ekki skal ég gera lítið úr verklegri þekkingu hans, reynsluvísindum og ferðafrægð, og kemur honum nú allt þetta í góðar þarfir, og getur þurft á öllu því að halda, áður þessu verki sé lokið. Ég vildi að hann hefði bæði heiður og hag af brúarsmíðinu. Verði brúin traust gerð, verður það honum til sóma, og er hann þá líka vel að því kominn, þó hann hefði hag af samningnum.
Ein brú, allt svo góður gripur hún er fyrir austursýslurnar, vegur lítið á móti þeim þægindum, sem gufuskipaferðirnar veita þeim, er þær geta notað, þó að brúin sé ótolluð og fargjald verði að greiða fyrir menn og muni, sem með gufuskipum er flutt.
Hann játar það, að í öllum löndum séu margar brýr, sem ekki séu tollaðar, því má þá ekki eins taka það sér til fyrirmyndar til að byrja með hér?
Það er fullkomin alvara mín, að ekki veiti af að hafa lögregluþjón við hvorn brúarsporð. Hann segir sjálfur, að svo sé það í öðrum löndum, og hann vill steypa þetta allt í erlendu móti, svo það eru í rauninni hans orð, en ekki mín.
En svo eru ástæður mínar fyrir, að þessa þyrfti hér, með öllu óhraktar, ef brot ættu sér stað og sektirnar ættu að nást. En nú sannfærist ég æ betur og betur um, að brot í þessu efni vart munu eiga sér stað, því svo viturlega mun fyrir séð, að brúin ekki sé of breið, og handriðin ekki of há, svo hún leyfir ekki að þar sé dansað eða farið í kappreið. Ég segi því enn sem fyr, að brúin mun best gæta sín sjálf, hvað það atriði snertir.
Þá að féð verði kyrrt í landinu, vil ég ekki búa til ný embætti að óþörfu einungis handa einni fjölskyldu til að lifa á, enda er nú á tímum engin trygging fyrir því, að menn ekki fari af landi burt með féð, sem þeir hafa grætt á feitum embættum eða á annan hátt, eins og selstöðukaupmenn.
Við erum nú að vísu vanir því, að verða að taka fé úr vasa margra barnanna, og leggja einni fjölskyldu; en ekki er ráð að fjölga eymdum vorum í því efni.
Töludæmi hans er, eins og hann sjálfur játar, að það má setja slík dæmi á marga vegu. Það má eins vel segja, meðan að alla reynslu vantar hér í þessu efni, að brú, sem staðið hefir í 30 ár, haft fastan brúarvörð og búið er að kosta til beinlínis í laun, auk viðhalds, 30-40.000 kr., sé eða verði ekki neitt betri en önnur jafngömul, sem ekki hefir haft nema lauslegt eftirlit og ekki hefir verið til kostað nema 6.000 kr. eða 200 kr. á ári.
Eins og brýr og vegir ekki verða fluttir um allt land, eins eru hinir æðri dómstólar, að það verður að brúka þá á sínum stað. En svo eru vegir gerðir fyrir mennina, en mennirnir ekki fyrir vegina. Ef að Hallur á Horni þarf að fara yfir brúna á Ölvesá, á hann ekki að þurfa að borga brúartoll, hvort hann hefir greitt nokkuð eða ekki neitt í landssjóð. Þetta dugar ekki að mæla á hreppakvarða.
Hann hefir nú gert mér svo hægt fyrir að svara með því einungis að telja upp mest af ástæðum mínum. Þetta er nú líklega gert af góðmennsku og vorkunnsemi við mína veiku krafta. Það segir sig sjálft, að allir geta ekki jafnfljótt fengið bót meina sinna, hvað samgöngurnar snertir.
Ekki get ég haft samkomulag við hann um það að koma neinu af því sem ég hef skrifað um þetta mál, yfir á prentarana, því það er ekki minn vani og á ekki við mitt skap. Geti ég ekki varið það sjálfur eða það verji sig sjálft, þá falli það á mig.
Ég skal ekki hót afsaka þekkingarleysi mitt í þessu efni; en eins og ég hefi áður tekið fram, vantar hann reynslu og þekkingu með slíka brú sem þessa hér á landi.
Þar sem hann segir að mig vanti þekkingu á því, hvernig verja eigi járn og tré fyrir áhrifum loftsins, þá þakka ég fyrir kenninguna, en tek hana ekki til greina; - Það er víst að fjöldi manna hér á landi þekkir það eins vel og hann, og ég hefi talað við marga slíka menn, svo að ég hefi ljósa hugmynd um það.
Ef gert er ráð fyrir, að enginn nema hann einn hafi grundaða þekkingu á húsasmíði og vilji landinu vel, þá hefi ég hann allan og einn á móti mér. Svo mun ég að mestu gefa honum eftir síðasta orðið í þessu máli, því ég er ekki vanur að leggja mál í langvinnar þrætur, hvort sem ég á við rauða eða hvíta.


Ísafold, 11. júlí 1891, 18. árg., 55. tbl., forsíða:

Enn um brúartoll.
Þó vér hvorki biðjum, né bjóðum, fáum vér oft það sem vér viljum.
Hr. Tryggvi Gunnarsson hefir í 48. tbl. Ísafoldar 17. júní þ.á. sagt, að ég verði enn að taka hina fyrri grein hans um brúargæslu til íhugunar. Ég get ekki þekkt, að ég hafi neitt gott af að lesa þessa ritgjörð hans oftar en ég er búinn, og má vera að mér takist ekki heldur að sannfæra hann.
En þó okkur ekki takist að sannfæra hvor annan um það, sem okkur hér ber á milli, þá er ekki óhugsandi, að við getum sannfært fleiri eða færri nær eða fjær um það, hvort hyggilegra sé, að setja fastan brúarvörð við Ölvesárbrúna og tolla hana, eða hafa eftirlitið lauslegt og tolla hana ekki.
Það sem okkur hér ber á milli, er ekki annað en það, að hann vill hafa lengjuna breiða, en ég við hafa hana mjóa og ná sama tilgangi, hvað endingu á brúnni við kemur. Mér hefir aldrei dottið í hug að halda því fram, að brúargæsla væri óþörf. Þvert á móti hefi ég verið honum samdóma um það, að hirða á brúm og vegum og viðhald hafi ekki verið í því lagi, sem það hefði átt að vera og vel getað verið, - án þess þó að setja fasta gæslumenn. Það eru eins miklar ástæður til að hugsa og segja, að þó nú væri sett föst brúargæsla og lagður á brúartollur, og eftir lengri eða skemmri tíma yrði það niðurstaðan, þó brúin nú ekki verði tolluð, að tolla hana og hafa fastan brúarvörð. Það hefir ólíklega verið spáð og þó ræst. Og það mun samkvæmara framfarastefnu tímans, að gera allar samgöngur sem léttastar og greiðastar.
Að gólfið í brúnni slitni o. fl., verður óumflýjanlegt, úr því að hún er gerð til almennra afnota, og fúnaði jafnt þó engin skepna stigi fæti á hana, og enginn brúarvörður getur varnað því.
Það getur þó ekki verið hugsunin, að brúarvörðurinn eigi að teyma undir hverjum manni.
Nú vita það allir, að einn maðurinn fer harðara en annar, án þess að sagt verði að hann fari ógætilega, einn hesturinn er harðari í sporum en annar, hvort sem honum er riðið eða hann er rekinn eða hann er teymdur. Færi nú brúarvörður að gerast mjög smámunalegur í þessu, mundi hann fljótt verða óvinsæll, og staðan yrði honum allt annað en þægileg.
Til að mála brúna, sjá allir að ekki þarf fastan mann, því ekki getur komið til þess, hvernig sem á stendur, að mála hana oftar en tvisvar á sumri, enda væri tilgangslaust að gera það á vetrum. Þó það ætti að sópa hana á hverjum degi og þvo hana á hverju laugardagskvöldi, þá gæti bóndinn á Selfossi séð um það.
Við göngum nú báðir jafnt fram hjá reynslunni í þessu efni - þar sem þetta er nú fyrsta brú í sinni röð, sem lögð er hér á landi. Hefði Ölvesá og Þjórsá báðar verið brúaðar undir eins, svo verið settur fastur brúarvörður við aðra, en hinnar gætt lauslega, þá væri það fyrst eftir 10 ár eða lengri tíma, að sjá hefði mátt, hver munurinn var. Hann vill byggja allt á erlendri reynslu. Við því hættir mörgum, sem lengi hafa verið erlendis - og getur oft verið gott en stundum viðsjált. Við höfum marga fallega flíkina fengið bæði frá Dönum og öðrum þjóðum, en betra hefir verið að sníða margar af þeim upp, ef vel átti að fara.
Ekki skal ég gera lítið úr verklegri þekkingu hans, reynsluvísindum og ferðafrægð, og kemur honum nú allt þetta í góðar þarfir, og getur þurft á öllu því að halda, áður þessu verki sé lokið. Ég vildi að hann hefði bæði heiður og hag af brúarsmíðinu. Verði brúin traust gerð, verður það honum til sóma, og er hann þá líka vel að því kominn, þó hann hefði hag af samningnum.
Ein brú, allt svo góður gripur hún er fyrir austursýslurnar, vegur lítið á móti þeim þægindum, sem gufuskipaferðirnar veita þeim, er þær geta notað, þó að brúin sé ótolluð og fargjald verði að greiða fyrir menn og muni, sem með gufuskipum er flutt.
Hann játar það, að í öllum löndum séu margar brýr, sem ekki séu tollaðar, því má þá ekki eins taka það sér til fyrirmyndar til að byrja með hér?
Það er fullkomin alvara mín, að ekki veiti af að hafa lögregluþjón við hvorn brúarsporð. Hann segir sjálfur, að svo sé það í öðrum löndum, og hann vill steypa þetta allt í erlendu móti, svo það eru í rauninni hans orð, en ekki mín.
En svo eru ástæður mínar fyrir, að þessa þyrfti hér, með öllu óhraktar, ef brot ættu sér stað og sektirnar ættu að nást. En nú sannfærist ég æ betur og betur um, að brot í þessu efni vart munu eiga sér stað, því svo viturlega mun fyrir séð, að brúin ekki sé of breið, og handriðin ekki of há, svo hún leyfir ekki að þar sé dansað eða farið í kappreið. Ég segi því enn sem fyr, að brúin mun best gæta sín sjálf, hvað það atriði snertir.
Þá að féð verði kyrrt í landinu, vil ég ekki búa til ný embætti að óþörfu einungis handa einni fjölskyldu til að lifa á, enda er nú á tímum engin trygging fyrir því, að menn ekki fari af landi burt með féð, sem þeir hafa grætt á feitum embættum eða á annan hátt, eins og selstöðukaupmenn.
Við erum nú að vísu vanir því, að verða að taka fé úr vasa margra barnanna, og leggja einni fjölskyldu; en ekki er ráð að fjölga eymdum vorum í því efni.
Töludæmi hans er, eins og hann sjálfur játar, að það má setja slík dæmi á marga vegu. Það má eins vel segja, meðan að alla reynslu vantar hér í þessu efni, að brú, sem staðið hefir í 30 ár, haft fastan brúarvörð og búið er að kosta til beinlínis í laun, auk viðhalds, 30-40.000 kr., sé eða verði ekki neitt betri en önnur jafngömul, sem ekki hefir haft nema lauslegt eftirlit og ekki hefir verið til kostað nema 6.000 kr. eða 200 kr. á ári.
Eins og brýr og vegir ekki verða fluttir um allt land, eins eru hinir æðri dómstólar, að það verður að brúka þá á sínum stað. En svo eru vegir gerðir fyrir mennina, en mennirnir ekki fyrir vegina. Ef að Hallur á Horni þarf að fara yfir brúna á Ölvesá, á hann ekki að þurfa að borga brúartoll, hvort hann hefir greitt nokkuð eða ekki neitt í landssjóð. Þetta dugar ekki að mæla á hreppakvarða.
Hann hefir nú gert mér svo hægt fyrir að svara með því einungis að telja upp mest af ástæðum mínum. Þetta er nú líklega gert af góðmennsku og vorkunnsemi við mína veiku krafta. Það segir sig sjálft, að allir geta ekki jafnfljótt fengið bót meina sinna, hvað samgöngurnar snertir.
Ekki get ég haft samkomulag við hann um það að koma neinu af því sem ég hef skrifað um þetta mál, yfir á prentarana, því það er ekki minn vani og á ekki við mitt skap. Geti ég ekki varið það sjálfur eða það verji sig sjálft, þá falli það á mig.
Ég skal ekki hót afsaka þekkingarleysi mitt í þessu efni; en eins og ég hefi áður tekið fram, vantar hann reynslu og þekkingu með slíka brú sem þessa hér á landi.
Þar sem hann segir að mig vanti þekkingu á því, hvernig verja eigi járn og tré fyrir áhrifum loftsins, þá þakka ég fyrir kenninguna, en tek hana ekki til greina; - Það er víst að fjöldi manna hér á landi þekkir það eins vel og hann, og ég hefi talað við marga slíka menn, svo að ég hefi ljósa hugmynd um það.
Ef gert er ráð fyrir, að enginn nema hann einn hafi grundaða þekkingu á húsasmíði og vilji landinu vel, þá hefi ég hann allan og einn á móti mér. Svo mun ég að mestu gefa honum eftir síðasta orðið í þessu máli, því ég er ekki vanur að leggja mál í langvinnar þrætur, hvort sem ég á við rauða eða hvíta.