1891

Ísafold, 9. sept. 1891, 18. árg., 72. tbl., forsíða:

Vígð Ölfusárbrúin.
Vígsludagurinn. Veðrið. Aðsóknin.
Aðalfólkstraumurinn hér sunnan að austur yfir fjall til að vera við vígslu brúarinnar var í fyrra dag, í fögru verði, glaða sólskini meiri hluta dags. Hver hópurinn leiddi annan úr garði, sumir örsmáir, sumir heilar fylkingar. Eigi skein að vísu á gullroðna hjálma né steinda skildi, en glæsileg mun mörg kvennasveitin hafa þótt á að líta, og fagurt blikuðu lúðrarnir hins ótrauða söngflokks Helga Helgasonar, er lagði á sig þessa för kauplaust að vanda og ótilkvaddur, "fyrir fólkið"
Fátt manna kom þann dag að brúarstæðinu úr nærsveitunum austan fjalls. Tímanum var svo hagað, að víðast mátti ná heiman að frá sér að morgni, og margir voru svo forsjálir, að vilja sjá, hvernig veður réðist sjálfan vígsludaginn, áður en þeir legðu í skemmtiför þessa. Því jafnan er á tvær hættur að tefla um almennar skemmtanir og viðhöfn undir beru lofti. Sé lán með og veðrið leiki í lyndi, taka þær fram hverjum skemmtunum öðrum, sem almenningur hér á kost á að njóta, en bregðist það, verður annað upp á teningnum; hrakningur á mönnum og skepnum og lítið annað.
Hér sunnan fjalls var að vísu eigi bjart veður að morgni, í gærmorgun, en allt útlit fyrir uppihald, sem og raun varð á. Hér settust því engir aftur veðursins vegna í gærmorgun, þeir er höfðu ætlað sér að láta morguninn duga, sem og vel tókst; voru komnir sumir austur að brú stundu fyrir hádegi, þeir er höfðu lagt af stað kl. 5 eða þar um bil. En austan fjalls var þunga-rigning þegar frá morgni, sem á gerðist, er á daginn leið, og var heillirigning síðari partinn, fram á nótt, sjálfsagt hin mesta, er komið hefir á sumrinu, en hægð var, ýmist logn eða því sem næst.
Þrátt fyrir það sótti fjöldi manns að brúarstæðinu úr nágrenninu við það, einkum af Eyrarbakka, og allmargt jafnvel austan yfir Þjórsá. Nýir og nýir hópar komu í ljósmál fram úr dimmunni af regnúðanum jafnt og þétt, fram til hins ákveðna vígslutíma (kl. 2); sumir náðu eigi messu. Eftir kl. 11 rúmlega var engum hleypt yfir brúna, og urðu menn að láta ferja sig upp frá því, þar á meðal landshöfðingi og sá hópur allur, er honum fylgdi. Mannsöfnuðurinn varð á endanum full 1700, eflaust hin mesti mannsöfnuður, er nokkurn tíma hefir verið saman kominn í einum hóp hér á landi, utan höfuðstaðarins að minnsta kosti. En á 3. þús. eitthvað, heldur meira en minna líklega, hefði hann sjálfsagt komist ef veðrið hefði gengið að óskum.
Vígsluathöfnin
byrjaði, eins og til stóð kl. 2. Var strengjum fest fyrir báða enda brúarinnar sjálfrar þangað til og maður settur til gæslu við hvorn. Þá gekk landshöfðingi upp á vegarpallinn sunnan við brúna þar sem er trérið á báðar hendur; var rauður dúkur breiddur yfir kafla af riðinu að vestanverðu og veifur reistar þar á tvær hliðar. Var sá umbúnaður hafður í ræðupalls stað, og fór vel; hæðin allmikil, á að giska 6-7 álnir. Þar staðnæmdist landshöfðingi og hornasöngflokkurinn að baki hans. Þá var hafinn hornablásturinn, nýtt lag, eftir Helga Helgason, við kvæði það, er landritari Hannes Hafstein hafði ort og hér fer á eftir. Hafði því verið útbýtt prentuðu á undan, ásamt laginu. Síðan var kvæðið sungið til enda. Að því búnu tók landshöfðingi til máls. - Kvæðið nefnist
Brúardrápa
sungin við afhending hengibrúarinnar yfir Ölfusá.

Þunga sigursöngva
söng hér elfan löngum,
byst fann skemmtan besta
banna ferðir manna.
Annan söng nú ítar vaskir kveði,
upp skal hefja róm með von og gleði
Nú er móðan ekki einvöld lengur,
einvald hennar binda traustar spengur.

Hátt á bökkum bröttum
byggðir eru og tryggðir
synir stáls og steina
sterkir mjög að verki;
standa´á bergi studdir magni´og prýði,
strengja sér á herðum gjörva smíði,
tengja sveit við sveit, þótt aldan undir
ófær brjótist fram um klett og grundir.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´í barmi
mest er mann-verk treystum
móðurjarðar góðu.
Tjáir ei við hrepptan hag að búa,
hér á foldu þarf svo margt að brúa:
jökulár á landi og í lundu-
lognhyl margan bæði´í sál og grundu.

Sannar afrek unnið:
andinn sigrar vanda;
tengja traustir strengir
tvístrað láðið áður.
Tengjum þannig tvístruð öfl og megin.
Trausti, dáð og framkvæmd greiðum veginn.
Heilar vinni hendur jafnt og andi.
Hefjum brúargjörð á andans landi.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´í barmi.-
Vilji, von og elja
vinnu saman inni.
Þá mun rísa brú til betri tíða,
brú til vonarlanda frónskra lýða,
brú til frelsis, brú til mennta-hæða,
brú til mannfélagsins æðstu gæða.

Heill sé hug og snilli,
heill sé ráði' og dáðum.
Heill sé lönd og anda,
heiður um foldu breiðist.
Líti sól hver sæmd og nýjar tryggðir,
sveipi gæfan fósturjarðar byggðir.
Blessist framkvæmd, blómgist sviti lýða.
Brúin rísi fram til nýrra tíða.

Ræða landshöfðingja.
Það er hátíðlegt tækifæri, er afhenda skal til almennra og frjálsra afnota hið langmesta samgöngumannvirki, er gjört hefur verið á þessu landi, ekki einungis á þessari öld, heldur alla tíð síðan land byggðist, hina fyrstu járnbrú hér á landi, yfir eitt af landsins mestu vatnsföllum.
Það er almennt viðurkennt orðið fyrir löngu, að samgönguleysi er eitt hið versta þjóðarmein, hinn rammasti slagbrandur fyrir bæði andlegum og veraldlegum framförum. Enda var það eitt hið fyrsta verk Alþingis, eftir að það fékk löggjafar- og fjárveitingarvald, að veita allmikið fé bæði til vegabóta og gufuskipaferða (15.000 + 30.000 kr.).
Var það þegar mikil framför frá því sem áður var, einkum strandferðirnar, sem áður voru alls engar.
En, eins og menn vita, geta eigi allir fjórðungar landsins haft bein not strandferðanna, sakir hafnleysis. Það er hér um bil öll suðurbyggð landsins; þar er engin höfn, er því nafni geti heitið, alla leið frá Reykjanesi austur að Lónsheiði. Hvergi á landinu er því eins nauðsynlegt að koma á greiðum og góðum samgöngum á landi.
Værum vér staddir upp á fjalli því, er hér er oss næst, Ingólfsfjalli, og bjart væri veður, mundi blasa við sjónum vorum hið stærsta sléttlendi þessa lands, hinar frjósömustu og blómlegustu sveitir þess.
Þetta sléttlendi er það, sem jarðfræðingar nefna Geysis-dal. Það er þeirra kenning, og engin ástæða til hana að rengja, að fyrir ævalöngu, ef til vill svo þúsundum alda skiptir áður en land vort fannst og byggðist, hafi hér verið sjór, flói mikill, annar Faxaflói, með eigi allfáum eyjum á víð og dreif. Þessar eyjar köllum vér nú Brúfell, Mosfell, Hestfjall, Vörðufell o. s. frv. Þegar forfeður vorir reistu sér byggðir og bú hér fyrir rúmum 1000 árum, var flói þessi orðinn að þurru, grónu landi fyrir ævalöngu, og eyjarnar að fjöllum og hæðum. Það eru mikil umskipti, stórkostleg bylting, og má segja um það eins og skáldið; "Gat ei nema guð og eldur, gert svo dýrðlegt furðuverk". Þar sem öldur Atlantshafs léku um áður, þar sáu þeir, forfeður vorir,
"um grænar grundir líða
skínandi ár að ægi blám",
og mestar þeirra Þjórsá og Ölfusá, er verið hafa ferjuvötn síðan hér um bil alla leið milli fjalls og fjöru.
Á þessu sléttlendi eiga nú heima rúm 10.000 manna. En það hafa útlendir náttúrufræðingar fullyrt, að væri það land orðið vel ræktað, mýrarnar ristar fram, þúfur sléttaðar og móarnir uppstungnir o. s. frv., þá mundi hér á þessu svæði getað lifað allt það fólk, er nú byggir þetta land, um 70.000 manna, og lifað góðu lífi. Eru þetta fráleitt neinar öfgar, því til þess þarf eigi meira þéttbýli en svo, að 1000 manns komi á ferh.mílu hverja, og þykir það ekki mikið þéttbýli annarsstaðar, enda eru ekki nema 3 lönd hér í álfu önnur en Ísland svo strjálbyggð, að eigi komi meira en það á hverja ferh.mílu.
En til þess þarf margt að breytast og miklum umbótum að taka. Fyrst og fremst þarf til þess vegi og brýr, brýr yfir árnar og akvegi milli þeirra og fram og aftur um alla byggðina.
Það sem æðarnar eru fyrir líkama mannsins, það eru vegir og brýr yfir landið.
Eftir því sem landslagi hagar hér, þurfa brýrnar að koma á undan vegunum. Þegar þær eru komnar, mun ganga greitt eða greiðara miklu að koma á vegunum.
Fyrsta skilyrði fyrir því, að þessi hluti landsins einkanlega geti öðlast þá blómgun, náð þeirri ákvörðun, sem skaparinn hefir ætlast til ,eru því nægar og góðar brýr og nógir og góðir vegir.
Þá rakti landshöfðingi sögu brúarmálsins, viðlíka ýtarlega og gert er hér síðar í blaðinu, og er þeim kafla ræðunnar sleppt hér.
Eftir það lauk hann máli sínu hér um bil á þessa leið.
Ég leyfi mér að lokum í nafni þjóðarinnar og fyrir landstjórnarinnar hönd að votta öllum þeim alúðarþakkir, er að því hafa unnið, að koma þessu mikla og mjög svo nauðsynlega mannvirki til framkvæmdar: fjárveitingarvaldinu, bæði alþingi, hlutaðeigandi sýslunefndum og amtsráði suðuramtsins: alþingismönnum þeim, er sérstaklega hafa fyrir því barist og eigi þreyst að knýja á, þangað til upp var lokið; hinum útlendu smiðum, er sjálfa járnbrúna hafa gert, hinum innlendu smiðum og verkamönnum og öðrum, er að fyrirtækinu hafa unnið á ýmsan hátt; og síðast en eigi síst að alframkvæmdamanni fyrirtækisins, Tryggva kaupstjóra Gunnarssyni, fyrir þá miklu atorku og elju, þrek og þol, er hann hefir sýnt við þetta fyrirtæki frá upphafi til enda, svo mikil óþægindi og erfiðleika sem hann hefir átt við að stríða; og fyrir þá framúrskarandi ósérplægni og sjálfsafneitun, er hefir einkennt alla framkomu hans í þessu máli.
Það er algengast, að hið fyrsta sem þeir gjöra flestir, er nefnt er við að standa fyrir viðlíka meiri háttar mannvirkjum og þetta er, það er, að leggja niður fyrir sér, hve mikinn gróða þeir muni geta haft upp úr því handa sjálfum sér. Þessi maður, hr. Tr. G., hefir tekið þetta að sér með allt annarri hugsun. Ég get ímyndað mér, að hann hafi sagt við sjálfan sig eitthvað á þessa leið: "Ég sé mikið vel, að hag get ég ekki haft af því fyrir sjálfan mig, heldur öllu heldur talsverðan skaða. En ráðist ég ekki í það, verður ekkert úr því. Ég vil gjöra það vel, svo trútt og dyggilega, sem ég hef framast vit á og megn til, og hirði eigi um, þótt talsvert fé fari til þess úr mínum vasa, ef því er að skipta, að eins að verkið verði svo af hendi leyst, að það verði mér til sóma, og umfram allt landinu til gangs og sóma". Þannig ímynda ég mér að hann hafi hugsað, eða ég ræð það, réttara sagt, af allri framkomu hans í þessu máli. Og um það munu allir samdóma, er nú hafa séð brúna upp komna, að "verkið lofi meistarann". Hann hefir með því reist sér þann minnisvarða, er lengi mun geymast með innilegu þakklæti í brjósti hlutaðeigandi héraðsbúa, fyrir þessa gersemi, er þeir fá sér afhenta til frjálsra afnota í dag.
Í goðafræði vorri er getið um merkilega gersemi, hringinn Draupni, er hafði þá náttúru, að 9. hverja nótt drupu af honum 8 hringir jafnhöfgir. Óskum þess, að sama náttúra fylgi þessari gersemi vorri, að af henni drjúpi á skömmum tíma viðlíka margar brýr jafngóðar fyrir þau vatnsföll landsins, er þess þarfnast mest.
Biðjum þá að lokum guð að blessa brúna og alla þá ávexti, er hún getur borið, ef vér kunnum til að gæta. Biðjum hann að gefa þjóðinni í dug og dáð, áræði og framtakssemi til að halda áfram því sem vel er byrjað með þessu fyrirtæki, svo að það marki nýtt tímabil í viðburðum hennar til samgöngubóta og öðrum samkynja fyrirtækjum þjóðinni til hagsældar.
Að svo mæltu lýsi ég brúna opna og heimila til almennrar notkunar og frjálsrar umferðar.
Því miður er ræðuágrip þetta ekki svo nákvæmt, sem vera hefði átt, með því lítið næði var til að rita það upp jafnóðum og það var mælt af munni fram blaðalaust. Því drjúgum rigndi meðan á ræðuhaldinu stóð, þótt meira yxi úrkoman síðar.
Prósessían.
Eftir það gengu þeir landshöfðingi og hr. Tryggvi Gunnarsson vestur yfir brúna í broddi fylkingar og múgurinn allur á eftir, 3-4 samsíða, karlar og konur, ungir og gamlir. Fjórir voru fengnir til að telja, og töldu á 16. hundrað. Voru þá eftir ýmsir smá-hópar og einstakir menn á strjálingi hingað og þangað nokkuð frá brúnni, eða inni í tjöld og brúarsmíðahúsinu (Tryggvaskála), vegna úrfellisins, og var giskað á, að það mundi nema nær 2 hundruðum.
Það tók all-langan tíma að mannfjöldinn kæmist yfir brúna. Gekk fylkingin góðan spöl upp frá henni að vestanverðu og dreifði sér síðan um hæð, er þar er, og fögur er útsjón af í góðu veðri. Þar reyndu þeir Helgi Helgason og hans menn að skemmta mönnum með hornablæstri; en veðrið meinaði það mjög. Síðan fóru menn að smátínast austur yfir aftur, athafna sig og skoða brúna í krók og kring.
Lýsing brúarinnar.
Lengdin járnbrúarinnar sjálfrar er um 180 álnir. Þar af eru 120 álnir yfir um sjálfa ána, milli aðalstöplanna, en 60 yfir haf það, er milli er aðalstöpulsins á eystri bakkanum og akkerisstöpulsins þeim megin.
Breiddin er 4 álnir.
Járnrið er beggja vegna, með 3 landböndum, og nær meðalmanni því nær undir hendur.
Hæðin frá brúnni niður að vatnsfletinum, þegar ekki er vöxtur í ánni, er 12 álnir.
Brúin er hengibrú, eins og menn vita, þ. e. brúin sjálf hengd með uppstöndurum af járni neðan í þrjá járnstrengi hvers vegar. Járnstrengir þessir eru alldigrir, og strengdir yfir tvo stöpla við hvorn brúarsporð, 20 álna háa alls að austanverðu, og er neðri hlutinn, 9½ alin, úr vel límdu og vel höggnu grjóti, en efri hlutinn ferföld járnsúla eða súlnagrind, og haft á milli þeirra að ofan. Austanmegin eru járnsúlurnar jafnháar, en neðri hlutinn ekki nema 1 álnar hleðsla, með því þar er hár klettur undir.
Járnstrengurinn, er brúnni halda uppi þandir eru yfir nýnefnda stöpla (járnsúlurnar), er fest í akkeri til beggja enda, en það eru klettar af manna höndum gjörðir, þ. e. hlaðnir úr grjóti og grjótsteypu og rammlega límdir. Neðst í þeim klettum eru járnspengur þversum, er strengjaendunum er brugðið um.
Allt járnið í brúnni er um 50 smálestir að þyngd, eða sama sem 100.000 pd. Þar að auki er í brúnni, gólfinu á henni, 100 tylftir af plönkum, og 72 stórtré undir þeim, ofan á járnslánum og járnbitunum. Plankagólfið er tvöfalt.
Um traustleika brúarinnar er það að segja, að það er ætlast til að hún beri járnbrautarlest, en til þess má vera á henni í ein 50 punda þungi á hverju ferh.feti. Geri maður meðalmanns þyngd 144 pd., mega eftir því standa á brúnni í einu 1000 manns, svo óhætt sé í alla staði.
Út frá brúnni liggur á báða vegu vegargarður eða mjög upphækkaður vegur út á jafnsléttu, og þar á sund í einum stað að austanverðu, 15 álna breitt, með trébrú yfir. Er það gert til rennslis fyrir ána í aftaka vatnavöxtum, ásamt 60 álna sundinu milli stöpuls og akkeris, sem fyr er getið.
Umferð um brúna á eftir.
Skömmu eftir prósessíuna var tekið til að fara með hesta yfir brúna fram og aftur, bæði lestir og lausa hesta, og von bráðar ríðandi. Ægði þá öllu saman í einu á brúnni, ríðandi mönnum og gangandi, ungum og gömlum, konum og körlum, lausum hestum og klyfjahestum. Hált var á henni af rigningunni, og bar það til, að laus hestur datt á henni miðri, en stóð jafngóður upp og meiddi engan, þó mannmargt væri. Og er frá leið nokkuð, sást maður þeysa hana endilanga á allhörðum spretti, harða-skeiði. tóku fleiri það hreystisverk(!) sér til fyrirmyndar, víst bæði kenndir og ókenndir. Yfir höfuð var eigi hræðslu að sjá nema á einstöku manni, helst börnum og gamalmennum, er tveir menn leiddu þá á milli sín eftir miðri brúnni. Sér að vísu í grængolandi iðuna 12 álnir undir brúnni; en svo traust finnst mönnum hún og riðin beggja vegna, að fletir ganga öruggir þegar í stað.
Múgurinn býst til brottferðar og tvístrast.
Hefði veður leyft, stóð til að skemmt yrði mannfjöldanum fram eftir deginum með söng og ræðuhaldi. En það voru engin viðlit, því veður spilltist æ meir og meir. Þóttist hver hreppnastur, er fyrst komst burtu úr þeirri þvögu og leirleðju, er menn óðu út í og inni nærri því. Skorti eigi alla þá aðhlynningu af hálfu hr. Tryggva Gunnarssonar og hans manna, sem og Gunnars bónda á Selfossi, hvað húsaskjól snertir og þess háttar, er hægt var í té að láta. En sem nærri má geta, hrukku húsakynnin skammt. Sama er að segja um gestgjafa Einar Zöega, er hafði reist mörg tjöld (4) á árbakkanum, þar sem hann veitti mat og drykk eftir föngum, þangað flutt með ærum kostnaði og fyrirhöfn.
Mundi þetta hafa orðið einhver hin fegursta og mikilfenglegasta þjóðhátíð, ef öðruvísi hefði til tekist með veðrið.
Það leyndi sér ekki á svip og tali viðstaddra héraðsbúa, hvað vænt þeim þótti um hina nýfengnu "gersimi", brúna sína, blessuðu hana í hverju orði og aðalhöfund hennar, hann Tryggva sinn. Við lítilsháttar skilnaðarskál í "Skálanum" hafði og verið mælt fyrir minni brúarsmiðsins enska, Mr. Vaughans frá Newcastle, er farinn er heim til sín fyrir nokkru, og sömuleiðis ingenieurs Ripperda, er haft hefir umsjón með brúargerðinni í sumar af hálfu K. hafnarstjórnarinnar, og verður samferða Tryggva norður þessa daga til þess að fá far þaðan heimleiðis.
Saga Ölfusárbrúarinnar.
Það er sögulegt, að Ölfusárbrúin á sér sögu, nær 20 ára sögu, þó að hún , brúin, fæddist eigi fyr á þessu ári, og ekki hafi þurft nema part úr tveimur sumrum til að leggja hana. Slíkan tíma hefir undirbúningurinn tekið, eða réttara sagt umhugsunin um hvort þorandi væri eða ekki þorandi að leggja í annað eins stórræði og að brúa þetta eina af megin-vatnsföllum landsins. Framan af voru þau raunar höfð tvö í takinu í senn, þ.e. að segja í umhugsuninni og ráðagjörðunum. Það var þá fyrst, er lækkuð voru seglin - þessi háu segl, eða hitt þó heldur-, það var þá fyrst, er sleppt var að hugsa um að brúa nema aðra ána að sinni, er málið náði fram að ganga, og þó við illan leik.
Undirbúningssaga Ölfusárbrúarinnar er því raunasaga aumkunarverðs áræðisleysis og smásálarskapar. Vér höfum þá örugga von og sannfæringu, að landið eigi þá framtíð fyrir höndum, að komandi kynslóðir muni eiga bágt með að skilja í jafnlítil-sigldum hugsunarhætti, sem að þurfa fram undir tuttugu ár til að hugsa sig um að brúa eina á, fyrir ekki meira fé en 60-70.000 kr.
Vera má, að einhverja óvenju-háfleyga og stórhuga framfaramenn hafi dreymt um brú á Þjórsá og Ölfusá fyrir einum mannsaldri eða svo. En upp vita menn eigi til að því hafi verið stunið í heyranda hljóði fyr en nú fyrir 19 árum. Þá var stungið upp á því á almennum sýslufundi á Stórólfshvoli í Rangárvallasýslu, af síra Hannesi sál. Stephensen, er þá var prestur í Fljótshlíðarþingum (¿ 1882). Fundurinn ákvað, að kjósa 1 mann fyrir hvern hrepp í sýslunni til að ganga í nefnd til að framfylgja málinu bæði innan héraðs og utan, og skutu jafnframt saman nokkru fé, 110 rd. (220 kr.), "er skyldu vera til taks, ef á lægi eða nefndin krefði". Formaður þeirrar 9 manna nefndar var Sighv. alþm. Árnason, er á því láni að fagna að sjá það mál loks farsællega til lykta leitt, að því er Ölfusárbrúna snertir. Af öðrum nefndarmönnum má nefna síra Ísleif Gíslason, Sigurð dbrm. Magnússon á Skúmstöðum og Jón hreppstj. Hjörleifsson í Skógum. Af hinum eru fyrir víst 3 dánir, prestarnir Hannes Stephensen, Skúli Gíslason og Sveinbjörn Guðmundsson.
Nefndin átti fund og með sér mánuði síðar en hún var kosin, og "komst að þeirri niðurstöðu, að fyrst lægi fyrir að fá vissu fyrir því, hvort fyrirtækið væri mögulegt eða ekki, og ákvað að leita atkvæða landsstjórnarinnar og biðja hana að útvega verkfróðan mann til að skoða brúarstæði á ánum og gera áætlun um kostnaðinn". Leitað var síðan samkomulags og fylgis Árnesinga um mál þetta, og var þar engin fyrirstaða. Sama haust var svo stiftamanni (Hilmari Finsen) ritað um málið, og fékk hann því til vegar komið, að hinn eftiræskti verkfræðingur væri sendur hingað þegar um vorið eftir.
Það var Windfeldt-Hansen, kand.í verkfræði. Hann átti þar að auki að rannsaka, hvort hægt væri að gera höfn við Dyrhólaey; en það leist honum ófært. Hitt var hann þegar sannfærður um, að vel mætti brúa árnar báðar, og gerði nákvæma áætlun um tilhögun á báðum brúnum og kostnað til þess. Brúarstæði á Ölfusá leist honum best hjá Selfossi, þar sem brúin er nú upp komin; en á Þjórsá hafa aðrir fundið hentugri brúarstæði síðan, þótt enn sé óráðið, hvert þeirra verður valið. Kostnaðaráætlun hans fyrir Ölfusárbrúna var 80.000 kr. - Samskotin á Stórólfshvolsfundinum, þessir 110 rd., fóru í ferðakostnað W.H., að viðbættum nokkrum hundruðum rdla úr jafnaðarsjóði, vegasjóði suðuramtsins og landssjóði.
Ári síðar en W.H. ritaði skýrslu sína, kom hið löggefandi og fjárráðandi alþingi saman í fyrsta sinn, 1875; en eigi hafði áskorun til alþingismanna Árnesinga og Rangvellinga um að fá landstjórnina til að taka málið að sér og leggja fé til brúnna neinn árangur í það sinn.
Til næsta þings komu bænarskrár úr báðum sýslunum, um 168.000 kr. fjárveitingu úr landssjóði til að gera báðar brýrnar, samkvæmt áætlun Windfeldt Hansens; en fellt var málið á því þingi.
Tveim árum síðar (1879) komst svo langt, að þingið samþykkti lög um brúargjörð á báðum ánum, Þjórsá og Ölfusá, og veitti til þess 100.000 kr. vaxtalaust lán, er borgast skyldi á 40 árum, af sýslusjóðum 4 næstu sýslna og bæjarsjóði Reykjavíkur. Landstjórnin átti að sjá um framkvæmd fyrirtækisins. Hún spurði sig fyrir í Skotlandi, Danmörku og Svíþjóð, og fékk mikið af tilboðum og áætlunum, en þótti sitt að hverri áætluninni, - smíðið ekki nógu traust eftir sumum tilboðunum, en í sumum meira sett upp en fjárveitingin (100.000 kr.). Gat því ekkert orðið úr framkvæmdum og lögin náðu eigi staðfestingu.
Þessi málalok voru tilkynnt þinginu 1881, og þótti þá ekki árennilegt að eiga frekara við það þá um hæl. En á næsta þingi, 1883, var málið tekið aftur í neðri deild og vasklega flutt þar af þingmönnum Árnesinga, þeim Magnúsi próf. Andréssyni og Þorláki Guðmundssyni- er hefir verið manna þrautseigastur við það-. Var þá að eins hugsað um aðra brúna, þá á Ölfusá, og farið fram á 80.000 kr. úr landssjóði til hennar að gjöf, en ekki láni; það skildi frá því árinu áður hafði verið, og fyrir það féll málið á þingi í það sinn.
Á næsta þingi 1885, var því meðal annars hreift með fyrirspurn, af Sighv. Árnasyni; en 1887 náði það loks fram að ganga í lagaformi, og staðfesti konungur loks þau lög 2 árum síðar, vorið 1889. Voru þá aðeins ætlaðar 60.000 kr. til brúargjörðarinnar, með því að Hovdenak hafði þá komið með nýja áætlun, er taldi það allt að því nóg, mest vegna ódýrleika á járni um þær mundir. Af þessum 60.000 gaf landssjóður 40.000, en lánaði hitt, helminginn (10.000) sýslunefndunum í Árnessýslu og Rangárvalla, og hinn helminginn jafnaðarsjóði suðuramtsins-, gegn endurborgun með ársvöxtum á 45 árum.
Nærri lá, að lög þessi yrðu árangurslaus. Stjórnin sendi áskoranir í ýmsar áttir um að taka að sér brúarsmíð fyrir hina ákveðnu fjárupphæð, en allra-lægsta tilboð var 65.000 kr.; hin kring um 70.000.- Þá var það, að Tryggvi Gunnarsson, er áður hafði annast hið langhelsta brúarsmíði hér á landi annað, Skjálfandafljótsbrúna, fyrir 20.000 kr., bjargaði málinu, fyrir bænastað þeirra, er annast var um það, og réðst í að reyna að koma brúnni upp, hengibrú, fyrir hina ákveðnu upphæð. Mundi fyrirtækið að öðrum kosti hafa farist fyrir enn sem fyr, og fer eigi tvennum sögum um það, að hann hefir að vonum gert sér mikinn sóma og landinu gagn að því skapi með stakri alúð og samviskusemi hvað snertir allan frágang á þessu merkilegasta mannvirki, er hér hefir gert verið, þrátt fyrir það, þótt hann sæi skjótt fyrir mikinn óhag af því fyrir sig, vegna mikillar verðhækkunar á brúarefninu (járninu) meðal annars.


Ísafold, 9. sept. 1891, 18. árg., 72. tbl., forsíða:

Vígð Ölfusárbrúin.
Vígsludagurinn. Veðrið. Aðsóknin.
Aðalfólkstraumurinn hér sunnan að austur yfir fjall til að vera við vígslu brúarinnar var í fyrra dag, í fögru verði, glaða sólskini meiri hluta dags. Hver hópurinn leiddi annan úr garði, sumir örsmáir, sumir heilar fylkingar. Eigi skein að vísu á gullroðna hjálma né steinda skildi, en glæsileg mun mörg kvennasveitin hafa þótt á að líta, og fagurt blikuðu lúðrarnir hins ótrauða söngflokks Helga Helgasonar, er lagði á sig þessa för kauplaust að vanda og ótilkvaddur, "fyrir fólkið"
Fátt manna kom þann dag að brúarstæðinu úr nærsveitunum austan fjalls. Tímanum var svo hagað, að víðast mátti ná heiman að frá sér að morgni, og margir voru svo forsjálir, að vilja sjá, hvernig veður réðist sjálfan vígsludaginn, áður en þeir legðu í skemmtiför þessa. Því jafnan er á tvær hættur að tefla um almennar skemmtanir og viðhöfn undir beru lofti. Sé lán með og veðrið leiki í lyndi, taka þær fram hverjum skemmtunum öðrum, sem almenningur hér á kost á að njóta, en bregðist það, verður annað upp á teningnum; hrakningur á mönnum og skepnum og lítið annað.
Hér sunnan fjalls var að vísu eigi bjart veður að morgni, í gærmorgun, en allt útlit fyrir uppihald, sem og raun varð á. Hér settust því engir aftur veðursins vegna í gærmorgun, þeir er höfðu ætlað sér að láta morguninn duga, sem og vel tókst; voru komnir sumir austur að brú stundu fyrir hádegi, þeir er höfðu lagt af stað kl. 5 eða þar um bil. En austan fjalls var þunga-rigning þegar frá morgni, sem á gerðist, er á daginn leið, og var heillirigning síðari partinn, fram á nótt, sjálfsagt hin mesta, er komið hefir á sumrinu, en hægð var, ýmist logn eða því sem næst.
Þrátt fyrir það sótti fjöldi manns að brúarstæðinu úr nágrenninu við það, einkum af Eyrarbakka, og allmargt jafnvel austan yfir Þjórsá. Nýir og nýir hópar komu í ljósmál fram úr dimmunni af regnúðanum jafnt og þétt, fram til hins ákveðna vígslutíma (kl. 2); sumir náðu eigi messu. Eftir kl. 11 rúmlega var engum hleypt yfir brúna, og urðu menn að láta ferja sig upp frá því, þar á meðal landshöfðingi og sá hópur allur, er honum fylgdi. Mannsöfnuðurinn varð á endanum full 1700, eflaust hin mesti mannsöfnuður, er nokkurn tíma hefir verið saman kominn í einum hóp hér á landi, utan höfuðstaðarins að minnsta kosti. En á 3. þús. eitthvað, heldur meira en minna líklega, hefði hann sjálfsagt komist ef veðrið hefði gengið að óskum.
Vígsluathöfnin
byrjaði, eins og til stóð kl. 2. Var strengjum fest fyrir báða enda brúarinnar sjálfrar þangað til og maður settur til gæslu við hvorn. Þá gekk landshöfðingi upp á vegarpallinn sunnan við brúna þar sem er trérið á báðar hendur; var rauður dúkur breiddur yfir kafla af riðinu að vestanverðu og veifur reistar þar á tvær hliðar. Var sá umbúnaður hafður í ræðupalls stað, og fór vel; hæðin allmikil, á að giska 6-7 álnir. Þar staðnæmdist landshöfðingi og hornasöngflokkurinn að baki hans. Þá var hafinn hornablásturinn, nýtt lag, eftir Helga Helgason, við kvæði það, er landritari Hannes Hafstein hafði ort og hér fer á eftir. Hafði því verið útbýtt prentuðu á undan, ásamt laginu. Síðan var kvæðið sungið til enda. Að því búnu tók landshöfðingi til máls. - Kvæðið nefnist
Brúardrápa
sungin við afhending hengibrúarinnar yfir Ölfusá.

Þunga sigursöngva
söng hér elfan löngum,
byst fann skemmtan besta
banna ferðir manna.
Annan söng nú ítar vaskir kveði,
upp skal hefja róm með von og gleði
Nú er móðan ekki einvöld lengur,
einvald hennar binda traustar spengur.

Hátt á bökkum bröttum
byggðir eru og tryggðir
synir stáls og steina
sterkir mjög að verki;
standa´á bergi studdir magni´og prýði,
strengja sér á herðum gjörva smíði,
tengja sveit við sveit, þótt aldan undir
ófær brjótist fram um klett og grundir.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´í barmi
mest er mann-verk treystum
móðurjarðar góðu.
Tjáir ei við hrepptan hag að búa,
hér á foldu þarf svo margt að brúa:
jökulár á landi og í lundu-
lognhyl margan bæði´í sál og grundu.

Sannar afrek unnið:
andinn sigrar vanda;
tengja traustir strengir
tvístrað láðið áður.
Tengjum þannig tvístruð öfl og megin.
Trausti, dáð og framkvæmd greiðum veginn.
Heilar vinni hendur jafnt og andi.
Hefjum brúargjörð á andans landi.

Vakni von, og kvikni
varmur neisti´í barmi.-
Vilji, von og elja
vinnu saman inni.
Þá mun rísa brú til betri tíða,
brú til vonarlanda frónskra lýða,
brú til frelsis, brú til mennta-hæða,
brú til mannfélagsins æðstu gæða.

Heill sé hug og snilli,
heill sé ráði' og dáðum.
Heill sé lönd og anda,
heiður um foldu breiðist.
Líti sól hver sæmd og nýjar tryggðir,
sveipi gæfan fósturjarðar byggðir.
Blessist framkvæmd, blómgist sviti lýða.
Brúin rísi fram til nýrra tíða.

Ræða landshöfðingja.
Það er hátíðlegt tækifæri, er afhenda skal til almennra og frjálsra afnota hið langmesta samgöngumannvirki, er gjört hefur verið á þessu landi, ekki einungis á þessari öld, heldur alla tíð síðan land byggðist, hina fyrstu járnbrú hér á landi, yfir eitt af landsins mestu vatnsföllum.
Það er almennt viðurkennt orðið fyrir löngu, að samgönguleysi er eitt hið versta þjóðarmein, hinn rammasti slagbrandur fyrir bæði andlegum og veraldlegum framförum. Enda var það eitt hið fyrsta verk Alþingis, eftir að það fékk löggjafar- og fjárveitingarvald, að veita allmikið fé bæði til vegabóta og gufuskipaferða (15.000 + 30.000 kr.).
Var það þegar mikil framför frá því sem áður var, einkum strandferðirnar, sem áður voru alls engar.
En, eins og menn vita, geta eigi allir fjórðungar landsins haft bein not strandferðanna, sakir hafnleysis. Það er hér um bil öll suðurbyggð landsins; þar er engin höfn, er því nafni geti heitið, alla leið frá Reykjanesi austur að Lónsheiði. Hvergi á landinu er því eins nauðsynlegt að koma á greiðum og góðum samgöngum á landi.
Værum vér staddir upp á fjalli því, er hér er oss næst, Ingólfsfjalli, og bjart væri veður, mundi blasa við sjónum vorum hið stærsta sléttlendi þessa lands, hinar frjósömustu og blómlegustu sveitir þess.
Þetta sléttlendi er það, sem jarðfræðingar nefna Geysis-dal. Það er þeirra kenning, og engin ástæða til hana að rengja, að fyrir ævalöngu, ef til vill svo þúsundum alda skiptir áður en land vort fannst og byggðist, hafi hér verið sjór, flói mikill, annar Faxaflói, með eigi allfáum eyjum á víð og dreif. Þessar eyjar köllum vér nú Brúfell, Mosfell, Hestfjall, Vörðufell o. s. frv. Þegar forfeður vorir reistu sér byggðir og bú hér fyrir rúmum 1000 árum, var flói þessi orðinn að þurru, grónu landi fyrir ævalöngu, og eyjarnar að fjöllum og hæðum. Það eru mikil umskipti, stórkostleg bylting, og má segja um það eins og skáldið; "Gat ei nema guð og eldur, gert svo dýrðlegt furðuverk". Þar sem öldur Atlantshafs léku um áður, þar sáu þeir, forfeður vorir,
"um grænar grundir líða
skínandi ár að ægi blám",
og mestar þeirra Þjórsá og Ölfusá, er verið hafa ferjuvötn síðan hér um bil alla leið milli fjalls og fjöru.
Á þessu sléttlendi eiga nú heima rúm 10.000 manna. En það hafa útlendir náttúrufræðingar fullyrt, að væri það land orðið vel ræktað, mýrarnar ristar fram, þúfur sléttaðar og móarnir uppstungnir o. s. frv., þá mundi hér á þessu svæði getað lifað allt það fólk, er nú byggir þetta land, um 70.000 manna, og lifað góðu lífi. Eru þetta fráleitt neinar öfgar, því til þess þarf eigi meira þéttbýli en svo, að 1000 manns komi á ferh.mílu hverja, og þykir það ekki mikið þéttbýli annarsstaðar, enda eru ekki nema 3 lönd hér í álfu önnur en Ísland svo strjálbyggð, að eigi komi meira en það á hverja ferh.mílu.
En til þess þarf margt að breytast og miklum umbótum að taka. Fyrst og fremst þarf til þess vegi og brýr, brýr yfir árnar og akvegi milli þeirra og fram og aftur um alla byggðina.
Það sem æðarnar eru fyrir líkama mannsins, það eru vegir og brýr yfir landið.
Eftir því sem landslagi hagar hér, þurfa brýrnar að koma á undan vegunum. Þegar þær eru komnar, mun ganga greitt eða greiðara miklu að koma á vegunum.
Fyrsta skilyrði fyrir því, að þessi hluti landsins einkanlega geti öðlast þá blómgun, náð þeirri ákvörðun, sem skaparinn hefir ætlast til ,eru því nægar og góðar brýr og nógir og góðir vegir.
Þá rakti landshöfðingi sögu brúarmálsins, viðlíka ýtarlega og gert er hér síðar í blaðinu, og er þeim kafla ræðunnar sleppt hér.
Eftir það lauk hann máli sínu hér um bil á þessa leið.
Ég leyfi mér að lokum í nafni þjóðarinnar og fyrir landstjórnarinnar hönd að votta öllum þeim alúðarþakkir, er að því hafa unnið, að koma þessu mikla og mjög svo nauðsynlega mannvirki til framkvæmdar: fjárveitingarvaldinu, bæði alþingi, hlutaðeigandi sýslunefndum og amtsráði suðuramtsins: alþingismönnum þeim, er sérstaklega hafa fyrir því barist og eigi þreyst að knýja á, þangað til upp var lokið; hinum útlendu smiðum, er sjálfa járnbrúna hafa gert, hinum innlendu smiðum og verkamönnum og öðrum, er að fyrirtækinu hafa unnið á ýmsan hátt; og síðast en eigi síst að alframkvæmdamanni fyrirtækisins, Tryggva kaupstjóra Gunnarssyni, fyrir þá miklu atorku og elju, þrek og þol, er hann hefir sýnt við þetta fyrirtæki frá upphafi til enda, svo mikil óþægindi og erfiðleika sem hann hefir átt við að stríða; og fyrir þá framúrskarandi ósérplægni og sjálfsafneitun, er hefir einkennt alla framkomu hans í þessu máli.
Það er algengast, að hið fyrsta sem þeir gjöra flestir, er nefnt er við að standa fyrir viðlíka meiri háttar mannvirkjum og þetta er, það er, að leggja niður fyrir sér, hve mikinn gróða þeir muni geta haft upp úr því handa sjálfum sér. Þessi maður, hr. Tr. G., hefir tekið þetta að sér með allt annarri hugsun. Ég get ímyndað mér, að hann hafi sagt við sjálfan sig eitthvað á þessa leið: "Ég sé mikið vel, að hag get ég ekki haft af því fyrir sjálfan mig, heldur öllu heldur talsverðan skaða. En ráðist ég ekki í það, verður ekkert úr því. Ég vil gjöra það vel, svo trútt og dyggilega, sem ég hef framast vit á og megn til, og hirði eigi um, þótt talsvert fé fari til þess úr mínum vasa, ef því er að skipta, að eins að verkið verði svo af hendi leyst, að það verði mér til sóma, og umfram allt landinu til gangs og sóma". Þannig ímynda ég mér að hann hafi hugsað, eða ég ræð það, réttara sagt, af allri framkomu hans í þessu máli. Og um það munu allir samdóma, er nú hafa séð brúna upp komna, að "verkið lofi meistarann". Hann hefir með því reist sér þann minnisvarða, er lengi mun geymast með innilegu þakklæti í brjósti hlutaðeigandi héraðsbúa, fyrir þessa gersemi, er þeir fá sér afhenta til frjálsra afnota í dag.
Í goðafræði vorri er getið um merkilega gersemi, hringinn Draupni, er hafði þá náttúru, að 9. hverja nótt drupu af honum 8 hringir jafnhöfgir. Óskum þess, að sama náttúra fylgi þessari gersemi vorri, að af henni drjúpi á skömmum tíma viðlíka margar brýr jafngóðar fyrir þau vatnsföll landsins, er þess þarfnast mest.
Biðjum þá að lokum guð að blessa brúna og alla þá ávexti, er hún getur borið, ef vér kunnum til að gæta. Biðjum hann að gefa þjóðinni í dug og dáð, áræði og framtakssemi til að halda áfram því sem vel er byrjað með þessu fyrirtæki, svo að það marki nýtt tímabil í viðburðum hennar til samgöngubóta og öðrum samkynja fyrirtækjum þjóðinni til hagsældar.
Að svo mæltu lýsi ég brúna opna og heimila til almennrar notkunar og frjálsrar umferðar.
Því miður er ræðuágrip þetta ekki svo nákvæmt, sem vera hefði átt, með því lítið næði var til að rita það upp jafnóðum og það var mælt af munni fram blaðalaust. Því drjúgum rigndi meðan á ræðuhaldinu stóð, þótt meira yxi úrkoman síðar.
Prósessían.
Eftir það gengu þeir landshöfðingi og hr. Tryggvi Gunnarsson vestur yfir brúna í broddi fylkingar og múgurinn allur á eftir, 3-4 samsíða, karlar og konur, ungir og gamlir. Fjórir voru fengnir til að telja, og töldu á 16. hundrað. Voru þá eftir ýmsir smá-hópar og einstakir menn á strjálingi hingað og þangað nokkuð frá brúnni, eða inni í tjöld og brúarsmíðahúsinu (Tryggvaskála), vegna úrfellisins, og var giskað á, að það mundi nema nær 2 hundruðum.
Það tók all-langan tíma að mannfjöldinn kæmist yfir brúna. Gekk fylkingin góðan spöl upp frá henni að vestanverðu og dreifði sér síðan um hæð, er þar er, og fögur er útsjón af í góðu veðri. Þar reyndu þeir Helgi Helgason og hans menn að skemmta mönnum með hornablæstri; en veðrið meinaði það mjög. Síðan fóru menn að smátínast austur yfir aftur, athafna sig og skoða brúna í krók og kring.
Lýsing brúarinnar.
Lengdin járnbrúarinnar sjálfrar er um 180 álnir. Þar af eru 120 álnir yfir um sjálfa ána, milli aðalstöplanna, en 60 yfir haf það, er milli er aðalstöpulsins á eystri bakkanum og akkerisstöpulsins þeim megin.
Breiddin er 4 álnir.
Járnrið er beggja vegna, með 3 landböndum, og nær meðalmanni því nær undir hendur.
Hæðin frá brúnni niður að vatnsfletinum, þegar ekki er vöxtur í ánni, er 12 álnir.
Brúin er hengibrú, eins og menn vita, þ. e. brúin sjálf hengd með uppstöndurum af járni neðan í þrjá járnstrengi hvers vegar. Járnstrengir þessir eru alldigrir, og strengdir yfir tvo stöpla við hvorn brúarsporð, 20 álna háa alls að austanverðu, og er neðri hlutinn, 9½ alin, úr vel límdu og vel höggnu grjóti, en efri hlutinn ferföld járnsúla eða súlnagrind, og haft á milli þeirra að ofan. Austanmegin eru járnsúlurnar jafnháar, en neðri hlutinn ekki nema 1 álnar hleðsla, með því þar er hár klettur undir.
Járnstrengurinn, er brúnni halda uppi þandir eru yfir nýnefnda stöpla (járnsúlurnar), er fest í akkeri til beggja enda, en það eru klettar af manna höndum gjörðir, þ. e. hlaðnir úr grjóti og grjótsteypu og rammlega límdir. Neðst í þeim klettum eru járnspengur þversum, er strengjaendunum er brugðið um.
Allt járnið í brúnni er um 50 smálestir að þyngd, eða sama sem 100.000 pd. Þar að auki er í brúnni, gólfinu á henni, 100 tylftir af plönkum, og 72 stórtré undir þeim, ofan á járnslánum og járnbitunum. Plankagólfið er tvöfalt.
Um traustleika brúarinnar er það að segja, að það er ætlast til að hún beri járnbrautarlest, en til þess má vera á henni í ein 50 punda þungi á hverju ferh.feti. Geri maður meðalmanns þyngd 144 pd., mega eftir því standa á brúnni í einu 1000 manns, svo óhætt sé í alla staði.
Út frá brúnni liggur á báða vegu vegargarður eða mjög upphækkaður vegur út á jafnsléttu, og þar á sund í einum stað að austanverðu, 15 álna breitt, með trébrú yfir. Er það gert til rennslis fyrir ána í aftaka vatnavöxtum, ásamt 60 álna sundinu milli stöpuls og akkeris, sem fyr er getið.
Umferð um brúna á eftir.
Skömmu eftir prósessíuna var tekið til að fara með hesta yfir brúna fram og aftur, bæði lestir og lausa hesta, og von bráðar ríðandi. Ægði þá öllu saman í einu á brúnni, ríðandi mönnum og gangandi, ungum og gömlum, konum og körlum, lausum hestum og klyfjahestum. Hált var á henni af rigningunni, og bar það til, að laus hestur datt á henni miðri, en stóð jafngóður upp og meiddi engan, þó mannmargt væri. Og er frá leið nokkuð, sást maður þeysa hana endilanga á allhörðum spretti, harða-skeiði. tóku fleiri það hreystisverk(!) sér til fyrirmyndar, víst bæði kenndir og ókenndir. Yfir höfuð var eigi hræðslu að sjá nema á einstöku manni, helst börnum og gamalmennum, er tveir menn leiddu þá á milli sín eftir miðri brúnni. Sér að vísu í grængolandi iðuna 12 álnir undir brúnni; en svo traust finnst mönnum hún og riðin beggja vegna, að fletir ganga öruggir þegar í stað.
Múgurinn býst til brottferðar og tvístrast.
Hefði veður leyft, stóð til að skemmt yrði mannfjöldanum fram eftir deginum með söng og ræðuhaldi. En það voru engin viðlit, því veður spilltist æ meir og meir. Þóttist hver hreppnastur, er fyrst komst burtu úr þeirri þvögu og leirleðju, er menn óðu út í og inni nærri því. Skorti eigi alla þá aðhlynningu af hálfu hr. Tryggva Gunnarssonar og hans manna, sem og Gunnars bónda á Selfossi, hvað húsaskjól snertir og þess háttar, er hægt var í té að láta. En sem nærri má geta, hrukku húsakynnin skammt. Sama er að segja um gestgjafa Einar Zöega, er hafði reist mörg tjöld (4) á árbakkanum, þar sem hann veitti mat og drykk eftir föngum, þangað flutt með ærum kostnaði og fyrirhöfn.
Mundi þetta hafa orðið einhver hin fegursta og mikilfenglegasta þjóðhátíð, ef öðruvísi hefði til tekist með veðrið.
Það leyndi sér ekki á svip og tali viðstaddra héraðsbúa, hvað vænt þeim þótti um hina nýfengnu "gersimi", brúna sína, blessuðu hana í hverju orði og aðalhöfund hennar, hann Tryggva sinn. Við lítilsháttar skilnaðarskál í "Skálanum" hafði og verið mælt fyrir minni brúarsmiðsins enska, Mr. Vaughans frá Newcastle, er farinn er heim til sín fyrir nokkru, og sömuleiðis ingenieurs Ripperda, er haft hefir umsjón með brúargerðinni í sumar af hálfu K. hafnarstjórnarinnar, og verður samferða Tryggva norður þessa daga til þess að fá far þaðan heimleiðis.
Saga Ölfusárbrúarinnar.
Það er sögulegt, að Ölfusárbrúin á sér sögu, nær 20 ára sögu, þó að hún , brúin, fæddist eigi fyr á þessu ári, og ekki hafi þurft nema part úr tveimur sumrum til að leggja hana. Slíkan tíma hefir undirbúningurinn tekið, eða réttara sagt umhugsunin um hvort þorandi væri eða ekki þorandi að leggja í annað eins stórræði og að brúa þetta eina af megin-vatnsföllum landsins. Framan af voru þau raunar höfð tvö í takinu í senn, þ.e. að segja í umhugsuninni og ráðagjörðunum. Það var þá fyrst, er lækkuð voru seglin - þessi háu segl, eða hitt þó heldur-, það var þá fyrst, er sleppt var að hugsa um að brúa nema aðra ána að sinni, er málið náði fram að ganga, og þó við illan leik.
Undirbúningssaga Ölfusárbrúarinnar er því raunasaga aumkunarverðs áræðisleysis og smásálarskapar. Vér höfum þá örugga von og sannfæringu, að landið eigi þá framtíð fyrir höndum, að komandi kynslóðir muni eiga bágt með að skilja í jafnlítil-sigldum hugsunarhætti, sem að þurfa fram undir tuttugu ár til að hugsa sig um að brúa eina á, fyrir ekki meira fé en 60-70.000 kr.
Vera má, að einhverja óvenju-háfleyga og stórhuga framfaramenn hafi dreymt um brú á Þjórsá og Ölfusá fyrir einum mannsaldri eða svo. En upp vita menn eigi til að því hafi verið stunið í heyranda hljóði fyr en nú fyrir 19 árum. Þá var stungið upp á því á almennum sýslufundi á Stórólfshvoli í Rangárvallasýslu, af síra Hannesi sál. Stephensen, er þá var prestur í Fljótshlíðarþingum (¿ 1882). Fundurinn ákvað, að kjósa 1 mann fyrir hvern hrepp í sýslunni til að ganga í nefnd til að framfylgja málinu bæði innan héraðs og utan, og skutu jafnframt saman nokkru fé, 110 rd. (220 kr.), "er skyldu vera til taks, ef á lægi eða nefndin krefði". Formaður þeirrar 9 manna nefndar var Sighv. alþm. Árnason, er á því láni að fagna að sjá það mál loks farsællega til lykta leitt, að því er Ölfusárbrúna snertir. Af öðrum nefndarmönnum má nefna síra Ísleif Gíslason, Sigurð dbrm. Magnússon á Skúmstöðum og Jón hreppstj. Hjörleifsson í Skógum. Af hinum eru fyrir víst 3 dánir, prestarnir Hannes Stephensen, Skúli Gíslason og Sveinbjörn Guðmundsson.
Nefndin átti fund og með sér mánuði síðar en hún var kosin, og "komst að þeirri niðurstöðu, að fyrst lægi fyrir að fá vissu fyrir því, hvort fyrirtækið væri mögulegt eða ekki, og ákvað að leita atkvæða landsstjórnarinnar og biðja hana að útvega verkfróðan mann til að skoða brúarstæði á ánum og gera áætlun um kostnaðinn". Leitað var síðan samkomulags og fylgis Árnesinga um mál þetta, og var þar engin fyrirstaða. Sama haust var svo stiftamanni (Hilmari Finsen) ritað um málið, og fékk hann því til vegar komið, að hinn eftiræskti verkfræðingur væri sendur hingað þegar um vorið eftir.
Það var Windfeldt-Hansen, kand.í verkfræði. Hann átti þar að auki að rannsaka, hvort hægt væri að gera höfn við Dyrhólaey; en það leist honum ófært. Hitt var hann þegar sannfærður um, að vel mætti brúa árnar báðar, og gerði nákvæma áætlun um tilhögun á báðum brúnum og kostnað til þess. Brúarstæði á Ölfusá leist honum best hjá Selfossi, þar sem brúin er nú upp komin; en á Þjórsá hafa aðrir fundið hentugri brúarstæði síðan, þótt enn sé óráðið, hvert þeirra verður valið. Kostnaðaráætlun hans fyrir Ölfusárbrúna var 80.000 kr. - Samskotin á Stórólfshvolsfundinum, þessir 110 rd., fóru í ferðakostnað W.H., að viðbættum nokkrum hundruðum rdla úr jafnaðarsjóði, vegasjóði suðuramtsins og landssjóði.
Ári síðar en W.H. ritaði skýrslu sína, kom hið löggefandi og fjárráðandi alþingi saman í fyrsta sinn, 1875; en eigi hafði áskorun til alþingismanna Árnesinga og Rangvellinga um að fá landstjórnina til að taka málið að sér og leggja fé til brúnna neinn árangur í það sinn.
Til næsta þings komu bænarskrár úr báðum sýslunum, um 168.000 kr. fjárveitingu úr landssjóði til að gera báðar brýrnar, samkvæmt áætlun Windfeldt Hansens; en fellt var málið á því þingi.
Tveim árum síðar (1879) komst svo langt, að þingið samþykkti lög um brúargjörð á báðum ánum, Þjórsá og Ölfusá, og veitti til þess 100.000 kr. vaxtalaust lán, er borgast skyldi á 40 árum, af sýslusjóðum 4 næstu sýslna og bæjarsjóði Reykjavíkur. Landstjórnin átti að sjá um framkvæmd fyrirtækisins. Hún spurði sig fyrir í Skotlandi, Danmörku og Svíþjóð, og fékk mikið af tilboðum og áætlunum, en þótti sitt að hverri áætluninni, - smíðið ekki nógu traust eftir sumum tilboðunum, en í sumum meira sett upp en fjárveitingin (100.000 kr.). Gat því ekkert orðið úr framkvæmdum og lögin náðu eigi staðfestingu.
Þessi málalok voru tilkynnt þinginu 1881, og þótti þá ekki árennilegt að eiga frekara við það þá um hæl. En á næsta þingi, 1883, var málið tekið aftur í neðri deild og vasklega flutt þar af þingmönnum Árnesinga, þeim Magnúsi próf. Andréssyni og Þorláki Guðmundssyni- er hefir verið manna þrautseigastur við það-. Var þá að eins hugsað um aðra brúna, þá á Ölfusá, og farið fram á 80.000 kr. úr landssjóði til hennar að gjöf, en ekki láni; það skildi frá því árinu áður hafði verið, og fyrir það féll málið á þingi í það sinn.
Á næsta þingi 1885, var því meðal annars hreift með fyrirspurn, af Sighv. Árnasyni; en 1887 náði það loks fram að ganga í lagaformi, og staðfesti konungur loks þau lög 2 árum síðar, vorið 1889. Voru þá aðeins ætlaðar 60.000 kr. til brúargjörðarinnar, með því að Hovdenak hafði þá komið með nýja áætlun, er taldi það allt að því nóg, mest vegna ódýrleika á járni um þær mundir. Af þessum 60.000 gaf landssjóður 40.000, en lánaði hitt, helminginn (10.000) sýslunefndunum í Árnessýslu og Rangárvalla, og hinn helminginn jafnaðarsjóði suðuramtsins-, gegn endurborgun með ársvöxtum á 45 árum.
Nærri lá, að lög þessi yrðu árangurslaus. Stjórnin sendi áskoranir í ýmsar áttir um að taka að sér brúarsmíð fyrir hina ákveðnu fjárupphæð, en allra-lægsta tilboð var 65.000 kr.; hin kring um 70.000.- Þá var það, að Tryggvi Gunnarsson, er áður hafði annast hið langhelsta brúarsmíði hér á landi annað, Skjálfandafljótsbrúna, fyrir 20.000 kr., bjargaði málinu, fyrir bænastað þeirra, er annast var um það, og réðst í að reyna að koma brúnni upp, hengibrú, fyrir hina ákveðnu upphæð. Mundi fyrirtækið að öðrum kosti hafa farist fyrir enn sem fyr, og fer eigi tvennum sögum um það, að hann hefir að vonum gert sér mikinn sóma og landinu gagn að því skapi með stakri alúð og samviskusemi hvað snertir allan frágang á þessu merkilegasta mannvirki, er hér hefir gert verið, þrátt fyrir það, þótt hann sæi skjótt fyrir mikinn óhag af því fyrir sig, vegna mikillar verðhækkunar á brúarefninu (járninu) meðal annars.