1886

Þjóðólfur, 20. ágúst 1886, 38. árg., 37. tbl., forsíða:

Um brúagjörð á Þjórsá og Ölvesá
Grein með þessari yfirskrift stendur í Austra 2. 27.-28. Hún miðar auðsjáanlega til að eyðileggja brúamálið. Ekki hefur höfundur hennar viljað nafngreina sig, og hefur hann þó sjálfsagt ekki efast um, að greinin yrði sér til sóma; en raunar er varla hægt að segja að góðgirnin skíni út úr henni, að minnsta kosti ekki þar, sem hann er að leika sér að orðum þeirra, sem áður hafa ritað meðmæli með brúagjörðinni.
En hér varðar ekki um höfundinn. Lítum einungis á greinina. Það var vel, að hún gaf tilefni til, að ræða málið að nýju.
Aðalatriði brúamálsins eru þrjú:
1. Nauðsyn brúanna, 2. skylda landssjóðs að kosta til þeirra og 3. megun hans að geta það.
1. Eru brýrnar nauðsynlegar? Móti því færir greinin allar mögulegar átillur, svo sem: Að þessar sundár muni ekki verri en margar aðrar ár á landinu; að eigi muni verra fyrir hesta að synda ár en vaða; að víðar en í þessum ám fái hestar slæma útreið; en á hinn bóginn: að menn muni hvorki fækka hestum né kaupstaðarferðum þó brýrnar komi; að brýr borgi sig ver hér en í útlöndum, þar eð hér sé byggð strjálli og vörumagn minna; og að þær muni jafnvel líkt og nýir verslunarstaðir (?!) auka drykkjuskap og eyðslusemi í stað velmegunar. Hún er drjúg yfir því, að menn megi lengi bíða eftir allri þeirri velmegun, búsæld og blóma, sem þeir þykjast sjá í anda sem vísan ávöxt af brúnum.
Skoðum nú gildi þessara röksemda: Það, sem gerir sund í ám hart aðgöngu og hættulegt, er mæði og kæling. Það, sem því gerir sundár illar yfirferðar er: straumþungi, jökulkuldi og eigi hvað síst, breidd, og þó verst, þegar allt þetta fer saman; en það er tilfellið með Þjórsá og Ölvesá. Engar aðrar sundár hér á landi munu vera öllu straumþyngri eða kaldari en þær; en flestar eða allar miklu mjórri, svo mæði og kæling hlýtur að ganga nær hestum í þeim en öðrum ám, fyrir utan þá dauðans angist, sem oft hlýtur að gagntaka þá, er þeir eru reknir út í augljósan lífsháska. Mikill munur er á að synda vatn eða vaða: Á sundinu drekka hestar mikið vatn ofan í sig, og kólna því bæði að utan og innan, og svo standa þeir skjálfandi meðan lagt er á lestina; en á vaðinu drekka þeir ekki þannig, og þaðan er hiklaust haldið áfram. Sundið væri þó sök sér, ef ekki þyrfti á því að halda nema í góðu veðri; en í óveðri og vatnavöxtum, frosti og ísskriði, sem hér er altítt vor og haust, er það sannarlega ill meðferð á skepnum (“Dyrplageri”) að leggja hesta í þessar ár, þó menn iðulega neyðist til þess. Þetta hefir líka mörgum hesti að bana orðið, og margir hafa meiðst af því að hlaupa með bakkana til að hita sér eftir sundið. En hve margir hafa fengið langvinna lungnaveiki eða aðra kvilla af innkulsi í ám þessum, liðið þar af þvingun við alla brúkun og því átt bága ævi, það vita menn ógjörla. Ef hestar mættu mæla, mundu menn fræðast um sorglegan sannleik í því efni. Það tjáir ekki að svæfa samviskuna með því að segja: Hestar líða ekki meiri hrakning í ánum en á fjallvegum. Nær er, að láta sér annt um að bæta úr hvorutveggja, að því sem framast er unnt. Fjallvegina er nú verið að bæta; Þjóðfélagið gerir það. Hví skyldi það ekki einnig brúa árnar? Hví skyldi það láta nokkurt tækifæri ónotað, til að afstýra því, að ill nauðsyn helgi illa meðferð á skepnum? Því, fyrir utan kröfu mannúðarinnar, mun það jafnan reynast, að velferð mannanna fer eftir meðferð skepnanna. Sjálfsagt þarf að brúa fleiri brýr en þessar tvær, en eðlilegt er að byrja fyrst þar, sem þörfin er mest: Þar sem tvær stærstu árnar eru saman í fjölmennasta héraðinu, sem stendur til hvað mestra bóta. Því þessi hluti landsins er svo að segja hinn eini, sem gæti haft veruleg not af vagnaflutningum; og þeir geta og eiga að takast upp, ef brýrnar komast á; fyr verður það ekki, eftir því sem til hagar. Það er mjög líklegt, að vagnaflutningar gætu komið miklu góðu til leiðar hér; eigi aðeins sparað hestahald og kaupstaðarferðir að góðum mun, heldur einkum fært nýtt líf í viðskipti og framkvæmdir manna. Satt er það, að hér er byggð strjál og vörumagn lítið og vér erum “fjarskalega skammt á veg komnir” í næsta mörgu. En sú var tíðin að víða í útlöndum var líkt ástatt í því efni og nú er hér, ef ekki miður sumsstaðar. Hvernig bættu menn úr þessu þar? Einmitt með greiðari samgöngum; með þeim kom hugur og dugur, mannfjölgun og vörumagn, menntun og alls konar framfarir. Sama regla mundi gilda hér. Gerum raunar eigi ráð fyrir, að land vort, sem liggur svo norðarlega, muni jafnast við útlönd; en hver veit samt hve miklum framförum það getur tekið? Svo best verða þær samt nokkrar, að gert sé það, sem gera má, til að greiða fyrir samgöngunum. Þess öruggar sem þær ganga á undan, þess vissar fylgir framför á eftir; raunar ekki samstundis, heldur með tímanum. “Róm var ekki byggð á einum degi”, en hefði grundvöllur hennar aldrei verið lagður, þá væri hún óbyggð enn; og svo er um hvað eina. Þeir, sem nú mæla með brúargerðinni, vænta aðalgagnsins af henni með tímanum; þeir óska eigi né vona, að “bíða” svo “lengi” í heimi þessum, að þeir sjái fyrir endann á öllum framförum, sem brýrnar geta valdið. Að draga annað út úr orðum þeirra, er misskilningur ef ekki hártogun; svo drýgindi greinarinnar um hina löngu bið eftir velsæld og blóma, er brýrnar orsaki, eru, vægast talað, alveg óþörf. Drykkjuskapurinn, sem greinin gerir ráð fyrir að brýrnar valdi, er tómur hugarburður. Fyrir hér um bil 30 árum var hér talsverður drykkjuskapur og þá voru þó engar brýr á ánum; svo lögðu menn hann niður sjálfkrafa, án þess kaupstaðarvegur breyttist; nú þykir óvirðing að verða “fullur”; samt hendir það enn stöku mann, því ekki þykir tiltökumál þó menn hressi sig dálítið í ferðalögum allra helst við ferjurnar, sem vorkunn er. Nú er bindindisfélag að eyða síðustu leifum drykkjuskapar hér. Að örðu leyti er það óneitanlegt, að aukin eyðsla fylgir auknum framförum; og á þann hátt mega brýrnar vel hafa aukna eyðslu í för með sér. – Svo ónýt er öll röksemdarfærsla greinarinnar móti nytsemi brúanna; enda viðurkennir hún það sjálf þar, sem hún játar, að fyrirtækið geti, þrátt fyrir allt og allt, verið “gott og blessað í sjálfu sér”
2. Ber landssjóði að kosta brýrnar? Í aðalefninu er öll greinin tilraun til að neita þessu spursmáli; eða, hún gengur út frá neitun þess sem sjálfsagðri, svo að hún kallar það, sem landssjóður kynni að leggja til brúanna, blátt áfram; “gjöf”. Þessari skoðun til stuðnings bendir greinin á: að Sunnlendingar megi vera náttúrunni þakklátir fyrir, að hafa ekki snarbratta fjallgarða í stað ánna; að Árness- og Rangárvallasýslur þyrftu ekki að vera útilokaður frá beinlínis notum af strandferðunum, ef gufubátur gengi með landi, sem kæmi við á Eyrarbakka eða Stokkseyrar höfn, og svo mætti leggja þaðan vagnveg austur að Þjórsá; að brýrnar, þó þær kæmist á, mundi ekki “lyfta öllu landinu á hærra stig í velmegun og hvers kyns blóma” og að þeim, sem mest mundu nota brýrnar, sé ekki vorkunn að kosta þær sjálfum að mestu leyti, á þann hátt, að taka lán uppá ferjutollana eða þar á borð við; þá hefir hún ekki á móti því að landssjóður “gefi” einhvern dálitinn skerf til fyrirtækisins.
Hér við er ýmislegt að athuga. Óneitanlega er það þakkarvert, að ekki eru snarbrattir fjallgarðar í stað ánna, og mest þakkarvert vegna landssjóðs, sem samkvæmt orðum greinarinnar, ætti þá að “grafa í sundur” slíka fjallgarða: því það mundi kosta hann meira en að brúa árnar. En héraðsbúum væri naumast verra að hafa fjallgarðana og hafnir góðar, en árnar og hafnleysið. Þótt því væri að skipta, að gufubátur gengi með landi og ætti, samkvæmt ferðaáætlun sinni, að koma við á Eyrarbakka og Stokkseyrarhöfn, þá mundi brimið, sem svo iðulega lokar þeim höfnum, gera áætlunina mjög óáreiðanlega og gagnið af bátnum að sama skapi harla stopult fyrir þetta hérað. Í tvísýnu færi yrði báturinn annaðhvort að sneiða hjá, - og það yrði oft tilfellið – ellegar leggja inn upp á líf og dauða; og það væri langt um fyrirsjáanlegri hætta, heldur en hin hættan, sem greinin gerir ráð fyrir: “að brýrnar skyldu brotna af einhverjum orsökum þegar þær eru nýlagðar”. Slíkt er raunar hugsanlegt eins og svo margt annað; en ekki er það líklegt. Ef þar kemur einhvern tíma, að gufubátur gengur milli Reykjavíkur og t. a. m. Hornafjarðar, þá er ekki efamál, að hann á að koma við á Eyrarbakka þegar það er óhætt. Það gæti gert sitt til að greiða samgöngur, þó gagnið af því yrði mjög á hverfanda hveli. Hæpið væri að kosta stórfé til að leggja vagnveg að Þjórsá, t. a. m. við Sandhólaferju, sem lengi hefur verið aðal-ferjustaður austanmanna; því nú á seinni árum fer hann mjög versnandi af sandburði, svo men halda, að hann leggist af eða færist til. Yfir höfuð er öll áin þar niðurfrá, og þá líka allir ferjustaðir, sem þar eru á henni, í sífelldri hættu fyrir breytingum af sandburði. Þess utan fullnægði sá vagnvegarspotti hvergi nærri eins vel samgönguþörf Rangárvallasýslu, eins og brýrnar myndi gera. En um þetta er of langt mál orðið. Því er ekki að skipta, að gufubátur fari með ströndum, og, því miður eru litlar líkur til, að það verði að sinni. Og það er hætt við, að um gufubáta hugmyndina, sem fram hefur komið: “Það er álitleg hugmynd”, en “of mikil byrði á landssjóði”. Það mun mega ganga út frá því, að strandferðirnar haldist í sama horfi fyrst um sinn, nema hvað þær kunna að verða auknar þar, sem því verður við komið. Hve langt verður þá, þangað til landssjóður hefur varið til þeirra svo mikilli fjárupphæð, að væri því fé skipt á allar þær sýslur landsins, sem hafa bein not ferðanna, yrði hluti hverrar sýslu svo mikill, að önnur eins upphæð nægði til að brúa Þjórsá eða Ölvesá?
Þessu verður auðvitað ekki svarað með vissu; en að því kemur á sínum tíma. Þá, þó ekki verði fyr, hljóta “aðrir landsbúar að láta sér skiljast”, að hinar hafnalausu sýslur eigi rétt á, að fá tiltölulega upphæð, til þess, að efla samgöngur hjá sér. Er það þá sanngjarnt, að þær fái það ekki fyr en þar er komið? Og er það hyggilegt eða framfaravænt að láta brýrnar – sem fjölmennasta héraði landsins eru nauðsynlegar – bíða þangað til? Ætli þeir sem nú spilla fyrir málinu, fái þá þökk fyrir frammistöðu sína? – En það er leiðinlegt, að þurfa að fara út í þetta. Það er leiðinlegt, ef félagsskapar og framfara hugmyndir manna eru enn eigi svo þroskaðar, að það þyki sjálfsagt að þjóðfélagið taki að sér að láta þeim fyrirtækjum verða framgengt, sem einstöku deildum þess eru nauðsynleg, en ofvaxin, án þess að heimta sönnun fyrir sérstökum kröfurétti hlutaðeigandi héraða, ellegar að öðrum kosti sönnun fyrir því, að fyrirtækið lyfti öllu landinu á hærra stig velgengis og blóma. “Er það nú þegar þess er gætt, að menn verða að gera sig ánægða með það á hinn bóginn, að segja eins og greinin: “að oftast nær verði eitthvert gagn” að því fé, sem landssjóður ver árlega til strandsiglinga og vegabóta, og gott ef svo yrði sagt um allt það, sem fé hans er varið til; en hvort nokkuð af því er, sem “lyftir öllu landinu á hærra stig”, það er spursmál, sem vissara mun að fela ókomna tímanum að svara.
Sjálfsagt er það líka leiðinlegt, þegar menn vilja demba á landssjóð þeim kostnaði, sem þeir sjálfir eiga að bera og geta borið. En það er engin ástæða til að ámæla meðmælendum brúanna í því tilliti. Árnessýsla og Rangárvallasýsla báðu í fyrstunni um lán til brúargerðarinnar; þær treystu því að Vestur-Skaftafellssýsla, Gullbringusýsla og Reykjavík, mundu verða með sér um lántökuna, þar eð þær einnig myndu nota brýrnar; þá var hér líka almenn velmegun. Þó verður ekki annað sagt en að treyst væri á fremsta með svo stórvaxna lántöku, að ógleymdum ferjutollunum; og ekki verður séð, hvernig sýslurnar hefði komist út af því að borga slíkt lán, og leggja þó á sömu árunum vagnvegi þá, sem útheimtast til þess að brýrnar nái tilgangi sínum fyllilega. Þó er öðru máli að gegna nú, þar eð hið erfiða árferði, sem síðan hefur verið, er búið að kippa svo fótum undan velmegun manna, að flestir eru í meir eða minni kröggum; þar eð nú mun lítil eða engin von til, að Vestur-Skaftafellssýsla verði með um lántöku til brúanna og eigi heldur Gullbringusýsla og Reykjavík, - sem þó mundi nota brýrnar meira en vestur hluti Árnessýslu – og þar eð menn á hinn bóginn sjá betur og betur fram á það, að vagnvegirnir mundu útheimta ærið fé, - þá er það nú hið eðlilega og skynsamlega, sem menn í Árness- og Rangárvallasýslum geta gert, að fela þjóðfélaginu að koma fyrirtækinu áleiðis. Það hlýtur fyr eða síðar að taka það að sér, nema það taki heldur að sér vagnvegagerðina; látum þá vera að sýslurnar kosti brýrnar. Í hvoru tilfellinu sem vera skal verður byrðin þeim fullþung, svo að eigi verður ástæða til að telja það eftir þeim, þó ferjutollarnir falli burtu. Þeir gera það heldur ekki alveg. Þar, sem langur krókur er til brúanna, fara menn yfir á ferjum, þegar gott er, eftir sem áður. En sleppum því samt; aðalumferðin yrði um brýrnar, og því kæmi talsvert fé saman ef þær væri tollaðar. En þar er sá galli á, að þá yrði sinn brúarvörður að vera við hvora brú, hafa þar íbúðarhús og eitthvað af fólki með sér. Þar kæmi ærinn aukakostnaður. Staða brúarvarðar yrði ekki heldur sérlega fýsileg í ýmsum greinum: Veitti hann ekki borgunarfrest, yrði það óvinsælt; veitti hann frestinn, gæti innheimtan orðið erfið. Bókfærslu hans yrði torvelt að koma svo fyrir, að hægt væri að taka af öll tvímæli um trúmennsku hans, hvenær sem þurfa þætti. Svo það er efasamt, að hæfilegir menn fengist til að taka þann starfa að sér. Heppilegast mun að hafa brýrnar frjálsar, en að sýslufélögin taki að sér umsjón og viðhald þeirra; en fái ef á þarf að halda, styrk til þess af landssjóði ellegar amts- (eða fjórðungs-) sjóði, ef það þykir betur við eiga.
3. Er landssjóður fær um að kosta brýrnar? Þessu neitar greinin eigi fyllilega; og það hefði líka verið undarlegt, því það, sem hún telur nokkurn veginn vinnandi verk fyrir tvær sýslur, gat hún ekki talið öruggt ef allt landið hjálpaðist að því. Samt kemur hún með úrtölur, svo sem: að ísjárvert sé, að “gefa” einum landshluta svo mikið, og að menn í fjarlægari héruðum muni seint láta sér skiljast, að landssjóði beri að veita féð. En verði landinu annars framfara auðið, mun hitt reynast ísjárverðara, að neita um féð til brúargerðarinnar; það mun þeim skiljast, sem dáð og drengskap hafa, þó í fjarlægum héruðum sé, af öðrum er þess ekki að vænta. Fjárspursmálið er óneitanlega stórt. Greinin gerir ráð fyrir 200.000 kr., en gerir lítið úr áætlun Windfeldt Hansen´s, þar eð hann mun “kunnugri” lygnu fljótunum í Danmörku, en straumþungu jökulvötnunum hér á landi”. En hvar sem er verður að hafa brýr svo háar að vatnið nái þeim aldrei; og það virðist innan handar hér. Það er því naumast líklegt, að næstum þurfi að tvöfalda áætlun W.H´s. Látum samt vera, að hún hækki nokkuð; segjum upp í 150.000 kr., 6% þar af í vexti og afborgun er 9.000 kr. Á ári í 28 ár. Ætti nú tvær sýslur að inna slíkt gjald af höndum ofaná allt annað, þá yrði þeim það ókleyft, þó efnaðar væri, eins og fyr er sýnt. En landssjóði þyrfti ekki að verða það svo mjög tilfinnanlegt; ef viðlagasjóðurinn legði fram upphæðina, sem til brúanna gengi, þá mætti aftur leggja í hann sem svarar 6% þar af á ári í 28 ár; svo félli sú gjaldgrein burt. Fyrir slíku, jafnvel þó það væri 9-12.000 kr. Á ári, gæti landssjóður farið allra sinna ferða “í austurveg að berja tröll”.
Tökum að lyktum undir með greininni í einu atriði, nefnil. Þar, sem hún bendir á, að hafa þurfi varúð við í þessu máli. Aldrei verður of mikil áhersla lögð á það, að láta á brúargerðinni rætast sannmælið: “Það skal vel vanda sem lengi á að standa”.
Br. J.


Þjóðólfur, 20. ágúst 1886, 38. árg., 37. tbl., forsíða:

Um brúagjörð á Þjórsá og Ölvesá
Grein með þessari yfirskrift stendur í Austra 2. 27.-28. Hún miðar auðsjáanlega til að eyðileggja brúamálið. Ekki hefur höfundur hennar viljað nafngreina sig, og hefur hann þó sjálfsagt ekki efast um, að greinin yrði sér til sóma; en raunar er varla hægt að segja að góðgirnin skíni út úr henni, að minnsta kosti ekki þar, sem hann er að leika sér að orðum þeirra, sem áður hafa ritað meðmæli með brúagjörðinni.
En hér varðar ekki um höfundinn. Lítum einungis á greinina. Það var vel, að hún gaf tilefni til, að ræða málið að nýju.
Aðalatriði brúamálsins eru þrjú:
1. Nauðsyn brúanna, 2. skylda landssjóðs að kosta til þeirra og 3. megun hans að geta það.
1. Eru brýrnar nauðsynlegar? Móti því færir greinin allar mögulegar átillur, svo sem: Að þessar sundár muni ekki verri en margar aðrar ár á landinu; að eigi muni verra fyrir hesta að synda ár en vaða; að víðar en í þessum ám fái hestar slæma útreið; en á hinn bóginn: að menn muni hvorki fækka hestum né kaupstaðarferðum þó brýrnar komi; að brýr borgi sig ver hér en í útlöndum, þar eð hér sé byggð strjálli og vörumagn minna; og að þær muni jafnvel líkt og nýir verslunarstaðir (?!) auka drykkjuskap og eyðslusemi í stað velmegunar. Hún er drjúg yfir því, að menn megi lengi bíða eftir allri þeirri velmegun, búsæld og blóma, sem þeir þykjast sjá í anda sem vísan ávöxt af brúnum.
Skoðum nú gildi þessara röksemda: Það, sem gerir sund í ám hart aðgöngu og hættulegt, er mæði og kæling. Það, sem því gerir sundár illar yfirferðar er: straumþungi, jökulkuldi og eigi hvað síst, breidd, og þó verst, þegar allt þetta fer saman; en það er tilfellið með Þjórsá og Ölvesá. Engar aðrar sundár hér á landi munu vera öllu straumþyngri eða kaldari en þær; en flestar eða allar miklu mjórri, svo mæði og kæling hlýtur að ganga nær hestum í þeim en öðrum ám, fyrir utan þá dauðans angist, sem oft hlýtur að gagntaka þá, er þeir eru reknir út í augljósan lífsháska. Mikill munur er á að synda vatn eða vaða: Á sundinu drekka hestar mikið vatn ofan í sig, og kólna því bæði að utan og innan, og svo standa þeir skjálfandi meðan lagt er á lestina; en á vaðinu drekka þeir ekki þannig, og þaðan er hiklaust haldið áfram. Sundið væri þó sök sér, ef ekki þyrfti á því að halda nema í góðu veðri; en í óveðri og vatnavöxtum, frosti og ísskriði, sem hér er altítt vor og haust, er það sannarlega ill meðferð á skepnum (“Dyrplageri”) að leggja hesta í þessar ár, þó menn iðulega neyðist til þess. Þetta hefir líka mörgum hesti að bana orðið, og margir hafa meiðst af því að hlaupa með bakkana til að hita sér eftir sundið. En hve margir hafa fengið langvinna lungnaveiki eða aðra kvilla af innkulsi í ám þessum, liðið þar af þvingun við alla brúkun og því átt bága ævi, það vita menn ógjörla. Ef hestar mættu mæla, mundu menn fræðast um sorglegan sannleik í því efni. Það tjáir ekki að svæfa samviskuna með því að segja: Hestar líða ekki meiri hrakning í ánum en á fjallvegum. Nær er, að láta sér annt um að bæta úr hvorutveggja, að því sem framast er unnt. Fjallvegina er nú verið að bæta; Þjóðfélagið gerir það. Hví skyldi það ekki einnig brúa árnar? Hví skyldi það láta nokkurt tækifæri ónotað, til að afstýra því, að ill nauðsyn helgi illa meðferð á skepnum? Því, fyrir utan kröfu mannúðarinnar, mun það jafnan reynast, að velferð mannanna fer eftir meðferð skepnanna. Sjálfsagt þarf að brúa fleiri brýr en þessar tvær, en eðlilegt er að byrja fyrst þar, sem þörfin er mest: Þar sem tvær stærstu árnar eru saman í fjölmennasta héraðinu, sem stendur til hvað mestra bóta. Því þessi hluti landsins er svo að segja hinn eini, sem gæti haft veruleg not af vagnaflutningum; og þeir geta og eiga að takast upp, ef brýrnar komast á; fyr verður það ekki, eftir því sem til hagar. Það er mjög líklegt, að vagnaflutningar gætu komið miklu góðu til leiðar hér; eigi aðeins sparað hestahald og kaupstaðarferðir að góðum mun, heldur einkum fært nýtt líf í viðskipti og framkvæmdir manna. Satt er það, að hér er byggð strjál og vörumagn lítið og vér erum “fjarskalega skammt á veg komnir” í næsta mörgu. En sú var tíðin að víða í útlöndum var líkt ástatt í því efni og nú er hér, ef ekki miður sumsstaðar. Hvernig bættu menn úr þessu þar? Einmitt með greiðari samgöngum; með þeim kom hugur og dugur, mannfjölgun og vörumagn, menntun og alls konar framfarir. Sama regla mundi gilda hér. Gerum raunar eigi ráð fyrir, að land vort, sem liggur svo norðarlega, muni jafnast við útlönd; en hver veit samt hve miklum framförum það getur tekið? Svo best verða þær samt nokkrar, að gert sé það, sem gera má, til að greiða fyrir samgöngunum. Þess öruggar sem þær ganga á undan, þess vissar fylgir framför á eftir; raunar ekki samstundis, heldur með tímanum. “Róm var ekki byggð á einum degi”, en hefði grundvöllur hennar aldrei verið lagður, þá væri hún óbyggð enn; og svo er um hvað eina. Þeir, sem nú mæla með brúargerðinni, vænta aðalgagnsins af henni með tímanum; þeir óska eigi né vona, að “bíða” svo “lengi” í heimi þessum, að þeir sjái fyrir endann á öllum framförum, sem brýrnar geta valdið. Að draga annað út úr orðum þeirra, er misskilningur ef ekki hártogun; svo drýgindi greinarinnar um hina löngu bið eftir velsæld og blóma, er brýrnar orsaki, eru, vægast talað, alveg óþörf. Drykkjuskapurinn, sem greinin gerir ráð fyrir að brýrnar valdi, er tómur hugarburður. Fyrir hér um bil 30 árum var hér talsverður drykkjuskapur og þá voru þó engar brýr á ánum; svo lögðu menn hann niður sjálfkrafa, án þess kaupstaðarvegur breyttist; nú þykir óvirðing að verða “fullur”; samt hendir það enn stöku mann, því ekki þykir tiltökumál þó menn hressi sig dálítið í ferðalögum allra helst við ferjurnar, sem vorkunn er. Nú er bindindisfélag að eyða síðustu leifum drykkjuskapar hér. Að örðu leyti er það óneitanlegt, að aukin eyðsla fylgir auknum framförum; og á þann hátt mega brýrnar vel hafa aukna eyðslu í för með sér. – Svo ónýt er öll röksemdarfærsla greinarinnar móti nytsemi brúanna; enda viðurkennir hún það sjálf þar, sem hún játar, að fyrirtækið geti, þrátt fyrir allt og allt, verið “gott og blessað í sjálfu sér”
2. Ber landssjóði að kosta brýrnar? Í aðalefninu er öll greinin tilraun til að neita þessu spursmáli; eða, hún gengur út frá neitun þess sem sjálfsagðri, svo að hún kallar það, sem landssjóður kynni að leggja til brúanna, blátt áfram; “gjöf”. Þessari skoðun til stuðnings bendir greinin á: að Sunnlendingar megi vera náttúrunni þakklátir fyrir, að hafa ekki snarbratta fjallgarða í stað ánna; að Árness- og Rangárvallasýslur þyrftu ekki að vera útilokaður frá beinlínis notum af strandferðunum, ef gufubátur gengi með landi, sem kæmi við á Eyrarbakka eða Stokkseyrar höfn, og svo mætti leggja þaðan vagnveg austur að Þjórsá; að brýrnar, þó þær kæmist á, mundi ekki “lyfta öllu landinu á hærra stig í velmegun og hvers kyns blóma” og að þeim, sem mest mundu nota brýrnar, sé ekki vorkunn að kosta þær sjálfum að mestu leyti, á þann hátt, að taka lán uppá ferjutollana eða þar á borð við; þá hefir hún ekki á móti því að landssjóður “gefi” einhvern dálitinn skerf til fyrirtækisins.
Hér við er ýmislegt að athuga. Óneitanlega er það þakkarvert, að ekki eru snarbrattir fjallgarðar í stað ánna, og mest þakkarvert vegna landssjóðs, sem samkvæmt orðum greinarinnar, ætti þá að “grafa í sundur” slíka fjallgarða: því það mundi kosta hann meira en að brúa árnar. En héraðsbúum væri naumast verra að hafa fjallgarðana og hafnir góðar, en árnar og hafnleysið. Þótt því væri að skipta, að gufubátur gengi með landi og ætti, samkvæmt ferðaáætlun sinni, að koma við á Eyrarbakka og Stokkseyrarhöfn, þá mundi brimið, sem svo iðulega lokar þeim höfnum, gera áætlunina mjög óáreiðanlega og gagnið af bátnum að sama skapi harla stopult fyrir þetta hérað. Í tvísýnu færi yrði báturinn annaðhvort að sneiða hjá, - og það yrði oft tilfellið – ellegar leggja inn upp á líf og dauða; og það væri langt um fyrirsjáanlegri hætta, heldur en hin hættan, sem greinin gerir ráð fyrir: “að brýrnar skyldu brotna af einhverjum orsökum þegar þær eru nýlagðar”. Slíkt er raunar hugsanlegt eins og svo margt annað; en ekki er það líklegt. Ef þar kemur einhvern tíma, að gufubátur gengur milli Reykjavíkur og t. a. m. Hornafjarðar, þá er ekki efamál, að hann á að koma við á Eyrarbakka þegar það er óhætt. Það gæti gert sitt til að greiða samgöngur, þó gagnið af því yrði mjög á hverfanda hveli. Hæpið væri að kosta stórfé til að leggja vagnveg að Þjórsá, t. a. m. við Sandhólaferju, sem lengi hefur verið aðal-ferjustaður austanmanna; því nú á seinni árum fer hann mjög versnandi af sandburði, svo men halda, að hann leggist af eða færist til. Yfir höfuð er öll áin þar niðurfrá, og þá líka allir ferjustaðir, sem þar eru á henni, í sífelldri hættu fyrir breytingum af sandburði. Þess utan fullnægði sá vagnvegarspotti hvergi nærri eins vel samgönguþörf Rangárvallasýslu, eins og brýrnar myndi gera. En um þetta er of langt mál orðið. Því er ekki að skipta, að gufubátur fari með ströndum, og, því miður eru litlar líkur til, að það verði að sinni. Og það er hætt við, að um gufubáta hugmyndina, sem fram hefur komið: “Það er álitleg hugmynd”, en “of mikil byrði á landssjóði”. Það mun mega ganga út frá því, að strandferðirnar haldist í sama horfi fyrst um sinn, nema hvað þær kunna að verða auknar þar, sem því verður við komið. Hve langt verður þá, þangað til landssjóður hefur varið til þeirra svo mikilli fjárupphæð, að væri því fé skipt á allar þær sýslur landsins, sem hafa bein not ferðanna, yrði hluti hverrar sýslu svo mikill, að önnur eins upphæð nægði til að brúa Þjórsá eða Ölvesá?
Þessu verður auðvitað ekki svarað með vissu; en að því kemur á sínum tíma. Þá, þó ekki verði fyr, hljóta “aðrir landsbúar að láta sér skiljast”, að hinar hafnalausu sýslur eigi rétt á, að fá tiltölulega upphæð, til þess, að efla samgöngur hjá sér. Er það þá sanngjarnt, að þær fái það ekki fyr en þar er komið? Og er það hyggilegt eða framfaravænt að láta brýrnar – sem fjölmennasta héraði landsins eru nauðsynlegar – bíða þangað til? Ætli þeir sem nú spilla fyrir málinu, fái þá þökk fyrir frammistöðu sína? – En það er leiðinlegt, að þurfa að fara út í þetta. Það er leiðinlegt, ef félagsskapar og framfara hugmyndir manna eru enn eigi svo þroskaðar, að það þyki sjálfsagt að þjóðfélagið taki að sér að láta þeim fyrirtækjum verða framgengt, sem einstöku deildum þess eru nauðsynleg, en ofvaxin, án þess að heimta sönnun fyrir sérstökum kröfurétti hlutaðeigandi héraða, ellegar að öðrum kosti sönnun fyrir því, að fyrirtækið lyfti öllu landinu á hærra stig velgengis og blóma. “Er það nú þegar þess er gætt, að menn verða að gera sig ánægða með það á hinn bóginn, að segja eins og greinin: “að oftast nær verði eitthvert gagn” að því fé, sem landssjóður ver árlega til strandsiglinga og vegabóta, og gott ef svo yrði sagt um allt það, sem fé hans er varið til; en hvort nokkuð af því er, sem “lyftir öllu landinu á hærra stig”, það er spursmál, sem vissara mun að fela ókomna tímanum að svara.
Sjálfsagt er það líka leiðinlegt, þegar menn vilja demba á landssjóð þeim kostnaði, sem þeir sjálfir eiga að bera og geta borið. En það er engin ástæða til að ámæla meðmælendum brúanna í því tilliti. Árnessýsla og Rangárvallasýsla báðu í fyrstunni um lán til brúargerðarinnar; þær treystu því að Vestur-Skaftafellssýsla, Gullbringusýsla og Reykjavík, mundu verða með sér um lántökuna, þar eð þær einnig myndu nota brýrnar; þá var hér líka almenn velmegun. Þó verður ekki annað sagt en að treyst væri á fremsta með svo stórvaxna lántöku, að ógleymdum ferjutollunum; og ekki verður séð, hvernig sýslurnar hefði komist út af því að borga slíkt lán, og leggja þó á sömu árunum vagnvegi þá, sem útheimtast til þess að brýrnar nái tilgangi sínum fyllilega. Þó er öðru máli að gegna nú, þar eð hið erfiða árferði, sem síðan hefur verið, er búið að kippa svo fótum undan velmegun manna, að flestir eru í meir eða minni kröggum; þar eð nú mun lítil eða engin von til, að Vestur-Skaftafellssýsla verði með um lántöku til brúanna og eigi heldur Gullbringusýsla og Reykjavík, - sem þó mundi nota brýrnar meira en vestur hluti Árnessýslu – og þar eð menn á hinn bóginn sjá betur og betur fram á það, að vagnvegirnir mundu útheimta ærið fé, - þá er það nú hið eðlilega og skynsamlega, sem menn í Árness- og Rangárvallasýslum geta gert, að fela þjóðfélaginu að koma fyrirtækinu áleiðis. Það hlýtur fyr eða síðar að taka það að sér, nema það taki heldur að sér vagnvegagerðina; látum þá vera að sýslurnar kosti brýrnar. Í hvoru tilfellinu sem vera skal verður byrðin þeim fullþung, svo að eigi verður ástæða til að telja það eftir þeim, þó ferjutollarnir falli burtu. Þeir gera það heldur ekki alveg. Þar, sem langur krókur er til brúanna, fara menn yfir á ferjum, þegar gott er, eftir sem áður. En sleppum því samt; aðalumferðin yrði um brýrnar, og því kæmi talsvert fé saman ef þær væri tollaðar. En þar er sá galli á, að þá yrði sinn brúarvörður að vera við hvora brú, hafa þar íbúðarhús og eitthvað af fólki með sér. Þar kæmi ærinn aukakostnaður. Staða brúarvarðar yrði ekki heldur sérlega fýsileg í ýmsum greinum: Veitti hann ekki borgunarfrest, yrði það óvinsælt; veitti hann frestinn, gæti innheimtan orðið erfið. Bókfærslu hans yrði torvelt að koma svo fyrir, að hægt væri að taka af öll tvímæli um trúmennsku hans, hvenær sem þurfa þætti. Svo það er efasamt, að hæfilegir menn fengist til að taka þann starfa að sér. Heppilegast mun að hafa brýrnar frjálsar, en að sýslufélögin taki að sér umsjón og viðhald þeirra; en fái ef á þarf að halda, styrk til þess af landssjóði ellegar amts- (eða fjórðungs-) sjóði, ef það þykir betur við eiga.
3. Er landssjóður fær um að kosta brýrnar? Þessu neitar greinin eigi fyllilega; og það hefði líka verið undarlegt, því það, sem hún telur nokkurn veginn vinnandi verk fyrir tvær sýslur, gat hún ekki talið öruggt ef allt landið hjálpaðist að því. Samt kemur hún með úrtölur, svo sem: að ísjárvert sé, að “gefa” einum landshluta svo mikið, og að menn í fjarlægari héruðum muni seint láta sér skiljast, að landssjóði beri að veita féð. En verði landinu annars framfara auðið, mun hitt reynast ísjárverðara, að neita um féð til brúargerðarinnar; það mun þeim skiljast, sem dáð og drengskap hafa, þó í fjarlægum héruðum sé, af öðrum er þess ekki að vænta. Fjárspursmálið er óneitanlega stórt. Greinin gerir ráð fyrir 200.000 kr., en gerir lítið úr áætlun Windfeldt Hansen´s, þar eð hann mun “kunnugri” lygnu fljótunum í Danmörku, en straumþungu jökulvötnunum hér á landi”. En hvar sem er verður að hafa brýr svo háar að vatnið nái þeim aldrei; og það virðist innan handar hér. Það er því naumast líklegt, að næstum þurfi að tvöfalda áætlun W.H´s. Látum samt vera, að hún hækki nokkuð; segjum upp í 150.000 kr., 6% þar af í vexti og afborgun er 9.000 kr. Á ári í 28 ár. Ætti nú tvær sýslur að inna slíkt gjald af höndum ofaná allt annað, þá yrði þeim það ókleyft, þó efnaðar væri, eins og fyr er sýnt. En landssjóði þyrfti ekki að verða það svo mjög tilfinnanlegt; ef viðlagasjóðurinn legði fram upphæðina, sem til brúanna gengi, þá mætti aftur leggja í hann sem svarar 6% þar af á ári í 28 ár; svo félli sú gjaldgrein burt. Fyrir slíku, jafnvel þó það væri 9-12.000 kr. Á ári, gæti landssjóður farið allra sinna ferða “í austurveg að berja tröll”.
Tökum að lyktum undir með greininni í einu atriði, nefnil. Þar, sem hún bendir á, að hafa þurfi varúð við í þessu máli. Aldrei verður of mikil áhersla lögð á það, að láta á brúargerðinni rætast sannmælið: “Það skal vel vanda sem lengi á að standa”.
Br. J.