1886

Austri, 19. nóv. 1886, 3. árg., 28. tbl., bls. 111:

Hálfyrði um brúamálið.
Grein um brúagjörð á Þjórsá og Ölvesá eftir hr. Br. J. er nú prentuð í tveim blöðum vorum (“Austra” og “Þjóðólfi”) og á hún að vera svar upp á grein mína í “Austra” II. 27.-28. Höf. byrjar á því að fullyrða, að grein mín “miði til að eyðileggja brúamálið”, og segir síðan að ég hafi ekki viljað nafngreina mig, og hafi ég þó sjálfsagt eigi efast um að greinir yrði mér til sóma. Ég skal nú segja honum rétt í bróðerni, að ég rita ekki greinar um almenningsmál í blöð til að afla mér lofstírs, heldur til þess að leiða það í ljós, er ég hygg sannast og réttast, og tilgangur minn með greininni var alls ekki að eyðileggja brúamálið, heldur að gjöra hugmyndir almennings ljósari og lýsa afstöðu þess við önnur vegabótamál og samgöngumál landsins. Almenningur getur nú borið saman greinar okkar og dæmt um, hvor okkar réttara hefur að mæla, eða hvort báðir hafa ekki nokkuð til síns máls, þó að hvor skoði málið frá sinni hlið. Ég skal aðeins leyfa mér að taka hér fram nokkur atriði, þar sem mér virðist hr. Br. J. annaðhvort ekki skilja hvað ég fer, eða gefa lítinn gaum að orðum mínum.
Ég hef aldrei haldið því fram, að brýrnar væru ónauðsynlegar, en satt er það, að ég hefi gjört talsvert minna úr nauðsyn þeirra en sumir brúasinnar, sem hafa látið eins og öll önnur framfarafyrirtæki væru undir þeim komnar. Það er enginn efi á því, að það væri “gott og blessað”, að brýr kæmust bæði á Þjórsá1 og Ölvesá og jafnvel allar ár á landinu, en hitt er vafasamt hvort þessar brýr eru svo nauðsynlegar, að því stórfé sé kostandi til þeirra, að fjárhag landsins sé sýn hætta búin (sbr. Alþ.tíð. 1883 B. 654). Vér vitum að í þeim löndum, sem eru miklu auðugri af náttúrugæðum en land vort, hafa menn látið sér nægja með dragferjur á breiðar ár, þangað til fólksfjöldinn og vörumagnið hefur aukist svo að brýr yfir þær geta borgað sig (sjá Ísaf. VIII. 21). En dragferjur mega Sunnlendingar ekki heyra nefndar, og fyrst þeir endilega vilja hafa brýr, þá ættu þeir að vilja vinna nokkuð til að fá þær, (því að ekki er gjörandi ráð fyrir, að þá vanti “dáðina” og “drengskapinn”).
Viðvíkjandi eyðslunni, sem brýrnar mundu valda, læt ég mér nægja að vitna til reynslunnar hér á landi, en hún hygg ég sýni ljóslega, að aukin eyðsla gengur oftast á undan auknum framförum. Þetta er fært fram móti því, er brúarsinnar hafa gumað um hina framúrskarandi nytsemi brúnna, og til þess að benda á að brýrnar geti haft fleira í för með sér, en eintómar framfarir, en vitaskuld er, að ekki má láta það fæla sig frá að auka samgöngurnar, þar sem því verður við komið án svo mikils kostnaðar fyrir landssjóð, að sumir hlutar landsins hljóti að verða alveg útundan um langan aldur, eins og nú horfir til, því að þótt verið sé að bæta fjallvegi o. s. frv., þá gengur það frábærlega seint, eins og von er á, vegna þess að of lítið fé er fyrir hendi.
Landssjóður hefur í mörg horn að líta: auknar samgöngur og vegabætur eru nauðsynlegar fyrir allt landið; í öllum héruðum þess er afar mikið óunnið að vegabótum; hvert hérað ætti að keppast við annað að bæta samgöngur hjá sér; landssjóður má ekki hafa einn landshluta fyrir eftirlætisbarn og annan fyrir olnbogabarn, en þar sem eitt hérað hefur öðrum fremur þörf á hjálp landssjóðs, og um leið vilja til að bjarga sér sjálft, þá hefur það sérstaklega heimtingu á að landssjóður styðji kröftuglega viðleitni þess. Þetta átti heima um Árness- og Rangárvallasýslur 1879 og frá þeirri stefnu áttu sýslur þessar ekki hverfa. Það tjáir ekki að berja við fátækt sýslubúa; þeir losast við bein útgjöld, þar sem ferjutollarnir eru, ef brýr kæmust á árnar, og eru þó óneytanlega færir um að leggja nokkuð til, enda þyrfti það ekki að koma harðara niður á þeim, þótt þeir tækju allmikið lán til fyrirtækisins, heldur en brúartollar mundu koma, og virðast þeir þó ekkert hafa á móti slíkum tollum, nema það, að erfitt sé að koma þeim við, og það kemur okkur Br. J. saman um. Hversu mikið það ætti að vera, sem sýslurnar legðu til, og hversu mikið landssjóður ætti fram að leggja, skal ég ekkert segja um að svo komnu. Það er sannarlega ekki ósanngjarnlegt, að landssjóður leggi fram talsvert fé til brúagjörðarinnar, með því að hlutaðeigandi sýslur hafa minna gagn af strandferðunum2 en margir aðrir hlutar landsins, en að hann leggi fram allt féð endurgjaldslaust, virðist mér öldungis ósanngjörn krafa, enda mundi slíkt auðvitað draga þann dilk eftir sig, að hann yrði að taka að sér margar aðrar stórár til að brúa, og mörg önnur stórvægileg vegabótafyrirtæki víðsvegar um landið, sem honum kynnu að verða ofvaxin, því hvers ættu önnur héruð landsins að gjalda, ef landssjóður ætti ekki líka að losa þau við ferjutolla eða gjöra hjá þeim vagnvegi að öðrum kosti? Sum þeirra hafa þó enn sem komið er enn minna gagn af strandferðunum en Árness- og Rangárvallasýslur og þeim held ég það væri enn meiri skaði, ef hr. Br. J. tækist að eyðileggja gufubátshugmyndina, heldur en Árness- og Rangárvallasýslum væri að því, ef mér tækist að “spilla fyrir brúamálinu”, sem ég kannast reyndar ekki vað að ég hafi ætlað mér, nema ef það er sama sem að spilla fyrir þessu máli, að leggja til að sú stefna sé tekin í því, sem ég held að sé réttust og heppilegust málinu til framgangs.
Mæra-Karl.
1) Sjálfsagt ætti Þjórsárbrúin að ganga fyrir hinni, það að miklu meiri þörf er á henni, enda er líklegt að Vestur-Skaftfellingar vildu leggja nokkuð til hennar.
2) Annars er vert að gæta þess, sem séra Þorkell Bjarnason tók fram á alþingi 1885 (Tíð. B. 571) að menn ferðast ekki ókeypis með gufuskipunum, heldur verða að borga fargjald og gósflutning, svo skipum þessum verður ekki alveg jafnað saman við tollfrjálsar brýr.


Austri, 19. nóv. 1886, 3. árg., 28. tbl., bls. 111:

Hálfyrði um brúamálið.
Grein um brúagjörð á Þjórsá og Ölvesá eftir hr. Br. J. er nú prentuð í tveim blöðum vorum (“Austra” og “Þjóðólfi”) og á hún að vera svar upp á grein mína í “Austra” II. 27.-28. Höf. byrjar á því að fullyrða, að grein mín “miði til að eyðileggja brúamálið”, og segir síðan að ég hafi ekki viljað nafngreina mig, og hafi ég þó sjálfsagt eigi efast um að greinir yrði mér til sóma. Ég skal nú segja honum rétt í bróðerni, að ég rita ekki greinar um almenningsmál í blöð til að afla mér lofstírs, heldur til þess að leiða það í ljós, er ég hygg sannast og réttast, og tilgangur minn með greininni var alls ekki að eyðileggja brúamálið, heldur að gjöra hugmyndir almennings ljósari og lýsa afstöðu þess við önnur vegabótamál og samgöngumál landsins. Almenningur getur nú borið saman greinar okkar og dæmt um, hvor okkar réttara hefur að mæla, eða hvort báðir hafa ekki nokkuð til síns máls, þó að hvor skoði málið frá sinni hlið. Ég skal aðeins leyfa mér að taka hér fram nokkur atriði, þar sem mér virðist hr. Br. J. annaðhvort ekki skilja hvað ég fer, eða gefa lítinn gaum að orðum mínum.
Ég hef aldrei haldið því fram, að brýrnar væru ónauðsynlegar, en satt er það, að ég hefi gjört talsvert minna úr nauðsyn þeirra en sumir brúasinnar, sem hafa látið eins og öll önnur framfarafyrirtæki væru undir þeim komnar. Það er enginn efi á því, að það væri “gott og blessað”, að brýr kæmust bæði á Þjórsá1 og Ölvesá og jafnvel allar ár á landinu, en hitt er vafasamt hvort þessar brýr eru svo nauðsynlegar, að því stórfé sé kostandi til þeirra, að fjárhag landsins sé sýn hætta búin (sbr. Alþ.tíð. 1883 B. 654). Vér vitum að í þeim löndum, sem eru miklu auðugri af náttúrugæðum en land vort, hafa menn látið sér nægja með dragferjur á breiðar ár, þangað til fólksfjöldinn og vörumagnið hefur aukist svo að brýr yfir þær geta borgað sig (sjá Ísaf. VIII. 21). En dragferjur mega Sunnlendingar ekki heyra nefndar, og fyrst þeir endilega vilja hafa brýr, þá ættu þeir að vilja vinna nokkuð til að fá þær, (því að ekki er gjörandi ráð fyrir, að þá vanti “dáðina” og “drengskapinn”).
Viðvíkjandi eyðslunni, sem brýrnar mundu valda, læt ég mér nægja að vitna til reynslunnar hér á landi, en hún hygg ég sýni ljóslega, að aukin eyðsla gengur oftast á undan auknum framförum. Þetta er fært fram móti því, er brúarsinnar hafa gumað um hina framúrskarandi nytsemi brúnna, og til þess að benda á að brýrnar geti haft fleira í för með sér, en eintómar framfarir, en vitaskuld er, að ekki má láta það fæla sig frá að auka samgöngurnar, þar sem því verður við komið án svo mikils kostnaðar fyrir landssjóð, að sumir hlutar landsins hljóti að verða alveg útundan um langan aldur, eins og nú horfir til, því að þótt verið sé að bæta fjallvegi o. s. frv., þá gengur það frábærlega seint, eins og von er á, vegna þess að of lítið fé er fyrir hendi.
Landssjóður hefur í mörg horn að líta: auknar samgöngur og vegabætur eru nauðsynlegar fyrir allt landið; í öllum héruðum þess er afar mikið óunnið að vegabótum; hvert hérað ætti að keppast við annað að bæta samgöngur hjá sér; landssjóður má ekki hafa einn landshluta fyrir eftirlætisbarn og annan fyrir olnbogabarn, en þar sem eitt hérað hefur öðrum fremur þörf á hjálp landssjóðs, og um leið vilja til að bjarga sér sjálft, þá hefur það sérstaklega heimtingu á að landssjóður styðji kröftuglega viðleitni þess. Þetta átti heima um Árness- og Rangárvallasýslur 1879 og frá þeirri stefnu áttu sýslur þessar ekki hverfa. Það tjáir ekki að berja við fátækt sýslubúa; þeir losast við bein útgjöld, þar sem ferjutollarnir eru, ef brýr kæmust á árnar, og eru þó óneytanlega færir um að leggja nokkuð til, enda þyrfti það ekki að koma harðara niður á þeim, þótt þeir tækju allmikið lán til fyrirtækisins, heldur en brúartollar mundu koma, og virðast þeir þó ekkert hafa á móti slíkum tollum, nema það, að erfitt sé að koma þeim við, og það kemur okkur Br. J. saman um. Hversu mikið það ætti að vera, sem sýslurnar legðu til, og hversu mikið landssjóður ætti fram að leggja, skal ég ekkert segja um að svo komnu. Það er sannarlega ekki ósanngjarnlegt, að landssjóður leggi fram talsvert fé til brúagjörðarinnar, með því að hlutaðeigandi sýslur hafa minna gagn af strandferðunum2 en margir aðrir hlutar landsins, en að hann leggi fram allt féð endurgjaldslaust, virðist mér öldungis ósanngjörn krafa, enda mundi slíkt auðvitað draga þann dilk eftir sig, að hann yrði að taka að sér margar aðrar stórár til að brúa, og mörg önnur stórvægileg vegabótafyrirtæki víðsvegar um landið, sem honum kynnu að verða ofvaxin, því hvers ættu önnur héruð landsins að gjalda, ef landssjóður ætti ekki líka að losa þau við ferjutolla eða gjöra hjá þeim vagnvegi að öðrum kosti? Sum þeirra hafa þó enn sem komið er enn minna gagn af strandferðunum en Árness- og Rangárvallasýslur og þeim held ég það væri enn meiri skaði, ef hr. Br. J. tækist að eyðileggja gufubátshugmyndina, heldur en Árness- og Rangárvallasýslum væri að því, ef mér tækist að “spilla fyrir brúamálinu”, sem ég kannast reyndar ekki vað að ég hafi ætlað mér, nema ef það er sama sem að spilla fyrir þessu máli, að leggja til að sú stefna sé tekin í því, sem ég held að sé réttust og heppilegust málinu til framgangs.
Mæra-Karl.
1) Sjálfsagt ætti Þjórsárbrúin að ganga fyrir hinni, það að miklu meiri þörf er á henni, enda er líklegt að Vestur-Skaftfellingar vildu leggja nokkuð til hennar.
2) Annars er vert að gæta þess, sem séra Þorkell Bjarnason tók fram á alþingi 1885 (Tíð. B. 571) að menn ferðast ekki ókeypis með gufuskipunum, heldur verða að borga fargjald og gósflutning, svo skipum þessum verður ekki alveg jafnað saman við tollfrjálsar brýr.