1885

Tenging í allt blaðaefni ársins 1885

Ísafold, 28. jan. 1885, 12. árg., 4. tbl., forsíða:
Sæluhús gengdu áður miklu hlutverki fyrir ferðamenn. Ísak Ingimundarson austanpóstur skrifar hér um Sigurbjörn sæluhúsvörð á Kolviðarhóli og finnst hann ekki eins góður og fyrirrennari hans.

Sæluhúsvörðurinn á Kolviðarhóli.
Sigurbjörn, er nú búinn að koma því til leiðar, að nábúi hans Jón Jónsson hefir verið kallaður fyrir rétt fyrir óleyfilegar veitingar. Það er nú sér. Almenningur spáði ekki miklu góðu um komu Sigurbjörns á Kolviðarhól, enda hefir hann ekki orðið vinsæll þar. Ég hefi gist hjá honum eina nótt, eftir boði hans sjálfs, en án þess að lýsa því frekar, var gistingin á þann hátt, að ég hef ekki komið til hans oftar. En þar á móti hefi ég ávallt komið til Jóns og þegið hjá honum beina, og hef ég vel fundið, hvers virði það var að geta flúið til hans, eins oft og ég þarf að afar yfir Hellisheiði. Enda hefir þar oft verið húsfyllir, þegar ég hefi verið á ferð, en enginn maður hjá hinum.
Það er eitthvað óskiljanlegt við þetta. Jón er ofsóttur fyrir það, að ferðamenn geta fengið hjá honum flestar nauðsynjar sínar. En Sigurbjörn er launaður af almannafé fyrir það að sitja í þjóðbraut, þótt fæstir vilji né geti neitt við hann skipt.
Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að Jón er sá eini af þeim þremur, sem verið hafa á Kolviðarhól, er hefir áunnið sér hylli manna, og sanna það best hin almennu meðmæli (þó þeim væri ekki gaumur gefinn), er hann fékk þegar það fréttist að honum væri vísað burt, sem líklega hefir ekki verið af þeirri ástæðu, að koma Soffíu dóttur Hallberu þangað, en þó sjálfsagt af gildum ástæðum. En þetta kom eins og fjandinn úr sauðarleggnum flatt upp á alla, að Sigurbjörn var orðinn sæluhúsvörður, en Jón rekinn burt.
En yfirvaldinu þykir má ske að mér og mínum komi það lítið við, hver er sæluhússvörður. En mér getur ekki verið sama, og ég álít það heppilegt, bæði fyrir mig og aðra að Jón fór ekki lengra en hann fór.
Það mun verða lítið skjól fyrir hesta í vetur í hinu tilvonandi hesthúsi Sigurbjarnar; eða hvar skyldi vera hey það, sem hann gæti selt ferðamönnum? Meðferð hans á gamla sæluhúsinu er ekki góð, og ótrúlegt að hann hafi haft leyfi til þess; en ef það er ekki, þá ætti hann að hafa ábyrgð á því.
Það lítur svo út, sem nú eigi að fara að neyða menn til að aðhyllast Sigurbjörn með því að lögsækja Jón, og ef það væri mögulegt, þá að flæma hann í burtu. En ég vona, að Sigurbjörn víki þá ekki lengi.
Í janúar 1885.
Ísak Ingimundarson austanpóstur.


Ísafold, 4. feb. 1885, 12. árg., 6. tbl., bls. 23.:
Sigurður Vigfússon segir forfeður okkar hafa kunnað ýmislegt fyrir sér í stórvirkum og það sjáist fyllilega á Sturlungu að brú hefur verið áður fyrr á Hvítá í Borgarfirði, sem líklega var af mönnum gerð. Nú ætli Borgfirðingar aftur að taka sig saman og brúa Hvítá og sé það manndómsfyrirtæki og þarfaverk.

Hvítárbrú.
Það sést meðal annars á vorum merku fornritum, að forfeður vorir hér á landi; kunnu ýmislegt í verknaði, sem stórvirki mátti heita. Þeir byggðu t. d. haffærandi skip og stórhýsi heima hjá sér, þó ekki væru þau af steini gjör. Að gjöra brýr á stór vatnsföll, hefir verið nokkuð algengt, og því segir Grágás Kb. Bl. 130: “Smiðar þeir er hus gera or avströnom viðe. Bruar vm ar þær eða votn er net næmir fiscar ganga i eða gera buðir a alþingi. Þeir eigo cost at taca daga cavp vm engi verk”. Hér er verið að tala um “heimilisföng”, og hafa þessir menn rétt fram yfir aðra, og mega vera lausir á sumrum og taka kaup, en Grágás tekur þó hart á lausamennsku, og það varðaði við lög, að hafa ekki vist. Það sést fyllilega á Sturlungu, að brú hefir verið á Hvítá í Borgarfirði, sem líklega var af mönnum gjörð. Eins og kunnugt er, var sættafundurinn lagður við “Hvítárbrú” milli Kolbeins unga og Gissurar Þorvaldssonar og Órækju, út af vígi Snorra Sturlusonar; þar voru biskupar báðir og ábóti og Sturla Þórðarson og fl. (Sturl. Oxford I. Bl. 404-406); hér er brúin svo oft nefnd, og brúarsporðarnir, að ekki er um að villast. Þegar ég var á rannsóknarferð í sumar í Borgarfirði (þessi ferð viðkemur meira eða minna rannsókn í 8 merkum sögum) gerði ég mér far um að ganga úr skugga um, hvar Hvítárbrú hefði verið; en þetta liggur í augum uppi, þegar á staðinn er komið og borið saman við orð sögunnar.
Ég fór frá Reykjaholti 13. sept. og fyrst út að Skáney. Þaðan yfir hálsinn, og út og niður að Hurðarbaki, sem stendur að sunnanverðu við Hvítá. Skammt upp frá ánni, undan Hurðarbaki eða litlu neðar í stefnu heitir nú Kláffoss á Hvítá. Bjarni bóndi fylgdi mér þangað. Þar ganga klappir út í ána beggja megin, hvor á móti annarri. Klöppin að sunnanverðu er lengri, og nær langt út í ána, en er lægri en sú að norðanverðu. Áin fellur á þessum stað í þrengslum og eru þar klettar niðri í. Myndast þar af nokkur hallandi foss, fyrir neðan einkanlega slær áin sér mjög út aftur, og er þar ákaflega breið, á milli klappanna hefir verið mælt með færi þegar áin var lögð ísi, og eru það 17 álnir. Hér er því frá náttúrunnar hendi eitt hið hentugasta brúarstæði; er það því víst, að Hvítárbrú, sem Sturl. Talar um, hefir verið hér. Af orðum sögunnar er það líka nær ákveðið, því Gissur sem kom að sunnan, var með flokk sinn að Hurðarbaki, sem er næsti bær að sunnanverðu við ána, sem fyrr segir, en Órækja, sem að vestan kom, reið í Síðumúla um kvöldið, sem er næsti bær fyrir ofan Síðumúlaveggi, en þeir eru nær því beint á móti Hurðarbaki fyrir norðan ána upp frá Kláffossi. Í Síðumúla hafa þeir Órækja fremur verið, af því þar var meiri bær og betri gistingarstaður, og þó allskammt. Kolbeinn reið í Reykholt og Sturla, sem var í gísling, og með þeim 2 menn, má vera að hann hafi átt þangað erindi. Daginn eftir riðu þeir allir aftur til brúar, biskupar gengu á milli og ábóti, vildi Órækja jafnvel að þeir Kolbeinn fyndust á brúnni, en hún var mjó, Gissur lést ekki vilja á hana ganga, loksins fengu þeir Órækju til að ganga suður yfir brúna, gekk hann með sveit manna, en Svarthöfði fór ekki lengra en að brúarsporði, en þegar Órækja vék upp frá brúnni, hlupu þeir Gissur fyrir brúarsporðinn með allan flokkinn, og var þá enginn kostur að fara yfir ána vestur eða suður, eins og sagan nefnir það; hér er því allt skýrt ákveðið. Þar sem Órækja ætlaðist til að þeir Kolbeinn og Gissur og hann mættust á brúnni, ásamt nokkrir menn með hverjum, sem hlutu að vera vottar við sættina, og þá fleiri er hér áttu hlut að, þá hefir þó brú þessi ekki verið svo allmjó; þeir hafa þó þurft töluvert rúm allir saman.
Hér var á síðari tímum hafður kláfur á ánni, og þar af er nafnið komið, sem síðan hefir haldist; en ekki hefir hann verið í þeirra manna tíð sem nú lifa. En til merkis eru sýndarholur, sem klappaðar hafa verið ofan í bergið og settir þar í járnbútar eða krókar til að festa í kaðlana. Ég sá 2 holur að sunnanverðu, er mannaverk sýndur á; að norðanverðu kom ég ekki, því ekki verður þar komist yfir ána. Ég sá og í einum stað votta fyrir fornum götum, sem lágu þvert á ánni að sunnan frá. Það er enn eitt, sem ræður úrslitum þessa máls: hvergi á þessum svæði er nokkurt brúarstæði á Hvítá nema á Kláffossi; til að sannfærast hér um, reið ég niður með ánni að sunnan allt niður að ármótum, þar sem Reykjadalsá kemur í Hvítá. Þar eru allstaðar melbakkar að ánni og flá melaborð, og áin breið, hvergi klappir eða þrengsli; sama er að segja upp frá Kláffossi og allt upp að Bjarnafossi, sem nú er kallaður í daglegu tali Barnafoss; þar er hvergi brúarstæði á ánni; það mun vera um ½ þingmannaleið. Upp á Bjarnafossi er og gott brúarstæði; áin fellur þar í gljúfrum. Þar var brú á 11. öld, (sjá Heiðarvígas.bl. 359); en munnmæli eru, að það hafi verið steinbogi, og er til um það saga. Má og vel vera, því Músa-Bölverkur “veitti Hvítá í gegn um ásinn”, að Landn. Segir, bl. 67. Ég skal enn geta þess, að Brúarreykir er næsti bær fyrir neðan Síðumúlaveggi, og þó eigi allskammt niður með Hvítá. Það er líklegt, að þeir séu kenndir við Hvítárbrú.
Nú hafa Borgfirðingar tekið sig saman og ætla að brúa Hvítá, að því er ég heyrði. Það er manndómsfyrirtæki og þarfaverk. Ef þeir hafa brúna á Kláffossi, getur hún orðið notið af langferðamönnum, hvort heldur þeir fara Bröttubrekku eða Holtavörðuheiði. Þegar ekki er nema um eina brú að ræða á allri Hvítá, þá er þessi staður sá langhentugasti að því leyti, að það er nær í miðju héraðinu. Eru því líkindi til, að landstjórnin mundi vilja styrkja þetta þarflega fyrirtæki.
Sigurður Vigfússon.


Ísafold, 13. maí 1885, 12. árg., 21. tbl., bls. 82.:
Jón Magnússon frá Heynesi fékk vinnu við vegabætur eftir að pótsmeistaranum þóknaðist ekki lengur að hafa hann fyrir póst. Í ljósi reynslu sinnar lætur hann hér í ljós sína einföldu og hreinskilningslegu skoðun um hvernig vegabótum sé best fyrir komið.

Hálfyrði um vegabætur.
Þar sem nú er orðið tíðrætt í blöðum um vegabætur á landi voru og af því að vænt er að bera saman álit manna um þær, þá dettur mér í hug að láta í ljósi mína einföldu en hreinskilningslegu skoðun um það, sem ég held skilyrði fyrir varanlegum vegum.
Eftir að póstmeistaranum þóknaðist ekki að hafa mig fyrir póst lengur 1874, og ég því missti þá atvinnu, fékk ég bráðum að vinna að vegabótum, fyrir tilstilli þeirra sem vildu hjálpa mér um atvinnu, amtmannsins, sem þá var, B. Thorbergs, og sýslumanns Guðm. Pálssonar. Hefi ég nú fengist við það verk nokkur sumur, og hefi oft hugsað um, hvernig vegirnir ættu að leggjast, svo að sem happadrjúgastir yrðu bæði til endingar og fjársparnaðar.
Með því að mjög oft er við breytilegt landslag og jarðlag að eiga, þá verður að haga aðferð eftir ástæðum. Það hefir ávallt vakað fyrir mér sú hugsjón, að fyrsta skilyrði fyrir heppilega lögðum vegi væri að velja fyrst stefnuna og grundvöll vegarins svo nákvæmlega og haganlega sem unnt er, og kosta heldur töluverðum tíma þar til. Þannig hef ég valið veg á fjöllum, og held það í öllu tilliti best þar sem styst er yfir, að unnt er, en umfram allt þar sem holt eru hæst og minnstan snjó festir og ekki liggur undir vötnum; og yfir höfuð forðast miklar mishæðir og votlendi. Lautir hafa einnig þann ókost í byrjun á vetrum, að bæði er þreytuauki í þeirri ófærð og óviss vindstaða.
En þar sem ekki verður við komið að leggja veg eftir holtahryggjum, þá er mikil nauðsyn að vanda vel þær upphleyptu brýr, sem ekki verður hjá komist að gera, bæði yfir lautir, urðir og votlendi, og er þá óefað flórlegging með vandvirkni langbest, þó dýr sé, með bogadreginni laut milli kanta vegarins eftir honum. Einnig þarf að athuga vandlega, hvar ræsi þurfa, svo vötn geti ræst sig gegnum brýrnar. Og með því að sjálfsagt er að leggja aldrei brýr í lautir nema í hall-lendi, þá er mikil þörf á að hafa langrennur eða sniðrennur við efri jaðar vegar að ræsa-opum. En til ofaníburðar álít ég nálega jafn tvísýnt að hafa tóman sand sem eingöngu mold. En að blanda sand og möl með ¼ af mold þeir, sem víða fæst í jörðu, helst fyrir neðan frost, það álít ég gott efni.
Ekki skyldi hafa meiri ofaníburð en svo, að myndi aðeins ávala; en bæta heldur árið eftir eða sem fyrst. Mér hefir skilist, að með ákvörðuninni um fimm álna breiðan veg væri svo til ætlast, að nota skuli vegina út á jaðra, en það er fyrirmunað með því að hafa þennan háa hrygg í miðjunni.
Ég ímynda mér, að mjög óvíða, ef nokkursstaðar á landi hér, hafi verið gerður jafn sterkur vegur og með jafn vörnuðum frágangi sem kafli sá, er við verkamenn Sighvats Árnasonar alþingismanns unnum að eftir hans fyrirsögn í Svínahrauni í sumar, og sem ég fyrir mitt leyti hafði mikið gott af hvað vandvirkni snertir. Þó efast ég um, að hann geti þrifist til lengdar, einmitt fyrir vanhugsaða stefnu hans og afstöðu. Ég fór aldrei svo til Reykjavíkur í sumar, að ég liti eigi með áhuga til þeirrar stefnu, sem mér, þótt ókunnugur væri, sýndist best valin til vegagjörðar, bæði endingar egna og sparnaðar. Líklegast minni sjón var, að hafa einn veg frá Elliðaám og upp hjá Árbæ, þaðan nær Hólmi og eftir holtahryggjum nálægt Elliðakoti, og þaðan nær því beina stefnu upp undir Lyklafell; skipta þar í tvo vegi, og lægi annar norður heiði til Þingvallasveitar og einn upp Velli eða hraunið nokkru vestar, þar sem það er hálfu haganlegra til vegagerðar bæði að lögun og vegna ofaníburðar, og kæmi þá á þann áðurgerða veg neðan til við mitt hraun. – Svona er sannfæring mín að happadrjúgastur hefði vegur orðið á þessu svæði, þar sem sneitt er hjá öllum hraunsnögum, bleytum og vötnum. Það er engin mynd á veginum upp að Svínahrauni, eins og hann er nú; er því mín fyllsta sannfæring, að bráðlega þurfi að bæta eða helst breyta vegi þessum.
Ég þekki þá sýsluvegi, og það jafnvel til kauptúna, sem búið er að fást við að endurbæta árlega svo öldum skiptir og einlægt eru ófærir, en er haldið áfram með, af vana og hugsunarleysi. Það er óskemmtileg tilhugsun að eiga fyrir hendi árlega annaðhvort að verða að vinna eða borga slíka heimsku, sem er hér um bil sama sem að kasta þjóðarinnar peningum í sjóinn eða bræða þá í eldi.
Nú hefir ég verið nokkuð margorður um vegabæturnar; er þó lítið meira en hálfsagt, þar ég álít eins hægt að gera traustan veg yfir flóa og foræði með réttri útsjón eftir ástæðum eins og yfir holt, hraun og urðir. Einungis mun verst að fást við mjög fúna jörð og moldarmóa.
Jón Magnússon frá Heynesi.


Austri, 17. júní 1885, 2. árg., 11. tbl., forsíða:
Austri hvetur til brúargerðar á Þjórsá og Ölfusá. Betra sé að landsfé sé notað til stórframkvæmda heldur en að því sé sundrað til ýmissa smáverka.

Fáein orð um vegabætur.
Í “Ísafold” 10. desember 1884, má lesa glöggt yfirlit yfir landsreikninginn 1883, og þó reikningur þessi sé nú enn óendurskoðaður, þá má ganga að því sem vísu, að þær töluupphæðir sem á nefndu yfirliti standa mismuni ekki í miklu frá þeim aðalupphæðum á landsreikningnum sem koma í ljós þegar hann verður endurskoðaður og löggiltur.
Það sem tekjurnar hafa orðið meiri á fjárhagstímabilinu en útgjöldin, eru samtals bæði árin 226.820 kr. 72 aurar. Þetta er stórmikið fé sem mjög miklu getur orkað, einkum ef afli þess er ekki sundrað til ýmissa smáverka, heldur haldið saman og beitt til framkvæmda einhverju því fyrirtæki, sem landi þessu og lýð er bráðnauðsynlegt, en krefst mikilla fjárframlaga. Eitt af þeim fyrirtækjum sem þannig virðast að vera á sig komin, eru brúarbyggingarnar á Þjórsá og Ölfusá. Það eru nú liðin meir en 10 ár síðan það landsmál var tekið til verulegrar umræðu og álits, og á Alþingi 1877 var það rækilega flutt af þingmönnum hlutaðeigandi sýslu, og skýrslur lagðar fram fyrir þingið: um ferjutolla á ánum – sem nema árl. 6.000 kr. og samsvara rentu (4%) af 150.000 króna höfuðstól, og um byggingarkostnað brúnna og byggingarlag. Sú skýrsla var gjörð af stórskipafræðing Windfeld Hansen er stjórnin hafði sent til þess, og var ætlun hans að kostnaðurinn við brúarbyggingarnar mundi ekki fara fram úr 168.000 kr. (sbr. Alþingistíðindi 1877 bls. 100 o.s. frv.)
Það sannaðist nú seinna og þegar til framlaganna kom, að hin áminnsta fjárupphæð var ónóg til þess að koma upp brúnum. Á því strandaði það verk eins og fleiri, og málið var lagt til geymslu; þó hefur því verið hreift við og við, á þann hátt, að leita ráða hver vera muni tiltækilegust til að létta af hinum mikla farartálma sem stórár þessar valda héraðsbúum þar í grennd, og öllum öðrum, sem um þá leið fara. Það hefur verið stungið upp á ýmsu, t.d. svifferjum, en það virðist auðsætt að brýrnar á ánum er hið eina ráð sem til fullnustu og til frambúðar getur bætt úr hinni brýnu þörf sem er á því að bæta vegi þessa. Öllum sem litið hafa til þessa máls hlýtur að vera full-ljóst hver þörf og nauðsyn er á þessum vegabótum. Árnar eru með mestu ám á landi hér, hvergi reiðar í byggð og ekki ferjugengar nema á þremur stöðum hver á, og þó ekki ætíð. Hvorki í vatnavöxtum eða þegar þær eru meira eða minna ísi lagðar, og veldur það ærnum farartálma. Þetta þekkja héraðsbúar þar, það þekkja póstarnir; það þekkja bændurnir í Skaftafellssýslu, sem hafa kaupstaðarleið sem skiptir þingmannaleiðum, og mörg önnur stórvötn yfir að fara. Auðsætt virðist, að þeir sem eiga hér nánast hlut að máli, Skaftfellingar og allir aðrir, allt vestur í Gullbringusýslu, sem eru fjórði hluti allra landsbúa og byggja ein hin þéttbýlustu héruð, hafa rétt til að þessu mikilvæga samgöngumáli sé sem fljótast hrundið í viðunanlegt horf, og góðar brýr settar á téðar ár. Héraðsbúar þessir hafa allflestir lítið beinlínis gagn af strandferðaskipunum, með því ekki eru hafnir – nema tvær slæmar (Eyrarbakki og Þorlákshöfn) á öllu því svæði, en innan lands eru þar viðskipti mikil, þar eð héruðin eru þéttbýl og landsnytjar miklar. Loftslag er þar rigningasamt og landslag víðast flatt og votlent; vegir eru því víðast slæmir en þó langir til aðdrátta, og fjöldi af stórum og vondum vatnsföllum yfir að fara, öllum óbrúuðum. Fyrir því neyðast bændur þar, til að hafa mikinn hesta fjölda, meiri en ella þyrfti, en hesta fjöldi skemmir löndin mjög bæði vetur og sumar og gjörir aðra búfjáreign miklum mun valtari og erfiðari, og langtum arðminni, einkum í þröngbýlum, afréttarlitlum sveitum. Þeim sem búa í hinum austustu þessara sveita, (Skaftfellingum) er ekki unnt vegna vegalengdar og torfærna að koma fénaði sem þeir þurfa að lóga frá búum sínum, á viðunanlegan markað; þeir freistast því oft til að setja hann á vetur í bersýnilegan voða til að reyna að halda “höfðatölunni” sem mestri, þar eð ull og tólg verður ætíð sá eini verslunarvarningur þeirra meðan svo stendur. En hvað leiðir oft af slíkum ásetningi? Fénaðurinn verður mjög afnotalítill, eða – þeir horfella. Mundi ekki verða nær því, að þeir kæmi skepnum sínum sem þeir hafa aflögu til markaðar, ef góðar brýr væru á hinum verstu stórám, sem Þeir þurfa yfir að fara með þær, og það má segja að Vesturskaftfellingar eru einna verst settir allra héraðsbúa á landi hér að því leyti sem verslun og vöruskipti snertir.
Nú eru komnar brýr á ýmsar vondar ár á Austur- og Norðurlandi t. d. Jökulsá á Brú, Skjálfandafljót o. fl. og talað er um Jökulsá í Axarfirði og Hvítá, en yfir Hvítá er mjög fjölfarin leið, fram og aftur, milli þriggja landsfjórðunga.
Og með því það má virðast í fyllsta lagi mjög eðlileg og sanngjörn krafa sem íbúar fyrr talinna héraða hafa til þess, að landssjóður styrki þá nægilega til þess að koma upp duglegum brúm á Þjórsá og Ölfusá – og með því ekki virðist nú vera tilfinnanlegur efnaskortur til að framkvæma þetta nauðsynlega stórvirki, þá er líklegt að þetta verði ekki látið dragast lengur úr hömlu, og þó það – ef til vill – kostaði landssjóð í bráðina 200 þúsund krónur eða lítið eitt meira. Það er ástæða til að ætla að mál þetta, sem var fyrir heilum tug ára svo mikið áhugamál Sunnlendinga – eins og undirbúningur þess og meðferð á alþingi 1877 bera vott um – væri komið nú á betri rekspöl en er, ef flytjendur málsins hefðu frá upphafi farið þess á leit, að styrkurinn frá landssjóði til brúarbygginganna, væri greiddur, að miklu leyti, sem tillag, aðeins í eitt skipti, en ekki lán til hlutaðeigandi sýslusjóða.
Það er varla hugsandi að þrjú eða fjögur sýslufélög geti tekið svo stórkostleg lán, hve nauðsynlegt sem fyrirtækið er sem ætti að framkvæma með því fé. Nei, hinn umræddi styrkur ætti að meiri hluta að vera tillag, en minna hluta lán. Nú er tillagið frá landssjóð til gufuskipsferðanna orðið alls hátt á 200.000 króna, og svipuð fjárupphæð er nú komin í fjallvegi, sem eru þó misjafnlega af hendi leystir. Um fjallvegabætur í þessum héruðum, sem áður voru nefnd, sem landssjóður leggi fé til, mun ekki vera að tala, nema Hellisheiði eina, og notin sem íbúar þeirra hafa af strandfararskipum eru lítil í samanburði við fólkstölu og fjármagn þar, meðan þeir hafa ekki greiðari landveg en enn þá er vestur til Reykjavíkur. Það er því mjög margt sem mælir með því, að þessu nauðsynjamáli Sunnlendinga verði sem fyrst framgengt, og – einnig margt sem mælir fram með því, að landssjóður verji fé sínu sem helst til eflingar þeim störfum, sem krefjast mikilla fjárframlaga, sem trygging er fyrir að vel verði af hendi leyst og sem velferð landsins alls eða heilla héraða þess er undir komin.


Þjóðólfur, 27. júní 1885, 37. árg., 25. tbl., forsíða:
Sighvatur Árnason alþingismaður hvetur til brúargerðar á Þjórsá og Ölfusá. Eigi það að ganga á undan öðru til umbóta.

Þjórsá og Ölvesá.
(Áskorun frá alþ.m. Sighvati Árnasyni).
Sundár þessar eru sá “Þrándur í götu” sem ekki má yfirgefa og yfirvinna.
Engum sem hafa séð og reynt árangurinn af góðum vegagjörðum og greiðum samgöngum yfir höfuð, mun blandast hugur um það, að slíkt eigi hiklaust að ganga á undan öðru til umbóta. Er því auðsætt, að landinu muni verða erfitt til þrifa án þess að leggja allt kapp á að ryðja því úr vegi, sem mest hindrar samgöngur og viðskipti manna, sem er nú hér svo margt og mikið, fjöll og firnindi, sundár og fl. Víðsvegar um landið. Það er að vísu byrjað mikið á því að leggja talsvert fé í sölurnar til að bæta úr þessu, en bæði er það, að féð er of lítið sem fram er lagt, til þess á geti séð, og í öðru lagi að það hefir ekki orðið að tilætluðum notum sökum vankunnáttu og verkfæraleysis. Til gufuskipanna er sérstaklega lagt úr landssjóði á hverjum 2 árum 36 þús. kr. og til fjallvega og annarra vegabóta 40 þús. kr., alls 76 þús. kr. Þetta t.a.m. kostar landssjóð á hverjum 10 árum 380 þús. kr. og á tvennum 10 árum 760.000 kr. Þetta er nú gott og blessað, ef vel væri á haldið, fyrir alla þá sem njóta, og hina að því leyti, sem hið sérstaka gagn þess eftir hag alls þjóðfélagsins. Sérstök not alls þessa fjár eru því nær engin fyrir allar þrjár sýslurnar hér austanfjalls, Skaftaf.. Rangárv. og Árness., allt svo lengi að ekki eru brúaðar sundárnar. Öllum þessum sýslum, sem eru mestur hluti sunnlendinga fjórðungs, gagna lítið gufuskip, fjallvegagjörðir eða vegagjörðir yfir höfuð án brúnna, því maður verður að komast úr bæjardyrunum til að geta fært sér í nyt stíginn sem þá tekur við. Íbúum þessara sýslna er fjallvegagjörðin því aðeins til nota, að þeir brjótist yfir árnar, og vegagjörðir innan sýslnanna verða reikandi og lítilsvirði á meðan það haft er á vegunum fyrir brúarleysið á ánum, sem gjörir þá sundurslitna og ófullkomna, hversu góðir sem þeir væru í sjálfu sér. Aðdrættir og öll viðskipti eru á meðan allt of kostbær, stirð og þunglamaleg, svo viðskiptaeyrir manna fer í sjálfan sig. Sýslur þessar eru einangraðar yfir höfuð út af sundánum, svo að þeim er engin framfara von nema því aðeins að árnar séu brúaðar. Verslanir þær sem til er sótt einangrast, sveitarverslanir þær, sem myndast hafa, einangrast, og okra, því allt er innilokað frá almennum viðskiptum og aðalmarkaði landsins. Öllu þessu eru menn nú farnir að veita betri eftirtekt en áður, enda hefir á þessum árum færst talsvert líf og fjör í verslun landsmanna, svo að menn smátt og smátt skoða betur og vetur hvað til hags og umbóta horfir og kleyft er að gjöra til að ryðja þeim torfærum úr vegi, sem mest standa fyrir þrifum. Áður eða hingað til hafa menn í sýslum þessum verið svo háðir vananum innan náttúrunnar takmarka, að þeir hafa ekki veitt því næga eftirtekt, sem við á, til að ryðja sýslunum braut til betri kjara. Til þess að sýslur þessar getir átt von á því að vera ekki háðar hungri og harðrétti í hvert einasta skipti, sem árferðinu hallar, eins og ávallt hefir gengið og gengur enn þann dag í dag, til þess er eina ráðið að brúa sundárnar.
Hagurinn af brúnum yrði auðvitað mestur fyrir áðurtaldar sýslur, en hann yrði líka ómetanlega mikill fyrir Gullbringusýslu og Reykjavík, sem nytu þá samskiptanna við allar sýslurnar austanfjalls.
Það er vonandi að Alþingi sannfærist betur og betur um nauðsyn þessa fyrirtækis og að ekki dragist til lengdar, að það láti til sín taka um slíkt mál, sem heilum landsfjórðungi stendur fyrir þrifum; og yfir höfuð að það sjái þann kost bestan að ryðja sem best samskiptunum braut, hvar sem vera skal á landinu. Þinginu, með landsjóð í hendi sér, ber að ríða hér á vaðið ekki síður en með fjallvegina, því séu þeir ókleyfir til umbóta fyrir hlutaðeigandi héruð, er ég alls eigi að neita, þá eru sundárnar það, því getur enginn neitað.
Í móts við áður áminnsta upphæð 380 þús. kr., sem landsjóður leggur til gufuskipanna og vegabóta á 5 fjárhagsárum eða 10 árum, þyrfti aðeins 1/5 eða 76 þús. kr. til að brúa með aðra ána, og það í eitt skipti fyrir öll; svo þegar á þetta er litið, þarf engum að vaxa um of í augum þetta framlag úr landssjóði sem til brúnna þyrfti, og því síður sem fyrirtækið er hið mesta framfarastig, sem hugsast getur fyrir allan sunnlendingafjórðung, og ætti að vera hans fyrsta mál á dagskrá, hvað sem öllu öðru líður.
Banki mundi að vísu undir góðri stjórn mikið gott af sér leiða, þó efast ég um gagn hans fyrir þessar sýslur án brúnna, því að t. d. þar sem hann gjörði mönnum hægra fyrir að hafa peninga handa í milli til ýmsra hluta, mundi ávöxturinn eða ágóðinn af þeim peningum verða hér takmarkaðir og tvísýnn eins og af hverju öðru, þar sem samgöngurnar eru teftar.
Að lyktum er það mín áskorun:
1. Að öll þau héruð, sem eiga hlut að þessu brúarmáli, láti ekki hjá líða að skora á í hönd farandi alþingi að leggja fé til brúargjörðar á Þjórsá og Ölvesá og annast um framkvæmd fyrirtækisins svo fljótt sem verða má.
2. Ef Þingvallafundur verður haldinn á undan alþingi, að notað sé það tækifæri til samtaka um að útbúa brúarmálið á fundinum og afgreiða það þar fyrir héraðanna hönd til þingsins.

Eyvindarholti í apríl 1885
Sighv. Árnason


Þjóðólfur, 18. júlí 1885, 37. árg., 28. tbl., bls. 110:
Alþingi felldi frumvarp sem gert hefði að verkum að landssjóður kostaði allar vegabætur á aðalpóstleiðum.

Vegamálið og auglýsingamálið á Alþingi.
Eftir Heyranda í holti.
Af þeim frumvörpum, sem felld hafa verið á þinginu, er vert að geta tveggja. Annað þeirra var næsta mikilsvert. Það var frumvarp um breyting á vegalögunum 15. okt. 1875, þess efnis, að með fjallvegum skyldi “telja alla aðalpóstvegi í byggðum”. Þessi breyting, þótt eigi væri stór, mundi hafa gert það að verkum, að landssjóður kostaði allar vegabætur á aðalpóstvegum.
Þórarinn Böðvarsson var flutningsmaður og gat þess meðal annars, að mest riði á vegabótum á hinum fjölförnustu vegum, og það væru einmitt póstvegirnir, en með því fyrirkomulagi sem nú er, fengist eigi fullnægjandi vegabætur á þeim. Í sama strenginn tók landshöfðingi. Arnl. Ólafss. var og með því; en þar á móti hugði J. Sig., að of mikil byrði á landssjóði og afskiptaleysi í vegagjörðum frá sýslunefndanna hálfu mundi leiða af því, ef frumvarp þetta yrði að lögum.
E. Briem talaði og á móti því; sagðist að vísu vera hinum samdóma um, að póstvegirnir ættu að komast á landsjóð, en væri því þó mótfallinn nú, af því að öll vegalöggjöf vor þyrfti endurbóta við, en til þess ekki tími á þessu þingi; þess vegna best að fella þetta frumvarp, enda mætti með fjárlögunum veita talsvert fé til vegabóta á póstvegunum er nægði fyrst um sinn. Á sama máli voru og Þ.G. og Þ. M. En J. Ólafss. kvaðst ekki geta fallist á skoðun E. Briems í þessu máli. Heppilegast væri fyrir oss, sem höfum þing svo sjaldan, og svo stutt í hvert skipti, að hugsa ekki um að vera að koma á stórum lagabálkum í einu, fyrr en nægur undirbúningur væri fenginn, en þessi undirbúningur fengist einmitt best með því að kippa hinu bráðnauðsynlegasta í lag með smálögum, enda væri nú farið að hafa þá aðferð ó landbúnaðarlagamálinu. Það hefir heldur ekki tekist vel fyrir þinginu með lagabálkana; það sýna lögin um skipun prestakalla 28/2 1880.
Þetta mikla nauðsynjamál var fellt með 13 atkvæðum á móti 7.
Þeir Þ. Böðv. og Arnl. Ólafss. hafa aftur komið fram með frumvarp um líkt efni, en í öðru formi. Ef það nær eigi samþykki þingsins, mætti að minnsta kosti ætlast til þess af þinginu, að það veitti með fjárlögum ríflega fé til vegabóta á póstvegunum. ¿¿.


Ísafold, Viðaukablað 2. sept. 1885, 12. árg., 38. tbl., forsíða:
Á sýslufundum í Árnessýslu koma vegamál mikið við sögu.

Ágrip
Af sýslufundargjörðum í Árnessýslu 20.-24. apríl 1885.
Á fundinum, sem haldinn var í barnaskólahúsinu á Eyrarbakka, mættu auk oddvita, 12 sýslunefndarmenn; fyrir Selvogshrepp var enginn sýslunefndarmaður til, og kosning sýslunefndarmannsins úr Hrunamannahreppi, sem fyrra ár var skotið undir úrskurð amtsráðsins, en vísað heim aftur, sem heyrandi undir endilegan úrskurð nefndarinnar, var í byrjun fundarins úrskurðuð ógild.
Til skrifara var kosinn nefndarmaður Ölveshrepps¿¿
8. Var samþykkt, eftir samkomulagi við sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu , að fara þess á leit við landshöfðingja, að aukapóstleiðin úr Reykjavík til Keflavíkur verði framlengd þaðan um Hafnir, Grindavík, Krísuvík, Selvog, Þorlákshöfn til Eyrarbakka.
Einnig var samþykkt, að biðja um bréfhirðingarstað á Vorsabæ í Ölvesi.
9. Eftir fyrirlagi sýslunefndarinnar á síðasta fundi hafði oddviti í Biskupstungnahreppi sent álit sitt um haganlegastan ferjustað á Brúará, og samþykkti nefndin, eftir uppástungu hans og sýslunefndarmanns hreppsins, að lögferja verði sett á Böðmóðsstöðum. Beiðni ábúandans þar um styrk til að kaupa ferjubát áleit nefndin sér óviðkomandi, þar sem að hreppavegur getur legið að ferjustaðnum.
24. Samþykkt var, að senda alþingi bænarskrá um, að veita fé til að brúa Ölvesá; nefndinni væri þetta mál hið mesta áhugamál.
26. Sýslunefndarmaður Stokkseyrarhrepps vakti máls á því til athugunar fyrir nefndina síðar meir, að sér væri kunnugt, að kring um árið 1860 hefði verið stofnaður vegabótasjóður fyrir Árnessýslu af erfingjum Johnsens sál. á Ármóti, að upphæð upphaflega 400 rdl., sem síðan hafi verið aukinn með samskotum annarsstaðar frá, og hafi verið undir stjórn og umsjón erfingjans Magnúsar Jónssonar í Bráðræði.
27. Uppástungur þær, sem nefndin, eftir áskorun amtsins, hafði heimtað um, hverjir vera skuli hreppavegir, voru komnar frá öllum hreppum, nema Hrunamannahreppi. Til að samrýma þessar uppástungur hinna ýmsu hreppa var kosin 5 manna nefnd, og laði hún síðar á fundinum fram tillögur sínar, sem voru samþykktar með litlum breytingum. Var síðan amtsráðinu send skrá yfir hreppavegi sýslunnar.
28. Mælt var með að beiðni Selvogshrepp um 100 kr. úr landsjóði til framhalds vegabótum á Grindaskarðavegi.
29. Þá var rætt um sýsluvegi sýslunnar. Þessar breytingar á sýsluvegum voru samþykktar:
a. að vegurinn yfir Grafningsháls, yfir Álftavatn, austur yfir Grímsnes að Spóastaðaferju verði sýsluvegur.
b. að hinn svo nefndi Ásavegur verði framlengdur yfir Merkurhraun að Nautavaði á Þjórsá.
c. að í stað sýsluvegarins frá Gneistastöðum að Egilsstöðum verði framvegis sýslu- og póstvegur vegurinn frá Gneistastöðum frá hjá Villingaholti að Nesferju á Þjórsá.
Skýrslur prestanna um verkfæra menn, sem eftir ákvæðum nefndarinnar á síðasta fundi áttu að leggjast sem fylgiskjöl með hreppstjóraskýrslum, vantaði alveg frá Gnúpverja- og Selvogs-hreppum og Hrepphólasókn í Hrunamannahreppi. Úr Biskupstungnahreppi vantaði allar verkfærraskýrslur. Nefndin fól oddvita, að ganga ríkt eftir, að hinar vantandi prestaskýrslur verði sendar, og rannsaka eftir þeim skýrslur hreppstjóra, en byggja fyrst um sinn, hvað Biskupstungur snertir, á fyrra árs skýrslu, sem svo leiðréttist síðar. Nefndin bætti 6 mönnum inn í skýrslur hreppstjóranna.
Sýsluvegabótagjald sýslunnar þetta ár er. ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. c. kr. 1.612,00
Eftirstöðvar af f. á. veggjaldi ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. 247,80
= 1.859,80
Auk þess sótti nefndin um úr landssjóði til póstvega:
a. það sem óunnið var fyrir af þeim 1.000 kr., sem fyrra ár
voru veittar til póstvega ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. 487,47
b. að nýju fyrir þetta ár ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. 1.000,00
Þessum samtals ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. kr. 3,347,27
samþykkti nefndir að verja þannig, ef hinn umbeðni styrkur fæst:
Kr.
a. til aðgjörðar á póstvegunum frá Torfeyri að Laugardælum ¿¿¿ 150.00
b. til vegarins frá Torfeyri að Kotferju-ferjustað ¿¿¿¿¿¿¿¿ 100.00
c. til vegarins yfir Þurármýri ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.¿.. 60.00
d. til framhalds vegarins í Grímslækjarhrauni ¿¿¿¿¿¿¿¿¿ 60.00
e. til Melabrúarinnar (nl. Eftirstöðvar f. á. 247 kr. 80 a.
og að nýju 500 kr.)
f. til vegarins frá Óseyrarnesi að Baugstaðasíki ¿¿¿¿¿¿¿¿. 317.00
g. til vegarins frá Baugstaðasíki að Sandhólaferjustað ¿¿¿¿¿. 150.00
h. til Ósavegarins (þar í fólgin endurborgun á láni f. á. 35.95) ¿¿.. 289.95
i. til Kárastígs í Þingvallasveit ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿... 320.00
j. til ruðnings frá Gjábakka austur á Hrafnabjargaháls ¿¿¿¿¿¿ 30.00
k. til endurborgunar á láni f. á. til íburðar í Neðridalsá o.fl. ¿¿¿¿ 24.00
l. til ruðnings á Grafningshálsi 25 kr. verstu kafla yfir Grímsnes
til Spóastaðaferju 25 kr. ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. 50.00
m. til ruðnings á Merkurhauni ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. 40.00
n. til timburflaka fyrir framan Bitru ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ 20.00
o. til póstvegarins frá Laugardælaferju að Gneistastöðum:
1. til fullkomnunar veginum fyrir framan Krókskot ¿¿¿¿¿¿... 430.00
2. til smábrúa hjá Gneistastöðum ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ 46.00
3. til framhalds veginum frá Laugardælum að Hraungerði ¿¿¿¿ 861,47
= 3.696.22
Hinn síðast nefndi vegur skal veða út undan, verði landssjóðsstyrkurinn minni, en um er beðið.
Þær 348 kr. 95 a., sem hinar áætluðu vegagjörðir nema meira, en vegagjaldið, sem von er um, var ákveðið að taka að láni upp á endurborgun næsta ár. Þar sem engri af þessum vegabótum mætti fresta, vegna ótíðarinnar næstl. Haust.
30. Hreppsnefnd Grímsneshrepps hafði leitað liðsinnis nefndarinnar, til að koma brú á Sogið. Nefndin sinnti þessari beiðni á þann hátt, að hún veitti allt að 150 kr. til að útvega skoðunargjörð á brúarstæðinu og áætlun um kostnað af brúnni, og fól nefndarmanni Stokkseyrarhrepps að útvega þetta.
31. Björn bóndi Jörgensson á Þurá í Ölvesi hafði kvartað yfir skemmdum á Þurármýri, þar sem sýsluvegur liggur yfir og hún er óbrúuð, og beðið um brú yfir þetta svæði. Þar sem mál þetta var alveg óundirbúið, hafði ekki verið borið undir hreppsnefnd og engin áætlun gjörð, sinnti nefndin því ekki að öðru en því, að gefa hlutaðeigandi hreppsnefnd leyfi til að taka allt að 30 kr. lán upp á sýslusjóðinn, til að brúa hinar verstu keldur á nefndu svæði.
32. Um framkvæmd sýsluvegavinnunnar var þetta ákveðið:
að vinna að Melabrú, Kárastaðastíg og ruðningur frá Gjábakka verði boðið upp einnig utansýslumönnum á almennu undirboðsþingi, sem haldið sé seinast í maímánuði og birt af oddvita;
að vinnan á póstveginum í Hraungerðis- og Villingaholts-hreppum verði boðin upp að Hraungerði 19. júní á sama hátt.
Til aðstoðar oddvita við þessa undirboðsþing voru kosnir nefndarmennirnir úr Sandvíkur- Hraungerðis- og Þingvalla-hreppum.
Til umsjónar og framkvæmdar vinnunni að Melabrú voru kosnir nefndarmenn Stokkseyrar- Sandvíkur og Ölves-hreppa.
Aðrar vegabætur skyldu verða boðnar upp á manntalsþingum, en framkvæmdar með daglaunavinnu, ef eigi fengist viðunanleg undirboð.
Nefndin samþykkti sölu á eign Skeiðahrepps í jörðinni Skeiðháholti.
Nefndinni hafði borist, að búendur í Flóagaflshverfi og nokkrir búendur í Kaldaðarneshverfi hefðu á útlíðanda slætti f. á. í ruðningahátíð teppt í aðalvatnsrúmið á Melabrú og með því skemmt brúna að miklum mun, og sannaðist nú að þetta væri satt. Nefndin lét í ljósi megna óánægju yfir, að þetta hefði átt sér stað óátalið undir handarjaðri lögreglustjórans, en lét sér þetta sinn lynda, að hinir seku inni af hendi 25 dagsverk í vinnu að Melabrúnni og lýsi sekt sinni yfir í blaðinu “Ísafold”. Nefndarmaður Sandvíkurhrepps hefir ábyrgð á, að þessu sé fullnægt.


Austri, 11. des. 1885, 2. árg., 27. tbl., bls. 106:
“Mæra-Karli” finnst menn fara offari í brúarmálinu. Brýr á Þjórsá og Ölfusá séu ekki eins bráðnauðsynlegar og sumir vilja meina, og ekki sé rétt að láta landssjóð borga brúsann.

Um brúargerð á Þjórsá og Ölvesá.
Eitthvert hið mesta útgjaldamál landssjóðsins, sem nú hefur verið á dagskrá, er brúarmálið. Um brú á Þjórsá og Ölvesá hefur nú svo margt og mikið verið ritað sem kunnugt er, bæði í sunnanblöðin, “Fréttir frá Íslandi 1884” og nú seinast í “Austra” II. 11., og hafa flestallar þessar raddir talið brýrnar bráðnauðsynlegar og sjálfsagt að koma þeim á. Það hefur jafnvel verið fullyrt, að brúarleysið á stóránum stæði öllum Sunnlendingafjórðungi fyrir þrifum, að það gerði “slíkan trafala, að lítil von væri að nokkur menntun eða framför gæti þrifist (þar? Eða neins staðar á landinu?) fyrr en þær væru gerðar færar með einhverju móti” (eru þær nú ófærar með öllu móti?). Svo hefur verið sagt, að Sunnlendingar (líklega þeir sem eru fyrir austan árnar) ættu yfir þær að sækja “alla menntun, allt samblendi við það, sem ekki væri mannsaldri á eftir tímanum, og alla matbjörg” (kemur þá allt þetta frá Reykjavík einni, og eiga ekki fleiri landsbúar jafn-örðugt að sækja þangað?). Þetta brúamál hefur jafnvel verið talið enn meira nauðsynjamál en bankamálið, og það hefur verið sagt, “að sorglegt væri, ef meiri hluta þingsins skyldi lengur nokkuð blandast hugur um það mál, sem með engu móti mætti dragast”.
Eftir öll þessi stóryrði er furða, hvað lítið verður ágengt í málinu; meiri hluti (neðri deildar) Alþingis getur enn ekki sannfærst um að rétt sé “að afgreiða málið með fjöri og fylgi”, og forsprakkar þess geta ekki fagnað því, að framfaraglamrið í brúasinnum hafi látið svo hátt í eyrum þingmanna, að þeir hafi ekki gætt nauðsynlegrar varúðar í þessu mikla vandamáli, en með því að mér finnst allt of lítið hafa verið ritað um það af þeim, sem ísjárvert þykir að verja allt að 200.000 kr. úr landssjóði til að brúa þessi 2 vatnsföll, þá vil ég gera nokkrar athugasemdir um brúamál þetta, sem sannarlega á það skilið, hvernig sem á það er litið, að því sé alvarlegur gaumur gefinn, þar sem hér er annars vegar um að ræða miklu stærri útgjöld úr landssjóði, heldur en hingað til hefur verið varið til nokkurs einstaks fyrirtækis, en hins vegar um þau stórvirki, sem í útlöndum eru sjálfsagður vísir til stórkostlegra framfara, og margur kann því að ætla, að enginn kostnaður sé til sparandi, og sjálfsagt sé fyrir hvern “framfaramann” að vera hlynntur.
En þess er fyrst að gæta, að hér á landi er mjög öðruvísi ástatt með margt, en víðast í útlöndum, hér er byggðin miklu strjálli, fólkið miklu færra og vörumagnið miklu minna; verður því sú raun á, að stórkostleg fyriræki borga sig síður hér en þar. En þetta vita reyndar flestir, og Sunnlendingar austanfjalls vita það líka. Því eru þeir svo tregir til að kosta nokkru til brúnna sjálfir, en vilja láta landssjóðinn, “þennan maurasegg, sem þeim liggur við að hneykslast á”, leggja fram allan kostnaðinn sem gjöf. En er nú gjörlegt að gefa þeim svona mikið í þessu skyni, eða hafa þeir heimting á því? Þegar þessu skal svara, kemur fyrst til skoðunar, hvort sundár þessar eru í raun og veru meiri farartálmi, heldur en ótal margar torfærur aðrar víðsvegar um landið: fjöll og hálsar, hraun og klungur, fen og foræði, ár og eyðisandar, sem allt hlýtur að hindra samgöngurnar og gera viðskiptin torveldari. Það er mikið vafamál, hvort það er nokkuð verra fyrir hesta, að synda lausir yfir þessar ár, heldur en að vaða yfir straumhörð, djúp og ísköld jökulvötn með þunga bagga á bakinu, eða að brjótast um í hálfófærum keldum, eða að klifra upp snarbratta hálsa og heiðarbrúnir, þótt ekki sé tekið það sem verst er, og það er að fara yfir fjöll og firnindi í ófærð á vetrardag, þar sem það ber stundum við, að hver hesturinn á fætur öðrum uppgefst og drepst af ofþreytu. En til þessa kann að verða svarað, að á þessum torfærum sé nú verið að ráða bót af landsfé. Nokkuð er að vísu gert í þá átt, en hvergi nærri það sem þarf til að gera vegina svo greiða, sem vegir í útlöndum eru, eða vegir ættu að vera, ef landinu yrði fullra framfara auðið, enda mun það langtum ofvaxið kröftum landsins, á því stigi sem það nú er, að leggja vegi um allt land, grafa sundur fjöll og hálsa, og brúa hverja á, sem mannskæð getur orðið, sem fleiri eru en dagar í árinu. En fyrst þessu er svona háttað, og allur fjöldi landsbúa má búa við lík kjör og Sunnlendingar, en sumir miklu verri, þá verður meir en vafasamt hvort þeir hafa öllum öðrum fremur heimtingu á hinum stórkostlegustu framlögum úr landssjóði til að bæta samgöngurnar hjá sér.
En – allt fyrir þetta – væri það í raun og veru svo sem brúasinnar virðast ætla, að brýrnar mundu gera Sunnlendingafjórðungi svo ómetanlegt gagn, að sá landshluti tæki svo stórvægilegum framförum, að allt landið lyftist við það á æðra stig í velmegun og hverskyns blóma. Þá væri sjálfsagt að spara fátt til þess, að brýr þessar kæmust á sem allra fyrst, því að hér væri þá um mikilvægt almennings gagn að ræða. En ætli þetta yrði svona í reyndinni? Hvaða gagn yrði helst að brúnum? Þær mundu greiða fyrir samgöngunum og gera verslunarviðskiptin hægri á líkan hátt og þegar menn fá nýjan verslunarstað nær sér en verið hefur, sem venjulega er talsverður hagur fyrir reglumenn, en oft til hins mesta ófarnaðar fyrir tóbaks-elgi, vínsvelgi og kaffibelgi. Mér kann nú að verða svarað, að ég sé ekki fjárhaldsmaður þeirra, og þeir megi fara á vonarvöl ef þeir gæti sín ekki, en úr því að þeir eru einu sinni til, þá er það þó til skaða fyrir sveitirnar, að þeir eyði fjármunum sínum, og verði síðan upp á aðra komnir. Og fyrir utan það, að óþarfakaupin aukast, jafnvel fyrir þeim, sem ekki eru taldir óreglumenn, við það að kaupstaðarleiðin verður fljótfarnari, þó fjölga líka kaupstaðarferðirnar, svo að tímasparnaðurinn sem bæði er gert og má gera mikið úr (ef tímanum væri vel varið!) verður alls enginn, miklu heldur sýnir reynslan það, að margir þeir sem hægt eiga með að skjótast í kaupstaðinn, eyða miklu meiri tíma til kaupstaðaferða að öllu samtöldu, heldur en þeir sem eiga langa leið og erfiða. Þá er að minnast á hestasparnaðinn, hann kann vel að verða nokkur, að því leyti sem komast má af með færri hesta, þar sem kaupstaðarleið er hæg og greiðfær, heldur en þar sem erfitt er til aðdrátta, en samt er ekki víst, að hrossatalan yrði stórum minni fyrir það, þótt brýrnar kæmust á, því að margir mundu verða tregir til að takmarka hrossaeign sína og þykjast þurfa mikið á hestum að halda eftir sem áður. Einkum finnst mér ólíklegt, að þeir “sem hafa kaupstaðarleið sem skiptir þingmannaleiðum, og mörg önnur stórvötn yfir að fara” mundu fækka hröffum til muna fyrir brýrnar. Að þessir menn, sem lengsta kaupstaðarleið eiga hér á landi (Vestur-Skaftfellingar) kynnu að hafa nokkurt gagn af brúnum að því er sauðfjárverslun snertir, er líklegt; þótt hætt sé við, að hún yrði ætíð stopul vegna hinna mörgu og vondu jökulvatna á leiðinni, sem ekki er umtalsmál að brúa, með því að hafa svo breytilega farvegi. Án þess að ég vilji draga í efa, að brýrnar mundu auka viðskipti manna og fjörga félagslífið á ýmsan hátt, þá er ég mjög hræddur um, að umbreyting sú, sem þær mundu gera á högum landsmanna yfir höfuð að tala, og sérstaklega á kjörum sveita þeirra, er mest mundu nota þær, verði langtum minni en brúasinnar gera sér í hugarlund, og þeir meig lengi bíða eftir allri þeirri velgengni, búsæld og blóma, sem þeir þykjast sjá í anda sem vísan ávöxt af brúnum.
En engu að síður skal ég gjarnan játa það, að fyrirtækið geti verið gott og blessað í sjálfu sér, eins og allar vegabætur, allt sem miðar til þess, að greiða á einhvern hátt götu framfaramannanna og framkvæmdarmannanna, hvar á landinu sem þeir eru. En ef þessar ár eru ekki verri torfærur en margar aðrar hér á landi, og ef lítil líkindi eru til, að brýrnar áorki miklu til að efla velmegun landsins í heild sinni, þá virðist brýn skylda hvíla á landssjóði til að kosta brúagerðina einn, og því síður er ástæða til að leggja þar að auki á hann þá skyldu, að halda brúnum við. En svo er líka þess að gæta, að þeir sem yfir árnar sækja, mundu hafa að einu leyti beinlínis peningahag af brúnum, með því að þeir losuðust við verjutollana, sem sagt er að samsvari vöxtum af 150.000 kr. fjárstofni og virðist það því liggja beint í hlutarins eðli, að hlutaðeigandi sveitum sé vel tilvinnandi að leggja ríflega fé til brúagerðarinnar. Ef þeim þætti svo við eiga, að setja brúartoll aftur í stað ferjutollanna, til að vega upp í fjárframlagið, þá ættu þær að vera sjálfráðar um það, en hitt virðist mér ekki geta komið til mála, að landssjóður hafi þar nein afskipti af; hann hefur nóg að annast samt, og það er of kunnugt, hvernig menn safnast að honum eins og ernir að hræi, og hversu verk þau eru oft slælega unnin, er gera skal fyrir landsfé, til þess að því sé treystandi, að það svari kostnaði, að setja brúarvörð, er landssjóður kosti.
Mér sýnist engin þörf á, að landssjóður fari að hjálpa Sunnlendingum til að losast við ferjutollana, þeim að kostnaðarlausu, og mig furðar á því, að höf. brúargreinarinnar í “Austra”, sem greinir svo skýrt og vel frá upphæð ferjutollanna, skuli halda því fram, að landssjóður eigi að leggja fram kostnaðinn til brúnna að meira hluta sem tillag eða gjöf, en að meira hluta sem lán, þar sem ferjutollarnir mundu (með tímanum) ná langt upp í kostnað þann, sem áætlaður er til brúagerðarinnar. Og undarlegt er, að bæði þessi greinarhöfundur og flytjendur málsins á alþingi skuli segja, að sýslunum sé ofvaxið að taka lán til brúagerðarinnar, þar sem þær kosta árlega svo mikið til ferjutollanna, sem þær nú gera. Það er auðvitað mjög þægilegt fyrir Sunnlendinga að sleppa við allan ferðakostnað yfir árnar með því að láta landssjóð brúa þær, en víðar þarf að bæta vegi og brúa ár en á Suðurlandi, og landssjóður hefur í svo mörg horn að líta, að það er víðsjárvert, að skerða hann um svo mikið fé, að hundruðum þúsunda króna skipti, til hagsmuna einstökum sýslum.
En þessar sýslur eru “vegalausar og póstskipslausar”, segir Rangæingurinn í Ísafold XII, 14, það er að segja, þar eru engir fjallvegir og strandferðaskipin koma þar ekki við. Viðvíkjandi hinu fyrra finnst mér Sunnlendingar mega þakka náttúrunni fyrir, að fjallvega gerist þar ekki þörf, eða ætli þeir vildu, að í stað Þjórsár væri kominn snarbrattur og gróðurlaus fjallgarður, með óbotnandi ófærð af snjó á vetrum? En hitt er þeim vorkunn, þótt þeim þyki súrt í broti, að gufuskipin koma ekki til þeirra, en við þá kosti mega fleiri búa en þeir, og þetta er meðfram að koma hinu öfuga fyrirkomulagi strandferðanna, sem aldrei verða ráðnar bætur á, meðan “hið sameinaða danska gufuskipafélag” hefur þær á hendi, en hefðum vér smærri gufuskip (strandferðabáta), gætu þau komið miklu víðar en strandferðaskipin koma nú, og vafalaust á Eyrarbakka og Stokkseyrarhöfn. Hafnaleysið er þó svo mikill ókostur á sýslum þessum, að vel mætti leggja eitthvað meira til vegabóta á aðalvegum á þeim af landssjóði, heldur en lagt er til sýsluvega í þeim héruðum, sem hafa greiðari skipaleiðir og betri hafnir. (Það gæti t. d. verið umtalsmál, að landsjóður hjálpaði til að leggja vagnveg frá Eyrarbakka austur að Þjórsá, svo að þeir, sem fyrir austan hana búa, þyrftu ekki að fara yfir hana með hesta, til að sækja matbjörg sían), en af þessu leiðir ekki, að landssjóður sé skyldur til að leggja fram það stórfé til brúnna sem sýslurnar heimta, og sem ekki er ólíklegt, að verði miklu meira en áætlað er, því að ekki hefur stórsmíðafræðingi Windfeld Hansen tekist svo vel með tillögur sínar í þessu brúamáli, að fullkomlega sé treystandi áætlun hans, enda mun hann kunnugri lygnu fljótunum í Danmörku, heldur en straumþungu jökulvötnunum hér á landi. Þótt ólag sé bæði á vegabótum og strandferðum, og þetta sé hvorttveggja misjafnlega af hendi leyst, þá verður þó oftast eitthvað gagn af fé því sem til þeirra hluta gengur, en hvaða gagn yrði að fé því, sem lagt væri til brúagerðarinnar ef tiltækið skyldi á einhvern hátt mistakast, ef brúasmíðið yrði illa af hendi leyst, eða brúastæðin illa valin, ef brýrnar skyldu brotna af einhverjum orsökum þegar þær væru nýlagðar? Hér er svo mikið í húfi, og um svo mikið fé að ræða, að öll þörf er á að fara varlega, og með tilliti til þess hygg ég það sé ekki heppilegt að landssjóður hafi einn veg og vanda af brúnum, heldur vil ég láta fyrirtækið hvíla sem mest á þeim, sem annast er um það, sem kunnugastir eru ánum og mest mundu nota brýrnar.
En svo er enn að athuga þá ástæðu, að landssjóður eigi að kosta einn aðalpóstveg um landið, og eftir því sé hann skyldur til að kosta brýr á Þjórsá og Ölvesá. Þessi hugmynd er álitleg. Það skal ég játa, en eins og ég hefi drepið á hér að framan, er hún eigi svo framkvæmileg sem hún lýtur vel út við fyrsta álit. Eins og Jón Sigurðsson á Gautlöndum tók fram á síðasta þingi, er hætt við að það mundi verða of mikið byrði á landssjóði, ef öllum aðalpóstvegum væri dembt upp á hann, og af því mundi að líkindum leiða algert afskiptaleysi af þessum vegum af sýslunefndanna hálfu, en það væri mjög óheppilegt og vegabótunum til engra framfara. Og ætti þessi aðalvegur um allt land að vera svo góður vegur, að póstur gæti alla-jafna komist leiðar sinnar tálmunarlaust, alsettur brúm og öðrum forvirkjum, þá mundi hann seint verða fullgerður, því að hér er svo endanlega margt að gera, og vér svo fjarskalega skammt á veg komnir í verklegri kunnáttu, að lítil von er til að stórvirki gangi greiðlega fram hér hjá oss að svo stöddu. Þótt landssjóður væri látinn leggja á stað “í austurveg að berja tröll” eins og Þór í fyrri daga, (sbr. Ísaf. XI. 20), þá er ekki alveg víst að hann ætti sigri að hrósa, heldur mætti við því búast að Mjölnir hans slitnaði svo á viðureigninni við óvættina á Suðurlandi, að hann yrði orðinn lítt nýtur þegar á austurvegu kæmi, og veitti þó ekki af að hann væri þá að gagni, því að þar kynni þessi Öku-Þór að hitta þá óvætti, sem gætu gert honum jafn eins og hyskið hans Útgarðaloka gerði forðum nafna hans Ásaþór.
Skynsamlegasta stefnan í vegabótum væri að minni hyggju sú, að sem fæstir vegir hvíldu beinlínis á landssjóði, heldur hefðu sýslunefndirnar aðalvegina til umsjónar hver fyrir sína sýslu, og væru þeir kostaðir af sýslusjóðum að nokkru leyti, en landssjóður legði árlega ákveðna upphæð til vegabóta í hverri sýslu, og ef hér eða þar þyrfti að ráðast í eitthvert stórt vegabótafyrirtæki, þá væri það styrkt öfluglega af landssjóði með láni til hlutaðeigandi sýslufélaga, og tillagi (eða gjöf) að nokkru leyti, eftir því sem til hagaði í hvert skipti. Samkvæmt þessu vil ég láta sýslunefndirnar í Árness- og Rangárvallasýslum standa fyrir brúargerðinni á Ölvesá og Þjórsá og öllu viðhaldi brúnna, en landssjóð vil ég láta veita þeim lán með bestu kostum og mér sýnist jafnvel landssjóður vel mega styrkja þetta stórkostlega og mikilvæga fyrirtæki með beinu tillagi eða gjöf að nokkrum hluta, ef hlutaðeigandi sýslubúar sýna góðan vilja í því að taka upp á sig meiri hluta kostnaðarins. Ég er sannfærður um, að brúarmálinu hefði þokað betur áleiðis en komið er, hefðu sýslurnar ekki verið of heimtufrekar við landssjóð, því að öðrum landsbúum mun seint skiljast, að rétt sé að láta þær fá 200.000 kr. eða meira að gjöf úr landssjóði til að brúa sínar ár, en aðrar sýslur fái ekkert, (nema ef til vill sem lán) til að brúa sínar, og sumar ekki einu sinni neitt fé til nauðsynlegustu fjallvegabóta.
Mæra-Karl.


Tenging í allt blaðaefni ársins 1885

Ísafold, 28. jan. 1885, 12. árg., 4. tbl., forsíða:
Sæluhús gengdu áður miklu hlutverki fyrir ferðamenn. Ísak Ingimundarson austanpóstur skrifar hér um Sigurbjörn sæluhúsvörð á Kolviðarhóli og finnst hann ekki eins góður og fyrirrennari hans.

Sæluhúsvörðurinn á Kolviðarhóli.
Sigurbjörn, er nú búinn að koma því til leiðar, að nábúi hans Jón Jónsson hefir verið kallaður fyrir rétt fyrir óleyfilegar veitingar. Það er nú sér. Almenningur spáði ekki miklu góðu um komu Sigurbjörns á Kolviðarhól, enda hefir hann ekki orðið vinsæll þar. Ég hefi gist hjá honum eina nótt, eftir boði hans sjálfs, en án þess að lýsa því frekar, var gistingin á þann hátt, að ég hef ekki komið til hans oftar. En þar á móti hefi ég ávallt komið til Jóns og þegið hjá honum beina, og hef ég vel fundið, hvers virði það var að geta flúið til hans, eins oft og ég þarf að afar yfir Hellisheiði. Enda hefir þar oft verið húsfyllir, þegar ég hefi verið á ferð, en enginn maður hjá hinum.
Það er eitthvað óskiljanlegt við þetta. Jón er ofsóttur fyrir það, að ferðamenn geta fengið hjá honum flestar nauðsynjar sínar. En Sigurbjörn er launaður af almannafé fyrir það að sitja í þjóðbraut, þótt fæstir vilji né geti neitt við hann skipt.
Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að Jón er sá eini af þeim þremur, sem verið hafa á Kolviðarhól, er hefir áunnið sér hylli manna, og sanna það best hin almennu meðmæli (þó þeim væri ekki gaumur gefinn), er hann fékk þegar það fréttist að honum væri vísað burt, sem líklega hefir ekki verið af þeirri ástæðu, að koma Soffíu dóttur Hallberu þangað, en þó sjálfsagt af gildum ástæðum. En þetta kom eins og fjandinn úr sauðarleggnum flatt upp á alla, að Sigurbjörn var orðinn sæluhúsvörður, en Jón rekinn burt.
En yfirvaldinu þykir má ske að mér og mínum komi það lítið við, hver er sæluhússvörður. En mér getur ekki verið sama, og ég álít það heppilegt, bæði fyrir mig og aðra að Jón fór ekki lengra en hann fór.
Það mun verða lítið skjól fyrir hesta í vetur í hinu tilvonandi hesthúsi Sigurbjarnar; eða hvar skyldi vera hey það, sem hann gæti selt ferðamönnum? Meðferð hans á gamla sæluhúsinu er ekki góð, og ótrúlegt að hann hafi haft leyfi til þess; en ef það er ekki, þá ætti hann að hafa ábyrgð á því.
Það lítur svo út, sem nú eigi að fara að neyða menn til að aðhyllast Sigurbjörn með því að lögsækja Jón, og ef það væri mögulegt, þá að flæma hann í burtu. En ég vona, að Sigurbjörn víki þá ekki lengi.
Í janúar 1885.
Ísak Ingimundarson austanpóstur.


Ísafold, 4. feb. 1885, 12. árg., 6. tbl., bls. 23.:
Sigurður Vigfússon segir forfeður okkar hafa kunnað ýmislegt fyrir sér í stórvirkum og það sjáist fyllilega á Sturlungu að brú hefur verið áður fyrr á Hvítá í Borgarfirði, sem líklega var af mönnum gerð. Nú ætli Borgfirðingar aftur að taka sig saman og brúa Hvítá og sé það manndómsfyrirtæki og þarfaverk.

Hvítárbrú.
Það sést meðal annars á vorum merku fornritum, að forfeður vorir hér á landi; kunnu ýmislegt í verknaði, sem stórvirki mátti heita. Þeir byggðu t. d. haffærandi skip og stórhýsi heima hjá sér, þó ekki væru þau af steini gjör. Að gjöra brýr á stór vatnsföll, hefir verið nokkuð algengt, og því segir Grágás Kb. Bl. 130: “Smiðar þeir er hus gera or avströnom viðe. Bruar vm ar þær eða votn er net næmir fiscar ganga i eða gera buðir a alþingi. Þeir eigo cost at taca daga cavp vm engi verk”. Hér er verið að tala um “heimilisföng”, og hafa þessir menn rétt fram yfir aðra, og mega vera lausir á sumrum og taka kaup, en Grágás tekur þó hart á lausamennsku, og það varðaði við lög, að hafa ekki vist. Það sést fyllilega á Sturlungu, að brú hefir verið á Hvítá í Borgarfirði, sem líklega var af mönnum gjörð. Eins og kunnugt er, var sættafundurinn lagður við “Hvítárbrú” milli Kolbeins unga og Gissurar Þorvaldssonar og Órækju, út af vígi Snorra Sturlusonar; þar voru biskupar báðir og ábóti og Sturla Þórðarson og fl. (Sturl. Oxford I. Bl. 404-406); hér er brúin svo oft nefnd, og brúarsporðarnir, að ekki er um að villast. Þegar ég var á rannsóknarferð í sumar í Borgarfirði (þessi ferð viðkemur meira eða minna rannsókn í 8 merkum sögum) gerði ég mér far um að ganga úr skugga um, hvar Hvítárbrú hefði verið; en þetta liggur í augum uppi, þegar á staðinn er komið og borið saman við orð sögunnar.
Ég fór frá Reykjaholti 13. sept. og fyrst út að Skáney. Þaðan yfir hálsinn, og út og niður að Hurðarbaki, sem stendur að sunnanverðu við Hvítá. Skammt upp frá ánni, undan Hurðarbaki eða litlu neðar í stefnu heitir nú Kláffoss á Hvítá. Bjarni bóndi fylgdi mér þangað. Þar ganga klappir út í ána beggja megin, hvor á móti annarri. Klöppin að sunnanverðu er lengri, og nær langt út í ána, en er lægri en sú að norðanverðu. Áin fellur á þessum stað í þrengslum og eru þar klettar niðri í. Myndast þar af nokkur hallandi foss, fyrir neðan einkanlega slær áin sér mjög út aftur, og er þar ákaflega breið, á milli klappanna hefir verið mælt með færi þegar áin var lögð ísi, og eru það 17 álnir. Hér er því frá náttúrunnar hendi eitt hið hentugasta brúarstæði; er það því víst, að Hvítárbrú, sem Sturl. Talar um, hefir verið hér. Af orðum sögunnar er það líka nær ákveðið, því Gissur sem kom að sunnan, var með flokk sinn að Hurðarbaki, sem er næsti bær að sunnanverðu við ána, sem fyrr segir, en Órækja, sem að vestan kom, reið í Síðumúla um kvöldið, sem er næsti bær fyrir ofan Síðumúlaveggi, en þeir eru nær því beint á móti Hurðarbaki fyrir norðan ána upp frá Kláffossi. Í Síðumúla hafa þeir Órækja fremur verið, af því þar var meiri bær og betri gistingarstaður, og þó allskammt. Kolbeinn reið í Reykholt og Sturla, sem var í gísling, og með þeim 2 menn, má vera að hann hafi átt þangað erindi. Daginn eftir riðu þeir allir aftur til brúar, biskupar gengu á milli og ábóti, vildi Órækja jafnvel að þeir Kolbeinn fyndust á brúnni, en hún var mjó, Gissur lést ekki vilja á hana ganga, loksins fengu þeir Órækju til að ganga suður yfir brúna, gekk hann með sveit manna, en Svarthöfði fór ekki lengra en að brúarsporði, en þegar Órækja vék upp frá brúnni, hlupu þeir Gissur fyrir brúarsporðinn með allan flokkinn, og var þá enginn kostur að fara yfir ána vestur eða suður, eins og sagan nefnir það; hér er því allt skýrt ákveðið. Þar sem Órækja ætlaðist til að þeir Kolbeinn og Gissur og hann mættust á brúnni, ásamt nokkrir menn með hverjum, sem hlutu að vera vottar við sættina, og þá fleiri er hér áttu hlut að, þá hefir þó brú þessi ekki verið svo allmjó; þeir hafa þó þurft töluvert rúm allir saman.
Hér var á síðari tímum hafður kláfur á ánni, og þar af er nafnið komið, sem síðan hefir haldist; en ekki hefir hann verið í þeirra manna tíð sem nú lifa. En til merkis eru sýndarholur, sem klappaðar hafa verið ofan í bergið og settir þar í járnbútar eða krókar til að festa í kaðlana. Ég sá 2 holur að sunnanverðu, er mannaverk sýndur á; að norðanverðu kom ég ekki, því ekki verður þar komist yfir ána. Ég sá og í einum stað votta fyrir fornum götum, sem lágu þvert á ánni að sunnan frá. Það er enn eitt, sem ræður úrslitum þessa máls: hvergi á þessum svæði er nokkurt brúarstæði á Hvítá nema á Kláffossi; til að sannfærast hér um, reið ég niður með ánni að sunnan allt niður að ármótum, þar sem Reykjadalsá kemur í Hvítá. Þar eru allstaðar melbakkar að ánni og flá melaborð, og áin breið, hvergi klappir eða þrengsli; sama er að segja upp frá Kláffossi og allt upp að Bjarnafossi, sem nú er kallaður í daglegu tali Barnafoss; þar er hvergi brúarstæði á ánni; það mun vera um ½ þingmannaleið. Upp á Bjarnafossi er og gott brúarstæði; áin fellur þar í gljúfrum. Þar var brú á 11. öld, (sjá Heiðarvígas.bl. 359); en munnmæli eru, að það hafi verið steinbogi, og er til um það saga. Má og vel vera, því Músa-Bölverkur “veitti Hvítá í gegn um ásinn”, að Landn. Segir, bl. 67. Ég skal enn geta þess, að Brúarreykir er næsti bær fyrir neðan Síðumúlaveggi, og þó eigi allskammt niður með Hvítá. Það er líklegt, að þeir séu kenndir við Hvítárbrú.
Nú hafa Borgfirðingar tekið sig saman og ætla að brúa Hvítá, að því er ég heyrði. Það er manndómsfyrirtæki og þarfaverk. Ef þeir hafa brúna á Kláffossi, getur hún orðið notið af langferðamönnum, hvort heldur þeir fara Bröttubrekku eða Holtavörðuheiði. Þegar ekki er nema um eina brú að ræða á allri Hvítá, þá er þessi staður sá langhentugasti að því leyti, að það er nær í miðju héraðinu. Eru því líkindi til, að landstjórnin mundi vilja styrkja þetta þarflega fyrirtæki.
Sigurður Vigfússon.


Ísafold, 13. maí 1885, 12. árg., 21. tbl., bls. 82.:
Jón Magnússon frá Heynesi fékk vinnu við vegabætur eftir að pótsmeistaranum þóknaðist ekki lengur að hafa hann fyrir póst. Í ljósi reynslu sinnar lætur hann hér í ljós sína einföldu og hreinskilningslegu skoðun um hvernig vegabótum sé best fyrir komið.

Hálfyrði um vegabætur.
Þar sem nú er orðið tíðrætt í blöðum um vegabætur á landi voru og af því að vænt er að bera saman álit manna um þær, þá dettur mér í hug að láta í ljósi mína einföldu en hreinskilningslegu skoðun um það, sem ég held skilyrði fyrir varanlegum vegum.
Eftir að póstmeistaranum þóknaðist ekki að hafa mig fyrir póst lengur 1874, og ég því missti þá atvinnu, fékk ég bráðum að vinna að vegabótum, fyrir tilstilli þeirra sem vildu hjálpa mér um atvinnu, amtmannsins, sem þá var, B. Thorbergs, og sýslumanns Guðm. Pálssonar. Hefi ég nú fengist við það verk nokkur sumur, og hefi oft hugsað um, hvernig vegirnir ættu að leggjast, svo að sem happadrjúgastir yrðu bæði til endingar og fjársparnaðar.
Með því að mjög oft er við breytilegt landslag og jarðlag að eiga, þá verður að haga aðferð eftir ástæðum. Það hefir ávallt vakað fyrir mér sú hugsjón, að fyrsta skilyrði fyrir heppilega lögðum vegi væri að velja fyrst stefnuna og grundvöll vegarins svo nákvæmlega og haganlega sem unnt er, og kosta heldur töluverðum tíma þar til. Þannig hef ég valið veg á fjöllum, og held það í öllu tilliti best þar sem styst er yfir, að unnt er, en umfram allt þar sem holt eru hæst og minnstan snjó festir og ekki liggur undir vötnum; og yfir höfuð forðast miklar mishæðir og votlendi. Lautir hafa einnig þann ókost í byrjun á vetrum, að bæði er þreytuauki í þeirri ófærð og óviss vindstaða.
En þar sem ekki verður við komið að leggja veg eftir holtahryggjum, þá er mikil nauðsyn að vanda vel þær upphleyptu brýr, sem ekki verður hjá komist að gera, bæði yfir lautir, urðir og votlendi, og er þá óefað flórlegging með vandvirkni langbest, þó dýr sé, með bogadreginni laut milli kanta vegarins eftir honum. Einnig þarf að athuga vandlega, hvar ræsi þurfa, svo vötn geti ræst sig gegnum brýrnar. Og með því að sjálfsagt er að leggja aldrei brýr í lautir nema í hall-lendi, þá er mikil þörf á að hafa langrennur eða sniðrennur við efri jaðar vegar að ræsa-opum. En til ofaníburðar álít ég nálega jafn tvísýnt að hafa tóman sand sem eingöngu mold. En að blanda sand og möl með ¼ af mold þeir, sem víða fæst í jörðu, helst fyrir neðan frost, það álít ég gott efni.
Ekki skyldi hafa meiri ofaníburð en svo, að myndi aðeins ávala; en bæta heldur árið eftir eða sem fyrst. Mér hefir skilist, að með ákvörðuninni um fimm álna breiðan veg væri svo til ætlast, að nota skuli vegina út á jaðra, en það er fyrirmunað með því að hafa þennan háa hrygg í miðjunni.
Ég ímynda mér, að mjög óvíða, ef nokkursstaðar á landi hér, hafi verið gerður jafn sterkur vegur og með jafn vörnuðum frágangi sem kafli sá, er við verkamenn Sighvats Árnasonar alþingismanns unnum að eftir hans fyrirsögn í Svínahrauni í sumar, og sem ég fyrir mitt leyti hafði mikið gott af hvað vandvirkni snertir. Þó efast ég um, að hann geti þrifist til lengdar, einmitt fyrir vanhugsaða stefnu hans og afstöðu. Ég fór aldrei svo til Reykjavíkur í sumar, að ég liti eigi með áhuga til þeirrar stefnu, sem mér, þótt ókunnugur væri, sýndist best valin til vegagjörðar, bæði endingar egna og sparnaðar. Líklegast minni sjón var, að hafa einn veg frá Elliðaám og upp hjá Árbæ, þaðan nær Hólmi og eftir holtahryggjum nálægt Elliðakoti, og þaðan nær því beina stefnu upp undir Lyklafell; skipta þar í tvo vegi, og lægi annar norður heiði til Þingvallasveitar og einn upp Velli eða hraunið nokkru vestar, þar sem það er hálfu haganlegra til vegagerðar bæði að lögun og vegna ofaníburðar, og kæmi þá á þann áðurgerða veg neðan til við mitt hraun. – Svona er sannfæring mín að happadrjúgastur hefði vegur orðið á þessu svæði, þar sem sneitt er hjá öllum hraunsnögum, bleytum og vötnum. Það er engin mynd á veginum upp að Svínahrauni, eins og hann er nú; er því mín fyllsta sannfæring, að bráðlega þurfi að bæta eða helst breyta vegi þessum.
Ég þekki þá sýsluvegi, og það jafnvel til kauptúna, sem búið er að fást við að endurbæta árlega svo öldum skiptir og einlægt eru ófærir, en er haldið áfram með, af vana og hugsunarleysi. Það er óskemmtileg tilhugsun að eiga fyrir hendi árlega annaðhvort að verða að vinna eða borga slíka heimsku, sem er hér um bil sama sem að kasta þjóðarinnar peningum í sjóinn eða bræða þá í eldi.
Nú hefir ég verið nokkuð margorður um vegabæturnar; er þó lítið meira en hálfsagt, þar ég álít eins hægt að gera traustan veg yfir flóa og foræði með réttri útsjón eftir ástæðum eins og yfir holt, hraun og urðir. Einungis mun verst að fást við mjög fúna jörð og moldarmóa.
Jón Magnússon frá Heynesi.


Austri, 17. júní 1885, 2. árg., 11. tbl., forsíða:
Austri hvetur til brúargerðar á Þjórsá og Ölfusá. Betra sé að landsfé sé notað til stórframkvæmda heldur en að því sé sundrað til ýmissa smáverka.

Fáein orð um vegabætur.
Í “Ísafold” 10. desember 1884, má lesa glöggt yfirlit yfir landsreikninginn 1883, og þó reikningur þessi sé nú enn óendurskoðaður, þá má ganga að því sem vísu, að þær töluupphæðir sem á nefndu yfirliti standa mismuni ekki í miklu frá þeim aðalupphæðum á landsreikningnum sem koma í ljós þegar hann verður endurskoðaður og löggiltur.
Það sem tekjurnar hafa orðið meiri á fjárhagstímabilinu en útgjöldin, eru samtals bæði árin 226.820 kr. 72 aurar. Þetta er stórmikið fé sem mjög miklu getur orkað, einkum ef afli þess er ekki sundrað til ýmissa smáverka, heldur haldið saman og beitt til framkvæmda einhverju því fyrirtæki, sem landi þessu og lýð er bráðnauðsynlegt, en krefst mikilla fjárframlaga. Eitt af þeim fyrirtækjum sem þannig virðast að vera á sig komin, eru brúarbyggingarnar á Þjórsá og Ölfusá. Það eru nú liðin meir en 10 ár síðan það landsmál var tekið til verulegrar umræðu og álits, og á Alþingi 1877 var það rækilega flutt af þingmönnum hlutaðeigandi sýslu, og skýrslur lagðar fram fyrir þingið: um ferjutolla á ánum – sem nema árl. 6.000 kr. og samsvara rentu (4%) af 150.000 króna höfuðstól, og um byggingarkostnað brúnna og byggingarlag. Sú skýrsla var gjörð af stórskipafræðing Windfeld Hansen er stjórnin hafði sent til þess, og var ætlun hans að kostnaðurinn við brúarbyggingarnar mundi ekki fara fram úr 168.000 kr. (sbr. Alþingistíðindi 1877 bls. 100 o.s. frv.)
Það sannaðist nú seinna og þegar til framlaganna kom, að hin áminnsta fjárupphæð var ónóg til þess að koma upp brúnum. Á því strandaði það verk eins og fleiri, og málið var lagt til geymslu; þó hefur því verið hreift við og við, á þann hátt, að leita ráða hver vera muni tiltækilegust til að létta af hinum mikla farartálma sem stórár þessar valda héraðsbúum þar í grennd, og öllum öðrum, sem um þá leið fara. Það hefur verið stungið upp á ýmsu, t.d. svifferjum, en það virðist auðsætt að brýrnar á ánum er hið eina ráð sem til fullnustu og til frambúðar getur bætt úr hinni brýnu þörf sem er á því að bæta vegi þessa. Öllum sem litið hafa til þessa máls hlýtur að vera full-ljóst hver þörf og nauðsyn er á þessum vegabótum. Árnar eru með mestu ám á landi hér, hvergi reiðar í byggð og ekki ferjugengar nema á þremur stöðum hver á, og þó ekki ætíð. Hvorki í vatnavöxtum eða þegar þær eru meira eða minna ísi lagðar, og veldur það ærnum farartálma. Þetta þekkja héraðsbúar þar, það þekkja póstarnir; það þekkja bændurnir í Skaftafellssýslu, sem hafa kaupstaðarleið sem skiptir þingmannaleiðum, og mörg önnur stórvötn yfir að fara. Auðsætt virðist, að þeir sem eiga hér nánast hlut að máli, Skaftfellingar og allir aðrir, allt vestur í Gullbringusýslu, sem eru fjórði hluti allra landsbúa og byggja ein hin þéttbýlustu héruð, hafa rétt til að þessu mikilvæga samgöngumáli sé sem fljótast hrundið í viðunanlegt horf, og góðar brýr settar á téðar ár. Héraðsbúar þessir hafa allflestir lítið beinlínis gagn af strandferðaskipunum, með því ekki eru hafnir – nema tvær slæmar (Eyrarbakki og Þorlákshöfn) á öllu því svæði, en innan lands eru þar viðskipti mikil, þar eð héruðin eru þéttbýl og landsnytjar miklar. Loftslag er þar rigningasamt og landslag víðast flatt og votlent; vegir eru því víðast slæmir en þó langir til aðdrátta, og fjöldi af stórum og vondum vatnsföllum yfir að fara, öllum óbrúuðum. Fyrir því neyðast bændur þar, til að hafa mikinn hesta fjölda, meiri en ella þyrfti, en hesta fjöldi skemmir löndin mjög bæði vetur og sumar og gjörir aðra búfjáreign miklum mun valtari og erfiðari, og langtum arðminni, einkum í þröngbýlum, afréttarlitlum sveitum. Þeim sem búa í hinum austustu þessara sveita, (Skaftfellingum) er ekki unnt vegna vegalengdar og torfærna að koma fénaði sem þeir þurfa að lóga frá búum sínum, á viðunanlegan markað; þeir freistast því oft til að setja hann á vetur í bersýnilegan voða til að reyna að halda “höfðatölunni” sem mestri, þar eð ull og tólg verður ætíð sá eini verslunarvarningur þeirra meðan svo stendur. En hvað leiðir oft af slíkum ásetningi? Fénaðurinn verður mjög afnotalítill, eða – þeir horfella. Mundi ekki verða nær því, að þeir kæmi skepnum sínum sem þeir hafa aflögu til markaðar, ef góðar brýr væru á hinum verstu stórám, sem Þeir þurfa yfir að fara með þær, og það má segja að Vesturskaftfellingar eru einna verst settir allra héraðsbúa á landi hér að því leyti sem verslun og vöruskipti snertir.
Nú eru komnar brýr á ýmsar vondar ár á Austur- og Norðurlandi t. d. Jökulsá á Brú, Skjálfandafljót o. fl. og talað er um Jökulsá í Axarfirði og Hvítá, en yfir Hvítá er mjög fjölfarin leið, fram og aftur, milli þriggja landsfjórðunga.
Og með því það má virðast í fyllsta lagi mjög eðlileg og sanngjörn krafa sem íbúar fyrr talinna héraða hafa til þess, að landssjóður styrki þá nægilega til þess að koma upp duglegum brúm á Þjórsá og Ölfusá – og með því ekki virðist nú vera tilfinnanlegur efnaskortur til að framkvæma þetta nauðsynlega stórvirki, þá er líklegt að þetta verði ekki látið dragast lengur úr hömlu, og þó það – ef til vill – kostaði landssjóð í bráðina 200 þúsund krónur eða lítið eitt meira. Það er ástæða til að ætla að mál þetta, sem var fyrir heilum tug ára svo mikið áhugamál Sunnlendinga – eins og undirbúningur þess og meðferð á alþingi 1877 bera vott um – væri komið nú á betri rekspöl en er, ef flytjendur málsins hefðu frá upphafi farið þess á leit, að styrkurinn frá landssjóði til brúarbygginganna, væri greiddur, að miklu leyti, sem tillag, aðeins í eitt skipti, en ekki lán til hlutaðeigandi sýslusjóða.
Það er varla hugsandi að þrjú eða fjögur sýslufélög geti tekið svo stórkostleg lán, hve nauðsynlegt sem fyrirtækið er sem ætti að framkvæma með því fé. Nei, hinn umræddi styrkur ætti að meiri hluta að vera tillag, en minna hluta lán. Nú er tillagið frá landssjóð til gufuskipsferðanna orðið alls hátt á 200.000 króna, og svipuð fjárupphæð er nú komin í fjallvegi, sem eru þó misjafnlega af hendi leystir. Um fjallvegabætur í þessum héruðum, sem áður voru nefnd, sem landssjóður leggi fé til, mun ekki vera að tala, nema Hellisheiði eina, og notin sem íbúar þeirra hafa af strandfararskipum eru lítil í samanburði við fólkstölu og fjármagn þar, meðan þeir hafa ekki greiðari landveg en enn þá er vestur til Reykjavíkur. Það er því mjög margt sem mælir með því, að þessu nauðsynjamáli Sunnlendinga verði sem fyrst framgengt, og – einnig margt sem mælir fram með því, að landssjóður verji fé sínu sem helst til eflingar þeim störfum, sem krefjast mikilla fjárframlaga, sem trygging er fyrir að vel verði af hendi leyst og sem velferð landsins alls eða heilla héraða þess er undir komin.


Þjóðólfur, 27. júní 1885, 37. árg., 25. tbl., forsíða:
Sighvatur Árnason alþingismaður hvetur til brúargerðar á Þjórsá og Ölfusá. Eigi það að ganga á undan öðru til umbóta.

Þjórsá og Ölvesá.
(Áskorun frá alþ.m. Sighvati Árnasyni).
Sundár þessar eru sá “Þrándur í götu” sem ekki má yfirgefa og yfirvinna.
Engum sem hafa séð og reynt árangurinn af góðum vegagjörðum og greiðum samgöngum yfir höfuð, mun blandast hugur um það, að slíkt eigi hiklaust að ganga á undan öðru til umbóta. Er því auðsætt, að landinu muni verða erfitt til þrifa án þess að leggja allt kapp á að ryðja því úr vegi, sem mest hindrar samgöngur og viðskipti manna, sem er nú hér svo margt og mikið, fjöll og firnindi, sundár og fl. Víðsvegar um landið. Það er að vísu byrjað mikið á því að leggja talsvert fé í sölurnar til að bæta úr þessu, en bæði er það, að féð er of lítið sem fram er lagt, til þess á geti séð, og í öðru lagi að það hefir ekki orðið að tilætluðum notum sökum vankunnáttu og verkfæraleysis. Til gufuskipanna er sérstaklega lagt úr landssjóði á hverjum 2 árum 36 þús. kr. og til fjallvega og annarra vegabóta 40 þús. kr., alls 76 þús. kr. Þetta t.a.m. kostar landssjóð á hverjum 10 árum 380 þús. kr. og á tvennum 10 árum 760.000 kr. Þetta er nú gott og blessað, ef vel væri á haldið, fyrir alla þá sem njóta, og hina að því leyti, sem hið sérstaka gagn þess eftir hag alls þjóðfélagsins. Sérstök not alls þessa fjár eru því nær engin fyrir allar þrjár sýslurnar hér austanfjalls, Skaftaf.. Rangárv. og Árness., allt svo lengi að ekki eru brúaðar sundárnar. Öllum þessum sýslum, sem eru mestur hluti sunnlendinga fjórðungs, gagna lítið gufuskip, fjallvegagjörðir eða vegagjörðir yfir höfuð án brúnna, því maður verður að komast úr bæjardyrunum til að geta fært sér í nyt stíginn sem þá tekur við. Íbúum þessara sýslna er fjallvegagjörðin því aðeins til nota, að þeir brjótist yfir árnar, og vegagjörðir innan sýslnanna verða reikandi og lítilsvirði á meðan það haft er á vegunum fyrir brúarleysið á ánum, sem gjörir þá sundurslitna og ófullkomna, hversu góðir sem þeir væru í sjálfu sér. Aðdrættir og öll viðskipti eru á meðan allt of kostbær, stirð og þunglamaleg, svo viðskiptaeyrir manna fer í sjálfan sig. Sýslur þessar eru einangraðar yfir höfuð út af sundánum, svo að þeim er engin framfara von nema því aðeins að árnar séu brúaðar. Verslanir þær sem til er sótt einangrast, sveitarverslanir þær, sem myndast hafa, einangrast, og okra, því allt er innilokað frá almennum viðskiptum og aðalmarkaði landsins. Öllu þessu eru menn nú farnir að veita betri eftirtekt en áður, enda hefir á þessum árum færst talsvert líf og fjör í verslun landsmanna, svo að menn smátt og smátt skoða betur og vetur hvað til hags og umbóta horfir og kleyft er að gjöra til að ryðja þeim torfærum úr vegi, sem mest standa fyrir þrifum. Áður eða hingað til hafa menn í sýslum þessum verið svo háðir vananum innan náttúrunnar takmarka, að þeir hafa ekki veitt því næga eftirtekt, sem við á, til að ryðja sýslunum braut til betri kjara. Til þess að sýslur þessar getir átt von á því að vera ekki háðar hungri og harðrétti í hvert einasta skipti, sem árferðinu hallar, eins og ávallt hefir gengið og gengur enn þann dag í dag, til þess er eina ráðið að brúa sundárnar.
Hagurinn af brúnum yrði auðvitað mestur fyrir áðurtaldar sýslur, en hann yrði líka ómetanlega mikill fyrir Gullbringusýslu og Reykjavík, sem nytu þá samskiptanna við allar sýslurnar austanfjalls.
Það er vonandi að Alþingi sannfærist betur og betur um nauðsyn þessa fyrirtækis og að ekki dragist til lengdar, að það láti til sín taka um slíkt mál, sem heilum landsfjórðungi stendur fyrir þrifum; og yfir höfuð að það sjái þann kost bestan að ryðja sem best samskiptunum braut, hvar sem vera skal á landinu. Þinginu, með landsjóð í hendi sér, ber að ríða hér á vaðið ekki síður en með fjallvegina, því séu þeir ókleyfir til umbóta fyrir hlutaðeigandi héruð, er ég alls eigi að neita, þá eru sundárnar það, því getur enginn neitað.
Í móts við áður áminnsta upphæð 380 þús. kr., sem landsjóður leggur til gufuskipanna og vegabóta á 5 fjárhagsárum eða 10 árum, þyrfti aðeins 1/5 eða 76 þús. kr. til að brúa með aðra ána, og það í eitt skipti fyrir öll; svo þegar á þetta er litið, þarf engum að vaxa um of í augum þetta framlag úr landssjóði sem til brúnna þyrfti, og því síður sem fyrirtækið er hið mesta framfarastig, sem hugsast getur fyrir allan sunnlendingafjórðung, og ætti að vera hans fyrsta mál á dagskrá, hvað sem öllu öðru líður.
Banki mundi að vísu undir góðri stjórn mikið gott af sér leiða, þó efast ég um gagn hans fyrir þessar sýslur án brúnna, því að t. d. þar sem hann gjörði mönnum hægra fyrir að hafa peninga handa í milli til ýmsra hluta, mundi ávöxturinn eða ágóðinn af þeim peningum verða hér takmarkaðir og tvísýnn eins og af hverju öðru, þar sem samgöngurnar eru teftar.
Að lyktum er það mín áskorun:
1. Að öll þau héruð, sem eiga hlut að þessu brúarmáli, láti ekki hjá líða að skora á í hönd farandi alþingi að leggja fé til brúargjörðar á Þjórsá og Ölvesá og annast um framkvæmd fyrirtækisins svo fljótt sem verða má.
2. Ef Þingvallafundur verður haldinn á undan alþingi, að notað sé það tækifæri til samtaka um að útbúa brúarmálið á fundinum og afgreiða það þar fyrir héraðanna hönd til þingsins.

Eyvindarholti í apríl 1885
Sighv. Árnason


Þjóðólfur, 18. júlí 1885, 37. árg., 28. tbl., bls. 110:
Alþingi felldi frumvarp sem gert hefði að verkum að landssjóður kostaði allar vegabætur á aðalpóstleiðum.

Vegamálið og auglýsingamálið á Alþingi.
Eftir Heyranda í holti.
Af þeim frumvörpum, sem felld hafa verið á þinginu, er vert að geta tveggja. Annað þeirra var næsta mikilsvert. Það var frumvarp um breyting á vegalögunum 15. okt. 1875, þess efnis, að með fjallvegum skyldi “telja alla aðalpóstvegi í byggðum”. Þessi breyting, þótt eigi væri stór, mundi hafa gert það að verkum, að landssjóður kostaði allar vegabætur á aðalpóstvegum.
Þórarinn Böðvarsson var flutningsmaður og gat þess meðal annars, að mest riði á vegabótum á hinum fjölförnustu vegum, og það væru einmitt póstvegirnir, en með því fyrirkomulagi sem nú er, fengist eigi fullnægjandi vegabætur á þeim. Í sama strenginn tók landshöfðingi. Arnl. Ólafss. var og með því; en þar á móti hugði J. Sig., að of mikil byrði á landssjóði og afskiptaleysi í vegagjörðum frá sýslunefndanna hálfu mundi leiða af því, ef frumvarp þetta yrði að lögum.
E. Briem talaði og á móti því; sagðist að vísu vera hinum samdóma um, að póstvegirnir ættu að komast á landsjóð, en væri því þó mótfallinn nú, af því að öll vegalöggjöf vor þyrfti endurbóta við, en til þess ekki tími á þessu þingi; þess vegna best að fella þetta frumvarp, enda mætti með fjárlögunum veita talsvert fé til vegabóta á póstvegunum er nægði fyrst um sinn. Á sama máli voru og Þ.G. og Þ. M. En J. Ólafss. kvaðst ekki geta fallist á skoðun E. Briems í þessu máli. Heppilegast væri fyrir oss, sem höfum þing svo sjaldan, og svo stutt í hvert skipti, að hugsa ekki um að vera að koma á stórum lagabálkum í einu, fyrr en nægur undirbúningur væri fenginn, en þessi undirbúningur fengist einmitt best með því að kippa hinu bráðnauðsynlegasta í lag með smálögum, enda væri nú farið að hafa þá aðferð ó landbúnaðarlagamálinu. Það hefir heldur ekki tekist vel fyrir þinginu með lagabálkana; það sýna lögin um skipun prestakalla 28/2 1880.
Þetta mikla nauðsynjamál var fellt með 13 atkvæðum á móti 7.
Þeir Þ. Böðv. og Arnl. Ólafss. hafa aftur komið fram með frumvarp um líkt efni, en í öðru formi. Ef það nær eigi samþykki þingsins, mætti að minnsta kosti ætlast til þess af þinginu, að það veitti með fjárlögum ríflega fé til vegabóta á póstvegunum. ¿¿.


Ísafold, Viðaukablað 2. sept. 1885, 12. árg., 38. tbl., forsíða:
Á sýslufundum í Árnessýslu koma vegamál mikið við sögu.

Ágrip
Af sýslufundargjörðum í Árnessýslu 20.-24. apríl 1885.
Á fundinum, sem haldinn var í barnaskólahúsinu á Eyrarbakka, mættu auk oddvita, 12 sýslunefndarmenn; fyrir Selvogshrepp var enginn sýslunefndarmaður til, og kosning sýslunefndarmannsins úr Hrunamannahreppi, sem fyrra ár var skotið undir úrskurð amtsráðsins, en vísað heim aftur, sem heyrandi undir endilegan úrskurð nefndarinnar, var í byrjun fundarins úrskurðuð ógild.
Til skrifara var kosinn nefndarmaður Ölveshrepps¿¿
8. Var samþykkt, eftir samkomulagi við sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu , að fara þess á leit við landshöfðingja, að aukapóstleiðin úr Reykjavík til Keflavíkur verði framlengd þaðan um Hafnir, Grindavík, Krísuvík, Selvog, Þorlákshöfn til Eyrarbakka.
Einnig var samþykkt, að biðja um bréfhirðingarstað á Vorsabæ í Ölvesi.
9. Eftir fyrirlagi sýslunefndarinnar á síðasta fundi hafði oddviti í Biskupstungnahreppi sent álit sitt um haganlegastan ferjustað á Brúará, og samþykkti nefndin, eftir uppástungu hans og sýslunefndarmanns hreppsins, að lögferja verði sett á Böðmóðsstöðum. Beiðni ábúandans þar um styrk til að kaupa ferjubát áleit nefndin sér óviðkomandi, þar sem að hreppavegur getur legið að ferjustaðnum.
24. Samþykkt var, að senda alþingi bænarskrá um, að veita fé til að brúa Ölvesá; nefndinni væri þetta mál hið mesta áhugamál.
26. Sýslunefndarmaður Stokkseyrarhrepps vakti máls á því til athugunar fyrir nefndina síðar meir, að sér væri kunnugt, að kring um árið 1860 hefði verið stofnaður vegabótasjóður fyrir Árnessýslu af erfingjum Johnsens sál. á Ármóti, að upphæð upphaflega 400 rdl., sem síðan hafi verið aukinn með samskotum annarsstaðar frá, og hafi verið undir stjórn og umsjón erfingjans Magnúsar Jónssonar í Bráðræði.
27. Uppástungur þær, sem nefndin, eftir áskorun amtsins, hafði heimtað um, hverjir vera skuli hreppavegir, voru komnar frá öllum hreppum, nema Hrunamannahreppi. Til að samrýma þessar uppástungur hinna ýmsu hreppa var kosin 5 manna nefnd, og laði hún síðar á fundinum fram tillögur sínar, sem voru samþykktar með litlum breytingum. Var síðan amtsráðinu send skrá yfir hreppavegi sýslunnar.
28. Mælt var með að beiðni Selvogshrepp um 100 kr. úr landsjóði til framhalds vegabótum á Grindaskarðavegi.
29. Þá var rætt um sýsluvegi sýslunnar. Þessar breytingar á sýsluvegum voru samþykktar:
a. að vegurinn yfir Grafningsháls, yfir Álftavatn, austur yfir Grímsnes að Spóastaðaferju verði sýsluvegur.
b. að hinn svo nefndi Ásavegur verði framlengdur yfir Merkurhraun að Nautavaði á Þjórsá.
c. að í stað sýsluvegarins frá Gneistastöðum að Egilsstöðum verði framvegis sýslu- og póstvegur vegurinn frá Gneistastöðum frá hjá Villingaholti að Nesferju á Þjórsá.
Skýrslur prestanna um verkfæra menn, sem eftir ákvæðum nefndarinnar á síðasta fundi áttu að leggjast sem fylgiskjöl með hreppstjóraskýrslum, vantaði alveg frá Gnúpverja- og Selvogs-hreppum og Hrepphólasókn í Hrunamannahreppi. Úr Biskupstungnahreppi vantaði allar verkfærraskýrslur. Nefndin fól oddvita, að ganga ríkt eftir, að hinar vantandi prestaskýrslur verði sendar, og rannsaka eftir þeim skýrslur hreppstjóra, en byggja fyrst um sinn, hvað Biskupstungur snertir, á fyrra árs skýrslu, sem svo leiðréttist síðar. Nefndin bætti 6 mönnum inn í skýrslur hreppstjóranna.
Sýsluvegabótagjald sýslunnar þetta ár er. ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. c. kr. 1.612,00
Eftirstöðvar af f. á. veggjaldi ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. 247,80
= 1.859,80
Auk þess sótti nefndin um úr landssjóði til póstvega:
a. það sem óunnið var fyrir af þeim 1.000 kr., sem fyrra ár
voru veittar til póstvega ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. 487,47
b. að nýju fyrir þetta ár ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. 1.000,00
Þessum samtals ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. kr. 3,347,27
samþykkti nefndir að verja þannig, ef hinn umbeðni styrkur fæst:
Kr.
a. til aðgjörðar á póstvegunum frá Torfeyri að Laugardælum ¿¿¿ 150.00
b. til vegarins frá Torfeyri að Kotferju-ferjustað ¿¿¿¿¿¿¿¿ 100.00
c. til vegarins yfir Þurármýri ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.¿.. 60.00
d. til framhalds vegarins í Grímslækjarhrauni ¿¿¿¿¿¿¿¿¿ 60.00
e. til Melabrúarinnar (nl. Eftirstöðvar f. á. 247 kr. 80 a.
og að nýju 500 kr.)
f. til vegarins frá Óseyrarnesi að Baugstaðasíki ¿¿¿¿¿¿¿¿. 317.00
g. til vegarins frá Baugstaðasíki að Sandhólaferjustað ¿¿¿¿¿. 150.00
h. til Ósavegarins (þar í fólgin endurborgun á láni f. á. 35.95) ¿¿.. 289.95
i. til Kárastígs í Þingvallasveit ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿... 320.00
j. til ruðnings frá Gjábakka austur á Hrafnabjargaháls ¿¿¿¿¿¿ 30.00
k. til endurborgunar á láni f. á. til íburðar í Neðridalsá o.fl. ¿¿¿¿ 24.00
l. til ruðnings á Grafningshálsi 25 kr. verstu kafla yfir Grímsnes
til Spóastaðaferju 25 kr. ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. 50.00
m. til ruðnings á Merkurhauni ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. 40.00
n. til timburflaka fyrir framan Bitru ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ 20.00
o. til póstvegarins frá Laugardælaferju að Gneistastöðum:
1. til fullkomnunar veginum fyrir framan Krókskot ¿¿¿¿¿¿... 430.00
2. til smábrúa hjá Gneistastöðum ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ 46.00
3. til framhalds veginum frá Laugardælum að Hraungerði ¿¿¿¿ 861,47
= 3.696.22
Hinn síðast nefndi vegur skal veða út undan, verði landssjóðsstyrkurinn minni, en um er beðið.
Þær 348 kr. 95 a., sem hinar áætluðu vegagjörðir nema meira, en vegagjaldið, sem von er um, var ákveðið að taka að láni upp á endurborgun næsta ár. Þar sem engri af þessum vegabótum mætti fresta, vegna ótíðarinnar næstl. Haust.
30. Hreppsnefnd Grímsneshrepps hafði leitað liðsinnis nefndarinnar, til að koma brú á Sogið. Nefndin sinnti þessari beiðni á þann hátt, að hún veitti allt að 150 kr. til að útvega skoðunargjörð á brúarstæðinu og áætlun um kostnað af brúnni, og fól nefndarmanni Stokkseyrarhrepps að útvega þetta.
31. Björn bóndi Jörgensson á Þurá í Ölvesi hafði kvartað yfir skemmdum á Þurármýri, þar sem sýsluvegur liggur yfir og hún er óbrúuð, og beðið um brú yfir þetta svæði. Þar sem mál þetta var alveg óundirbúið, hafði ekki verið borið undir hreppsnefnd og engin áætlun gjörð, sinnti nefndin því ekki að öðru en því, að gefa hlutaðeigandi hreppsnefnd leyfi til að taka allt að 30 kr. lán upp á sýslusjóðinn, til að brúa hinar verstu keldur á nefndu svæði.
32. Um framkvæmd sýsluvegavinnunnar var þetta ákveðið:
að vinna að Melabrú, Kárastaðastíg og ruðningur frá Gjábakka verði boðið upp einnig utansýslumönnum á almennu undirboðsþingi, sem haldið sé seinast í maímánuði og birt af oddvita;
að vinnan á póstveginum í Hraungerðis- og Villingaholts-hreppum verði boðin upp að Hraungerði 19. júní á sama hátt.
Til aðstoðar oddvita við þessa undirboðsþing voru kosnir nefndarmennirnir úr Sandvíkur- Hraungerðis- og Þingvalla-hreppum.
Til umsjónar og framkvæmdar vinnunni að Melabrú voru kosnir nefndarmenn Stokkseyrar- Sandvíkur og Ölves-hreppa.
Aðrar vegabætur skyldu verða boðnar upp á manntalsþingum, en framkvæmdar með daglaunavinnu, ef eigi fengist viðunanleg undirboð.
Nefndin samþykkti sölu á eign Skeiðahrepps í jörðinni Skeiðháholti.
Nefndinni hafði borist, að búendur í Flóagaflshverfi og nokkrir búendur í Kaldaðarneshverfi hefðu á útlíðanda slætti f. á. í ruðningahátíð teppt í aðalvatnsrúmið á Melabrú og með því skemmt brúna að miklum mun, og sannaðist nú að þetta væri satt. Nefndin lét í ljósi megna óánægju yfir, að þetta hefði átt sér stað óátalið undir handarjaðri lögreglustjórans, en lét sér þetta sinn lynda, að hinir seku inni af hendi 25 dagsverk í vinnu að Melabrúnni og lýsi sekt sinni yfir í blaðinu “Ísafold”. Nefndarmaður Sandvíkurhrepps hefir ábyrgð á, að þessu sé fullnægt.


Austri, 11. des. 1885, 2. árg., 27. tbl., bls. 106:
“Mæra-Karli” finnst menn fara offari í brúarmálinu. Brýr á Þjórsá og Ölfusá séu ekki eins bráðnauðsynlegar og sumir vilja meina, og ekki sé rétt að láta landssjóð borga brúsann.

Um brúargerð á Þjórsá og Ölvesá.
Eitthvert hið mesta útgjaldamál landssjóðsins, sem nú hefur verið á dagskrá, er brúarmálið. Um brú á Þjórsá og Ölvesá hefur nú svo margt og mikið verið ritað sem kunnugt er, bæði í sunnanblöðin, “Fréttir frá Íslandi 1884” og nú seinast í “Austra” II. 11., og hafa flestallar þessar raddir talið brýrnar bráðnauðsynlegar og sjálfsagt að koma þeim á. Það hefur jafnvel verið fullyrt, að brúarleysið á stóránum stæði öllum Sunnlendingafjórðungi fyrir þrifum, að það gerði “slíkan trafala, að lítil von væri að nokkur menntun eða framför gæti þrifist (þar? Eða neins staðar á landinu?) fyrr en þær væru gerðar færar með einhverju móti” (eru þær nú ófærar með öllu móti?). Svo hefur verið sagt, að Sunnlendingar (líklega þeir sem eru fyrir austan árnar) ættu yfir þær að sækja “alla menntun, allt samblendi við það, sem ekki væri mannsaldri á eftir tímanum, og alla matbjörg” (kemur þá allt þetta frá Reykjavík einni, og eiga ekki fleiri landsbúar jafn-örðugt að sækja þangað?). Þetta brúamál hefur jafnvel verið talið enn meira nauðsynjamál en bankamálið, og það hefur verið sagt, “að sorglegt væri, ef meiri hluta þingsins skyldi lengur nokkuð blandast hugur um það mál, sem með engu móti mætti dragast”.
Eftir öll þessi stóryrði er furða, hvað lítið verður ágengt í málinu; meiri hluti (neðri deildar) Alþingis getur enn ekki sannfærst um að rétt sé “að afgreiða málið með fjöri og fylgi”, og forsprakkar þess geta ekki fagnað því, að framfaraglamrið í brúasinnum hafi látið svo hátt í eyrum þingmanna, að þeir hafi ekki gætt nauðsynlegrar varúðar í þessu mikla vandamáli, en með því að mér finnst allt of lítið hafa verið ritað um það af þeim, sem ísjárvert þykir að verja allt að 200.000 kr. úr landssjóði til að brúa þessi 2 vatnsföll, þá vil ég gera nokkrar athugasemdir um brúamál þetta, sem sannarlega á það skilið, hvernig sem á það er litið, að því sé alvarlegur gaumur gefinn, þar sem hér er annars vegar um að ræða miklu stærri útgjöld úr landssjóði, heldur en hingað til hefur verið varið til nokkurs einstaks fyrirtækis, en hins vegar um þau stórvirki, sem í útlöndum eru sjálfsagður vísir til stórkostlegra framfara, og margur kann því að ætla, að enginn kostnaður sé til sparandi, og sjálfsagt sé fyrir hvern “framfaramann” að vera hlynntur.
En þess er fyrst að gæta, að hér á landi er mjög öðruvísi ástatt með margt, en víðast í útlöndum, hér er byggðin miklu strjálli, fólkið miklu færra og vörumagnið miklu minna; verður því sú raun á, að stórkostleg fyriræki borga sig síður hér en þar. En þetta vita reyndar flestir, og Sunnlendingar austanfjalls vita það líka. Því eru þeir svo tregir til að kosta nokkru til brúnna sjálfir, en vilja láta landssjóðinn, “þennan maurasegg, sem þeim liggur við að hneykslast á”, leggja fram allan kostnaðinn sem gjöf. En er nú gjörlegt að gefa þeim svona mikið í þessu skyni, eða hafa þeir heimting á því? Þegar þessu skal svara, kemur fyrst til skoðunar, hvort sundár þessar eru í raun og veru meiri farartálmi, heldur en ótal margar torfærur aðrar víðsvegar um landið: fjöll og hálsar, hraun og klungur, fen og foræði, ár og eyðisandar, sem allt hlýtur að hindra samgöngurnar og gera viðskiptin torveldari. Það er mikið vafamál, hvort það er nokkuð verra fyrir hesta, að synda lausir yfir þessar ár, heldur en að vaða yfir straumhörð, djúp og ísköld jökulvötn með þunga bagga á bakinu, eða að brjótast um í hálfófærum keldum, eða að klifra upp snarbratta hálsa og heiðarbrúnir, þótt ekki sé tekið það sem verst er, og það er að fara yfir fjöll og firnindi í ófærð á vetrardag, þar sem það ber stundum við, að hver hesturinn á fætur öðrum uppgefst og drepst af ofþreytu. En til þessa kann að verða svarað, að á þessum torfærum sé nú verið að ráða bót af landsfé. Nokkuð er að vísu gert í þá átt, en hvergi nærri það sem þarf til að gera vegina svo greiða, sem vegir í útlöndum eru, eða vegir ættu að vera, ef landinu yrði fullra framfara auðið, enda mun það langtum ofvaxið kröftum landsins, á því stigi sem það nú er, að leggja vegi um allt land, grafa sundur fjöll og hálsa, og brúa hverja á, sem mannskæð getur orðið, sem fleiri eru en dagar í árinu. En fyrst þessu er svona háttað, og allur fjöldi landsbúa má búa við lík kjör og Sunnlendingar, en sumir miklu verri, þá verður meir en vafasamt hvort þeir hafa öllum öðrum fremur heimtingu á hinum stórkostlegustu framlögum úr landssjóði til að bæta samgöngurnar hjá sér.
En – allt fyrir þetta – væri það í raun og veru svo sem brúasinnar virðast ætla, að brýrnar mundu gera Sunnlendingafjórðungi svo ómetanlegt gagn, að sá landshluti tæki svo stórvægilegum framförum, að allt landið lyftist við það á æðra stig í velmegun og hverskyns blóma. Þá væri sjálfsagt að spara fátt til þess, að brýr þessar kæmust á sem allra fyrst, því að hér væri þá um mikilvægt almennings gagn að ræða. En ætli þetta yrði svona í reyndinni? Hvaða gagn yrði helst að brúnum? Þær mundu greiða fyrir samgöngunum og gera verslunarviðskiptin hægri á líkan hátt og þegar menn fá nýjan verslunarstað nær sér en verið hefur, sem venjulega er talsverður hagur fyrir reglumenn, en oft til hins mesta ófarnaðar fyrir tóbaks-elgi, vínsvelgi og kaffibelgi. Mér kann nú að verða svarað, að ég sé ekki fjárhaldsmaður þeirra, og þeir megi fara á vonarvöl ef þeir gæti sín ekki, en úr því að þeir eru einu sinni til, þá er það þó til skaða fyrir sveitirnar, að þeir eyði fjármunum sínum, og verði síðan upp á aðra komnir. Og fyrir utan það, að óþarfakaupin aukast, jafnvel fyrir þeim, sem ekki eru taldir óreglumenn, við það að kaupstaðarleiðin verður fljótfarnari, þó fjölga líka kaupstaðarferðirnar, svo að tímasparnaðurinn sem bæði er gert og má gera mikið úr (ef tímanum væri vel varið!) verður alls enginn, miklu heldur sýnir reynslan það, að margir þeir sem hægt eiga með að skjótast í kaupstaðinn, eyða miklu meiri tíma til kaupstaðaferða að öllu samtöldu, heldur en þeir sem eiga langa leið og erfiða. Þá er að minnast á hestasparnaðinn, hann kann vel að verða nokkur, að því leyti sem komast má af með færri hesta, þar sem kaupstaðarleið er hæg og greiðfær, heldur en þar sem erfitt er til aðdrátta, en samt er ekki víst, að hrossatalan yrði stórum minni fyrir það, þótt brýrnar kæmust á, því að margir mundu verða tregir til að takmarka hrossaeign sína og þykjast þurfa mikið á hestum að halda eftir sem áður. Einkum finnst mér ólíklegt, að þeir “sem hafa kaupstaðarleið sem skiptir þingmannaleiðum, og mörg önnur stórvötn yfir að fara” mundu fækka hröffum til muna fyrir brýrnar. Að þessir menn, sem lengsta kaupstaðarleið eiga hér á landi (Vestur-Skaftfellingar) kynnu að hafa nokkurt gagn af brúnum að því er sauðfjárverslun snertir, er líklegt; þótt hætt sé við, að hún yrði ætíð stopul vegna hinna mörgu og vondu jökulvatna á leiðinni, sem ekki er umtalsmál að brúa, með því að hafa svo breytilega farvegi. Án þess að ég vilji draga í efa, að brýrnar mundu auka viðskipti manna og fjörga félagslífið á ýmsan hátt, þá er ég mjög hræddur um, að umbreyting sú, sem þær mundu gera á högum landsmanna yfir höfuð að tala, og sérstaklega á kjörum sveita þeirra, er mest mundu nota þær, verði langtum minni en brúasinnar gera sér í hugarlund, og þeir meig lengi bíða eftir allri þeirri velgengni, búsæld og blóma, sem þeir þykjast sjá í anda sem vísan ávöxt af brúnum.
En engu að síður skal ég gjarnan játa það, að fyrirtækið geti verið gott og blessað í sjálfu sér, eins og allar vegabætur, allt sem miðar til þess, að greiða á einhvern hátt götu framfaramannanna og framkvæmdarmannanna, hvar á landinu sem þeir eru. En ef þessar ár eru ekki verri torfærur en margar aðrar hér á landi, og ef lítil líkindi eru til, að brýrnar áorki miklu til að efla velmegun landsins í heild sinni, þá virðist brýn skylda hvíla á landssjóði til að kosta brúagerðina einn, og því síður er ástæða til að leggja þar að auki á hann þá skyldu, að halda brúnum við. En svo er líka þess að gæta, að þeir sem yfir árnar sækja, mundu hafa að einu leyti beinlínis peningahag af brúnum, með því að þeir losuðust við verjutollana, sem sagt er að samsvari vöxtum af 150.000 kr. fjárstofni og virðist það því liggja beint í hlutarins eðli, að hlutaðeigandi sveitum sé vel tilvinnandi að leggja ríflega fé til brúagerðarinnar. Ef þeim þætti svo við eiga, að setja brúartoll aftur í stað ferjutollanna, til að vega upp í fjárframlagið, þá ættu þær að vera sjálfráðar um það, en hitt virðist mér ekki geta komið til mála, að landssjóður hafi þar nein afskipti af; hann hefur nóg að annast samt, og það er of kunnugt, hvernig menn safnast að honum eins og ernir að hræi, og hversu verk þau eru oft slælega unnin, er gera skal fyrir landsfé, til þess að því sé treystandi, að það svari kostnaði, að setja brúarvörð, er landssjóður kosti.
Mér sýnist engin þörf á, að landssjóður fari að hjálpa Sunnlendingum til að losast við ferjutollana, þeim að kostnaðarlausu, og mig furðar á því, að höf. brúargreinarinnar í “Austra”, sem greinir svo skýrt og vel frá upphæð ferjutollanna, skuli halda því fram, að landssjóður eigi að leggja fram kostnaðinn til brúnna að meira hluta sem tillag eða gjöf, en að meira hluta sem lán, þar sem ferjutollarnir mundu (með tímanum) ná langt upp í kostnað þann, sem áætlaður er til brúagerðarinnar. Og undarlegt er, að bæði þessi greinarhöfundur og flytjendur málsins á alþingi skuli segja, að sýslunum sé ofvaxið að taka lán til brúagerðarinnar, þar sem þær kosta árlega svo mikið til ferjutollanna, sem þær nú gera. Það er auðvitað mjög þægilegt fyrir Sunnlendinga að sleppa við allan ferðakostnað yfir árnar með því að láta landssjóð brúa þær, en víðar þarf að bæta vegi og brúa ár en á Suðurlandi, og landssjóður hefur í svo mörg horn að líta, að það er víðsjárvert, að skerða hann um svo mikið fé, að hundruðum þúsunda króna skipti, til hagsmuna einstökum sýslum.
En þessar sýslur eru “vegalausar og póstskipslausar”, segir Rangæingurinn í Ísafold XII, 14, það er að segja, þar eru engir fjallvegir og strandferðaskipin koma þar ekki við. Viðvíkjandi hinu fyrra finnst mér Sunnlendingar mega þakka náttúrunni fyrir, að fjallvega gerist þar ekki þörf, eða ætli þeir vildu, að í stað Þjórsár væri kominn snarbrattur og gróðurlaus fjallgarður, með óbotnandi ófærð af snjó á vetrum? En hitt er þeim vorkunn, þótt þeim þyki súrt í broti, að gufuskipin koma ekki til þeirra, en við þá kosti mega fleiri búa en þeir, og þetta er meðfram að koma hinu öfuga fyrirkomulagi strandferðanna, sem aldrei verða ráðnar bætur á, meðan “hið sameinaða danska gufuskipafélag” hefur þær á hendi, en hefðum vér smærri gufuskip (strandferðabáta), gætu þau komið miklu víðar en strandferðaskipin koma nú, og vafalaust á Eyrarbakka og Stokkseyrarhöfn. Hafnaleysið er þó svo mikill ókostur á sýslum þessum, að vel mætti leggja eitthvað meira til vegabóta á aðalvegum á þeim af landssjóði, heldur en lagt er til sýsluvega í þeim héruðum, sem hafa greiðari skipaleiðir og betri hafnir. (Það gæti t. d. verið umtalsmál, að landsjóður hjálpaði til að leggja vagnveg frá Eyrarbakka austur að Þjórsá, svo að þeir, sem fyrir austan hana búa, þyrftu ekki að fara yfir hana með hesta, til að sækja matbjörg sían), en af þessu leiðir ekki, að landssjóður sé skyldur til að leggja fram það stórfé til brúnna sem sýslurnar heimta, og sem ekki er ólíklegt, að verði miklu meira en áætlað er, því að ekki hefur stórsmíðafræðingi Windfeld Hansen tekist svo vel með tillögur sínar í þessu brúamáli, að fullkomlega sé treystandi áætlun hans, enda mun hann kunnugri lygnu fljótunum í Danmörku, heldur en straumþungu jökulvötnunum hér á landi. Þótt ólag sé bæði á vegabótum og strandferðum, og þetta sé hvorttveggja misjafnlega af hendi leyst, þá verður þó oftast eitthvað gagn af fé því sem til þeirra hluta gengur, en hvaða gagn yrði að fé því, sem lagt væri til brúagerðarinnar ef tiltækið skyldi á einhvern hátt mistakast, ef brúasmíðið yrði illa af hendi leyst, eða brúastæðin illa valin, ef brýrnar skyldu brotna af einhverjum orsökum þegar þær væru nýlagðar? Hér er svo mikið í húfi, og um svo mikið fé að ræða, að öll þörf er á að fara varlega, og með tilliti til þess hygg ég það sé ekki heppilegt að landssjóður hafi einn veg og vanda af brúnum, heldur vil ég láta fyrirtækið hvíla sem mest á þeim, sem annast er um það, sem kunnugastir eru ánum og mest mundu nota brýrnar.
En svo er enn að athuga þá ástæðu, að landssjóður eigi að kosta einn aðalpóstveg um landið, og eftir því sé hann skyldur til að kosta brýr á Þjórsá og Ölvesá. Þessi hugmynd er álitleg. Það skal ég játa, en eins og ég hefi drepið á hér að framan, er hún eigi svo framkvæmileg sem hún lýtur vel út við fyrsta álit. Eins og Jón Sigurðsson á Gautlöndum tók fram á síðasta þingi, er hætt við að það mundi verða of mikið byrði á landssjóði, ef öllum aðalpóstvegum væri dembt upp á hann, og af því mundi að líkindum leiða algert afskiptaleysi af þessum vegum af sýslunefndanna hálfu, en það væri mjög óheppilegt og vegabótunum til engra framfara. Og ætti þessi aðalvegur um allt land að vera svo góður vegur, að póstur gæti alla-jafna komist leiðar sinnar tálmunarlaust, alsettur brúm og öðrum forvirkjum, þá mundi hann seint verða fullgerður, því að hér er svo endanlega margt að gera, og vér svo fjarskalega skammt á veg komnir í verklegri kunnáttu, að lítil von er til að stórvirki gangi greiðlega fram hér hjá oss að svo stöddu. Þótt landssjóður væri látinn leggja á stað “í austurveg að berja tröll” eins og Þór í fyrri daga, (sbr. Ísaf. XI. 20), þá er ekki alveg víst að hann ætti sigri að hrósa, heldur mætti við því búast að Mjölnir hans slitnaði svo á viðureigninni við óvættina á Suðurlandi, að hann yrði orðinn lítt nýtur þegar á austurvegu kæmi, og veitti þó ekki af að hann væri þá að gagni, því að þar kynni þessi Öku-Þór að hitta þá óvætti, sem gætu gert honum jafn eins og hyskið hans Útgarðaloka gerði forðum nafna hans Ásaþór.
Skynsamlegasta stefnan í vegabótum væri að minni hyggju sú, að sem fæstir vegir hvíldu beinlínis á landssjóði, heldur hefðu sýslunefndirnar aðalvegina til umsjónar hver fyrir sína sýslu, og væru þeir kostaðir af sýslusjóðum að nokkru leyti, en landssjóður legði árlega ákveðna upphæð til vegabóta í hverri sýslu, og ef hér eða þar þyrfti að ráðast í eitthvert stórt vegabótafyrirtæki, þá væri það styrkt öfluglega af landssjóði með láni til hlutaðeigandi sýslufélaga, og tillagi (eða gjöf) að nokkru leyti, eftir því sem til hagaði í hvert skipti. Samkvæmt þessu vil ég láta sýslunefndirnar í Árness- og Rangárvallasýslum standa fyrir brúargerðinni á Ölvesá og Þjórsá og öllu viðhaldi brúnna, en landssjóð vil ég láta veita þeim lán með bestu kostum og mér sýnist jafnvel landssjóður vel mega styrkja þetta stórkostlega og mikilvæga fyrirtæki með beinu tillagi eða gjöf að nokkrum hluta, ef hlutaðeigandi sýslubúar sýna góðan vilja í því að taka upp á sig meiri hluta kostnaðarins. Ég er sannfærður um, að brúarmálinu hefði þokað betur áleiðis en komið er, hefðu sýslurnar ekki verið of heimtufrekar við landssjóð, því að öðrum landsbúum mun seint skiljast, að rétt sé að láta þær fá 200.000 kr. eða meira að gjöf úr landssjóði til að brúa sínar ár, en aðrar sýslur fái ekkert, (nema ef til vill sem lán) til að brúa sínar, og sumar ekki einu sinni neitt fé til nauðsynlegustu fjallvegabóta.
Mæra-Karl.