1885

Austri, 17. júní 1885, 2. árg., 11. tbl., forsíða:

Fáein orð um vegabætur.
Í “Ísafold” 10. desember 1884, má lesa glöggt yfirlit yfir landsreikninginn 1883, og þó reikningur þessi sé nú enn óendurskoðaður, þá má ganga að því sem vísu, að þær töluupphæðir sem á nefndu yfirliti standa mismuni ekki í miklu frá þeim aðalupphæðum á landsreikningnum sem koma í ljós þegar hann verður endurskoðaður og löggiltur.
Það sem tekjurnar hafa orðið meiri á fjárhagstímabilinu en útgjöldin, eru samtals bæði árin 226.820 kr. 72 aurar. Þetta er stórmikið fé sem mjög miklu getur orkað, einkum ef afli þess er ekki sundrað til ýmissa smáverka, heldur haldið saman og beitt til framkvæmda einhverju því fyrirtæki, sem landi þessu og lýð er bráðnauðsynlegt, en krefst mikilla fjárframlaga. Eitt af þeim fyrirtækjum sem þannig virðast að vera á sig komin, eru brúarbyggingarnar á Þjórsá og Ölfusá. Það eru nú liðin meir en 10 ár síðan það landsmál var tekið til verulegrar umræðu og álits, og á Alþingi 1877 var það rækilega flutt af þingmönnum hlutaðeigandi sýslu, og skýrslur lagðar fram fyrir þingið: um ferjutolla á ánum – sem nema árl. 6.000 kr. og samsvara rentu (4%) af 150.000 króna höfuðstól, og um byggingarkostnað brúnna og byggingarlag. Sú skýrsla var gjörð af stórskipafræðing Windfeld Hansen er stjórnin hafði sent til þess, og var ætlun hans að kostnaðurinn við brúarbyggingarnar mundi ekki fara fram úr 168.000 kr. (sbr. Alþingistíðindi 1877 bls. 100 o.s. frv.)
Það sannaðist nú seinna og þegar til framlaganna kom, að hin áminnsta fjárupphæð var ónóg til þess að koma upp brúnum. Á því strandaði það verk eins og fleiri, og málið var lagt til geymslu; þó hefur því verið hreift við og við, á þann hátt, að leita ráða hver vera muni tiltækilegust til að létta af hinum mikla farartálma sem stórár þessar valda héraðsbúum þar í grennd, og öllum öðrum, sem um þá leið fara. Það hefur verið stungið upp á ýmsu, t.d. svifferjum, en það virðist auðsætt að brýrnar á ánum er hið eina ráð sem til fullnustu og til frambúðar getur bætt úr hinni brýnu þörf sem er á því að bæta vegi þessa. Öllum sem litið hafa til þessa máls hlýtur að vera full-ljóst hver þörf og nauðsyn er á þessum vegabótum. Árnar eru með mestu ám á landi hér, hvergi reiðar í byggð og ekki ferjugengar nema á þremur stöðum hver á, og þó ekki ætíð. Hvorki í vatnavöxtum eða þegar þær eru meira eða minna ísi lagðar, og veldur það ærnum farartálma. Þetta þekkja héraðsbúar þar, það þekkja póstarnir; það þekkja bændurnir í Skaftafellssýslu, sem hafa kaupstaðarleið sem skiptir þingmannaleiðum, og mörg önnur stórvötn yfir að fara. Auðsætt virðist, að þeir sem eiga hér nánast hlut að máli, Skaftfellingar og allir aðrir, allt vestur í Gullbringusýslu, sem eru fjórði hluti allra landsbúa og byggja ein hin þéttbýlustu héruð, hafa rétt til að þessu mikilvæga samgöngumáli sé sem fljótast hrundið í viðunanlegt horf, og góðar brýr settar á téðar ár. Héraðsbúar þessir hafa allflestir lítið beinlínis gagn af strandferðaskipunum, með því ekki eru hafnir – nema tvær slæmar (Eyrarbakki og Þorlákshöfn) á öllu því svæði, en innan lands eru þar viðskipti mikil, þar eð héruðin eru þéttbýl og landsnytjar miklar. Loftslag er þar rigningasamt og landslag víðast flatt og votlent; vegir eru því víðast slæmir en þó langir til aðdrátta, og fjöldi af stórum og vondum vatnsföllum yfir að fara, öllum óbrúuðum. Fyrir því neyðast bændur þar, til að hafa mikinn hesta fjölda, meiri en ella þyrfti, en hesta fjöldi skemmir löndin mjög bæði vetur og sumar og gjörir aðra búfjáreign miklum mun valtari og erfiðari, og langtum arðminni, einkum í þröngbýlum, afréttarlitlum sveitum. Þeim sem búa í hinum austustu þessara sveita, (Skaftfellingum) er ekki unnt vegna vegalengdar og torfærna að koma fénaði sem þeir þurfa að lóga frá búum sínum, á viðunanlegan markað; þeir freistast því oft til að setja hann á vetur í bersýnilegan voða til að reyna að halda “höfðatölunni” sem mestri, þar eð ull og tólg verður ætíð sá eini verslunarvarningur þeirra meðan svo stendur. En hvað leiðir oft af slíkum ásetningi? Fénaðurinn verður mjög afnotalítill, eða – þeir horfella. Mundi ekki verða nær því, að þeir kæmi skepnum sínum sem þeir hafa aflögu til markaðar, ef góðar brýr væru á hinum verstu stórám, sem Þeir þurfa yfir að fara með þær, og það má segja að Vesturskaftfellingar eru einna verst settir allra héraðsbúa á landi hér að því leyti sem verslun og vöruskipti snertir.
Nú eru komnar brýr á ýmsar vondar ár á Austur- og Norðurlandi t. d. Jökulsá á Brú, Skjálfandafljót o. fl. og talað er um Jökulsá í Axarfirði og Hvítá, en yfir Hvítá er mjög fjölfarin leið, fram og aftur, milli þriggja landsfjórðunga.
Og með því það má virðast í fyllsta lagi mjög eðlileg og sanngjörn krafa sem íbúar fyrr talinna héraða hafa til þess, að landssjóður styrki þá nægilega til þess að koma upp duglegum brúm á Þjórsá og Ölfusá – og með því ekki virðist nú vera tilfinnanlegur efnaskortur til að framkvæma þetta nauðsynlega stórvirki, þá er líklegt að þetta verði ekki látið dragast lengur úr hömlu, og þó það – ef til vill – kostaði landssjóð í bráðina 200 þúsund krónur eða lítið eitt meira. Það er ástæða til að ætla að mál þetta, sem var fyrir heilum tug ára svo mikið áhugamál Sunnlendinga – eins og undirbúningur þess og meðferð á alþingi 1877 bera vott um – væri komið nú á betri rekspöl en er, ef flytjendur málsins hefðu frá upphafi farið þess á leit, að styrkurinn frá landssjóði til brúarbygginganna, væri greiddur, að miklu leyti, sem tillag, aðeins í eitt skipti, en ekki lán til hlutaðeigandi sýslusjóða.
Það er varla hugsandi að þrjú eða fjögur sýslufélög geti tekið svo stórkostleg lán, hve nauðsynlegt sem fyrirtækið er sem ætti að framkvæma með því fé. Nei, hinn umræddi styrkur ætti að meiri hluta að vera tillag, en minna hluta lán. Nú er tillagið frá landssjóð til gufuskipsferðanna orðið alls hátt á 200.000 króna, og svipuð fjárupphæð er nú komin í fjallvegi, sem eru þó misjafnlega af hendi leystir. Um fjallvegabætur í þessum héruðum, sem áður voru nefnd, sem landssjóður leggi fé til, mun ekki vera að tala, nema Hellisheiði eina, og notin sem íbúar þeirra hafa af strandfararskipum eru lítil í samanburði við fólkstölu og fjármagn þar, meðan þeir hafa ekki greiðari landveg en enn þá er vestur til Reykjavíkur. Það er því mjög margt sem mælir með því, að þessu nauðsynjamáli Sunnlendinga verði sem fyrst framgengt, og – einnig margt sem mælir fram með því, að landssjóður verji fé sínu sem helst til eflingar þeim störfum, sem krefjast mikilla fjárframlaga, sem trygging er fyrir að vel verði af hendi leyst og sem velferð landsins alls eða heilla héraða þess er undir komin.


Austri, 17. júní 1885, 2. árg., 11. tbl., forsíða:

Fáein orð um vegabætur.
Í “Ísafold” 10. desember 1884, má lesa glöggt yfirlit yfir landsreikninginn 1883, og þó reikningur þessi sé nú enn óendurskoðaður, þá má ganga að því sem vísu, að þær töluupphæðir sem á nefndu yfirliti standa mismuni ekki í miklu frá þeim aðalupphæðum á landsreikningnum sem koma í ljós þegar hann verður endurskoðaður og löggiltur.
Það sem tekjurnar hafa orðið meiri á fjárhagstímabilinu en útgjöldin, eru samtals bæði árin 226.820 kr. 72 aurar. Þetta er stórmikið fé sem mjög miklu getur orkað, einkum ef afli þess er ekki sundrað til ýmissa smáverka, heldur haldið saman og beitt til framkvæmda einhverju því fyrirtæki, sem landi þessu og lýð er bráðnauðsynlegt, en krefst mikilla fjárframlaga. Eitt af þeim fyrirtækjum sem þannig virðast að vera á sig komin, eru brúarbyggingarnar á Þjórsá og Ölfusá. Það eru nú liðin meir en 10 ár síðan það landsmál var tekið til verulegrar umræðu og álits, og á Alþingi 1877 var það rækilega flutt af þingmönnum hlutaðeigandi sýslu, og skýrslur lagðar fram fyrir þingið: um ferjutolla á ánum – sem nema árl. 6.000 kr. og samsvara rentu (4%) af 150.000 króna höfuðstól, og um byggingarkostnað brúnna og byggingarlag. Sú skýrsla var gjörð af stórskipafræðing Windfeld Hansen er stjórnin hafði sent til þess, og var ætlun hans að kostnaðurinn við brúarbyggingarnar mundi ekki fara fram úr 168.000 kr. (sbr. Alþingistíðindi 1877 bls. 100 o.s. frv.)
Það sannaðist nú seinna og þegar til framlaganna kom, að hin áminnsta fjárupphæð var ónóg til þess að koma upp brúnum. Á því strandaði það verk eins og fleiri, og málið var lagt til geymslu; þó hefur því verið hreift við og við, á þann hátt, að leita ráða hver vera muni tiltækilegust til að létta af hinum mikla farartálma sem stórár þessar valda héraðsbúum þar í grennd, og öllum öðrum, sem um þá leið fara. Það hefur verið stungið upp á ýmsu, t.d. svifferjum, en það virðist auðsætt að brýrnar á ánum er hið eina ráð sem til fullnustu og til frambúðar getur bætt úr hinni brýnu þörf sem er á því að bæta vegi þessa. Öllum sem litið hafa til þessa máls hlýtur að vera full-ljóst hver þörf og nauðsyn er á þessum vegabótum. Árnar eru með mestu ám á landi hér, hvergi reiðar í byggð og ekki ferjugengar nema á þremur stöðum hver á, og þó ekki ætíð. Hvorki í vatnavöxtum eða þegar þær eru meira eða minna ísi lagðar, og veldur það ærnum farartálma. Þetta þekkja héraðsbúar þar, það þekkja póstarnir; það þekkja bændurnir í Skaftafellssýslu, sem hafa kaupstaðarleið sem skiptir þingmannaleiðum, og mörg önnur stórvötn yfir að fara. Auðsætt virðist, að þeir sem eiga hér nánast hlut að máli, Skaftfellingar og allir aðrir, allt vestur í Gullbringusýslu, sem eru fjórði hluti allra landsbúa og byggja ein hin þéttbýlustu héruð, hafa rétt til að þessu mikilvæga samgöngumáli sé sem fljótast hrundið í viðunanlegt horf, og góðar brýr settar á téðar ár. Héraðsbúar þessir hafa allflestir lítið beinlínis gagn af strandferðaskipunum, með því ekki eru hafnir – nema tvær slæmar (Eyrarbakki og Þorlákshöfn) á öllu því svæði, en innan lands eru þar viðskipti mikil, þar eð héruðin eru þéttbýl og landsnytjar miklar. Loftslag er þar rigningasamt og landslag víðast flatt og votlent; vegir eru því víðast slæmir en þó langir til aðdrátta, og fjöldi af stórum og vondum vatnsföllum yfir að fara, öllum óbrúuðum. Fyrir því neyðast bændur þar, til að hafa mikinn hesta fjölda, meiri en ella þyrfti, en hesta fjöldi skemmir löndin mjög bæði vetur og sumar og gjörir aðra búfjáreign miklum mun valtari og erfiðari, og langtum arðminni, einkum í þröngbýlum, afréttarlitlum sveitum. Þeim sem búa í hinum austustu þessara sveita, (Skaftfellingum) er ekki unnt vegna vegalengdar og torfærna að koma fénaði sem þeir þurfa að lóga frá búum sínum, á viðunanlegan markað; þeir freistast því oft til að setja hann á vetur í bersýnilegan voða til að reyna að halda “höfðatölunni” sem mestri, þar eð ull og tólg verður ætíð sá eini verslunarvarningur þeirra meðan svo stendur. En hvað leiðir oft af slíkum ásetningi? Fénaðurinn verður mjög afnotalítill, eða – þeir horfella. Mundi ekki verða nær því, að þeir kæmi skepnum sínum sem þeir hafa aflögu til markaðar, ef góðar brýr væru á hinum verstu stórám, sem Þeir þurfa yfir að fara með þær, og það má segja að Vesturskaftfellingar eru einna verst settir allra héraðsbúa á landi hér að því leyti sem verslun og vöruskipti snertir.
Nú eru komnar brýr á ýmsar vondar ár á Austur- og Norðurlandi t. d. Jökulsá á Brú, Skjálfandafljót o. fl. og talað er um Jökulsá í Axarfirði og Hvítá, en yfir Hvítá er mjög fjölfarin leið, fram og aftur, milli þriggja landsfjórðunga.
Og með því það má virðast í fyllsta lagi mjög eðlileg og sanngjörn krafa sem íbúar fyrr talinna héraða hafa til þess, að landssjóður styrki þá nægilega til þess að koma upp duglegum brúm á Þjórsá og Ölfusá – og með því ekki virðist nú vera tilfinnanlegur efnaskortur til að framkvæma þetta nauðsynlega stórvirki, þá er líklegt að þetta verði ekki látið dragast lengur úr hömlu, og þó það – ef til vill – kostaði landssjóð í bráðina 200 þúsund krónur eða lítið eitt meira. Það er ástæða til að ætla að mál þetta, sem var fyrir heilum tug ára svo mikið áhugamál Sunnlendinga – eins og undirbúningur þess og meðferð á alþingi 1877 bera vott um – væri komið nú á betri rekspöl en er, ef flytjendur málsins hefðu frá upphafi farið þess á leit, að styrkurinn frá landssjóði til brúarbygginganna, væri greiddur, að miklu leyti, sem tillag, aðeins í eitt skipti, en ekki lán til hlutaðeigandi sýslusjóða.
Það er varla hugsandi að þrjú eða fjögur sýslufélög geti tekið svo stórkostleg lán, hve nauðsynlegt sem fyrirtækið er sem ætti að framkvæma með því fé. Nei, hinn umræddi styrkur ætti að meiri hluta að vera tillag, en minna hluta lán. Nú er tillagið frá landssjóð til gufuskipsferðanna orðið alls hátt á 200.000 króna, og svipuð fjárupphæð er nú komin í fjallvegi, sem eru þó misjafnlega af hendi leystir. Um fjallvegabætur í þessum héruðum, sem áður voru nefnd, sem landssjóður leggi fé til, mun ekki vera að tala, nema Hellisheiði eina, og notin sem íbúar þeirra hafa af strandfararskipum eru lítil í samanburði við fólkstölu og fjármagn þar, meðan þeir hafa ekki greiðari landveg en enn þá er vestur til Reykjavíkur. Það er því mjög margt sem mælir með því, að þessu nauðsynjamáli Sunnlendinga verði sem fyrst framgengt, og – einnig margt sem mælir fram með því, að landssjóður verji fé sínu sem helst til eflingar þeim störfum, sem krefjast mikilla fjárframlaga, sem trygging er fyrir að vel verði af hendi leyst og sem velferð landsins alls eða heilla héraða þess er undir komin.