1885

Austri, 11. des. 1885, 2. árg., 27. tbl., bls. 106:

Um brúargerð á Þjórsá og Ölvesá.
Eitthvert hið mesta útgjaldamál landssjóðsins, sem nú hefur verið á dagskrá, er brúarmálið. Um brú á Þjórsá og Ölvesá hefur nú svo margt og mikið verið ritað sem kunnugt er, bæði í sunnanblöðin, “Fréttir frá Íslandi 1884” og nú seinast í “Austra” II. 11., og hafa flestallar þessar raddir talið brýrnar bráðnauðsynlegar og sjálfsagt að koma þeim á. Það hefur jafnvel verið fullyrt, að brúarleysið á stóránum stæði öllum Sunnlendingafjórðungi fyrir þrifum, að það gerði “slíkan trafala, að lítil von væri að nokkur menntun eða framför gæti þrifist (þar? Eða neins staðar á landinu?) fyrr en þær væru gerðar færar með einhverju móti” (eru þær nú ófærar með öllu móti?). Svo hefur verið sagt, að Sunnlendingar (líklega þeir sem eru fyrir austan árnar) ættu yfir þær að sækja “alla menntun, allt samblendi við það, sem ekki væri mannsaldri á eftir tímanum, og alla matbjörg” (kemur þá allt þetta frá Reykjavík einni, og eiga ekki fleiri landsbúar jafn-örðugt að sækja þangað?). Þetta brúamál hefur jafnvel verið talið enn meira nauðsynjamál en bankamálið, og það hefur verið sagt, “að sorglegt væri, ef meiri hluta þingsins skyldi lengur nokkuð blandast hugur um það mál, sem með engu móti mætti dragast”.
Eftir öll þessi stóryrði er furða, hvað lítið verður ágengt í málinu; meiri hluti (neðri deildar) Alþingis getur enn ekki sannfærst um að rétt sé “að afgreiða málið með fjöri og fylgi”, og forsprakkar þess geta ekki fagnað því, að framfaraglamrið í brúasinnum hafi látið svo hátt í eyrum þingmanna, að þeir hafi ekki gætt nauðsynlegrar varúðar í þessu mikla vandamáli, en með því að mér finnst allt of lítið hafa verið ritað um það af þeim, sem ísjárvert þykir að verja allt að 200.000 kr. úr landssjóði til að brúa þessi 2 vatnsföll, þá vil ég gera nokkrar athugasemdir um brúamál þetta, sem sannarlega á það skilið, hvernig sem á það er litið, að því sé alvarlegur gaumur gefinn, þar sem hér er annars vegar um að ræða miklu stærri útgjöld úr landssjóði, heldur en hingað til hefur verið varið til nokkurs einstaks fyrirtækis, en hins vegar um þau stórvirki, sem í útlöndum eru sjálfsagður vísir til stórkostlegra framfara, og margur kann því að ætla, að enginn kostnaður sé til sparandi, og sjálfsagt sé fyrir hvern “framfaramann” að vera hlynntur.
En þess er fyrst að gæta, að hér á landi er mjög öðruvísi ástatt með margt, en víðast í útlöndum, hér er byggðin miklu strjálli, fólkið miklu færra og vörumagnið miklu minna; verður því sú raun á, að stórkostleg fyriræki borga sig síður hér en þar. En þetta vita reyndar flestir, og Sunnlendingar austanfjalls vita það líka. Því eru þeir svo tregir til að kosta nokkru til brúnna sjálfir, en vilja láta landssjóðinn, “þennan maurasegg, sem þeim liggur við að hneykslast á”, leggja fram allan kostnaðinn sem gjöf. En er nú gjörlegt að gefa þeim svona mikið í þessu skyni, eða hafa þeir heimting á því? Þegar þessu skal svara, kemur fyrst til skoðunar, hvort sundár þessar eru í raun og veru meiri farartálmi, heldur en ótal margar torfærur aðrar víðsvegar um landið: fjöll og hálsar, hraun og klungur, fen og foræði, ár og eyðisandar, sem allt hlýtur að hindra samgöngurnar og gera viðskiptin torveldari. Það er mikið vafamál, hvort það er nokkuð verra fyrir hesta, að synda lausir yfir þessar ár, heldur en að vaða yfir straumhörð, djúp og ísköld jökulvötn með þunga bagga á bakinu, eða að brjótast um í hálfófærum keldum, eða að klifra upp snarbratta hálsa og heiðarbrúnir, þótt ekki sé tekið það sem verst er, og það er að fara yfir fjöll og firnindi í ófærð á vetrardag, þar sem það ber stundum við, að hver hesturinn á fætur öðrum uppgefst og drepst af ofþreytu. En til þessa kann að verða svarað, að á þessum torfærum sé nú verið að ráða bót af landsfé. Nokkuð er að vísu gert í þá átt, en hvergi nærri það sem þarf til að gera vegina svo greiða, sem vegir í útlöndum eru, eða vegir ættu að vera, ef landinu yrði fullra framfara auðið, enda mun það langtum ofvaxið kröftum landsins, á því stigi sem það nú er, að leggja vegi um allt land, grafa sundur fjöll og hálsa, og brúa hverja á, sem mannskæð getur orðið, sem fleiri eru en dagar í árinu. En fyrst þessu er svona háttað, og allur fjöldi landsbúa má búa við lík kjör og Sunnlendingar, en sumir miklu verri, þá verður meir en vafasamt hvort þeir hafa öllum öðrum fremur heimtingu á hinum stórkostlegustu framlögum úr landssjóði til að bæta samgöngurnar hjá sér.
En – allt fyrir þetta – væri það í raun og veru svo sem brúasinnar virðast ætla, að brýrnar mundu gera Sunnlendingafjórðungi svo ómetanlegt gagn, að sá landshluti tæki svo stórvægilegum framförum, að allt landið lyftist við það á æðra stig í velmegun og hverskyns blóma. Þá væri sjálfsagt að spara fátt til þess, að brýr þessar kæmust á sem allra fyrst, því að hér væri þá um mikilvægt almennings gagn að ræða. En ætli þetta yrði svona í reyndinni? Hvaða gagn yrði helst að brúnum? Þær mundu greiða fyrir samgöngunum og gera verslunarviðskiptin hægri á líkan hátt og þegar menn fá nýjan verslunarstað nær sér en verið hefur, sem venjulega er talsverður hagur fyrir reglumenn, en oft til hins mesta ófarnaðar fyrir tóbaks-elgi, vínsvelgi og kaffibelgi. Mér kann nú að verða svarað, að ég sé ekki fjárhaldsmaður þeirra, og þeir megi fara á vonarvöl ef þeir gæti sín ekki, en úr því að þeir eru einu sinni til, þá er það þó til skaða fyrir sveitirnar, að þeir eyði fjármunum sínum, og verði síðan upp á aðra komnir. Og fyrir utan það, að óþarfakaupin aukast, jafnvel fyrir þeim, sem ekki eru taldir óreglumenn, við það að kaupstaðarleiðin verður fljótfarnari, þó fjölga líka kaupstaðarferðirnar, svo að tímasparnaðurinn sem bæði er gert og má gera mikið úr (ef tímanum væri vel varið!) verður alls enginn, miklu heldur sýnir reynslan það, að margir þeir sem hægt eiga með að skjótast í kaupstaðinn, eyða miklu meiri tíma til kaupstaðaferða að öllu samtöldu, heldur en þeir sem eiga langa leið og erfiða. Þá er að minnast á hestasparnaðinn, hann kann vel að verða nokkur, að því leyti sem komast má af með færri hesta, þar sem kaupstaðarleið er hæg og greiðfær, heldur en þar sem erfitt er til aðdrátta, en samt er ekki víst, að hrossatalan yrði stórum minni fyrir það, þótt brýrnar kæmust á, því að margir mundu verða tregir til að takmarka hrossaeign sína og þykjast þurfa mikið á hestum að halda eftir sem áður. Einkum finnst mér ólíklegt, að þeir “sem hafa kaupstaðarleið sem skiptir þingmannaleiðum, og mörg önnur stórvötn yfir að fara” mundu fækka hröffum til muna fyrir brýrnar. Að þessir menn, sem lengsta kaupstaðarleið eiga hér á landi (Vestur-Skaftfellingar) kynnu að hafa nokkurt gagn af brúnum að því er sauðfjárverslun snertir, er líklegt; þótt hætt sé við, að hún yrði ætíð stopul vegna hinna mörgu og vondu jökulvatna á leiðinni, sem ekki er umtalsmál að brúa, með því að hafa svo breytilega farvegi. Án þess að ég vilji draga í efa, að brýrnar mundu auka viðskipti manna og fjörga félagslífið á ýmsan hátt, þá er ég mjög hræddur um, að umbreyting sú, sem þær mundu gera á högum landsmanna yfir höfuð að tala, og sérstaklega á kjörum sveita þeirra, er mest mundu nota þær, verði langtum minni en brúasinnar gera sér í hugarlund, og þeir meig lengi bíða eftir allri þeirri velgengni, búsæld og blóma, sem þeir þykjast sjá í anda sem vísan ávöxt af brúnum.
En engu að síður skal ég gjarnan játa það, að fyrirtækið geti verið gott og blessað í sjálfu sér, eins og allar vegabætur, allt sem miðar til þess, að greiða á einhvern hátt götu framfaramannanna og framkvæmdarmannanna, hvar á landinu sem þeir eru. En ef þessar ár eru ekki verri torfærur en margar aðrar hér á landi, og ef lítil líkindi eru til, að brýrnar áorki miklu til að efla velmegun landsins í heild sinni, þá virðist brýn skylda hvíla á landssjóði til að kosta brúagerðina einn, og því síður er ástæða til að leggja þar að auki á hann þá skyldu, að halda brúnum við. En svo er líka þess að gæta, að þeir sem yfir árnar sækja, mundu hafa að einu leyti beinlínis peningahag af brúnum, með því að þeir losuðust við verjutollana, sem sagt er að samsvari vöxtum af 150.000 kr. fjárstofni og virðist það því liggja beint í hlutarins eðli, að hlutaðeigandi sveitum sé vel tilvinnandi að leggja ríflega fé til brúagerðarinnar. Ef þeim þætti svo við eiga, að setja brúartoll aftur í stað ferjutollanna, til að vega upp í fjárframlagið, þá ættu þær að vera sjálfráðar um það, en hitt virðist mér ekki geta komið til mála, að landssjóður hafi þar nein afskipti af; hann hefur nóg að annast samt, og það er of kunnugt, hvernig menn safnast að honum eins og ernir að hræi, og hversu verk þau eru oft slælega unnin, er gera skal fyrir landsfé, til þess að því sé treystandi, að það svari kostnaði, að setja brúarvörð, er landssjóður kosti.
Mér sýnist engin þörf á, að landssjóður fari að hjálpa Sunnlendingum til að losast við ferjutollana, þeim að kostnaðarlausu, og mig furðar á því, að höf. brúargreinarinnar í “Austra”, sem greinir svo skýrt og vel frá upphæð ferjutollanna, skuli halda því fram, að landssjóður eigi að leggja fram kostnaðinn til brúnna að meira hluta sem tillag eða gjöf, en að meira hluta sem lán, þar sem ferjutollarnir mundu (með tímanum) ná langt upp í kostnað þann, sem áætlaður er til brúagerðarinnar. Og undarlegt er, að bæði þessi greinarhöfundur og flytjendur málsins á alþingi skuli segja, að sýslunum sé ofvaxið að taka lán til brúagerðarinnar, þar sem þær kosta árlega svo mikið til ferjutollanna, sem þær nú gera. Það er auðvitað mjög þægilegt fyrir Sunnlendinga að sleppa við allan ferðakostnað yfir árnar með því að láta landssjóð brúa þær, en víðar þarf að bæta vegi og brúa ár en á Suðurlandi, og landssjóður hefur í svo mörg horn að líta, að það er víðsjárvert, að skerða hann um svo mikið fé, að hundruðum þúsunda króna skipti, til hagsmuna einstökum sýslum.
En þessar sýslur eru “vegalausar og póstskipslausar”, segir Rangæingurinn í Ísafold XII, 14, það er að segja, þar eru engir fjallvegir og strandferðaskipin koma þar ekki við. Viðvíkjandi hinu fyrra finnst mér Sunnlendingar mega þakka náttúrunni fyrir, að fjallvega gerist þar ekki þörf, eða ætli þeir vildu, að í stað Þjórsár væri kominn snarbrattur og gróðurlaus fjallgarður, með óbotnandi ófærð af snjó á vetrum? En hitt er þeim vorkunn, þótt þeim þyki súrt í broti, að gufuskipin koma ekki til þeirra, en við þá kosti mega fleiri búa en þeir, og þetta er meðfram að koma hinu öfuga fyrirkomulagi strandferðanna, sem aldrei verða ráðnar bætur á, meðan “hið sameinaða danska gufuskipafélag” hefur þær á hendi, en hefðum vér smærri gufuskip (strandferðabáta), gætu þau komið miklu víðar en strandferðaskipin koma nú, og vafalaust á Eyrarbakka og Stokkseyrarhöfn. Hafnaleysið er þó svo mikill ókostur á sýslum þessum, að vel mætti leggja eitthvað meira til vegabóta á aðalvegum á þeim af landssjóði, heldur en lagt er til sýsluvega í þeim héruðum, sem hafa greiðari skipaleiðir og betri hafnir. (Það gæti t. d. verið umtalsmál, að landsjóður hjálpaði til að leggja vagnveg frá Eyrarbakka austur að Þjórsá, svo að þeir, sem fyrir austan hana búa, þyrftu ekki að fara yfir hana með hesta, til að sækja matbjörg sían), en af þessu leiðir ekki, að landssjóður sé skyldur til að leggja fram það stórfé til brúnna sem sýslurnar heimta, og sem ekki er ólíklegt, að verði miklu meira en áætlað er, því að ekki hefur stórsmíðafræðingi Windfeld Hansen tekist svo vel með tillögur sínar í þessu brúamáli, að fullkomlega sé treystandi áætlun hans, enda mun hann kunnugri lygnu fljótunum í Danmörku, heldur en straumþungu jökulvötnunum hér á landi. Þótt ólag sé bæði á vegabótum og strandferðum, og þetta sé hvorttveggja misjafnlega af hendi leyst, þá verður þó oftast eitthvað gagn af fé því sem til þeirra hluta gengur, en hvaða gagn yrði að fé því, sem lagt væri til brúagerðarinnar ef tiltækið skyldi á einhvern hátt mistakast, ef brúasmíðið yrði illa af hendi leyst, eða brúastæðin illa valin, ef brýrnar skyldu brotna af einhverjum orsökum þegar þær væru nýlagðar? Hér er svo mikið í húfi, og um svo mikið fé að ræða, að öll þörf er á að fara varlega, og með tilliti til þess hygg ég það sé ekki heppilegt að landssjóður hafi einn veg og vanda af brúnum, heldur vil ég láta fyrirtækið hvíla sem mest á þeim, sem annast er um það, sem kunnugastir eru ánum og mest mundu nota brýrnar.
En svo er enn að athuga þá ástæðu, að landssjóður eigi að kosta einn aðalpóstveg um landið, og eftir því sé hann skyldur til að kosta brýr á Þjórsá og Ölvesá. Þessi hugmynd er álitleg. Það skal ég játa, en eins og ég hefi drepið á hér að framan, er hún eigi svo framkvæmileg sem hún lýtur vel út við fyrsta álit. Eins og Jón Sigurðsson á Gautlöndum tók fram á síðasta þingi, er hætt við að það mundi verða of mikið byrði á landssjóði, ef öllum aðalpóstvegum væri dembt upp á hann, og af því mundi að líkindum leiða algert afskiptaleysi af þessum vegum af sýslunefndanna hálfu, en það væri mjög óheppilegt og vegabótunum til engra framfara. Og ætti þessi aðalvegur um allt land að vera svo góður vegur, að póstur gæti alla-jafna komist leiðar sinnar tálmunarlaust, alsettur brúm og öðrum forvirkjum, þá mundi hann seint verða fullgerður, því að hér er svo endanlega margt að gera, og vér svo fjarskalega skammt á veg komnir í verklegri kunnáttu, að lítil von er til að stórvirki gangi greiðlega fram hér hjá oss að svo stöddu. Þótt landssjóður væri látinn leggja á stað “í austurveg að berja tröll” eins og Þór í fyrri daga, (sbr. Ísaf. XI. 20), þá er ekki alveg víst að hann ætti sigri að hrósa, heldur mætti við því búast að Mjölnir hans slitnaði svo á viðureigninni við óvættina á Suðurlandi, að hann yrði orðinn lítt nýtur þegar á austurvegu kæmi, og veitti þó ekki af að hann væri þá að gagni, því að þar kynni þessi Öku-Þór að hitta þá óvætti, sem gætu gert honum jafn eins og hyskið hans Útgarðaloka gerði forðum nafna hans Ásaþór.
Skynsamlegasta stefnan í vegabótum væri að minni hyggju sú, að sem fæstir vegir hvíldu beinlínis á landssjóði, heldur hefðu sýslunefndirnar aðalvegina til umsjónar hver fyrir sína sýslu, og væru þeir kostaðir af sýslusjóðum að nokkru leyti, en landssjóður legði árlega ákveðna upphæð til vegabóta í hverri sýslu, og ef hér eða þar þyrfti að ráðast í eitthvert stórt vegabótafyrirtæki, þá væri það styrkt öfluglega af landssjóði með láni til hlutaðeigandi sýslufélaga, og tillagi (eða gjöf) að nokkru leyti, eftir því sem til hagaði í hvert skipti. Samkvæmt þessu vil ég láta sýslunefndirnar í Árness- og Rangárvallasýslum standa fyrir brúargerðinni á Ölvesá og Þjórsá og öllu viðhaldi brúnna, en landssjóð vil ég láta veita þeim lán með bestu kostum og mér sýnist jafnvel landssjóður vel mega styrkja þetta stórkostlega og mikilvæga fyrirtæki með beinu tillagi eða gjöf að nokkrum hluta, ef hlutaðeigandi sýslubúar sýna góðan vilja í því að taka upp á sig meiri hluta kostnaðarins. Ég er sannfærður um, að brúarmálinu hefði þokað betur áleiðis en komið er, hefðu sýslurnar ekki verið of heimtufrekar við landssjóð, því að öðrum landsbúum mun seint skiljast, að rétt sé að láta þær fá 200.000 kr. eða meira að gjöf úr landssjóði til að brúa sínar ár, en aðrar sýslur fái ekkert, (nema ef til vill sem lán) til að brúa sínar, og sumar ekki einu sinni neitt fé til nauðsynlegustu fjallvegabóta.
Mæra-Karl.


Austri, 11. des. 1885, 2. árg., 27. tbl., bls. 106:

Um brúargerð á Þjórsá og Ölvesá.
Eitthvert hið mesta útgjaldamál landssjóðsins, sem nú hefur verið á dagskrá, er brúarmálið. Um brú á Þjórsá og Ölvesá hefur nú svo margt og mikið verið ritað sem kunnugt er, bæði í sunnanblöðin, “Fréttir frá Íslandi 1884” og nú seinast í “Austra” II. 11., og hafa flestallar þessar raddir talið brýrnar bráðnauðsynlegar og sjálfsagt að koma þeim á. Það hefur jafnvel verið fullyrt, að brúarleysið á stóránum stæði öllum Sunnlendingafjórðungi fyrir þrifum, að það gerði “slíkan trafala, að lítil von væri að nokkur menntun eða framför gæti þrifist (þar? Eða neins staðar á landinu?) fyrr en þær væru gerðar færar með einhverju móti” (eru þær nú ófærar með öllu móti?). Svo hefur verið sagt, að Sunnlendingar (líklega þeir sem eru fyrir austan árnar) ættu yfir þær að sækja “alla menntun, allt samblendi við það, sem ekki væri mannsaldri á eftir tímanum, og alla matbjörg” (kemur þá allt þetta frá Reykjavík einni, og eiga ekki fleiri landsbúar jafn-örðugt að sækja þangað?). Þetta brúamál hefur jafnvel verið talið enn meira nauðsynjamál en bankamálið, og það hefur verið sagt, “að sorglegt væri, ef meiri hluta þingsins skyldi lengur nokkuð blandast hugur um það mál, sem með engu móti mætti dragast”.
Eftir öll þessi stóryrði er furða, hvað lítið verður ágengt í málinu; meiri hluti (neðri deildar) Alþingis getur enn ekki sannfærst um að rétt sé “að afgreiða málið með fjöri og fylgi”, og forsprakkar þess geta ekki fagnað því, að framfaraglamrið í brúasinnum hafi látið svo hátt í eyrum þingmanna, að þeir hafi ekki gætt nauðsynlegrar varúðar í þessu mikla vandamáli, en með því að mér finnst allt of lítið hafa verið ritað um það af þeim, sem ísjárvert þykir að verja allt að 200.000 kr. úr landssjóði til að brúa þessi 2 vatnsföll, þá vil ég gera nokkrar athugasemdir um brúamál þetta, sem sannarlega á það skilið, hvernig sem á það er litið, að því sé alvarlegur gaumur gefinn, þar sem hér er annars vegar um að ræða miklu stærri útgjöld úr landssjóði, heldur en hingað til hefur verið varið til nokkurs einstaks fyrirtækis, en hins vegar um þau stórvirki, sem í útlöndum eru sjálfsagður vísir til stórkostlegra framfara, og margur kann því að ætla, að enginn kostnaður sé til sparandi, og sjálfsagt sé fyrir hvern “framfaramann” að vera hlynntur.
En þess er fyrst að gæta, að hér á landi er mjög öðruvísi ástatt með margt, en víðast í útlöndum, hér er byggðin miklu strjálli, fólkið miklu færra og vörumagnið miklu minna; verður því sú raun á, að stórkostleg fyriræki borga sig síður hér en þar. En þetta vita reyndar flestir, og Sunnlendingar austanfjalls vita það líka. Því eru þeir svo tregir til að kosta nokkru til brúnna sjálfir, en vilja láta landssjóðinn, “þennan maurasegg, sem þeim liggur við að hneykslast á”, leggja fram allan kostnaðinn sem gjöf. En er nú gjörlegt að gefa þeim svona mikið í þessu skyni, eða hafa þeir heimting á því? Þegar þessu skal svara, kemur fyrst til skoðunar, hvort sundár þessar eru í raun og veru meiri farartálmi, heldur en ótal margar torfærur aðrar víðsvegar um landið: fjöll og hálsar, hraun og klungur, fen og foræði, ár og eyðisandar, sem allt hlýtur að hindra samgöngurnar og gera viðskiptin torveldari. Það er mikið vafamál, hvort það er nokkuð verra fyrir hesta, að synda lausir yfir þessar ár, heldur en að vaða yfir straumhörð, djúp og ísköld jökulvötn með þunga bagga á bakinu, eða að brjótast um í hálfófærum keldum, eða að klifra upp snarbratta hálsa og heiðarbrúnir, þótt ekki sé tekið það sem verst er, og það er að fara yfir fjöll og firnindi í ófærð á vetrardag, þar sem það ber stundum við, að hver hesturinn á fætur öðrum uppgefst og drepst af ofþreytu. En til þessa kann að verða svarað, að á þessum torfærum sé nú verið að ráða bót af landsfé. Nokkuð er að vísu gert í þá átt, en hvergi nærri það sem þarf til að gera vegina svo greiða, sem vegir í útlöndum eru, eða vegir ættu að vera, ef landinu yrði fullra framfara auðið, enda mun það langtum ofvaxið kröftum landsins, á því stigi sem það nú er, að leggja vegi um allt land, grafa sundur fjöll og hálsa, og brúa hverja á, sem mannskæð getur orðið, sem fleiri eru en dagar í árinu. En fyrst þessu er svona háttað, og allur fjöldi landsbúa má búa við lík kjör og Sunnlendingar, en sumir miklu verri, þá verður meir en vafasamt hvort þeir hafa öllum öðrum fremur heimtingu á hinum stórkostlegustu framlögum úr landssjóði til að bæta samgöngurnar hjá sér.
En – allt fyrir þetta – væri það í raun og veru svo sem brúasinnar virðast ætla, að brýrnar mundu gera Sunnlendingafjórðungi svo ómetanlegt gagn, að sá landshluti tæki svo stórvægilegum framförum, að allt landið lyftist við það á æðra stig í velmegun og hverskyns blóma. Þá væri sjálfsagt að spara fátt til þess, að brýr þessar kæmust á sem allra fyrst, því að hér væri þá um mikilvægt almennings gagn að ræða. En ætli þetta yrði svona í reyndinni? Hvaða gagn yrði helst að brúnum? Þær mundu greiða fyrir samgöngunum og gera verslunarviðskiptin hægri á líkan hátt og þegar menn fá nýjan verslunarstað nær sér en verið hefur, sem venjulega er talsverður hagur fyrir reglumenn, en oft til hins mesta ófarnaðar fyrir tóbaks-elgi, vínsvelgi og kaffibelgi. Mér kann nú að verða svarað, að ég sé ekki fjárhaldsmaður þeirra, og þeir megi fara á vonarvöl ef þeir gæti sín ekki, en úr því að þeir eru einu sinni til, þá er það þó til skaða fyrir sveitirnar, að þeir eyði fjármunum sínum, og verði síðan upp á aðra komnir. Og fyrir utan það, að óþarfakaupin aukast, jafnvel fyrir þeim, sem ekki eru taldir óreglumenn, við það að kaupstaðarleiðin verður fljótfarnari, þó fjölga líka kaupstaðarferðirnar, svo að tímasparnaðurinn sem bæði er gert og má gera mikið úr (ef tímanum væri vel varið!) verður alls enginn, miklu heldur sýnir reynslan það, að margir þeir sem hægt eiga með að skjótast í kaupstaðinn, eyða miklu meiri tíma til kaupstaðaferða að öllu samtöldu, heldur en þeir sem eiga langa leið og erfiða. Þá er að minnast á hestasparnaðinn, hann kann vel að verða nokkur, að því leyti sem komast má af með færri hesta, þar sem kaupstaðarleið er hæg og greiðfær, heldur en þar sem erfitt er til aðdrátta, en samt er ekki víst, að hrossatalan yrði stórum minni fyrir það, þótt brýrnar kæmust á, því að margir mundu verða tregir til að takmarka hrossaeign sína og þykjast þurfa mikið á hestum að halda eftir sem áður. Einkum finnst mér ólíklegt, að þeir “sem hafa kaupstaðarleið sem skiptir þingmannaleiðum, og mörg önnur stórvötn yfir að fara” mundu fækka hröffum til muna fyrir brýrnar. Að þessir menn, sem lengsta kaupstaðarleið eiga hér á landi (Vestur-Skaftfellingar) kynnu að hafa nokkurt gagn af brúnum að því er sauðfjárverslun snertir, er líklegt; þótt hætt sé við, að hún yrði ætíð stopul vegna hinna mörgu og vondu jökulvatna á leiðinni, sem ekki er umtalsmál að brúa, með því að hafa svo breytilega farvegi. Án þess að ég vilji draga í efa, að brýrnar mundu auka viðskipti manna og fjörga félagslífið á ýmsan hátt, þá er ég mjög hræddur um, að umbreyting sú, sem þær mundu gera á högum landsmanna yfir höfuð að tala, og sérstaklega á kjörum sveita þeirra, er mest mundu nota þær, verði langtum minni en brúasinnar gera sér í hugarlund, og þeir meig lengi bíða eftir allri þeirri velgengni, búsæld og blóma, sem þeir þykjast sjá í anda sem vísan ávöxt af brúnum.
En engu að síður skal ég gjarnan játa það, að fyrirtækið geti verið gott og blessað í sjálfu sér, eins og allar vegabætur, allt sem miðar til þess, að greiða á einhvern hátt götu framfaramannanna og framkvæmdarmannanna, hvar á landinu sem þeir eru. En ef þessar ár eru ekki verri torfærur en margar aðrar hér á landi, og ef lítil líkindi eru til, að brýrnar áorki miklu til að efla velmegun landsins í heild sinni, þá virðist brýn skylda hvíla á landssjóði til að kosta brúagerðina einn, og því síður er ástæða til að leggja þar að auki á hann þá skyldu, að halda brúnum við. En svo er líka þess að gæta, að þeir sem yfir árnar sækja, mundu hafa að einu leyti beinlínis peningahag af brúnum, með því að þeir losuðust við verjutollana, sem sagt er að samsvari vöxtum af 150.000 kr. fjárstofni og virðist það því liggja beint í hlutarins eðli, að hlutaðeigandi sveitum sé vel tilvinnandi að leggja ríflega fé til brúagerðarinnar. Ef þeim þætti svo við eiga, að setja brúartoll aftur í stað ferjutollanna, til að vega upp í fjárframlagið, þá ættu þær að vera sjálfráðar um það, en hitt virðist mér ekki geta komið til mála, að landssjóður hafi þar nein afskipti af; hann hefur nóg að annast samt, og það er of kunnugt, hvernig menn safnast að honum eins og ernir að hræi, og hversu verk þau eru oft slælega unnin, er gera skal fyrir landsfé, til þess að því sé treystandi, að það svari kostnaði, að setja brúarvörð, er landssjóður kosti.
Mér sýnist engin þörf á, að landssjóður fari að hjálpa Sunnlendingum til að losast við ferjutollana, þeim að kostnaðarlausu, og mig furðar á því, að höf. brúargreinarinnar í “Austra”, sem greinir svo skýrt og vel frá upphæð ferjutollanna, skuli halda því fram, að landssjóður eigi að leggja fram kostnaðinn til brúnna að meira hluta sem tillag eða gjöf, en að meira hluta sem lán, þar sem ferjutollarnir mundu (með tímanum) ná langt upp í kostnað þann, sem áætlaður er til brúagerðarinnar. Og undarlegt er, að bæði þessi greinarhöfundur og flytjendur málsins á alþingi skuli segja, að sýslunum sé ofvaxið að taka lán til brúagerðarinnar, þar sem þær kosta árlega svo mikið til ferjutollanna, sem þær nú gera. Það er auðvitað mjög þægilegt fyrir Sunnlendinga að sleppa við allan ferðakostnað yfir árnar með því að láta landssjóð brúa þær, en víðar þarf að bæta vegi og brúa ár en á Suðurlandi, og landssjóður hefur í svo mörg horn að líta, að það er víðsjárvert, að skerða hann um svo mikið fé, að hundruðum þúsunda króna skipti, til hagsmuna einstökum sýslum.
En þessar sýslur eru “vegalausar og póstskipslausar”, segir Rangæingurinn í Ísafold XII, 14, það er að segja, þar eru engir fjallvegir og strandferðaskipin koma þar ekki við. Viðvíkjandi hinu fyrra finnst mér Sunnlendingar mega þakka náttúrunni fyrir, að fjallvega gerist þar ekki þörf, eða ætli þeir vildu, að í stað Þjórsár væri kominn snarbrattur og gróðurlaus fjallgarður, með óbotnandi ófærð af snjó á vetrum? En hitt er þeim vorkunn, þótt þeim þyki súrt í broti, að gufuskipin koma ekki til þeirra, en við þá kosti mega fleiri búa en þeir, og þetta er meðfram að koma hinu öfuga fyrirkomulagi strandferðanna, sem aldrei verða ráðnar bætur á, meðan “hið sameinaða danska gufuskipafélag” hefur þær á hendi, en hefðum vér smærri gufuskip (strandferðabáta), gætu þau komið miklu víðar en strandferðaskipin koma nú, og vafalaust á Eyrarbakka og Stokkseyrarhöfn. Hafnaleysið er þó svo mikill ókostur á sýslum þessum, að vel mætti leggja eitthvað meira til vegabóta á aðalvegum á þeim af landssjóði, heldur en lagt er til sýsluvega í þeim héruðum, sem hafa greiðari skipaleiðir og betri hafnir. (Það gæti t. d. verið umtalsmál, að landsjóður hjálpaði til að leggja vagnveg frá Eyrarbakka austur að Þjórsá, svo að þeir, sem fyrir austan hana búa, þyrftu ekki að fara yfir hana með hesta, til að sækja matbjörg sían), en af þessu leiðir ekki, að landssjóður sé skyldur til að leggja fram það stórfé til brúnna sem sýslurnar heimta, og sem ekki er ólíklegt, að verði miklu meira en áætlað er, því að ekki hefur stórsmíðafræðingi Windfeld Hansen tekist svo vel með tillögur sínar í þessu brúamáli, að fullkomlega sé treystandi áætlun hans, enda mun hann kunnugri lygnu fljótunum í Danmörku, heldur en straumþungu jökulvötnunum hér á landi. Þótt ólag sé bæði á vegabótum og strandferðum, og þetta sé hvorttveggja misjafnlega af hendi leyst, þá verður þó oftast eitthvað gagn af fé því sem til þeirra hluta gengur, en hvaða gagn yrði að fé því, sem lagt væri til brúagerðarinnar ef tiltækið skyldi á einhvern hátt mistakast, ef brúasmíðið yrði illa af hendi leyst, eða brúastæðin illa valin, ef brýrnar skyldu brotna af einhverjum orsökum þegar þær væru nýlagðar? Hér er svo mikið í húfi, og um svo mikið fé að ræða, að öll þörf er á að fara varlega, og með tilliti til þess hygg ég það sé ekki heppilegt að landssjóður hafi einn veg og vanda af brúnum, heldur vil ég láta fyrirtækið hvíla sem mest á þeim, sem annast er um það, sem kunnugastir eru ánum og mest mundu nota brýrnar.
En svo er enn að athuga þá ástæðu, að landssjóður eigi að kosta einn aðalpóstveg um landið, og eftir því sé hann skyldur til að kosta brýr á Þjórsá og Ölvesá. Þessi hugmynd er álitleg. Það skal ég játa, en eins og ég hefi drepið á hér að framan, er hún eigi svo framkvæmileg sem hún lýtur vel út við fyrsta álit. Eins og Jón Sigurðsson á Gautlöndum tók fram á síðasta þingi, er hætt við að það mundi verða of mikið byrði á landssjóði, ef öllum aðalpóstvegum væri dembt upp á hann, og af því mundi að líkindum leiða algert afskiptaleysi af þessum vegum af sýslunefndanna hálfu, en það væri mjög óheppilegt og vegabótunum til engra framfara. Og ætti þessi aðalvegur um allt land að vera svo góður vegur, að póstur gæti alla-jafna komist leiðar sinnar tálmunarlaust, alsettur brúm og öðrum forvirkjum, þá mundi hann seint verða fullgerður, því að hér er svo endanlega margt að gera, og vér svo fjarskalega skammt á veg komnir í verklegri kunnáttu, að lítil von er til að stórvirki gangi greiðlega fram hér hjá oss að svo stöddu. Þótt landssjóður væri látinn leggja á stað “í austurveg að berja tröll” eins og Þór í fyrri daga, (sbr. Ísaf. XI. 20), þá er ekki alveg víst að hann ætti sigri að hrósa, heldur mætti við því búast að Mjölnir hans slitnaði svo á viðureigninni við óvættina á Suðurlandi, að hann yrði orðinn lítt nýtur þegar á austurvegu kæmi, og veitti þó ekki af að hann væri þá að gagni, því að þar kynni þessi Öku-Þór að hitta þá óvætti, sem gætu gert honum jafn eins og hyskið hans Útgarðaloka gerði forðum nafna hans Ásaþór.
Skynsamlegasta stefnan í vegabótum væri að minni hyggju sú, að sem fæstir vegir hvíldu beinlínis á landssjóði, heldur hefðu sýslunefndirnar aðalvegina til umsjónar hver fyrir sína sýslu, og væru þeir kostaðir af sýslusjóðum að nokkru leyti, en landssjóður legði árlega ákveðna upphæð til vegabóta í hverri sýslu, og ef hér eða þar þyrfti að ráðast í eitthvert stórt vegabótafyrirtæki, þá væri það styrkt öfluglega af landssjóði með láni til hlutaðeigandi sýslufélaga, og tillagi (eða gjöf) að nokkru leyti, eftir því sem til hagaði í hvert skipti. Samkvæmt þessu vil ég láta sýslunefndirnar í Árness- og Rangárvallasýslum standa fyrir brúargerðinni á Ölvesá og Þjórsá og öllu viðhaldi brúnna, en landssjóð vil ég láta veita þeim lán með bestu kostum og mér sýnist jafnvel landssjóður vel mega styrkja þetta stórkostlega og mikilvæga fyrirtæki með beinu tillagi eða gjöf að nokkrum hluta, ef hlutaðeigandi sýslubúar sýna góðan vilja í því að taka upp á sig meiri hluta kostnaðarins. Ég er sannfærður um, að brúarmálinu hefði þokað betur áleiðis en komið er, hefðu sýslurnar ekki verið of heimtufrekar við landssjóð, því að öðrum landsbúum mun seint skiljast, að rétt sé að láta þær fá 200.000 kr. eða meira að gjöf úr landssjóði til að brúa sínar ár, en aðrar sýslur fái ekkert, (nema ef til vill sem lán) til að brúa sínar, og sumar ekki einu sinni neitt fé til nauðsynlegustu fjallvegabóta.
Mæra-Karl.