1884

Tenging í allt blaðaefni ársins 1884

Ísafold, 16. jan. 1884, 11. árg., 3. tbl., bls. 11:
Greinarhöfundar eru óhressir með vegastæðið yfir Svínahraun og segja að þar hafi svo sannarlega ekki verið fylgt þeirri gullnu reglu, að stefnan skuli tekin svo bein sem unnt er.

Um veginn yfir Svínahraun.
Þó að ritað hafi verið nokkuð og rætt allmikið um Svínahraunsveginn, mun þó ekki með öllu óþarft að bæta þar nokkru við.
Það sem fyrst og helst á að hafa fyrir augum, þegar lagður er nýr vegur, er, að stefnan sé tekin sem beinust að unnt til þess staðar, sem vegurinn á að liggja, enda var það þegar skipað með konungsbréfi um vegina á Íslandi 29. apríl 1776: “Þar sem verður gjörist þeir svo beinir, sem fært er, þar óþarfakrókar lýta þá bæði og lengja og gjöra mæðusamari.”
Þetta voru nú orð einvaldskonungsins í Danmörku 100 árum áður en byrjað var að leggja veginn yfir Svínahraun, sem er aðalþjóðleið og póstvegur yfir suður- og austurland til og frá Reykjavík og einhver hinn fjölfarnasti vegur á landinu. Það getur komið fyrir, að halla verði til vegi með stefnuna, þegar landslagi er svo háttað, að það er of bratt eða einhverjar torfærur eru á leiðinni, sem sneiða verður hjá; en til að varast alla óþarfa króka, sem ekki ættu að eiga sér stað, þarf að athuga alla leiðina fyrirfram vandlega af kunnugum og glöggskyggnum mönnum, bæði hvað snertir stefnu vegarins, efni til að gjöra hann í fyrstu og svo til að viðhalda honum. En hvernig hefir þessa verið gætt með Svínahraunsveginn? Það verður ekki séð, að annað hafi vakað fyrir þeim, sem réðu stefnunni, en að ná í gamla veginn fyrir neðan hraunið, þrátt fyrir það, þótt hann liggi allt annað en beina leið til Reykjavíkur, og svo er á þeirri leið víða ómögulegt að gjöra nokkra varanlega vegabót, t.d. frá Lækjarbotni allt niður fyrir Hólm.
Það mun ekki of harður dómur, þó sagt sé um þessa vegagjörð í heild sinni, að hún sé eitt fjarska stórt axarskaft, marghlykkjótt og maðksmogið, og þó sumt af þessu óhappaverki megi dálítið afsaka með vanþekking, þá verður stærsti hlykkurinn á axarskaftinu, þ.e. stefnan, varla afsakaður, með því það var komið inn í meðvitund þjóðarinnar fyrir löngu síðan, að gjöra vegina beinni en hestarnir okkar höfðu lagt þá í öndverðu. Vegurinn er hér um bil 650 föðmum lengri en hann þarf að vera yfir hraunið, og það er næsta sorglegt, þegar slík verk sem þetta mistakast algjörlega. Vegur þessi er á lengd 3045 faðmar og upphaflega kostaði hver faðmur í honum 4 kr. 52 a. eða alls 13.763 kr. 40 a. Síðan hefir verið eytt næstliðin sumur til viðgerðar á honum svo þúsundum króna skiptir; en hvað mörg þúsund krónur muni þurfa til slíks viðhalds um háfa eða heila öld, eins og vegurinn nú er, mun ekki auðvelt að segja.
Hvernig viðgerðin á næstliðnu sumri hefur verið af hendi leyst gagnvart samningi við yfirvöldin, getum við ekki sagt neitt um, með því að við höfum ekki séð samninginn; en það höfum við séð, að klyfjahestum, sem reka átti eftir veginum, var eigi unnt að halda á honum nokkrum dögum eftir að hætt var að gjöra við hann. En hvernig hann verður með aldrinum mun reynslan best sýna.
Við höfum gjört okkur nokkurt ómak fyrir með aðstoð þriðja manns, að leiða sem best í ljós aðal-vansmíðið á veginum, áður en meiru fé er í hann eytt í nokkurs konar blindni, ef ske mætti, að farið yrði að þreifa fyrir sér.
Eins og sjá má, einkum fyrir kunnuga, stefnir vegurinn fyrst vestur í hraunið, og er stefnan þá neðan til við Lyklafell, hér um bil á Reykjavík. En svo tekur hann bráður norðurslag, og stefnir þá hér um bil á Kollafjörð. Síðan slakar hann til með hægð – og er þá rúmlega hálfnaður vegurinn yfir hraunið – þar til hann hefir aftur náð stefnunni nálægt því á Rvk, og henni heldur hann yfir miðhraunið, þar til eftir eru 1144 faðmar; þá fer hann að stefna meir til suðvesturs og færist þá jafnþéttan úr leið, þar til hann stefnir nærfellt í hásuður fyrir austan Vífilfell, og heldur henni 47 faðma, svo að hvorki færist nær eða fjær Rvík, og ef þá er dregin bein lína eftir stefnum á Uppdrætti Íslands, og veginum haldið áfram, kemur hann til sjávar milli Selvogs og Herdísarvíkur. Í raun réttri nemur afvegaleiðslan 250 föðmum, að meðtöldum þessum 47. Minna hefði nú mátt gera að umtalsefni.
En nú munu menn segja, að ekki sé nóg að setja út á þessa vegagjörð, heldur beri þeim, er mest að finna, að sýna, hvern veg hefði betur mátt fara, og einkum hvað nú sé til ráða í því óefni, sem í er komið með vegagjörðina yfir þetta annað Ódáðahraun á Íslandi. (Það verður að líkindum ekki síður sögulegt á ókomnum öldum fyrir gagnslausa peningaeyðslu en Ódáðahraun fyrir útilegumenn).
Upphaflega hefði það ekki átt að vera áhorfsmál, að leggja veginn að mestu fyrir norðan hraunið eða yfir Norðurvelli. Þar var víða sjálfgerður vegur og óþrjótandi efni í upphleyptan veg, þar sem þess hefði þurft; að vísu hefði hann ekki getað orðið beinn til Reykjavíkur, en ekki hefðu krókarnir þurft að vera margir, og aldrei hefði farið svo, að vegfarendur þokuðust hvorki fjær eða nær áfangastaðnum, þó þeir héldu áfram, eins og nú á sér stað á vissum kafla af veginum. En nú var þetta happaráð ekki tekið.
Setjum nú svo, að óumflýjanlegt hefði verið að leggja veginn yfir hraunið, sem þó ekki var, það verður eigi að síður óskiljanlegt, af hvaða ástæðum hann hefir verið þannig lagður, sem nú er sagt; fleiri króka mátti á honum hafa, en lengra var ekki hægt að þræða hraunið með hann. Af Bolavöllum átti að taka stefnuna, svo að hann hefði komið þétt að háhrauninu, þar sem það skerst til norðausturs, og svo beina stefnu vestanhalt á Lyklafell, eða rétt yfir taglið á því, og sem beinast til Reykjavíkur eða að norður-þjóðleiðinni yfir Elliðaárnar. Með þessari stefnu varð vegurinn hér um bið 650 föðmum styttri yfir hraunið en hann er nú, og þá auðvitað allur á annað þúsund faðma skemmri. Þá þarf yfir enga kvísl af Elliðaánum að fara, nema rásina hjá lyklafelli, sem ekki getur orðið að farartálma nema í stærstu leysingum á vetrardag, og mun þó sjaldnast ófær fyrir norðan fellið, enda er þetta sú eina leið, sem fær er undir hinum ýmsu kringumstæðum vetur og vor fyrir þá, er koma austan yfir Hellisheiði, og það er vonandi, að sú skoðun, sem þegar var til, þá er Svínahraunsvegurinn var lagður, að afleggja veginn fyrir sunnan vötnin, muni nú algjörlega ryðja sér til rúms, þegar búið er að leggja brýr yfir Elliðaárnar.
Það er því okkar skoðun, að snjallasta ráðið sé – úr því sem nú er komið – að halda við efri hlutanum af veginum, hér um bið 1900 föðmum, og taka svo stefnuna vestur úr hrauninu, sem er hin skemmsta er fengist getur, og eins og áður er sagt, beint á taglið á lyklafelli, og munu hér vera nálægt 500 föðmum, sem leggja þarf af nýjum vegi yfir hraunið, og eru þar melar við hraunið, er gefa mundu um langan aldur nægilegt ofaníburðarefni.
Það er vitaskuld, að þessi skoðun mun þykja hörð aðgöngu, að af leggja 1150 faðma af svo dýrkeyptum vegi; en hvað skal segja? Þegar maður hefir tekið ranga stefnu og er orðinn rammvilltur, þá versnar ástandið jafnan meir og meir, eftir því sem þannig er lengur áfram haldið, og er þá eina ráðið að snúa aftur, meðan afturkvæmt er, eftir að hafa staðið við og gáð til vegar.
En hvort haldið yrði meiru eða minna af þessum urðarstíg, mun þó eina ráðið að taka hann upp og flórleggja það sem brúka má af honum; að öðrum kosti ætlum við að jafnan muni annar kaflinn orðinn lítt fær, þegar búið er að bera ofan í hinn, með því að ofaníburðarefni mun þegar þrotið.
Við skulum svo ekki fleirum orðum hér um fara að sinni, en ætlum ekki óráðlegt, að þetta mál sé yfirvegað, og kæmi hér upp útlendur vegagjörðarmaður ætti það að vera hans fyrsta verk að skoða þennan ómaga landsins, sem þurft hefir mikið og þrifist illa.
Í desbr. 1883.
Þorlákur Guðmundsson. Guðm. Magnússon.


Austri, 30. jan. 1884, 1. árg., 4. tbl., bls. 42.:
Greinarhöfundur ræðir hér almennt um vegagerð, jafnt þjóðvegi sem hreppsvegi.

Fáein orð um vegina
(Aðsent)
Síðan Alþing vort fékk löggjafarvald, hefur á hverju ári verið varið ærnu fé úr landssjóði til vegabóta á fjallvegum, og hafa vegir þessir víða hvar tekið stórmiklum umbótum, þótt sumsstaðar kunni vegabæturnar að vera miður vandaðar, en æskilegt væri, og sumsstaðar vanti enn mjög mikið til þess að vegirnir séu fullgjörðir. Sumsstaðar er ekki einu sinni byrjað á að lagfæra fjallvegina, svo það fer senn hvað líður í hönd, að sumar heiðar verði með öllu ófærar fyrir hesta á sumardag, því ekki er nú lagfært svo mikið sem tekinn sé steinn úr götu, nema á kostnað landssjóðsins síðan vegalögin 15. okt. 1875 fengu gildi. Það er nú að vísu engin von til þess, að gjörðir verði góðir vegir á öllum fjallvegum vorum, á fáum árum. Til þess skortir bæði fé og vinnukraft, og eigi síst nógu marga hæfa menn til að standa fyrir vegagjörðunum. En misjafnar skoðanir munu vera um það, hvort landsstjórnin hafi verið sem heppnust í að ákveða hvar fyrst skuli gjöra við fjallvegina. Eftir fyrirmælum fjárlaganna eiga þeir fjallvegir að sitja í fyrirrúmi, sem aðalpóstleiðir liggja um, og er þetta í alla staði vel hugsað; en ein heiði er þó eftir, sem alls ekkert hefur verið gjört við um langa tíma, sem liggur á leið þess aðalpósts, er eftir því sem ég þekki til hefur lengsta og torfærasta leið að fara af öllum póstum landsins. Þessi heiði er Lónsheiði, milli Múlasýslu og Skaftafellssýslu; hún er að vísu eigi löng byggða á milli, en fyrir 6 árum síðan var hún lítt fær um hásumar með hesta, og víða svo að eigi var unnt að komast nema fót fyrir fót. Síðan hefur alls ekkert verið gjört við hana, svo því má nærri geta, hvernig vegurinn nú er orðinn á henni, einkum þar sem talsverður kafli af honum liggur meðfram gjá, í hallandi urð, neðan undir klettabelti, sem stöðugt falla björg og stórsteinar úr, er sumpart lenda á veginum, eða hrynja alla leið niður í gjána. Þetta er vetur póstsins milli Prestsbakka og Eskifjarðar, sem hefur á leið sinni hina lengstu eyðisanda, sem farnir eru hér á landi – að fráskildum Sprengisandi – og hin langverstu vatnsföll sem eigi er ferja á, auk þriggja annarra fjallvega, sem eru á leið hans. Ég tel það víst, að landstjórninni sé eigi kunnugt um hve ill heiði þessi er yfirferðar; en það þykir mér lýsa of miklu áhugaleysi af sýslunefndum þeim, sem næstar eru heiðinni, að hafa ekki þegar skorað á hlutaðeigandi amtsráð um að fara þess á leit við landshöfðingja, að hann veiti fé til að gjöra við þennan fjallveg sem allra fyrst.
Hvað sýsluvegina snertir, þá mun víðast hvar hafa verið sýndur talsverður áhugi á að koma þeim í lag, en vorkunn er þótt það taki langan tíma, að koma þeim öllum í gott lag, einkum þar sem margir heiðarvegir eru í sömu sýslunni, sem ætíð eru erfiðir við að eiga. Það virðist vera mjög ólíkt að gjöra viðunanlegan sýsluveg í Rangárvallasýslu, þar sem hvorki er svo mikið sem lítill heiðarháls yfir að fara, né nokkur önnur óteljandi torfæra, hjá því í sumum öðrum sýslum t.d. Múlasýslunum, þar sem hver fjallvegurinn er fram af öðrum, og sumir mjög fjölfarnir. Það virðist vera mjög ólíkt að gjöra viðunanlegan sýsluveg í Rangárvallasýslu, þar sem hvorki er svo mikið sem lítill heiðarháls yfir að fara, né nokkur önnur teljandi torfæra, hjá því í sumum öðrum sýslum t. d. Múlasýslunum, þar sem hver fjallvegurinn er fram af öðrum, og sumir mjög fjölfarnir. Það virðist því eiga mjög vel við, að þær sýslurnar, sem þannig hagar til í, gætu notið einhvers styrks úr landssjóði, svo að þær, að minnsta kosti með tímanum gætu notið sömu hagsmuna af greiðfærum vegum, sem hinar sýslurnar, sem betur standa að vígi frá náttúrunnar hendi. Ég tel það mjög líklegt, ef sýslunefndir þær, er hlut eiga að máli, bæru þessi vandkvæði sín fram fyrir alþingi* ), þá mundi það veita fjárstyrk þar sem þess væri helst þörf, með vissum skilyrðum.
Þar sem nú bæði landsstjórn og sýslunefndir hafa unnið dyggilega að sínum hluta að vegabótum hér á landi, þá verður, því miður, eigi hið sama sagt um hreppanefndirnar víða hvar. Í 5. gr. Vegalaganna 15. okt. 1875 er kveðið svo á, að hreppsnefndirnar ráði, hver í sínum hreppi, hvernig vegabótagjaldinu er varið. Þó skulu þær gjöra hlutaðeigandi sýslunefnd grein fyrir því, hvað unnið hefir verið að vegabótum hvert ár, og hvernig vegabótagjaldinu hefir verið varið. Mér er óhætt að fullyrða, að ákvörðunum þessum í greininni er eigi fullnægt allstaðar; í sumum hreppum mun hvorki vera gengist eftir vegabótagjaldinu, né því að gjaldendur vinni gjaldið af sér; og þá má geta nærri hverja grein hreppsnefndin getur gjört sýslunefndinni fyrir því, hvernig vegabótagjaldinu er varið. Þar sem þetta á sér stað, ræður að líkindum hvernig hreppavegirnir muni vera; þar sem þeir eru ekki orðnir ófærir, þar verða þeir það áður en langt um líður; svo ef ókunnugum manni verður það, að fara út af sýsluveginum, þá kemst hann, í slíkum hreppum í ógöngur*). Ég skal fúslega játa að frá þessu eru heiðarlegar undantekningar, - en þetta má alls ekki eiga sér stað. Það ætti þó hverri hreppsnefnd að vera sjálfhugað um, að hafa hreppsvegina hjá sér í bærilegu lagi, - og engum gjaldanda getur verið það um megn að inna þetta gjald af hendi, þar sem honum gest kostur á að vinna það af sér.
Til að koma í veg fyrir þessi undanbrögð hjá hreppsnefndunum að gæta skyldu sinnar í þessu efni, virðist það liggja beinast við, samkvæmt vegalögunum, að sýslunefndirnar gangi ríkt eftir því, að hver hreppsnefnd sendi til sýslunefndarinnar uppástungur sínar um, hvar og hvað skuli gjöra við hreppsvegina á næsta sumri, sem og áætlun um tilvonandi tekjur hreppsvegasjóðsins, og um kostnaðinn við vegabæturnar. Sýslunefndin sendir þvínæst hreppanefndunum úrskurð sinn um uppástungurnar, svo fljótt sem þörf er á. Þegar svo vegagjörðinni er lokið, skal sýslunefndinni tafarlaust gjörð grein fyrir því, hvað unnið hefur verið og hvað verkið hefur kostað. Væri því næsta æskilegt, að sýslunefndin kysi mann úr sínum flokki, til að skoða vegagjörðina í hverjum hrepp, þó þannig, að alderi yrði sýslunefndarmaður úttektarmaður að vegum í sínum eigin hrepp, til þess að koma í veg fyrir að nokkur hlutdrægni ætti sér stað. Ættu svo skoðunarmennirnir að skýra sýslunefndinni frá áliti sínu, og öll vanrækt í vegagjörðinni sæta sektum eftir málavöxtum. Kostnaðinn við skoðunargjörðina ætti að greiða af sýslusjóði, að því leyti sem sektirnar ekki yrðu nægar til að borga með þeim kostnaðinn.
Mér virðist þetta vera svo mikilsvarðandi mál, að því ætti að sinni hið allra fyrsta, og vona því að þessum línum verði gefið rúm í hinum nýfædda blaði Austfirðinga.
8/12 “83.
KL.
*) Alþingi í sumar er leið, voru einmitt veittar 8.000 kr. fyrir hvort árið, 1884 og 1885, “til að styrkja sýslusjóði til að bæta sýsluvegi á aðalpóstleiðum”.
*) Því miður mun þetta eiga sér víða stað, og ættu því hreppsnefndir og sýslunefndir að láta bendingar höfundarins til umbóta á þessu verða sér að kenningu.
Ritstj.


Ísafold, 14. maí 1884, 11. árg., 20. tbl., bls. 78:
Greinarhöfundur hvetur til brúargerðar á Ölfusá og öðrum þjóðvegum og lýsir þeirri skoðun að landssjóður eigi að kosta slíkar framkvæmdir.

Um brúargerð yfir Ölvesá og um póstvegi.
Eftir Þorlák Guðmundsson alþingismann.
“Enginn veit hvenær þessi dagur muni koma”.
Svo var það og fyrir skemmstu, að enginn vissi, hvenær þeir dagar mundu koma, að Skjálfandafljót og Elliðaárnar yrðu brúaðar; en þetta næstliðna ár hefir ekki látið sig vera án vitnisburðar, þó vér ekki tökum það sem árgæsku-ár, sem það þó var, af forsjóninni gefið í sannri þörf. Allir tímar hafa að vísu eitthvað merkilegt að færa, er gefur teikn, ef eftir er tekið, um það, hvort þjóðirnar eru á framfara- eða afturfarabraut í þessu eða hinu. Það er hið merkilegasta tímans teikn, að Íslendingar séu á framfarabraut, þó hægt fari, í því að bæta samgöngurnar, að þessi 2 nafnkenndu vatnsföll hafa verið brúuð á árinu 1883; að þessu leyti hefir það ekki látið sig vera án vitnisburðar, sem framfaraár.
Hér er unnið fleira en eitt; það er ekki einungis gagnið sem af því leiðir, sem þó verður ómetandi. Það er annað, sem engu er minna í varið: að hér með er byrjað, hér með er ísinn brotinn, hér með sýnt, að það má brúa ár á voru landi. Það sannast hér sem oftar, að hálfnað er verk þá hafið er. – Það er ekki hvað minnst undir því komið, þegar byrjað er á einhverjum þjóðlegum fyrirtækjum, að byrjað sé vel og rétt, að fyrstu tilraunirnar heppnist, hvort heldur er t. a. m. að koma upp skólum til alþýðumenntunar, eða bæta samgöngurnar, og þessi tvö atriði, menntun alþýðunnar og að bæta samgöngurnar svo fljótt og vel sem unnt er, munu vafalaust hin þýðingarmestu verkefni, er liggja fyrir nútíðarmönnum, því vanþekking og samgönguleysi eru hin þyngstu þjóðmein vor, eins og margra annarra heimsjarðarbúa.
Það, sem ég hér ætlaði að minnast á, er brúargerðin yfir Ölvesá og aðalpóstvegir; nú sem stendur veit enginn maður hvenær sá dagur muni koma, að þingið verði svo stórhugað, og leyfi sér það frægðarorð, að veita fé til þessa, ef það er meira en skylda þess að brúka svo verklega landsfé, en mola það ekki niður í launabætur og eftirlaun, eða til annarra smámuna, sem enga sér staði; samt hygg ég að flestir muni vera vissir um að þetta verði gert, ekki einungis fyrr eða síðar, heldur á næsta eða öðru þingi hér frá. Það er fullkunnugt, hverjar tilraunir hafa verið gjörðar til að fá þessu nauðsynjaverki framgengt, og skal ég því hafa sem minnst við að taka upp sögu málsins á þingi eða annarsstaðar. Þeim mönnum, er þetta mál liggur þyngst á hjarta, er ekki ókunnugt um, hverjir það eru, sem þar hafa lagst í þjóðgötu framfaranna og strítt á móti straum; en eins og dropinn holar bergið blátt, eins mun straumur framfaranna, framknúður af afli þarfarinnar, sannleikans og réttlætisins, ryðja burtu því sem í veginum stendur, hvað sem það svo heitir. Ámæla skal ég engum sérstaklega, það vinnur ekki málinu gagn. – Það þótti sem von var mörgum af þeim, er hér áttu mestan hlut að máli, illa til takast, þegar frumvarp þingsins 1879 visnaði upp í höndum stjórnarinnar. Það er nú svo, að þeim er búinn bíður, finnst jafnan langt, þeim þjáða, þeim af samgönguleysinu undirokaða, er þetta ekki láandi; en þó getur stundum verið betra að hjálpin dragist nokkuð, en hún komi fyrr, og sé þá þeim annmörkum bundin, að hjálpþurfar naumast eða ekki geta undir risið. - Hefði nú frumvarpið orðið að lögum, má telja víst, að verkið hefði verið framkvæmt, og þá lánið orðið sú byrði, er héruðin hefðu ekki undir risið með harðæri og fellir, er þá dundi yfir; það má því eins vel skoðast sem heppni, að frumvarpið ekki varð að lögum, enda var það ofurhugi að taka slíkt lán, byggður á hinni brýnu þörf. Það verður heldur ekki skoðað öðruvísi en sem ónærgætni og ósanngirni að þvinga vissa parta af landinu til að taka slík stórlán því til framkvæmdar, sem er rétt skoðað almennings gagn og sama sem að neita þeim um það sem gera þarf. Því mun nú verða svarað, að hér sé um meira að ræða en brúa Ölvesá; annar fiskur liggi undir steini, það er Þjórsá. Það virðist að vera það sjálfsagða þegar kringumstæður leyfa, ef brúarstæði fæst; hér er ekki verið að fara með nein undirhyggjuráð.
Landssjóður er sá Þór, sem á að fara í austurveg og berja á tröllum. Þegar sýslu- og sveitarfélög eru farin að berja á hinum minni tröllum og næturvofum, sem staðið hafa á þjóðvegum, síðan land byggðist, og hindrað ferð og framkvæmdir, ógnað lífi og limum margra, eyðilagt sumar, þá getur það engum dulist, að hér fer verulega að slá skugga á þingið í þessu mikilsverða máli; það verður ekki með gildum ástæðum barið við féskorti, reynslan er búin að sýna, að hér má ná ærnu fé án þess að leggja nýja beina skatta, og enn munu nóg ráð til að ná meiru fé, enda þó af væri létt ábúðar- eða lausafjárskatti; það stefnir allt að því, að sú skoðun nái festu hjá þjóðinni og þinginu, að landssjóður eigi að kosta aðalpóstveg um landið, og þar á meðal að brúa hinar stærri ár á þeim leiðum. Þingið er komið inn á þessa skoðun, þrátt fyrir hin núgildandi vegalög, og er allt af meir og meir að fjarlægjast þau, eins og þingmaður Borgfirðinga (Gr. Th.) sagði á sama þingið (þingmaðurinn er þar í með), og það má segja að þetta hafi gengið þegjandi í gegn, það er að styrkja póstvegi í byggðum með því að leggja fé til móts við sýslusjóðinn þeim til endurbóta. Þetta hefir þannig myndast, eins og þegar ein réttarvenja skapast af sjálfu sér, af því, að tímans rás og þörfin segir eða réttara sýnir þegjandi, að svona hlýtur það að vera; það má öllum vera ljóst, að sýsluvegagjaldið í heild sinni og einstökum héruðum er ónógt til að gjöra hina mörgu og erfiðu byggðu vegi í stand, og er þó tilfinnanlegt fyrir gjaldendur með afleiðingum arðæris og öðrum þungum sköttum, er á þeim hvíla. Það er mikil bót í máli með kostnaðinn til aðalpóstveganna, að ekki þarf að kosta nema einn veg yfir Kjósar- og Borgarfjarðarsýslur og allt upp í Stafholtstungur. Það er því sjálfsagt, að Borgfirðingar muni halda þessu fram og þá þingmaður þeirra gefa því meðhald sitt, og þar á meðal, að Hvítá í Borgarfirði verði á sínum tíma brúuð, og ætla ég þetta engu minna vert en þó þeir (Borgfirðingar) fengju gufubát á Faxaflóa, enda sýnist að kaupmannastéttin, sem orðin er allfjölmenn hér í kringum flóann, ætti að koma því fyrirtæki á fót. Sama er að segja um Reykjavík og þingmann þess kjördæmis, sem um Borgfirðinga og þingmann þeirra; allt það, sem bætir samgöngurnar, og þá undir eins eykur viðskiptin við höfuðstað landsins, verður hans gagn og sómi, og hann mun hvorutveggja með þurfa. Bærinn hlýtur því og þingmaður hans að hlynna svo að þessu máli, sem unnt er, svo er og um fleiri kjördæmi og þingmenn þeirra, því hér kemur saman þörf og gagn einstakra héraða, við þörf og gagn alls landsins. Ég skal nú engan veginn segja, að þeir 9 þingmenn, sem greiddu atkvæði með brúargerð yfir Ölvesá á síðasta þingi, séu í öllu frjálslyndari en hinir, er voru móti því; það mun samt ekki verða sagt, að þessir 9 séu til jafnaðar í öllu ógætnari eða óhagsýnni í meðferð á landsfé, þegar á fleira er litið; það gefur hinar bestu vonir um framgang málsins á næsta þingi, að það fékk 9 atkvæði hrein og bein, og má segja 10, því þingmaður Dalamanna var í orði og anda með málinu, og 2 greiddu ekki atkvæði, líklega af því að þeir hafa þó fundið ærnar ástæður með því, enda finna þau allir og mótstöðumenn líka. Það má því segja, að hér stæði málið engu ver en þó það hefði fallið með jöfnum atkvæðum. Það er því ekki rétt sem blaðið Heimdallur segir (“eftir því sem alþingi hefir tekið í brúarmálið, verður ekki von á styrk úr þeirri átt”). Um undirtektir efri deildar efri deildar hefir maður ekki neitt bókstaflega fyrir sér, því hér þurfti ekki að kenna þeim konungkjörnu um: neðri deild sá um að hleypa ekki málinu svo langt; en ætlun mín er, að ekki svo fáir þingmenn þar mundu verða með málinu, og það sumir hinna konungkjörnu. Víst er um það, að hinn núverandi landshöfðingi var því mjög hlynntur 1879, í þeim búningi er það var þá í fyrir þinginu, og það er einmitt hans skoðun, að landssjóður eigi að taka að sér póstvegina í byggðum á sama hátt og fjallvegina (sjá tímarit Bókmenntafél. 1. 159-60).
Þegar um það er rætt, að póstgöngur hafa verið bættar á síðasta þingi, þá er það nú að vísu nokkuð meira en á pappírnum; þó eru þessar endurbætur ekki nema hálfverk meðan póstvegir ekki eru betur endurbættir en búið er. – Póstum er skipað að vera hér í dag og þar á morgun; þeir eiga að fara yfir byggðir og óbyggðir, á sumum stöðum yfir vegarmynd og sumum hreinar vegleysur, yfir stór vötn, sem oft geta verið allavega ófær, þó þeir upp á líf og dauða með sig og gripi sína brjótist það á ferju eða á ónýtum ís, og er þá oft margra manna lífi stofnað í háska, ferju- og fylgdarmanna og annarra er slást í för með. Póstarnir eru vafalaust undir öllum þessum kringumstæðum þeir verst höldnu menn, af þeim er taka laun sín úr landssjóði, og það er allt annað að vera embættismaður í Reykjavík, þó hann hafi nokkuð að gera, þegar verkahringurinn er allur innan 4 veggja, en að vera vetrarpóstur enda hvar sem er á landinu. Svo eru einlægar kvartanir hvað póstar séu lengi á ferðinni og stundum er póstmeistaranum um kennt, en sjaldan því er mest veldur: vegaleysi og brúarleysi á stærri og smærri vatnsföllum, enda er ekki við að búast að geta valið úr mönnum í þessa stöðu eins og þyrfti með þeim kjörum er þeir nú hafa.
Mér þætti fróðlegt að sjá, ef einhver vildi með góðum og gildum ástæðum hrekja þá skoðun, að landsjóður eigi að kosta alla aðalpóstvegi um landið, og þar á meðal leggja fé til brúargjörðar á þeim vatnsföllum, er brúuð verða á þeim leiðum.
Það mun vera einsdæmi um heim allan, að í nokkru landi, þar sem þing er, sem hefur fjárveitingarvald, ekki minna en vér, safni fé í sjóð ár eftir ár, en láti slík nauðsynjaverk sem brúargerð yfir Ölvesá óframkvæmd þing eftir þing, en þar á móti lána ekki alllítið fé út til einstakra manna, til að reisa sér vegleg hús o. fl. Það verður naumast varið, að þessi þjóðbúskapur er ekki hásigldur á haföldum heims-framfaranna.
Hér er ekki nema eitt fyrir hendi: ef að hinar stærri ár ekki fást brúaðar af almannafé, þá verða menn að sitja og sofa í sömu hlekkjunum og hoppa í sömu höftunum sem feður þeirra. Ekki er um að tala; sýslurnar geta ekki tekið slík stórlán.
Það er verið að hringja þeirri bjöllu, að hér megi koma á dragferjum. Þær kosti svo lítið. Það má segja, ef farið yrði að brúka landsfé til þess, hvort heldur beinlínis eða með láni til héraðanna, að ekki verði feigum forðað; það lítur út fyrir, að landssjóður verði ekki í þetta sinn uppétinn sem hungurforði, en að verja honum til dragferju, álít ég að gangi því næst.
Hvort er annars betra, að byrja húsið svo vel, að það standi í 50 ár, eða svo lélega, að það þurfi að endurbyggjast á hverjum 5 árum, og geta þar til ekki brúkað það nema 3-4 mánuði af árinu. Slíkar ferjur eru óveruleg meinabót, og koma hvorki póstum né öðrum að liði, þegar mest á ríður, en verða þá að liggja uppi og fúna niður undir klaka og krapi. Þær mundi og eyða meiru fé á ¼ parti aldar, en fastabrú kostaði, sem varaði fleiri aldir, ef náttúru-umbrot ekki grönduðu henni.

Ég ætla nú að treysta því, að þeir háttvirtu herrar og þjóðfulltrúar, sem nú eiga sæti á þingi Íslendinga, vilji nú eignast sjálfir, þegar þeir í síðasta sinn á kjörtímanum ganga af þingi, það framfara- og frægðarorð, heldur en gefa það og geyma öðrum, sem, ef til vill, setjast í sæti þeirra á nýjum kjörtíma, að hafa greitt atkvæði með því, að landssjóður takið að sér aðalpóstvegina, og þá þar á meðal að brúa Ölvesá.
Þó að enginn viti nú sem stendur, hvenær sá dagur muni koma, að Ölvesá verði brúuð, þá get ég ekki betur sé, en að margt bendi til þess, og gefi bestu vonir um, að bjarma muni upp af þessum degi í lok næsta Alþingis.
(Ritað á sumardaginn fyrsta 1884)


Þjóðólfur, 5. júlí 1884, 36. árg., 26. tbl., bls. 102:
Þjóðólfi finnst vegirnir í nágrenni Reykjavíkur ekki nógu góðir og ræðir sérstaklega um veginn inn að Elliðaánum.

Vegleysan að höfuðborginni.
Það skyldi maður ætla, að til vegagjörðar væri hvað best vandað í hverju landi, í námunda við höfuðstað landsins, en Reykjavík mun vera undantekning í þessu, sem svo mörgu öðru frá öðrum höfuðborgum, og sýndist þó vera talsverð ástæða til, að halda viðunandi vegum uppi upp frá bænum. Bæði fer þar fjöldi lestamanna yfir, sem sækja að bænum og sjóplássunum þar í grennd, enda er þetta hinn almenni útreiðar vegur Reykvíkinga, það mundi nærri því mega segja hinn almenni kirkjuvegur þeirra á sumrin, þar sem miklu fleiri bæjarbúar sækja þá Ártúnskirkjuna heldur en dómkirkjuna á sunnudögum. Einnig er þetta það af vegum landsins, er flestallir útlendingar sjá lang helst. Það er vegurinn úr bænum inn að Elliðaánum, sem hér er einkum við átt, og fellur hann í tvo kafla, annan, sem bænum tilheyrir, og hinn,, sem heyrir til Kjósar- og Gullbringusýslu. Bæjarkaflinn nær út úr bænum og upp að vegamótunum, þar sem Hafnarfjarðarvegur skilst frá. Að stefnunni á bæjarkaflanum, eða því, hvar hann er lagður, er ekkert að finna, en hitt er fráleitt, að vegkafla þessum skuli ekki vera við haldið í nokkurn veginn færu ástandi; en þetta er ekki gjört; undir eins og kemur upp fyrir hegningarhúsið skortir ofaníburð í veginn; hnökragrjótið í undirlaginu er því hvarvetna komið upp úr og ægir þar hrossum og fótgangandi með hálsbrotsbyltum. Um kaflann frá Hafnarfjarðarvegi og upp undir árnar er það að segja, að hann er bæði í hneykslanlegu ástandi, enda er hann og lagður mjög óhöndulega að stefnunni til; því að þar sem hann nú er, verður viðhaldskostnaður marfalt meiri á honum, heldur en ef hann væri lagður á réttum stað, og þar að auki verður honum aldrei viðhaldið svo í lagi sé, þar sem hann er. Þegar Reykjavíkurkaflinn af veginum var lagður, var það vitanlega tilgangurinn að áframhald hans skyldi lagt verða inn melhrygginn inn að Mjóumýri svo kallaðri, yfir mýrina, sem auðvitað þyrfti að brúa, en hún liggur hátt, og þar innar af mætti halda melhryggnum inn að Bústöðum. Með því að leggja veginn þannig, sleppa menn við Háaleitisklifið og hina minnisverðu brú á slakkanum hérna megin við það. Í stað þess, að leggja veginn þannig, sem er langkostnaðarminnst eins og vegurinn yrði þá og betri og ódýrra að viðhalda honum, þá við heldur nú sýslunefndin með lélegri ruðningu gamla veginum, sem nú liggur svo, að krókur hefir verið gjörður á hann til hægri handar fyrir innan Hafnarfjarðarvegamótin, svo að hægt væri að fylgja slakkanum niðri bleytunni og forinni.
Það þyrfti að vinda bráðan bug að því að gjöra eitthvað við þennan veg alla, bæði bæjarkaflann og sýslukaflann, og ætti helst að byrja þegar í vikunni nú eftir helgina, ef nokkurt lið á að verða á annað borð að slíkri aðgjörð í sumar. Nú er líka almennt atvinnuleysi hér og auðgefið að fá ódýran vinnukraft, en hins vegar sjálfsagt góðverk og siðferðislegt skylduverk, að veita fátæku fólki þá atvinnu, sem unnt er, í þessari vandræðatíð, þar sem slíkt nauðsynjaverk er fyrir hendi, sem óhjákvæmilega þarf að vinna. – Óskandi væri, að sýslunefndin hefðu nú þá umsjón á sínum vegkafla, ef hann verður lagður um, að hann verði betur af hendi leystur, en hið svo nefnda “Löggjafa-skeið” (hérna megin í Kópavogs-hálsi).


Ísafold, 22. okt. 1884, 11. árg., 42. tbl., bls. 168:
Helgi Helgason lýsir hér skoðun sinni á því hvernig gera skuli endingagóða vegi. hann segist einnig hafa kynnt sér “brúleggingar” erlendis og sé fús að veita góð ráð í þeim efnum.

Um vegagjörð.
Þar eð ég hefi oftsinnis orðið þess var, að vegagjörð er ekki svo vel af hendi leyst hér í bænum, sem óskandi væri, þá vil hér með benda á, að aðalskilyrði fyrir því, að vegir þeir sem gjörðir eru að nýju, verði endingargóðir, er, að undirstaða og ofaníburður sé vel vandað; að vegurinn sem lagður er sé vel fylltur með grjóti hæfilega stóru; að því sé vel raðað, að enginn steinn liggi á huldu, að grjótið sé allt jafn hátt, svo ekki beri hærra á einum steininum en öðrum; og að þessi flórlegging sé vel barin niður með svo þungum áslætti, að hæfilegt sé fyrir 2 menn að lyfta honum, og þjappa að flórnum. Þetta grjótlag ætti ekki að vera hærra en svo, að það væri 6 þml. lægra um miðjuna en brúnir vegarins, þannig, að það sé bogadregið niður á við frá báðum hliðum, og að hver hola sem er á milli flórsteinanna, sé fyllt með smærra grjóti, og það barið niður á sama hátt og hið áður nefnda. Þegar flórleggingunni er lokið, ætti að bera góðan ofaníburð ofan á grjótið, en hafa hann ekki meiri en svo, að hann sé jafnhár hleðslunni á brúnum vegarins, (t.d. eins og nú hefir verið gjört við Svínahraunsveginn), láta svo þennan ofaníburð troðast í ár, og svo endurbæta veginn með nýjum og góðum ofaníburði á næsta ári. Þessi ofaníburður þyrfti að vera vel jafn, ekki með stórum malarsteinum innan um sandmoldina, eins og oft hefur verið brúkað.
Reyndar eru menn nú farnir að vanda meir ofaníburð en áður, með því að tína stærsta grjótið úr með höndunum um leið og mokað er upp í vagninn. En þetta er seinlegt verk, og verður því kostnaðarsamt, ef það er vandlega gjört. Hefir mér því komið til hugar, að nauðsynlegt væri að hafa rimlagrind úr járni með hæfilegu millibili á milli teinanna. Grindin ætti að vera 2 ½ alin á lengd og 1 ½ alin á breidd, með tréumgjörð og sívölum járnteinum eftir endilöngu. Ætti grindin að standa hallfleytt upp á endann og styðjast við 2 bakstuðla; flytjast svo þangað sem ofaníburðurinn er tekinn úr jörðinni, og jafnóðum og hann er losaður upp, þá að moka honum á grindina; fellur þá hið smærra öðru megin, en það stóra, sem ekki kemst í gegnum, hinumegin, og álít ég þennan aðskilnað á ofaníburðinum fljótlegri, og þess vegna ódýrari, en þann sem nú er við hafður.
Svona tilbúnir vegir ætla ég að muni geta enst lengi með góðri hirðingu, einkum sem þjóðvegir. En í Reykjavíkurbæ geta vegir, sem fylltir eru með moldarkenndu efni, naumast orðið endingargóðir, sem eðlilegt er, vegna hinnar miklu umferðar af hestum og vögnum. Væri því æskilegt að stræti bæjarins væru brúlögð með grjóti.
En brúlegging hefir mikinn kostnað í för með sér, og margir munu álíta það ofætlun fyrir bæinn, einkum eins og nú er ástatt, að byrja á því fyrirtæki. En hefðu bæjarbúar byrjað á að brúleggja bæinn fyrir 20-30 árum síðan, og lagt kafla á ári hverju, en sparað að bera lélegan ofaníburð í göturnar með ærnum kostnaði, þá væru þær vissulega betri yfirferðar en þær eru nú.
En til þess að geta byrjað sem fyrst á þessu þarfa verki, þá hefir mér komið til hugar, að réttast væri, svo framarlega sem hin heiðraða bæjarstjórn sæi fært að útvega nokkra peninga, að nú í haust og vetur yrði byrjað á að undirbúa grjót til brúleggingar, svo stræti bæjarins geti tekið verulegum umbótum, og líka til þess, að veita fátækum verkamönnum í bænum atvinnu, því útlit er fyrir að margir muni þurfa að fá styrk til lífsviðurhalds í vetur af fátækrasjóði bæjarins. Ef nú sumum þeim mönnum, sem þarfnast kynnu slíks styrks, væri þess í stað veitt atvinna við grjótverkið undir umsjón dugandi manns, sem vit hefðir á að segja fyrir þess konar verkum, og halda reikning því viðvíkjandi, þá finnst mér vera tvennt unnið: fyrst það, að útvega mönnum vinnu fyrir þá peninga, sem þeir annars kynnu að fá til láns úr bæjar- eða fátækrasjóði, og sem þeir, ef til vill gætu ekki endurborgað fyrr en seint og síðar meir, vaxtalaust, og hitt, að fá unnið eitt hið þarfasta verk, sem bæjarfélagið í þessu tilliti nokkurn tíma getur gert.
Af því ég hefi nokkuð kynnt mér brúleggingar erlendis, einnig tekið eftir hvað mikið hver faðmur af brúleggingargrjóti mundi kosta hér tilbúinn, þá er ég fús til að veita þær upplýsingar þessu viðvíkjandi, sem mér er framast unnt, ef á þyrfti að halda og byrja mætti á verkinu.
Rvík. 15/10 1884.
Helgi Helgason.


Þjóðólfur, 1. nóv. 1884, 36. árg., 42. tbl., forsíða:
Áhugamenn um hálendið hafa vafalaust gaman af þessari lýsingu Sigurða Pálssonar í Haukadal á Kjalvegi.

Lýsing á Kjalvegi.
Eftir Sigurð Pálsson í Haukadal.
Það munu margir hafa heyrt nefndan Kjalveg, sem liggur milli Norðlendingafjórðungs og Sunnlendingafjórðungs upp úr Árnessýslu, en færrum mun nú kunnugt hvar hann liggur milli byggða. Ég ætla því með þessum línum að lýsa honum eftir því sem mér er kunnugt. Hann liggur upp úr Biskupstungum og Hrunamannahreppi, en fyrrum var hann vanalega farinn upp úr Þingvallasveit, var þá farinn Kaldalsvegur upp á Hofmannaflöt, en þar skiptust vegir, var farið til austnorðurs inn á Biskupsflöt, þaðan til landsuðurs í skar á lágum fjallgarði, sem liggur fyrir austan flötina. Þegar komið er yfir skarðið, liggur vegurinn inn með fjallgarðinum, þangað til komið er beint á móts við lítinn fjallshnúk, sem er austur í hrauninu fram af Skjaldbreið, - tveir eru hnúkarnir og langt bil á milli, er þetta inn efri – er nú haldið þangað og sunnan undir hnúknum. Hnúkur þessi heitir Sleðaás, og er vestan undir honum stór klettur, sem kallaður er Grettistak; hann stendur á sínum minnsta flatvegi og eru undir honum steinar. Frá hnúknum liggur vegurinn í landnorður upp í skarðið fyrir framan Skjaldbreið. Það heitir Klukkuskarð; þar eru tveir hólar sem heita Klukkur; vegurinn er fyrir framan þá og sunnan Skjaldbreið, er stefnt í landnorður á Hlöðufell, það er hátt, þverhnípt hamrafjall. Fyrir sunnan veginn er mikill og langur fjallgarður, þar er fjall sem heitir Eiríksfell, neðan undan því eru Eiríksvellir, þar er farið um; þar er nú blásið mjög. Við austurenda þessa fjallgarðs liggur nú vegurinn upp á Hlöðuvelli, sem eru sunnan undir Hlöðufelli; þar er góður áfangastaður. Allur vegurinn frá Hofsmannaflöt hingað er óglöggir slóðar, og víða grýttir mjög. Af Hlöðuvöllum liggur vegurinn yfir grýttan hraunsand, sem heitri Rótasandur, er stefnt í landsuður, á Högnahöfða, sem er mjög hátt fjall á fjallgerði þeim, sem liggur austan megin Rótasands, er þar skarð austur úr norðan undan Högnahöfða, það heitir Hellisskarð, um það er farið, og er í austanverðu skarðinu farið niður með suðurbarminum á djúpu gili. Úr Hellisskarði lá vegurinn í fyrndinni til landnorðurs fyrir norðan byggð í Biskupstungum. Var farið hjá fjalli því, er Svínafell heitir, norðarlega í Úthlíðarhraunum, þaðan til norðurenda Sandfells, þar var áfangastaður sem hét í Grasdölum; þar er ein tjörn sem heitir Norðlingatjörn. Þaðan hefir vegurinn legið í landnorður fyrir vestan Sandvatn, og svo inn með Sandvatnshlíð, þaðan sjónhending í vesturenda Bláfells, og komið þar á veginn sem liggur upp úr Biskupstungum. Þessi partur vegarins hefir lagst af vegna ágangs af sandi og þar af leiðandi grasleysis. Á seinni tímum var því vegurinn lagður úr Hellisskarði til austurs yfir þvert Úthlíðarhraun, upp á Kvernháls fyrir norðan Bjarnarfell og austur yfir hann ofan í Biskupstungur. Er farið niður skógarhlíð skammt fyrir norðan bæinn Helludal, þá yfir litla á, Langá, þá yfir norðurenda Laugarfells, fyrir norðan Geysi, en sunnan bæinn Haukadal, þá austur fyrir smá-árnar Beiná og Almenningsá að Tungnafljóti og yfir það á Þverbrekknavaði, þar er það í þrem kvíslum, og að austanverðu rennur í það lítill lækur þar sem upp úr er komið. Hjá honum höfðu “Norðlingar” áfanga í svo nefndu Gýgjarhólsþýfi. Þaðan liggur vegurinn til landnorðurs fyrir austan bæinn Kjóastaði. Er þaðan lagt norður á fjöllin og stefnt á austurenda Bláfells. Það er stórt fjall á Biskupstungna afrétti. Er þeirri stefnu haldið inn á Vegatorfur, - sem nú eru að mestu blásnar af. – Við norðurenda þeirra er farið yfir Sandá, er þar rennur til austurs í Hvítá. Er Hvítá þá skammt fyrir austan veginn og rennur það beint í hásuður. Þegar komið er norður yfir Sandá, liggur vegurinn norður Héðinsbrekkur. Þær liggja norður með Hvítá og er hún fast við þær að austanverðu. Þegar þær þrjóta, er stefnt nær hánorðri á vesturenda Bláfells, yfir Brunnaskóga og ofan til yfir Brunnaskógalæk, sem fyrir innan skógana fellur í Hvítá. Hún rennur þar úr landnorðri, en vegurinn stefnir enn til norðurs á vesturenda Bláfells, yfir litla á, sem Grjótá heitir, og svo upp á Bláfellsháls. Það er há og breið grjótalda, sem liggur í norður og vestur af Bláfelli. Liggur vegurinn spölkorn frá fjallinu vestan og norðan megin og tekur þá stefnu til landnorðurs; er farið af hálsinum sunnan megin við gilfarveg, sem liggur þar ofan til landnorðurs. Þar er aftur komið að Hvítá, stutt frá því sem hún rennur úr Hvítárvatni, er þar vað á henni, sem heitir Skagfirðingavað. Það er ofan til við efsta hólmann í ánni og er hún þar í tveim kvíslum. Vaðið er nokkuð djúpt, helst á norðurkvíslinni, og er áríðandi að halda vel á strauminn þegar inn yfir er farið; framyfir ríður minna á því. Nú er bátur við ána að sunnanverðu. Þegar komið er norður yfir Hvítá, er farið inn Hvítársand í landnorður. Á sandinum norðanverðum eru tveir fjallhnúkar, sem heita Skútar, og er vegurinn vestanmegin þeirra. Verður þar fyrir lítil á, sem heitir Svartá; yfir hana á að fara stutt fyrir framan innri Skúta; þar heitir í Svartárbugum; þar má hafa áfangastað og þar er sæluhús fyrir fjallleitarmenn úr Biskupstungum. Svo er farið norður með Svartá þar til hún skiptist í tvær kvíslir, við norðurenda innri Skúta, verður þar nes milli kvíslanna, er heitir Gránunes; þar var áfangastaður ferðamanna (úr Gýgjarhólsþýfi). Vegurinn liggur yfir vesturkvíslina upp í nesið. – Þegar farið er upp úr Hrunamannahreppi, er hér komið á veginn. Í Gránunesi skiptast Kjalvegur og Eyfirðingavegur (eða Vatnahjallavegur). Hann liggur austur yfir eystri kvíslina, en Kjalvegur vestur yfir hina vestri, er svo haldið í landnorður og stefnt á austurenda Kjalfells, sem er hátt hamrafjall alveg sérstakt. Austanundir því er farið, og frá landnorðurenda þess liggur vegurinn upp á Kjölinn, sem er norðurbrúnin á Kjalhrauni; þar er gróðurlaust, hraunstandar, og sandur á milli sumsstaðar. Skammt frá austurenda Kjalfells er farið hjá þeim stað, sem Reynistaða-bræður urðu úti; sér þar enn mikið af hrossa- og sauðabeinum. Upp á Kjölnum er Grettishellir, stutt fyrir austan veginn, stór hellir tvídyraðar, standa á honum sjö vörður mosavaxnar. Þegar komið er hæst á Kjölinn, sést norður í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslur; mun þar eitthvert hið víðsýnasta og fróðlegasta pláss á Suðurlandi í góðu veðri. Þaðan af falla öll vötn til norðurs. Er enn stefnt í landnorður á Grúfufell, sem er skammt fyrir norðan Kjölinn. Þangað er sagt að sunnlendingar hafi flutt viðina í stofu Auðunnar rauða Hólabiskups. Frá Grúfufelli er enn stefnt í landnorður yfir Grúfufellsskeið (Dúfunefsskeið?), það er sléttur sandur, norður að Blöndu, þar er vað á Blöndu og sín varða hvoru megin. Það er stuttu framar en Seyðisá fellur í Blöndu; sú á kemur úr Hveradölum, og hefst úr hver þeim, er Seyðir heitir; þar var Fjalla-Eyvindur, sem merki sjást til. Þegar komið er yfir Blöndu, er farið fyrir vestan sæluhústóftir, sem eru vestast í Guðlaugstunum, og svo í landnorður með hæð, sem kölluð er Draugaháls. Þá veður fyrir Strangakvísl og er farið yfir hana nokkru sunnar en hún fellur í Blöndu. Síðan er haldið í vesturhalt landnorður að sæluhúsi, sem kallað er Haugaskáli (Vekelshaugar?); það er norður af Blönduvaðshæð. Þá er stefnt beint í landnorður yfir Galtárdrög norður á Sand; af Sandi liggur vegurinn hátt til landnorðurs þar til komið er norður í Mælifellsdal. Vegur liggur einnig austur að Goðdölum og skilst hann frá aðalveginum norðarlega á Sandi. Á vegi þessum eru víðast góðir hagar, úr því komið er norður yfir Blöndu. Nærri mun láta að lengd þessa vegar, byggða á milli, úr Biskupstungum norður í Mælifellsdal, sé hálfur þriðji lesta áfangi.
Eyfirðingavegur liggur úr Gránunesi yfir austurkvísl Svartár, og fyrir austan Kjalhraun, og svo sömu stefnu til austurs innyfir Blöndu, austur í Álftabrekkur og svo austur með Hofsjökli, hefir maður hann á hægri hönd, austur í syðri Polla. Þar var áfangastaður (úr Gránunesi). Þaðan liggur vegurinn að Jökulsá, yfir hana og svo norðvestan við nyrðri Polla, þá í austurlandnorður austan við Urðarvötn og svo ofan í Eyjafjörð. – Ég hefi, eftir að þetta var ritað, fengið lýsingu á Eyfirðingavegi frá herra Sigurði Jóhannessyni á Hrafnagili, er ég ætla þeim vegi kunnugastan af þeim mönnum, sem nú eru uppi. Set ég hér lýsingu hans orðrétta: “Frá Tjörnum í Eyjafirði liggur vegur þessi fram með Eyjafjarðará fram í svokallaða Selskál, svo þaðan yfir Eyjafjarðará og upp með Hafrá og fram Hafrárdal. Þegar Hafrárdal sleppir, kemur varðaður vegur og liggur hann austan við Urðarvatn og vestan í Kerlingarhnúk. Þegar vötnunum sleppir, beygist vegurinn lítið eitt í vestur og svo í hásuður, og skal ávallt stefna á Laugafell, til þess komið er að Geldingsá. Síðan liggur vegurinn nokkuð vestur, og norðan og vestan við nyrðri Polla að Jökulsá, og áfram í suðvestur í syðri Polla, sem var gamall áfangastaður. Úr Pollum liggur vegurinn í suðvestur og skal ávallt hafa Hofsjökul á vinstri hönd. Örnefni á þessari leið eru: Bleikáluháls og Lambahraun, og liggur vegurinn í gegnum hraunið, og skal svo halda sömu stefnu með Jöklinum suður í Álftabrekkur. Úr Álftabrekkum skal halda heldur meir í vestur að Blöndu, þaðan sömu stefnu austan við Kjalhraun og í Gránunes.”
Vegur hefir einnig legið út úr Kjalvegi norður í Húnavatnssýslu. Hafa vegirnir skipst í Svartárbugum við sæluhúsið, hefir svo verið stefnt í hánorður, upp Kjalhraun, og í múla þann, er gengur fram milli Miðdala eða Þjófadala og Tjarnardala, svo norður með fjallgarði þeim, sem liggur norðvestan megin þeirra, þar til komið er að Oddnýjargili, þaðan í landnorður að Áfangahóli, hann er suður af Kólkuhól, vestan til á Kúluheiði; þaðan í landnorður vestantil við vatn það, er Þrístikla heitir, þaðan vestan við Mjóavatn og norður milli Þremundarvatna. Skammt fyrir norðan Þremundarvötn hefir vegurinn skipst sundur til Vatnsdals, Svínadals, Sléttárdals og Blöndudals. Þessi vegur byggða á milli mun vera meira en hálfur þriðji áfangi.


Ísafold, 5. nóv. 1884, 11. árg., 44. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur segir það vel hugsað að Alþingi lét það vera eitt sitt fyrsta verk, eftir að það fékk fjárráðin í hendur, að búa til ný vegalög og veita ríflegt fé til vegabóta. Hitt finnst honum verra, hvernig fé þessu hefur verið varið.

Vegabætur og vegabótafé.
I.
Það var vissulega vel hugsað og vel til fallið, að Alþingi lét það vera sitt eitt hið fyrsta verk, er það fékk fjárráðin í hendur að búa til ný vegalög og betri en þau sem áður voru, og að veita þegar allríflegan styrk úr landssjóði til vegabóta.
Styrkur þessi var fyrst 15.000 kr. um allt fjárlagatímabilið, 1876-77, síðan 15.000 á ári árin 1878 og 1879, en upp frá því 20.000 kr. á ári. Hefir þannig verið veitt til vegabóta alls 165.000 kr., síðan 1876, og mun vera búið að verja af því framundir hálft annað hundrað þúsund krónum.
Oss sem nú erum uppi, virðist þetta fjárframlag dáindis-ríflegt, svo litlu sem af er að taka.
Getur og vel verið, að niðjar vorir að mannsaldri liðnum eða síðar, sem hafa vegabótaféð ef til vill tífalt á við þetta, - að þeir munu ekki fást svo mikið um, hvað vér höfum verið smátækir.
En það er annað, sem þeim mun finnast til um, og það er meðferðin á vegabótafénu fyrstu árin framan af.
Það verður óskemmtilegur dómur. Vér getum farið nokkuð nærri um aðalatriði hans.
Það var sök sér, munu þeir segja, þótt fjárframlagið væri ekki meira en þetta fyrstu búskaparárin, hefði fénu verið vel og skynsamlega varið. En það var öðru nær. Stjórn og framkvæmd vegabótastarfanna var frámunalega ráðleysisleg.
Það var kunnáttuleysið, sem mest bagaði. Forfeður vorir kunnu hvorki að leggja niður fyrir sér, hvar best væri að hafa veginn eða hvernig hann ætti að vera lagaður, né heldur höfðu þeir vit á, úr hvaða efni vegurinn átti að vera eða hvernig saman settur.
Þá tók hitt út yfir, að það var algengt, að hafa til vegavinnu liðléttinga, er ekki gátu fengið annað að gera, og kunnu ekki hót til verka. Menn höfðu naumast hugmynd um það í þá daga hér á landi, að vegavinna er iðn, sem nema þarf eins og hvað annað, eins og t.d. smíðar.
Það er eins og þeir hafi ekki haft neitt veður af því, að vankunnáttan gerir eigi einungis verkið hálfu ver af hendi leyst, og margoft ónýtt, heldur jafnvel það af því, sem nýtilegt er, hálfu dýrara, af því að sá sem verkið kann og er vanur því, afkastar helmingi meiru en viðvaningurinn; er því aldrei gerður sá munur á kaupgjaldi fákunnandi liðléttings og velkunnandi verkamanns, að liðléttingurinn verði ekki miklu dýrari.
Af verkstjórninni kunna gamlir menn sögur, sem er bæði illt og broslegt að heyra. Skammt frá sjálfum höfuðstaðnum, undir handarjaðrinum á yfirstjórn landsins, stóð í mörg ár fyrir vegagjörð maður, sem flestir, er til þekktu, voru forviða á, að hafður skyldi vera til þess. Enginn einstakur maður mundi hafa látið sér detta í hug að setja hann fyrir verksmiðju, ef því hefði verið að skipta, eða yfir höfuð að láta hann standa fyrir yfirgripsmiklum verkum. Hann réð sér verkamenn með þeim kjörum, að hann legði þeim sjálfur til fæði, fyrir tiltekinn part af kaupinu og hann ekki lítinn; en hvernig fæðið var úti látið, um það var hann alvaldur. Nærri má geta, að ekki hafi valist til hans verkamenn af betri endanum. Auðvitað ekki aðrir en þeir, sem ekki áttu annars úrkosti. Svo var fæðið svo úti látið, að þessir vesalingar höfðu ekki hálft vinnufjör við það. Svo var skipt um þetta lið að miklu leyti á hverju ári; fáa fýsti aftur í vistina.
Með þessu liðið var nú vinnan unnin, og með því samboðinni ráðheild. Meðal annars var t. a. m. varla borið við að flytja ofaníburð í veg öðruvísi en á svokölluðum handbörum. Með þeim þurfti 2 menn til þess að flytja svo sem fjórða part af því sem einn maður gat haft á hjólbörum með gamla laginu, sem nú er orðið mjög sjaldséð, af því að það er svo óhentugt.
Allir hristu höfuðið yfir þessu ráðlagi. En þar við lenti lengi vel. Oft töluðu menn reyndar um sín á milli, að þetta væri hrapaleg brúkun á landsfé. En hins vegar var almenningi raunar ekki svo mjög sárt um þennan svo kallaða landssjóð; það eimdi eftir af hugsunarhættinum frá því fyrir fjárhagsaðskilnaðinn við Danmörku; af því að Danir héldu ranglega fé fyrir oss, þótti jafnvel fremd að því að sækja sem fastast fé í þeirra hendur; því var það lengi fram eftir, að það þótti lítil sök að hafa af landssjóði, og af óvananum við hið nýja stjórnarfyrirkomulag var almenningi miður hugfast, að það var að taka úr vara þjóðarinnar að taka úr landssjóði. Í annan stað höfðu forfeður vorir í raun og veru miklu meiri undirgefnisanda og lotningu fyrir “háyfirvöldunum” (svo nefndum) og öllum þeirra verkum heldur en nú gerist, þótt þeir töluðu oft í aðra átt. Þessi háyfirvöld áttu að vita allt og gera allt. Það var svo fáum öðrum til að dreifa til nokkurs hlutar; og þó að þessir embættismenn kynnu ekki annað en meira eða minna í lögum, og höfðu ekki öðru vanist en skrifstofustörfum – þetta var á hinni annáluðu skriffinnskuöld-, og ekki annað séð af heiminum, en Kaupmannahöfn og nokkuð af Íslandi, þá var trúin hjá almenningi og hugsunarhátturinn sá, er lýsir sér í hinum danska málshætti; “þeim guð gefur embætti veitir hann líka vit”. Fór þá oft, eins og gerðist, að embættismennirnir leiddust sjálfir á sömu trú á endanum, og héldu sig meira en vaxna margs konar störfum, er allir vita nú að þarf sérstaka kunnáttu til, sérstakt nám, allt eins yfirgripsmikið og vandasamt eins og þeirra embættisnám.
Eitt af þessum störfum var nú að ráða og segja fyrir um vegagjörð. Það sem engum kemur nú til hugar hér á landi og engum kom þá til hugar í öðrum löndum að trúa öðrum fyrir en mannvirkjameisturum (ingenieurs), það létu forfeður vorir lögfræðinga sína gjöra, ýmist eina saman eða með ráði einhverra þeim jafnsnjallra.
Ágætt sýnishorn af þeirri ráðsmennsku er hin alræmdi Svínahraunsvegur, sömuleiðis örskammt frá höfuðstað landsins. Vegur þessi var fyrst og fremst lagður yfir þvert hraunið, í stað þess að hafa hann þar sem hann er nú, að mestu fyrir norðan það eða yfir Norðurvelli, sem var miklu fyrirhafnarminna og meira en tilvinnandi fyrir ekki meiri krók; því þar sem hraun eru fyrir, er í lengstu lög betri krókur en kelda. Vegurinn var lagður þvert yfir hraunið, en þó engan veginn beint, heldur með stórum hlykk, svo stórum, að nam fullum fimmta hluta allrar vegalengdarinnar yfir hraunið. Þó kastar tólfunum, þegar vér heyrum, hvernig vegurinn var gerður. Hann var hafður allur upphækkaður, hér um bil jafnt hvort heldur voru hæðir eða lautir, hleðsla hans var þannig gerð, að grjótinu var aðeins hróflað saman, en hvergi raðað eða eiginlega hlaðið. Ofan í þessa urð var síðan hrúgað mold og efst strokið yfir með sandi. Þetta leit dável út þegar vegurinn var nýgerður. En sem nærri má geta skolaði rigningin moldinni burtu mjög bráðlega og var þá eftir ber urðin, er allar skepnur forðuðust meira en hraunið sjálft.

Nú er að vita, hvað þessi snilldarlega vegargjörð kostaði. Svínahraunsvegurinn var allur rúm 3000 faðmar, að áðurnefndum 600 faðma hlykk meðtöldum, eða ¾ míla, og kostaði nær 14.000 kr. eða meira en 4 ½ kr. faðmurinn.
Þetta var nú hinn upphaflegi kostnaður. Eftir 2-3 vetur var nauðugur einn kostur að fara að gera við veginn allan saman. Það var gert fyrst með þeim hætti að bera ofan í hann aftur, því var haldið áfram í tvö sumur, með miklum mannafla, og lokið við á þeim tíma hér um bil 2/3 af allri vegalengdinni eða tæplega það. Það kostaði um 4.500 kr.
Þegar svo langt var komið, uppgötvuðu menn, að vegurinn mundi litlu bættari, og sáu þá að eigi mundi annað stoða en að rífa upp alla hina eldri hleðslu, ef hleðslu skyldi kalla, og flórleggja allt saman, og bera síðan möl þar á ofan.
Á þessu var byrjað þriðja sumarið, sumarið 1884, flórlagður þá hér um bil ¼ hluti vegarins, og borið ofan í þann kaflann að nokkru leyti. Það kostaði 3.500 kr.
Taldist þá svo til, að viðlíka áframhaldi mundi þessi hin nýja umbót á veginum öllum kosta heldur meira en minna en hin upphaflega vegargjörð.
Og vegurinn þá allur fullgjörður, þessir ¾ hlutir úr mílu, langt yfir 30.000 kr., eða svo sem 10-12 kr. faðmurinn.
Fór þá að renna á menn tvær grímur.
II.
Af ýmsum ástæðum er ekki hægt að tilfæra hér nema kafla og kafla úr þessu yfirliti yfir vegabótaframkvæmdirnar fyrstu búskaparár landsins, er vér hugsum oss niðja vora höfunda að. Einn kaflinn mundi t.d. líklega verða hér um bil á þessa leið: -
Eftir nokkur ár fór alþingi að ympra á því, hvort ekki mundi ráð að reyna að fá til landsins vegfróðan mann frá útlöndum til þess að standa hér fyrir vegagjörð, þótt ekki væri nema eitt sumar rétt til reynslu. Það stundi þessu upp með hálfum hug, því það vissi ekki hvernig stjórnin kynni að taka þess konar nýbreytni, sem óvíst var að dæmi fyndist til í dönskum tilskipunum frá síðari árum. Þingmenn höfðu lesið það um Pétur mikla t.d., að þegar hann tók fyrir sig að koma þjóð sinni á framfarabraut annarra Norðurálfuþjóða, þá var það hans fyrsta verk að útvega sér menn frá öðrum löndum, er betur kunnu en Rússar, til að segja þeim til og stýra ýmsum framfaratilraunum þar í landi. Þingmenn höfðu meira að segja veður af, að á líkan hátt mundu flestar framfarir annarra þjóða yfir höfuð komnar að upphafi, jafnvel Dana sjálfra líka, og ímynduðu sér að Íslendingum væri ekki vandara um en þeim, né heldur hitt, að þeir þyrftu þess síður við en aðrir. Eftir vorum hugsunarhætti, þeirra er nú erum uppi – segja niðjar vorir enn fremur -, hefði það verið sjálfsagður hlutur, að stjórnin sjálf, framkvæmdastjórinn, hefði upptökin að þess konar framfaraviðleitni. En hugsunarhátturinn var annar í gamla daga. Menn voru af gömlum vana löngu hættir að hugsa sér stjórnina öðruvísi en eins og dauðan hlut, er ekki hreyfði sig til nokkurs hlutar af sjálfsdáðum. Hún var eins og maskína, er þótti góðra gjalda vert að skilaði aftur út um annan endann því sem látið var inn um hinn, ekki eftir tvær mínútur, eins og slátrunar- og matreiðsluvélin, heldur eftir misseri og þaðan af lengri tíma. Frekara var eigi til ætlast að jafnaði, og sjálf þóttist stjórnin hafa meira en leyst hendur sínar með slíkum skilum. Það var jafnvel eigi fínt að gera meira, og það sem ekki er “fínt”, það er dauðadæmt.
Nema hvernig fór um uppástunguna um vegfræðinginn?
Það fór svo, að fyrst leiddi stjórnin málið hjá sér svo lengi sem hægt var, og svaraði síðan, þegar hún var búin að eyða vegabótafénu um það fjárhagstímabil til annars,, að það yrði nú að bíða í þetta sinn, af því að nú vantaði fé til þess. Stjórninni var svo tungutöm þessi setning frá þeim tímum, að hún ein hafði fjárráðin í höndum.
Til þess nú að þessu yrði ekki við barið oftar, tiltók þingið í næstu fjárlögum ákveðna upphæð til að útvega fyrir útlendan vegfræðing, 2.500 kr. hvort árið 1884 og 1885. Óvíst er hvort þetta hefði samt sem áður haft nokkurn árangur, hefði ekki einn mikils metinn og framtakssamur þingmaður tekið að sér að vera í útvegum um manninn fyrir stjórnarinnar hönd. Hann fékk manninn, og hann vel valinn, þar, sem sjálfsagt var að fá hann, vegna líkra landshátta, en það var í Noregi. Hafði einu sinni áður komið til landsins útlendur verkfræðingur, til að rannsaka brúarstæði á Þjórsá og Ölfusá, en hann varð endilega að vera danskur, og afleiðingin var sú, að verið var síðan í hálfan mannsaldur að þrátta um það, vort tiltækilegt væri að brúa árnar eða ekki, og hvar ætti að hafa brýrnar, í stað þess, að hefði sá, sem þetta rannsakaði fyrstu, verið maður verklega kunnugur viðlíka ám og líku landslagi, mundi hann hafa getað skorið úr þessu máli til fullnustu þegar í stað og þar með gjört enda á allri þrætu.
Hinn norski vegfræðingur kom, vorið 1884. En landsstjórnin var sjálfri sér lík. Hún hafði þá eigi haft hina minnstu fyrirhyggju til að hagnýta sér hann að neinu ráði. Þar sem hans þurfti helst við, og hægast var að ná til hans og nema af honum, gat hann ekki komist að, af því að þar voru hinir innlendu vegagjörðasnillingar fastráðnir fyrir og þurftu að afla sér fjár og frama eitt sumarið enn. Niðurstaðan varð þá sú, að hann var sendur út á landshorn og látinn dunda þar við lítinn vegarspotta, með fáeinum hræðum, er, voru fengnar að föngum til, sinn maðurinn hvern daginn, þegar þeir höfðu ekki annað að stunda, og sem ekki skyldu hinn útlenda mann. Í stað þess að fá honum valið lið, svo margt, sem efni leyfðu, saman safnað úr öllum landsins fjórðungum, til þess að leiðbeiningin yrði sem best notuð og kunnáttan dreifðist sem allra víðast undir eins, eftir því sem kostur var á.
Hinum norska vegfræðing – hann hét Hovdenak – bæði blöskraði og sárnaði þessi ráðsmennska svo mjög, að hann vildi eigi gefa kost á sér oftar hingað til lands til slíkra hluta. Hann var ötull maður, vel að sér og samviskusamur, og undi því mjög illa, að för hans hafði borið hálfu minni ávöxt en til var ætlast, þótt öðrum væri um að kenna.
Fjarri fór því samt sem áður, að för hans yrði árangurslaus. Þessir vegaspottar, sem hann gerði, báru langt af því, sem sést hafði áður hér á landi. Þeir voru lausir við óþarfa-hlykki og mishæðir, með velgjörðum rennum á báðar hliðar. Voru því hálfu greiðfærari fyrir það og vörðust miklu betur skemmdum. En það sem mest var í varið, var það, að þessi fyrsti norski vegfræðingur, er hér vann að vegagjörð, tók fyrir sig þegar í upphafi að hafa vegina eigi brattari en svo, og þannig gerða að öðru leyti, að vel mætti koma þar við vagni. Áður hafði lítið verið hugsað um að forðast miklar brekkur. Menn vorkenndu ekki mikið lungunum í skepnunum. Og að hugsa til að hafa hér vagnvegi, þótti þá slíkt stórræði, að það væri eigi takandi í mál. Því hefir orðið að gera að nýju nær alla vegi, sem lagðir voru hér á landi fyrstu 10-12 árin framan af.
III.
Áður en Hovdenak kom til sögunnar, hafði það menn frekast vita engum dottið í hug að nota hallamæli við vegagjörðir. Og svo var heimskan rík og hugsunarleysið, að þegar ferðamenn sáu hina miklu sneiðinga, sem Hovdenak bjó til upp Vestdalsheiði fyrir austan, þá formæltu þeir slíkri vitleysu í sand og ösku, að lengja svona veginn um helming eða meir. En það fór af, þegar þeir sáu, að hinn nýi vegur hans var jafn fljótfarinn og sá gamli, með því að það mátti skeiðríða hann upp og ofan, en munurinn sá, að á gamla veginum var hesturinn kominn að spreng af mæði, þegar upp kom, en blés ekki nös eftir nýja veginn. ---
- Þessi tilraun til að skoða sjálfan sig í skuggsjá ókominnar aldar mætti vera tilefni að vakna við og breyta til batnaðar ráðlagi voru í þessu efni.
Vér vonum fyrst og fremst, að nú verði ráð í tíma tekið með vegfræðing næsta sumar, bæði að ráða hann í tíma, fá honum nógu mikið og haganlegt verkefni, og sér í lagi gerðar í tíma ráðstafanir til að hann fái þá verkamenn, úr ýmsum landsfjórðungum, er numið geti af honum svo sem kostur er á. Síðan veitti ekki af að halda áfram með útlenda vegfræðinga að staðaldri, þangað til einhverjir innlendir væru orðnir þeim jafnsnjallir og gætu tekið við af þeim; mundi ráð að þingið styddi efnilega menn til þeirra hluta. Þetta fákænsku-kák, er hingað til hefir átt sér stað, einkum á Suðurlandi – það mun hafa verið talsvert skárra í öðrum landsfjórðungum, - má með engu móti líðast framar; það er óhæfileg fjársóun.
En um vegabæturnar sjálfar er það að segja, að einsætt er að snúa sem skjótast við blaðinu og hætta að leggja fjárgötur og hrossatroðninga, en hafa það reglulega vagnvegi, það lítið sem gert er af nýjum vegum, og þá auðvitað helst í byggð, þar sem þéttbýlast er. Láta sér að öðru leyti nægja að ryðja hina gömlu vegi svo, að þeir séu ekki alveg ófærir, eða viðlíka færir og þeir hafa lengst af verið.
Þetta mun þykja mikið í munni. En hvaða forsjálni eða framsýni er það, að vita fyrir víst, að hér hljóta að komst á vagnvegir með tímanum, ef landið leggst ekki í eyði von bráðar, og halda samt áfram að eyða stórfé í vegagjörðir, sem þá eru ónýtar? Eða hafa menn hins vegar gjört sér glögga grein fyrir, hve ómetanleg hlunnindi er að vagnvegum? Auk margvíslegra þæginda er það bæði mikill vinnusparnaður og sér ílagi stórkostlegur hestahaldssparnaður. Fækkun hrossa á heyjum og högum um helming, eða jafnvel miklu meir, greiðir götu fyrir fjölgun annars penings að svo miklum mun, að það má vera þungur vegabótaskattur, sem vegur til nokkurra muna upp á móti þeim gróða. Hins vegar stoðar ekki að láta koma hik á sig fyrir það, þótt ekki sé að hugsa til að fá vagnvegi um allt land á fáum árum. Það hlýtur að standa mjög lengi á því, hvort sem byrjað er á því fyrr eða síðar; en því lengur sem vér látum dragast að byrja á því, því lengra á það í land. Vér verðum að hafa þolinmæði og sýna þrek og sjálfsafneitun í þessu sem öðrum meiri háttar framkvæmdum, sem eiga að vera til frambúðar. Vér megum ekki setja það fyrir oss, þótt fæstir, sem nú lifa, geti átt von á að njóta til nokkurrar hlítar ávaxtanna af þessum framkvæmdum, eða þótt þær komi misjafnt niður á ýmsa landsins parta. Þjóðfélagið tekur jafnt fyrir alda sem óborna; því á allt, sem það framkvæmir, að vera eigi síður gert ókomnum kynslóðum til hagsældar. Þá fyrst er þjóð komin á óyggjandi framfarabraut, er slík fyrirhyggja fyrir ókomnum kynslóðum og þar af leiðandi sjálfsafneitun lýsir sér í öllum hennar framkvæmdum. Því menningarmeiri sem þjóðin er, því framsýnni er hún; Skrælinginn hugsar eigi fyrir morgundeginum.
Að hugsa hærra en að koma hér á vagnvegum og þar til heyrandi brúm yfir vatnsföll er að smíða sér loftkastala. Járnbrautir geta aldrei orðið almennar hér á landi; landið getur ekki orðið svo þéttbýlt, að svo dýrir vegir svari kostnaði, nema ef til vill á stöku stað og af sérstökum ástæðum. En lánist það sæmilega, sem nú er farið að reyna annarsstaðar, að koma við gufuvögnum á einföldum akvegum, án járnbrautar, þá verður það vort hjálpræði. Þá mundi oss eigi þess iðra, að vér hefðum varið vegabótafé voru í vagnvegi.


Tenging í allt blaðaefni ársins 1884

Ísafold, 16. jan. 1884, 11. árg., 3. tbl., bls. 11:
Greinarhöfundar eru óhressir með vegastæðið yfir Svínahraun og segja að þar hafi svo sannarlega ekki verið fylgt þeirri gullnu reglu, að stefnan skuli tekin svo bein sem unnt er.

Um veginn yfir Svínahraun.
Þó að ritað hafi verið nokkuð og rætt allmikið um Svínahraunsveginn, mun þó ekki með öllu óþarft að bæta þar nokkru við.
Það sem fyrst og helst á að hafa fyrir augum, þegar lagður er nýr vegur, er, að stefnan sé tekin sem beinust að unnt til þess staðar, sem vegurinn á að liggja, enda var það þegar skipað með konungsbréfi um vegina á Íslandi 29. apríl 1776: “Þar sem verður gjörist þeir svo beinir, sem fært er, þar óþarfakrókar lýta þá bæði og lengja og gjöra mæðusamari.”
Þetta voru nú orð einvaldskonungsins í Danmörku 100 árum áður en byrjað var að leggja veginn yfir Svínahraun, sem er aðalþjóðleið og póstvegur yfir suður- og austurland til og frá Reykjavík og einhver hinn fjölfarnasti vegur á landinu. Það getur komið fyrir, að halla verði til vegi með stefnuna, þegar landslagi er svo háttað, að það er of bratt eða einhverjar torfærur eru á leiðinni, sem sneiða verður hjá; en til að varast alla óþarfa króka, sem ekki ættu að eiga sér stað, þarf að athuga alla leiðina fyrirfram vandlega af kunnugum og glöggskyggnum mönnum, bæði hvað snertir stefnu vegarins, efni til að gjöra hann í fyrstu og svo til að viðhalda honum. En hvernig hefir þessa verið gætt með Svínahraunsveginn? Það verður ekki séð, að annað hafi vakað fyrir þeim, sem réðu stefnunni, en að ná í gamla veginn fyrir neðan hraunið, þrátt fyrir það, þótt hann liggi allt annað en beina leið til Reykjavíkur, og svo er á þeirri leið víða ómögulegt að gjöra nokkra varanlega vegabót, t.d. frá Lækjarbotni allt niður fyrir Hólm.
Það mun ekki of harður dómur, þó sagt sé um þessa vegagjörð í heild sinni, að hún sé eitt fjarska stórt axarskaft, marghlykkjótt og maðksmogið, og þó sumt af þessu óhappaverki megi dálítið afsaka með vanþekking, þá verður stærsti hlykkurinn á axarskaftinu, þ.e. stefnan, varla afsakaður, með því það var komið inn í meðvitund þjóðarinnar fyrir löngu síðan, að gjöra vegina beinni en hestarnir okkar höfðu lagt þá í öndverðu. Vegurinn er hér um bil 650 föðmum lengri en hann þarf að vera yfir hraunið, og það er næsta sorglegt, þegar slík verk sem þetta mistakast algjörlega. Vegur þessi er á lengd 3045 faðmar og upphaflega kostaði hver faðmur í honum 4 kr. 52 a. eða alls 13.763 kr. 40 a. Síðan hefir verið eytt næstliðin sumur til viðgerðar á honum svo þúsundum króna skiptir; en hvað mörg þúsund krónur muni þurfa til slíks viðhalds um háfa eða heila öld, eins og vegurinn nú er, mun ekki auðvelt að segja.
Hvernig viðgerðin á næstliðnu sumri hefur verið af hendi leyst gagnvart samningi við yfirvöldin, getum við ekki sagt neitt um, með því að við höfum ekki séð samninginn; en það höfum við séð, að klyfjahestum, sem reka átti eftir veginum, var eigi unnt að halda á honum nokkrum dögum eftir að hætt var að gjöra við hann. En hvernig hann verður með aldrinum mun reynslan best sýna.
Við höfum gjört okkur nokkurt ómak fyrir með aðstoð þriðja manns, að leiða sem best í ljós aðal-vansmíðið á veginum, áður en meiru fé er í hann eytt í nokkurs konar blindni, ef ske mætti, að farið yrði að þreifa fyrir sér.
Eins og sjá má, einkum fyrir kunnuga, stefnir vegurinn fyrst vestur í hraunið, og er stefnan þá neðan til við Lyklafell, hér um bil á Reykjavík. En svo tekur hann bráður norðurslag, og stefnir þá hér um bil á Kollafjörð. Síðan slakar hann til með hægð – og er þá rúmlega hálfnaður vegurinn yfir hraunið – þar til hann hefir aftur náð stefnunni nálægt því á Rvk, og henni heldur hann yfir miðhraunið, þar til eftir eru 1144 faðmar; þá fer hann að stefna meir til suðvesturs og færist þá jafnþéttan úr leið, þar til hann stefnir nærfellt í hásuður fyrir austan Vífilfell, og heldur henni 47 faðma, svo að hvorki færist nær eða fjær Rvík, og ef þá er dregin bein lína eftir stefnum á Uppdrætti Íslands, og veginum haldið áfram, kemur hann til sjávar milli Selvogs og Herdísarvíkur. Í raun réttri nemur afvegaleiðslan 250 föðmum, að meðtöldum þessum 47. Minna hefði nú mátt gera að umtalsefni.
En nú munu menn segja, að ekki sé nóg að setja út á þessa vegagjörð, heldur beri þeim, er mest að finna, að sýna, hvern veg hefði betur mátt fara, og einkum hvað nú sé til ráða í því óefni, sem í er komið með vegagjörðina yfir þetta annað Ódáðahraun á Íslandi. (Það verður að líkindum ekki síður sögulegt á ókomnum öldum fyrir gagnslausa peningaeyðslu en Ódáðahraun fyrir útilegumenn).
Upphaflega hefði það ekki átt að vera áhorfsmál, að leggja veginn að mestu fyrir norðan hraunið eða yfir Norðurvelli. Þar var víða sjálfgerður vegur og óþrjótandi efni í upphleyptan veg, þar sem þess hefði þurft; að vísu hefði hann ekki getað orðið beinn til Reykjavíkur, en ekki hefðu krókarnir þurft að vera margir, og aldrei hefði farið svo, að vegfarendur þokuðust hvorki fjær eða nær áfangastaðnum, þó þeir héldu áfram, eins og nú á sér stað á vissum kafla af veginum. En nú var þetta happaráð ekki tekið.
Setjum nú svo, að óumflýjanlegt hefði verið að leggja veginn yfir hraunið, sem þó ekki var, það verður eigi að síður óskiljanlegt, af hvaða ástæðum hann hefir verið þannig lagður, sem nú er sagt; fleiri króka mátti á honum hafa, en lengra var ekki hægt að þræða hraunið með hann. Af Bolavöllum átti að taka stefnuna, svo að hann hefði komið þétt að háhrauninu, þar sem það skerst til norðausturs, og svo beina stefnu vestanhalt á Lyklafell, eða rétt yfir taglið á því, og sem beinast til Reykjavíkur eða að norður-þjóðleiðinni yfir Elliðaárnar. Með þessari stefnu varð vegurinn hér um bið 650 föðmum styttri yfir hraunið en hann er nú, og þá auðvitað allur á annað þúsund faðma skemmri. Þá þarf yfir enga kvísl af Elliðaánum að fara, nema rásina hjá lyklafelli, sem ekki getur orðið að farartálma nema í stærstu leysingum á vetrardag, og mun þó sjaldnast ófær fyrir norðan fellið, enda er þetta sú eina leið, sem fær er undir hinum ýmsu kringumstæðum vetur og vor fyrir þá, er koma austan yfir Hellisheiði, og það er vonandi, að sú skoðun, sem þegar var til, þá er Svínahraunsvegurinn var lagður, að afleggja veginn fyrir sunnan vötnin, muni nú algjörlega ryðja sér til rúms, þegar búið er að leggja brýr yfir Elliðaárnar.
Það er því okkar skoðun, að snjallasta ráðið sé – úr því sem nú er komið – að halda við efri hlutanum af veginum, hér um bið 1900 föðmum, og taka svo stefnuna vestur úr hrauninu, sem er hin skemmsta er fengist getur, og eins og áður er sagt, beint á taglið á lyklafelli, og munu hér vera nálægt 500 föðmum, sem leggja þarf af nýjum vegi yfir hraunið, og eru þar melar við hraunið, er gefa mundu um langan aldur nægilegt ofaníburðarefni.
Það er vitaskuld, að þessi skoðun mun þykja hörð aðgöngu, að af leggja 1150 faðma af svo dýrkeyptum vegi; en hvað skal segja? Þegar maður hefir tekið ranga stefnu og er orðinn rammvilltur, þá versnar ástandið jafnan meir og meir, eftir því sem þannig er lengur áfram haldið, og er þá eina ráðið að snúa aftur, meðan afturkvæmt er, eftir að hafa staðið við og gáð til vegar.
En hvort haldið yrði meiru eða minna af þessum urðarstíg, mun þó eina ráðið að taka hann upp og flórleggja það sem brúka má af honum; að öðrum kosti ætlum við að jafnan muni annar kaflinn orðinn lítt fær, þegar búið er að bera ofan í hinn, með því að ofaníburðarefni mun þegar þrotið.
Við skulum svo ekki fleirum orðum hér um fara að sinni, en ætlum ekki óráðlegt, að þetta mál sé yfirvegað, og kæmi hér upp útlendur vegagjörðarmaður ætti það að vera hans fyrsta verk að skoða þennan ómaga landsins, sem þurft hefir mikið og þrifist illa.
Í desbr. 1883.
Þorlákur Guðmundsson. Guðm. Magnússon.


Austri, 30. jan. 1884, 1. árg., 4. tbl., bls. 42.:
Greinarhöfundur ræðir hér almennt um vegagerð, jafnt þjóðvegi sem hreppsvegi.

Fáein orð um vegina
(Aðsent)
Síðan Alþing vort fékk löggjafarvald, hefur á hverju ári verið varið ærnu fé úr landssjóði til vegabóta á fjallvegum, og hafa vegir þessir víða hvar tekið stórmiklum umbótum, þótt sumsstaðar kunni vegabæturnar að vera miður vandaðar, en æskilegt væri, og sumsstaðar vanti enn mjög mikið til þess að vegirnir séu fullgjörðir. Sumsstaðar er ekki einu sinni byrjað á að lagfæra fjallvegina, svo það fer senn hvað líður í hönd, að sumar heiðar verði með öllu ófærar fyrir hesta á sumardag, því ekki er nú lagfært svo mikið sem tekinn sé steinn úr götu, nema á kostnað landssjóðsins síðan vegalögin 15. okt. 1875 fengu gildi. Það er nú að vísu engin von til þess, að gjörðir verði góðir vegir á öllum fjallvegum vorum, á fáum árum. Til þess skortir bæði fé og vinnukraft, og eigi síst nógu marga hæfa menn til að standa fyrir vegagjörðunum. En misjafnar skoðanir munu vera um það, hvort landsstjórnin hafi verið sem heppnust í að ákveða hvar fyrst skuli gjöra við fjallvegina. Eftir fyrirmælum fjárlaganna eiga þeir fjallvegir að sitja í fyrirrúmi, sem aðalpóstleiðir liggja um, og er þetta í alla staði vel hugsað; en ein heiði er þó eftir, sem alls ekkert hefur verið gjört við um langa tíma, sem liggur á leið þess aðalpósts, er eftir því sem ég þekki til hefur lengsta og torfærasta leið að fara af öllum póstum landsins. Þessi heiði er Lónsheiði, milli Múlasýslu og Skaftafellssýslu; hún er að vísu eigi löng byggða á milli, en fyrir 6 árum síðan var hún lítt fær um hásumar með hesta, og víða svo að eigi var unnt að komast nema fót fyrir fót. Síðan hefur alls ekkert verið gjört við hana, svo því má nærri geta, hvernig vegurinn nú er orðinn á henni, einkum þar sem talsverður kafli af honum liggur meðfram gjá, í hallandi urð, neðan undir klettabelti, sem stöðugt falla björg og stórsteinar úr, er sumpart lenda á veginum, eða hrynja alla leið niður í gjána. Þetta er vetur póstsins milli Prestsbakka og Eskifjarðar, sem hefur á leið sinni hina lengstu eyðisanda, sem farnir eru hér á landi – að fráskildum Sprengisandi – og hin langverstu vatnsföll sem eigi er ferja á, auk þriggja annarra fjallvega, sem eru á leið hans. Ég tel það víst, að landstjórninni sé eigi kunnugt um hve ill heiði þessi er yfirferðar; en það þykir mér lýsa of miklu áhugaleysi af sýslunefndum þeim, sem næstar eru heiðinni, að hafa ekki þegar skorað á hlutaðeigandi amtsráð um að fara þess á leit við landshöfðingja, að hann veiti fé til að gjöra við þennan fjallveg sem allra fyrst.
Hvað sýsluvegina snertir, þá mun víðast hvar hafa verið sýndur talsverður áhugi á að koma þeim í lag, en vorkunn er þótt það taki langan tíma, að koma þeim öllum í gott lag, einkum þar sem margir heiðarvegir eru í sömu sýslunni, sem ætíð eru erfiðir við að eiga. Það virðist vera mjög ólíkt að gjöra viðunanlegan sýsluveg í Rangárvallasýslu, þar sem hvorki er svo mikið sem lítill heiðarháls yfir að fara, né nokkur önnur óteljandi torfæra, hjá því í sumum öðrum sýslum t.d. Múlasýslunum, þar sem hver fjallvegurinn er fram af öðrum, og sumir mjög fjölfarnir. Það virðist vera mjög ólíkt að gjöra viðunanlegan sýsluveg í Rangárvallasýslu, þar sem hvorki er svo mikið sem lítill heiðarháls yfir að fara, né nokkur önnur teljandi torfæra, hjá því í sumum öðrum sýslum t. d. Múlasýslunum, þar sem hver fjallvegurinn er fram af öðrum, og sumir mjög fjölfarnir. Það virðist því eiga mjög vel við, að þær sýslurnar, sem þannig hagar til í, gætu notið einhvers styrks úr landssjóði, svo að þær, að minnsta kosti með tímanum gætu notið sömu hagsmuna af greiðfærum vegum, sem hinar sýslurnar, sem betur standa að vígi frá náttúrunnar hendi. Ég tel það mjög líklegt, ef sýslunefndir þær, er hlut eiga að máli, bæru þessi vandkvæði sín fram fyrir alþingi* ), þá mundi það veita fjárstyrk þar sem þess væri helst þörf, með vissum skilyrðum.
Þar sem nú bæði landsstjórn og sýslunefndir hafa unnið dyggilega að sínum hluta að vegabótum hér á landi, þá verður, því miður, eigi hið sama sagt um hreppanefndirnar víða hvar. Í 5. gr. Vegalaganna 15. okt. 1875 er kveðið svo á, að hreppsnefndirnar ráði, hver í sínum hreppi, hvernig vegabótagjaldinu er varið. Þó skulu þær gjöra hlutaðeigandi sýslunefnd grein fyrir því, hvað unnið hefir verið að vegabótum hvert ár, og hvernig vegabótagjaldinu hefir verið varið. Mér er óhætt að fullyrða, að ákvörðunum þessum í greininni er eigi fullnægt allstaðar; í sumum hreppum mun hvorki vera gengist eftir vegabótagjaldinu, né því að gjaldendur vinni gjaldið af sér; og þá má geta nærri hverja grein hreppsnefndin getur gjört sýslunefndinni fyrir því, hvernig vegabótagjaldinu er varið. Þar sem þetta á sér stað, ræður að líkindum hvernig hreppavegirnir muni vera; þar sem þeir eru ekki orðnir ófærir, þar verða þeir það áður en langt um líður; svo ef ókunnugum manni verður það, að fara út af sýsluveginum, þá kemst hann, í slíkum hreppum í ógöngur*). Ég skal fúslega játa að frá þessu eru heiðarlegar undantekningar, - en þetta má alls ekki eiga sér stað. Það ætti þó hverri hreppsnefnd að vera sjálfhugað um, að hafa hreppsvegina hjá sér í bærilegu lagi, - og engum gjaldanda getur verið það um megn að inna þetta gjald af hendi, þar sem honum gest kostur á að vinna það af sér.
Til að koma í veg fyrir þessi undanbrögð hjá hreppsnefndunum að gæta skyldu sinnar í þessu efni, virðist það liggja beinast við, samkvæmt vegalögunum, að sýslunefndirnar gangi ríkt eftir því, að hver hreppsnefnd sendi til sýslunefndarinnar uppástungur sínar um, hvar og hvað skuli gjöra við hreppsvegina á næsta sumri, sem og áætlun um tilvonandi tekjur hreppsvegasjóðsins, og um kostnaðinn við vegabæturnar. Sýslunefndin sendir þvínæst hreppanefndunum úrskurð sinn um uppástungurnar, svo fljótt sem þörf er á. Þegar svo vegagjörðinni er lokið, skal sýslunefndinni tafarlaust gjörð grein fyrir því, hvað unnið hefur verið og hvað verkið hefur kostað. Væri því næsta æskilegt, að sýslunefndin kysi mann úr sínum flokki, til að skoða vegagjörðina í hverjum hrepp, þó þannig, að alderi yrði sýslunefndarmaður úttektarmaður að vegum í sínum eigin hrepp, til þess að koma í veg fyrir að nokkur hlutdrægni ætti sér stað. Ættu svo skoðunarmennirnir að skýra sýslunefndinni frá áliti sínu, og öll vanrækt í vegagjörðinni sæta sektum eftir málavöxtum. Kostnaðinn við skoðunargjörðina ætti að greiða af sýslusjóði, að því leyti sem sektirnar ekki yrðu nægar til að borga með þeim kostnaðinn.
Mér virðist þetta vera svo mikilsvarðandi mál, að því ætti að sinni hið allra fyrsta, og vona því að þessum línum verði gefið rúm í hinum nýfædda blaði Austfirðinga.
8/12 “83.
KL.
*) Alþingi í sumar er leið, voru einmitt veittar 8.000 kr. fyrir hvort árið, 1884 og 1885, “til að styrkja sýslusjóði til að bæta sýsluvegi á aðalpóstleiðum”.
*) Því miður mun þetta eiga sér víða stað, og ættu því hreppsnefndir og sýslunefndir að láta bendingar höfundarins til umbóta á þessu verða sér að kenningu.
Ritstj.


Ísafold, 14. maí 1884, 11. árg., 20. tbl., bls. 78:
Greinarhöfundur hvetur til brúargerðar á Ölfusá og öðrum þjóðvegum og lýsir þeirri skoðun að landssjóður eigi að kosta slíkar framkvæmdir.

Um brúargerð yfir Ölvesá og um póstvegi.
Eftir Þorlák Guðmundsson alþingismann.
“Enginn veit hvenær þessi dagur muni koma”.
Svo var það og fyrir skemmstu, að enginn vissi, hvenær þeir dagar mundu koma, að Skjálfandafljót og Elliðaárnar yrðu brúaðar; en þetta næstliðna ár hefir ekki látið sig vera án vitnisburðar, þó vér ekki tökum það sem árgæsku-ár, sem það þó var, af forsjóninni gefið í sannri þörf. Allir tímar hafa að vísu eitthvað merkilegt að færa, er gefur teikn, ef eftir er tekið, um það, hvort þjóðirnar eru á framfara- eða afturfarabraut í þessu eða hinu. Það er hið merkilegasta tímans teikn, að Íslendingar séu á framfarabraut, þó hægt fari, í því að bæta samgöngurnar, að þessi 2 nafnkenndu vatnsföll hafa verið brúuð á árinu 1883; að þessu leyti hefir það ekki látið sig vera án vitnisburðar, sem framfaraár.
Hér er unnið fleira en eitt; það er ekki einungis gagnið sem af því leiðir, sem þó verður ómetandi. Það er annað, sem engu er minna í varið: að hér með er byrjað, hér með er ísinn brotinn, hér með sýnt, að það má brúa ár á voru landi. Það sannast hér sem oftar, að hálfnað er verk þá hafið er. – Það er ekki hvað minnst undir því komið, þegar byrjað er á einhverjum þjóðlegum fyrirtækjum, að byrjað sé vel og rétt, að fyrstu tilraunirnar heppnist, hvort heldur er t. a. m. að koma upp skólum til alþýðumenntunar, eða bæta samgöngurnar, og þessi tvö atriði, menntun alþýðunnar og að bæta samgöngurnar svo fljótt og vel sem unnt er, munu vafalaust hin þýðingarmestu verkefni, er liggja fyrir nútíðarmönnum, því vanþekking og samgönguleysi eru hin þyngstu þjóðmein vor, eins og margra annarra heimsjarðarbúa.
Það, sem ég hér ætlaði að minnast á, er brúargerðin yfir Ölvesá og aðalpóstvegir; nú sem stendur veit enginn maður hvenær sá dagur muni koma, að þingið verði svo stórhugað, og leyfi sér það frægðarorð, að veita fé til þessa, ef það er meira en skylda þess að brúka svo verklega landsfé, en mola það ekki niður í launabætur og eftirlaun, eða til annarra smámuna, sem enga sér staði; samt hygg ég að flestir muni vera vissir um að þetta verði gert, ekki einungis fyrr eða síðar, heldur á næsta eða öðru þingi hér frá. Það er fullkunnugt, hverjar tilraunir hafa verið gjörðar til að fá þessu nauðsynjaverki framgengt, og skal ég því hafa sem minnst við að taka upp sögu málsins á þingi eða annarsstaðar. Þeim mönnum, er þetta mál liggur þyngst á hjarta, er ekki ókunnugt um, hverjir það eru, sem þar hafa lagst í þjóðgötu framfaranna og strítt á móti straum; en eins og dropinn holar bergið blátt, eins mun straumur framfaranna, framknúður af afli þarfarinnar, sannleikans og réttlætisins, ryðja burtu því sem í veginum stendur, hvað sem það svo heitir. Ámæla skal ég engum sérstaklega, það vinnur ekki málinu gagn. – Það þótti sem von var mörgum af þeim, er hér áttu mestan hlut að máli, illa til takast, þegar frumvarp þingsins 1879 visnaði upp í höndum stjórnarinnar. Það er nú svo, að þeim er búinn bíður, finnst jafnan langt, þeim þjáða, þeim af samgönguleysinu undirokaða, er þetta ekki láandi; en þó getur stundum verið betra að hjálpin dragist nokkuð, en hún komi fyrr, og sé þá þeim annmörkum bundin, að hjálpþurfar naumast eða ekki geta undir risið. - Hefði nú frumvarpið orðið að lögum, má telja víst, að verkið hefði verið framkvæmt, og þá lánið orðið sú byrði, er héruðin hefðu ekki undir risið með harðæri og fellir, er þá dundi yfir; það má því eins vel skoðast sem heppni, að frumvarpið ekki varð að lögum, enda var það ofurhugi að taka slíkt lán, byggður á hinni brýnu þörf. Það verður heldur ekki skoðað öðruvísi en sem ónærgætni og ósanngirni að þvinga vissa parta af landinu til að taka slík stórlán því til framkvæmdar, sem er rétt skoðað almennings gagn og sama sem að neita þeim um það sem gera þarf. Því mun nú verða svarað, að hér sé um meira að ræða en brúa Ölvesá; annar fiskur liggi undir steini, það er Þjórsá. Það virðist að vera það sjálfsagða þegar kringumstæður leyfa, ef brúarstæði fæst; hér er ekki verið að fara með nein undirhyggjuráð.
Landssjóður er sá Þór, sem á að fara í austurveg og berja á tröllum. Þegar sýslu- og sveitarfélög eru farin að berja á hinum minni tröllum og næturvofum, sem staðið hafa á þjóðvegum, síðan land byggðist, og hindrað ferð og framkvæmdir, ógnað lífi og limum margra, eyðilagt sumar, þá getur það engum dulist, að hér fer verulega að slá skugga á þingið í þessu mikilsverða máli; það verður ekki með gildum ástæðum barið við féskorti, reynslan er búin að sýna, að hér má ná ærnu fé án þess að leggja nýja beina skatta, og enn munu nóg ráð til að ná meiru fé, enda þó af væri létt ábúðar- eða lausafjárskatti; það stefnir allt að því, að sú skoðun nái festu hjá þjóðinni og þinginu, að landssjóður eigi að kosta aðalpóstveg um landið, og þar á meðal að brúa hinar stærri ár á þeim leiðum. Þingið er komið inn á þessa skoðun, þrátt fyrir hin núgildandi vegalög, og er allt af meir og meir að fjarlægjast þau, eins og þingmaður Borgfirðinga (Gr. Th.) sagði á sama þingið (þingmaðurinn er þar í með), og það má segja að þetta hafi gengið þegjandi í gegn, það er að styrkja póstvegi í byggðum með því að leggja fé til móts við sýslusjóðinn þeim til endurbóta. Þetta hefir þannig myndast, eins og þegar ein réttarvenja skapast af sjálfu sér, af því, að tímans rás og þörfin segir eða réttara sýnir þegjandi, að svona hlýtur það að vera; það má öllum vera ljóst, að sýsluvegagjaldið í heild sinni og einstökum héruðum er ónógt til að gjöra hina mörgu og erfiðu byggðu vegi í stand, og er þó tilfinnanlegt fyrir gjaldendur með afleiðingum arðæris og öðrum þungum sköttum, er á þeim hvíla. Það er mikil bót í máli með kostnaðinn til aðalpóstveganna, að ekki þarf að kosta nema einn veg yfir Kjósar- og Borgarfjarðarsýslur og allt upp í Stafholtstungur. Það er því sjálfsagt, að Borgfirðingar muni halda þessu fram og þá þingmaður þeirra gefa því meðhald sitt, og þar á meðal, að Hvítá í Borgarfirði verði á sínum tíma brúuð, og ætla ég þetta engu minna vert en þó þeir (Borgfirðingar) fengju gufubát á Faxaflóa, enda sýnist að kaupmannastéttin, sem orðin er allfjölmenn hér í kringum flóann, ætti að koma því fyrirtæki á fót. Sama er að segja um Reykjavík og þingmann þess kjördæmis, sem um Borgfirðinga og þingmann þeirra; allt það, sem bætir samgöngurnar, og þá undir eins eykur viðskiptin við höfuðstað landsins, verður hans gagn og sómi, og hann mun hvorutveggja með þurfa. Bærinn hlýtur því og þingmaður hans að hlynna svo að þessu máli, sem unnt er, svo er og um fleiri kjördæmi og þingmenn þeirra, því hér kemur saman þörf og gagn einstakra héraða, við þörf og gagn alls landsins. Ég skal nú engan veginn segja, að þeir 9 þingmenn, sem greiddu atkvæði með brúargerð yfir Ölvesá á síðasta þingi, séu í öllu frjálslyndari en hinir, er voru móti því; það mun samt ekki verða sagt, að þessir 9 séu til jafnaðar í öllu ógætnari eða óhagsýnni í meðferð á landsfé, þegar á fleira er litið; það gefur hinar bestu vonir um framgang málsins á næsta þingi, að það fékk 9 atkvæði hrein og bein, og má segja 10, því þingmaður Dalamanna var í orði og anda með málinu, og 2 greiddu ekki atkvæði, líklega af því að þeir hafa þó fundið ærnar ástæður með því, enda finna þau allir og mótstöðumenn líka. Það má því segja, að hér stæði málið engu ver en þó það hefði fallið með jöfnum atkvæðum. Það er því ekki rétt sem blaðið Heimdallur segir (“eftir því sem alþingi hefir tekið í brúarmálið, verður ekki von á styrk úr þeirri átt”). Um undirtektir efri deildar efri deildar hefir maður ekki neitt bókstaflega fyrir sér, því hér þurfti ekki að kenna þeim konungkjörnu um: neðri deild sá um að hleypa ekki málinu svo langt; en ætlun mín er, að ekki svo fáir þingmenn þar mundu verða með málinu, og það sumir hinna konungkjörnu. Víst er um það, að hinn núverandi landshöfðingi var því mjög hlynntur 1879, í þeim búningi er það var þá í fyrir þinginu, og það er einmitt hans skoðun, að landssjóður eigi að taka að sér póstvegina í byggðum á sama hátt og fjallvegina (sjá tímarit Bókmenntafél. 1. 159-60).
Þegar um það er rætt, að póstgöngur hafa verið bættar á síðasta þingi, þá er það nú að vísu nokkuð meira en á pappírnum; þó eru þessar endurbætur ekki nema hálfverk meðan póstvegir ekki eru betur endurbættir en búið er. – Póstum er skipað að vera hér í dag og þar á morgun; þeir eiga að fara yfir byggðir og óbyggðir, á sumum stöðum yfir vegarmynd og sumum hreinar vegleysur, yfir stór vötn, sem oft geta verið allavega ófær, þó þeir upp á líf og dauða með sig og gripi sína brjótist það á ferju eða á ónýtum ís, og er þá oft margra manna lífi stofnað í háska, ferju- og fylgdarmanna og annarra er slást í för með. Póstarnir eru vafalaust undir öllum þessum kringumstæðum þeir verst höldnu menn, af þeim er taka laun sín úr landssjóði, og það er allt annað að vera embættismaður í Reykjavík, þó hann hafi nokkuð að gera, þegar verkahringurinn er allur innan 4 veggja, en að vera vetrarpóstur enda hvar sem er á landinu. Svo eru einlægar kvartanir hvað póstar séu lengi á ferðinni og stundum er póstmeistaranum um kennt, en sjaldan því er mest veldur: vegaleysi og brúarleysi á stærri og smærri vatnsföllum, enda er ekki við að búast að geta valið úr mönnum í þessa stöðu eins og þyrfti með þeim kjörum er þeir nú hafa.
Mér þætti fróðlegt að sjá, ef einhver vildi með góðum og gildum ástæðum hrekja þá skoðun, að landsjóður eigi að kosta alla aðalpóstvegi um landið, og þar á meðal leggja fé til brúargjörðar á þeim vatnsföllum, er brúuð verða á þeim leiðum.
Það mun vera einsdæmi um heim allan, að í nokkru landi, þar sem þing er, sem hefur fjárveitingarvald, ekki minna en vér, safni fé í sjóð ár eftir ár, en láti slík nauðsynjaverk sem brúargerð yfir Ölvesá óframkvæmd þing eftir þing, en þar á móti lána ekki alllítið fé út til einstakra manna, til að reisa sér vegleg hús o. fl. Það verður naumast varið, að þessi þjóðbúskapur er ekki hásigldur á haföldum heims-framfaranna.
Hér er ekki nema eitt fyrir hendi: ef að hinar stærri ár ekki fást brúaðar af almannafé, þá verða menn að sitja og sofa í sömu hlekkjunum og hoppa í sömu höftunum sem feður þeirra. Ekki er um að tala; sýslurnar geta ekki tekið slík stórlán.
Það er verið að hringja þeirri bjöllu, að hér megi koma á dragferjum. Þær kosti svo lítið. Það má segja, ef farið yrði að brúka landsfé til þess, hvort heldur beinlínis eða með láni til héraðanna, að ekki verði feigum forðað; það lítur út fyrir, að landssjóður verði ekki í þetta sinn uppétinn sem hungurforði, en að verja honum til dragferju, álít ég að gangi því næst.
Hvort er annars betra, að byrja húsið svo vel, að það standi í 50 ár, eða svo lélega, að það þurfi að endurbyggjast á hverjum 5 árum, og geta þar til ekki brúkað það nema 3-4 mánuði af árinu. Slíkar ferjur eru óveruleg meinabót, og koma hvorki póstum né öðrum að liði, þegar mest á ríður, en verða þá að liggja uppi og fúna niður undir klaka og krapi. Þær mundi og eyða meiru fé á ¼ parti aldar, en fastabrú kostaði, sem varaði fleiri aldir, ef náttúru-umbrot ekki grönduðu henni.

Ég ætla nú að treysta því, að þeir háttvirtu herrar og þjóðfulltrúar, sem nú eiga sæti á þingi Íslendinga, vilji nú eignast sjálfir, þegar þeir í síðasta sinn á kjörtímanum ganga af þingi, það framfara- og frægðarorð, heldur en gefa það og geyma öðrum, sem, ef til vill, setjast í sæti þeirra á nýjum kjörtíma, að hafa greitt atkvæði með því, að landssjóður takið að sér aðalpóstvegina, og þá þar á meðal að brúa Ölvesá.
Þó að enginn viti nú sem stendur, hvenær sá dagur muni koma, að Ölvesá verði brúuð, þá get ég ekki betur sé, en að margt bendi til þess, og gefi bestu vonir um, að bjarma muni upp af þessum degi í lok næsta Alþingis.
(Ritað á sumardaginn fyrsta 1884)


Þjóðólfur, 5. júlí 1884, 36. árg., 26. tbl., bls. 102:
Þjóðólfi finnst vegirnir í nágrenni Reykjavíkur ekki nógu góðir og ræðir sérstaklega um veginn inn að Elliðaánum.

Vegleysan að höfuðborginni.
Það skyldi maður ætla, að til vegagjörðar væri hvað best vandað í hverju landi, í námunda við höfuðstað landsins, en Reykjavík mun vera undantekning í þessu, sem svo mörgu öðru frá öðrum höfuðborgum, og sýndist þó vera talsverð ástæða til, að halda viðunandi vegum uppi upp frá bænum. Bæði fer þar fjöldi lestamanna yfir, sem sækja að bænum og sjóplássunum þar í grennd, enda er þetta hinn almenni útreiðar vegur Reykvíkinga, það mundi nærri því mega segja hinn almenni kirkjuvegur þeirra á sumrin, þar sem miklu fleiri bæjarbúar sækja þá Ártúnskirkjuna heldur en dómkirkjuna á sunnudögum. Einnig er þetta það af vegum landsins, er flestallir útlendingar sjá lang helst. Það er vegurinn úr bænum inn að Elliðaánum, sem hér er einkum við átt, og fellur hann í tvo kafla, annan, sem bænum tilheyrir, og hinn,, sem heyrir til Kjósar- og Gullbringusýslu. Bæjarkaflinn nær út úr bænum og upp að vegamótunum, þar sem Hafnarfjarðarvegur skilst frá. Að stefnunni á bæjarkaflanum, eða því, hvar hann er lagður, er ekkert að finna, en hitt er fráleitt, að vegkafla þessum skuli ekki vera við haldið í nokkurn veginn færu ástandi; en þetta er ekki gjört; undir eins og kemur upp fyrir hegningarhúsið skortir ofaníburð í veginn; hnökragrjótið í undirlaginu er því hvarvetna komið upp úr og ægir þar hrossum og fótgangandi með hálsbrotsbyltum. Um kaflann frá Hafnarfjarðarvegi og upp undir árnar er það að segja, að hann er bæði í hneykslanlegu ástandi, enda er hann og lagður mjög óhöndulega að stefnunni til; því að þar sem hann nú er, verður viðhaldskostnaður marfalt meiri á honum, heldur en ef hann væri lagður á réttum stað, og þar að auki verður honum aldrei viðhaldið svo í lagi sé, þar sem hann er. Þegar Reykjavíkurkaflinn af veginum var lagður, var það vitanlega tilgangurinn að áframhald hans skyldi lagt verða inn melhrygginn inn að Mjóumýri svo kallaðri, yfir mýrina, sem auðvitað þyrfti að brúa, en hún liggur hátt, og þar innar af mætti halda melhryggnum inn að Bústöðum. Með því að leggja veginn þannig, sleppa menn við Háaleitisklifið og hina minnisverðu brú á slakkanum hérna megin við það. Í stað þess, að leggja veginn þannig, sem er langkostnaðarminnst eins og vegurinn yrði þá og betri og ódýrra að viðhalda honum, þá við heldur nú sýslunefndin með lélegri ruðningu gamla veginum, sem nú liggur svo, að krókur hefir verið gjörður á hann til hægri handar fyrir innan Hafnarfjarðarvegamótin, svo að hægt væri að fylgja slakkanum niðri bleytunni og forinni.
Það þyrfti að vinda bráðan bug að því að gjöra eitthvað við þennan veg alla, bæði bæjarkaflann og sýslukaflann, og ætti helst að byrja þegar í vikunni nú eftir helgina, ef nokkurt lið á að verða á annað borð að slíkri aðgjörð í sumar. Nú er líka almennt atvinnuleysi hér og auðgefið að fá ódýran vinnukraft, en hins vegar sjálfsagt góðverk og siðferðislegt skylduverk, að veita fátæku fólki þá atvinnu, sem unnt er, í þessari vandræðatíð, þar sem slíkt nauðsynjaverk er fyrir hendi, sem óhjákvæmilega þarf að vinna. – Óskandi væri, að sýslunefndin hefðu nú þá umsjón á sínum vegkafla, ef hann verður lagður um, að hann verði betur af hendi leystur, en hið svo nefnda “Löggjafa-skeið” (hérna megin í Kópavogs-hálsi).


Ísafold, 22. okt. 1884, 11. árg., 42. tbl., bls. 168:
Helgi Helgason lýsir hér skoðun sinni á því hvernig gera skuli endingagóða vegi. hann segist einnig hafa kynnt sér “brúleggingar” erlendis og sé fús að veita góð ráð í þeim efnum.

Um vegagjörð.
Þar eð ég hefi oftsinnis orðið þess var, að vegagjörð er ekki svo vel af hendi leyst hér í bænum, sem óskandi væri, þá vil hér með benda á, að aðalskilyrði fyrir því, að vegir þeir sem gjörðir eru að nýju, verði endingargóðir, er, að undirstaða og ofaníburður sé vel vandað; að vegurinn sem lagður er sé vel fylltur með grjóti hæfilega stóru; að því sé vel raðað, að enginn steinn liggi á huldu, að grjótið sé allt jafn hátt, svo ekki beri hærra á einum steininum en öðrum; og að þessi flórlegging sé vel barin niður með svo þungum áslætti, að hæfilegt sé fyrir 2 menn að lyfta honum, og þjappa að flórnum. Þetta grjótlag ætti ekki að vera hærra en svo, að það væri 6 þml. lægra um miðjuna en brúnir vegarins, þannig, að það sé bogadregið niður á við frá báðum hliðum, og að hver hola sem er á milli flórsteinanna, sé fyllt með smærra grjóti, og það barið niður á sama hátt og hið áður nefnda. Þegar flórleggingunni er lokið, ætti að bera góðan ofaníburð ofan á grjótið, en hafa hann ekki meiri en svo, að hann sé jafnhár hleðslunni á brúnum vegarins, (t.d. eins og nú hefir verið gjört við Svínahraunsveginn), láta svo þennan ofaníburð troðast í ár, og svo endurbæta veginn með nýjum og góðum ofaníburði á næsta ári. Þessi ofaníburður þyrfti að vera vel jafn, ekki með stórum malarsteinum innan um sandmoldina, eins og oft hefur verið brúkað.
Reyndar eru menn nú farnir að vanda meir ofaníburð en áður, með því að tína stærsta grjótið úr með höndunum um leið og mokað er upp í vagninn. En þetta er seinlegt verk, og verður því kostnaðarsamt, ef það er vandlega gjört. Hefir mér því komið til hugar, að nauðsynlegt væri að hafa rimlagrind úr járni með hæfilegu millibili á milli teinanna. Grindin ætti að vera 2 ½ alin á lengd og 1 ½ alin á breidd, með tréumgjörð og sívölum járnteinum eftir endilöngu. Ætti grindin að standa hallfleytt upp á endann og styðjast við 2 bakstuðla; flytjast svo þangað sem ofaníburðurinn er tekinn úr jörðinni, og jafnóðum og hann er losaður upp, þá að moka honum á grindina; fellur þá hið smærra öðru megin, en það stóra, sem ekki kemst í gegnum, hinumegin, og álít ég þennan aðskilnað á ofaníburðinum fljótlegri, og þess vegna ódýrari, en þann sem nú er við hafður.
Svona tilbúnir vegir ætla ég að muni geta enst lengi með góðri hirðingu, einkum sem þjóðvegir. En í Reykjavíkurbæ geta vegir, sem fylltir eru með moldarkenndu efni, naumast orðið endingargóðir, sem eðlilegt er, vegna hinnar miklu umferðar af hestum og vögnum. Væri því æskilegt að stræti bæjarins væru brúlögð með grjóti.
En brúlegging hefir mikinn kostnað í för með sér, og margir munu álíta það ofætlun fyrir bæinn, einkum eins og nú er ástatt, að byrja á því fyrirtæki. En hefðu bæjarbúar byrjað á að brúleggja bæinn fyrir 20-30 árum síðan, og lagt kafla á ári hverju, en sparað að bera lélegan ofaníburð í göturnar með ærnum kostnaði, þá væru þær vissulega betri yfirferðar en þær eru nú.
En til þess að geta byrjað sem fyrst á þessu þarfa verki, þá hefir mér komið til hugar, að réttast væri, svo framarlega sem hin heiðraða bæjarstjórn sæi fært að útvega nokkra peninga, að nú í haust og vetur yrði byrjað á að undirbúa grjót til brúleggingar, svo stræti bæjarins geti tekið verulegum umbótum, og líka til þess, að veita fátækum verkamönnum í bænum atvinnu, því útlit er fyrir að margir muni þurfa að fá styrk til lífsviðurhalds í vetur af fátækrasjóði bæjarins. Ef nú sumum þeim mönnum, sem þarfnast kynnu slíks styrks, væri þess í stað veitt atvinna við grjótverkið undir umsjón dugandi manns, sem vit hefðir á að segja fyrir þess konar verkum, og halda reikning því viðvíkjandi, þá finnst mér vera tvennt unnið: fyrst það, að útvega mönnum vinnu fyrir þá peninga, sem þeir annars kynnu að fá til láns úr bæjar- eða fátækrasjóði, og sem þeir, ef til vill gætu ekki endurborgað fyrr en seint og síðar meir, vaxtalaust, og hitt, að fá unnið eitt hið þarfasta verk, sem bæjarfélagið í þessu tilliti nokkurn tíma getur gert.
Af því ég hefi nokkuð kynnt mér brúleggingar erlendis, einnig tekið eftir hvað mikið hver faðmur af brúleggingargrjóti mundi kosta hér tilbúinn, þá er ég fús til að veita þær upplýsingar þessu viðvíkjandi, sem mér er framast unnt, ef á þyrfti að halda og byrja mætti á verkinu.
Rvík. 15/10 1884.
Helgi Helgason.


Þjóðólfur, 1. nóv. 1884, 36. árg., 42. tbl., forsíða:
Áhugamenn um hálendið hafa vafalaust gaman af þessari lýsingu Sigurða Pálssonar í Haukadal á Kjalvegi.

Lýsing á Kjalvegi.
Eftir Sigurð Pálsson í Haukadal.
Það munu margir hafa heyrt nefndan Kjalveg, sem liggur milli Norðlendingafjórðungs og Sunnlendingafjórðungs upp úr Árnessýslu, en færrum mun nú kunnugt hvar hann liggur milli byggða. Ég ætla því með þessum línum að lýsa honum eftir því sem mér er kunnugt. Hann liggur upp úr Biskupstungum og Hrunamannahreppi, en fyrrum var hann vanalega farinn upp úr Þingvallasveit, var þá farinn Kaldalsvegur upp á Hofmannaflöt, en þar skiptust vegir, var farið til austnorðurs inn á Biskupsflöt, þaðan til landsuðurs í skar á lágum fjallgarði, sem liggur fyrir austan flötina. Þegar komið er yfir skarðið, liggur vegurinn inn með fjallgarðinum, þangað til komið er beint á móts við lítinn fjallshnúk, sem er austur í hrauninu fram af Skjaldbreið, - tveir eru hnúkarnir og langt bil á milli, er þetta inn efri – er nú haldið þangað og sunnan undir hnúknum. Hnúkur þessi heitir Sleðaás, og er vestan undir honum stór klettur, sem kallaður er Grettistak; hann stendur á sínum minnsta flatvegi og eru undir honum steinar. Frá hnúknum liggur vegurinn í landnorður upp í skarðið fyrir framan Skjaldbreið. Það heitir Klukkuskarð; þar eru tveir hólar sem heita Klukkur; vegurinn er fyrir framan þá og sunnan Skjaldbreið, er stefnt í landnorður á Hlöðufell, það er hátt, þverhnípt hamrafjall. Fyrir sunnan veginn er mikill og langur fjallgarður, þar er fjall sem heitir Eiríksfell, neðan undan því eru Eiríksvellir, þar er farið um; þar er nú blásið mjög. Við austurenda þessa fjallgarðs liggur nú vegurinn upp á Hlöðuvelli, sem eru sunnan undir Hlöðufelli; þar er góður áfangastaður. Allur vegurinn frá Hofsmannaflöt hingað er óglöggir slóðar, og víða grýttir mjög. Af Hlöðuvöllum liggur vegurinn yfir grýttan hraunsand, sem heitri Rótasandur, er stefnt í landsuður, á Högnahöfða, sem er mjög hátt fjall á fjallgerði þeim, sem liggur austan megin Rótasands, er þar skarð austur úr norðan undan Högnahöfða, það heitir Hellisskarð, um það er farið, og er í austanverðu skarðinu farið niður með suðurbarminum á djúpu gili. Úr Hellisskarði lá vegurinn í fyrndinni til landnorðurs fyrir norðan byggð í Biskupstungum. Var farið hjá fjalli því, er Svínafell heitir, norðarlega í Úthlíðarhraunum, þaðan til norðurenda Sandfells, þar var áfangastaður sem hét í Grasdölum; þar er ein tjörn sem heitir Norðlingatjörn. Þaðan hefir vegurinn legið í landnorður fyrir vestan Sandvatn, og svo inn með Sandvatnshlíð, þaðan sjónhending í vesturenda Bláfells, og komið þar á veginn sem liggur upp úr Biskupstungum. Þessi partur vegarins hefir lagst af vegna ágangs af sandi og þar af leiðandi grasleysis. Á seinni tímum var því vegurinn lagður úr Hellisskarði til austurs yfir þvert Úthlíðarhraun, upp á Kvernháls fyrir norðan Bjarnarfell og austur yfir hann ofan í Biskupstungur. Er farið niður skógarhlíð skammt fyrir norðan bæinn Helludal, þá yfir litla á, Langá, þá yfir norðurenda Laugarfells, fyrir norðan Geysi, en sunnan bæinn Haukadal, þá austur fyrir smá-árnar Beiná og Almenningsá að Tungnafljóti og yfir það á Þverbrekknavaði, þar er það í þrem kvíslum, og að austanverðu rennur í það lítill lækur þar sem upp úr er komið. Hjá honum höfðu “Norðlingar” áfanga í svo nefndu Gýgjarhólsþýfi. Þaðan liggur vegurinn til landnorðurs fyrir austan bæinn Kjóastaði. Er þaðan lagt norður á fjöllin og stefnt á austurenda Bláfells. Það er stórt fjall á Biskupstungna afrétti. Er þeirri stefnu haldið inn á Vegatorfur, - sem nú eru að mestu blásnar af. – Við norðurenda þeirra er farið yfir Sandá, er þar rennur til austurs í Hvítá. Er Hvítá þá skammt fyrir austan veginn og rennur það beint í hásuður. Þegar komið er norður yfir Sandá, liggur vegurinn norður Héðinsbrekkur. Þær liggja norður með Hvítá og er hún fast við þær að austanverðu. Þegar þær þrjóta, er stefnt nær hánorðri á vesturenda Bláfells, yfir Brunnaskóga og ofan til yfir Brunnaskógalæk, sem fyrir innan skógana fellur í Hvítá. Hún rennur þar úr landnorðri, en vegurinn stefnir enn til norðurs á vesturenda Bláfells, yfir litla á, sem Grjótá heitir, og svo upp á Bláfellsháls. Það er há og breið grjótalda, sem liggur í norður og vestur af Bláfelli. Liggur vegurinn spölkorn frá fjallinu vestan og norðan megin og tekur þá stefnu til landnorðurs; er farið af hálsinum sunnan megin við gilfarveg, sem liggur þar ofan til landnorðurs. Þar er aftur komið að Hvítá, stutt frá því sem hún rennur úr Hvítárvatni, er þar vað á henni, sem heitir Skagfirðingavað. Það er ofan til við efsta hólmann í ánni og er hún þar í tveim kvíslum. Vaðið er nokkuð djúpt, helst á norðurkvíslinni, og er áríðandi að halda vel á strauminn þegar inn yfir er farið; framyfir ríður minna á því. Nú er bátur við ána að sunnanverðu. Þegar komið er norður yfir Hvítá, er farið inn Hvítársand í landnorður. Á sandinum norðanverðum eru tveir fjallhnúkar, sem heita Skútar, og er vegurinn vestanmegin þeirra. Verður þar fyrir lítil á, sem heitir Svartá; yfir hana á að fara stutt fyrir framan innri Skúta; þar heitir í Svartárbugum; þar má hafa áfangastað og þar er sæluhús fyrir fjallleitarmenn úr Biskupstungum. Svo er farið norður með Svartá þar til hún skiptist í tvær kvíslir, við norðurenda innri Skúta, verður þar nes milli kvíslanna, er heitir Gránunes; þar var áfangastaður ferðamanna (úr Gýgjarhólsþýfi). Vegurinn liggur yfir vesturkvíslina upp í nesið. – Þegar farið er upp úr Hrunamannahreppi, er hér komið á veginn. Í Gránunesi skiptast Kjalvegur og Eyfirðingavegur (eða Vatnahjallavegur). Hann liggur austur yfir eystri kvíslina, en Kjalvegur vestur yfir hina vestri, er svo haldið í landnorður og stefnt á austurenda Kjalfells, sem er hátt hamrafjall alveg sérstakt. Austanundir því er farið, og frá landnorðurenda þess liggur vegurinn upp á Kjölinn, sem er norðurbrúnin á Kjalhrauni; þar er gróðurlaust, hraunstandar, og sandur á milli sumsstaðar. Skammt frá austurenda Kjalfells er farið hjá þeim stað, sem Reynistaða-bræður urðu úti; sér þar enn mikið af hrossa- og sauðabeinum. Upp á Kjölnum er Grettishellir, stutt fyrir austan veginn, stór hellir tvídyraðar, standa á honum sjö vörður mosavaxnar. Þegar komið er hæst á Kjölinn, sést norður í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslur; mun þar eitthvert hið víðsýnasta og fróðlegasta pláss á Suðurlandi í góðu veðri. Þaðan af falla öll vötn til norðurs. Er enn stefnt í landnorður á Grúfufell, sem er skammt fyrir norðan Kjölinn. Þangað er sagt að sunnlendingar hafi flutt viðina í stofu Auðunnar rauða Hólabiskups. Frá Grúfufelli er enn stefnt í landnorður yfir Grúfufellsskeið (Dúfunefsskeið?), það er sléttur sandur, norður að Blöndu, þar er vað á Blöndu og sín varða hvoru megin. Það er stuttu framar en Seyðisá fellur í Blöndu; sú á kemur úr Hveradölum, og hefst úr hver þeim, er Seyðir heitir; þar var Fjalla-Eyvindur, sem merki sjást til. Þegar komið er yfir Blöndu, er farið fyrir vestan sæluhústóftir, sem eru vestast í Guðlaugstunum, og svo í landnorður með hæð, sem kölluð er Draugaháls. Þá veður fyrir Strangakvísl og er farið yfir hana nokkru sunnar en hún fellur í Blöndu. Síðan er haldið í vesturhalt landnorður að sæluhúsi, sem kallað er Haugaskáli (Vekelshaugar?); það er norður af Blönduvaðshæð. Þá er stefnt beint í landnorður yfir Galtárdrög norður á Sand; af Sandi liggur vegurinn hátt til landnorðurs þar til komið er norður í Mælifellsdal. Vegur liggur einnig austur að Goðdölum og skilst hann frá aðalveginum norðarlega á Sandi. Á vegi þessum eru víðast góðir hagar, úr því komið er norður yfir Blöndu. Nærri mun láta að lengd þessa vegar, byggða á milli, úr Biskupstungum norður í Mælifellsdal, sé hálfur þriðji lesta áfangi.
Eyfirðingavegur liggur úr Gránunesi yfir austurkvísl Svartár, og fyrir austan Kjalhraun, og svo sömu stefnu til austurs innyfir Blöndu, austur í Álftabrekkur og svo austur með Hofsjökli, hefir maður hann á hægri hönd, austur í syðri Polla. Þar var áfangastaður (úr Gránunesi). Þaðan liggur vegurinn að Jökulsá, yfir hana og svo norðvestan við nyrðri Polla, þá í austurlandnorður austan við Urðarvötn og svo ofan í Eyjafjörð. – Ég hefi, eftir að þetta var ritað, fengið lýsingu á Eyfirðingavegi frá herra Sigurði Jóhannessyni á Hrafnagili, er ég ætla þeim vegi kunnugastan af þeim mönnum, sem nú eru uppi. Set ég hér lýsingu hans orðrétta: “Frá Tjörnum í Eyjafirði liggur vegur þessi fram með Eyjafjarðará fram í svokallaða Selskál, svo þaðan yfir Eyjafjarðará og upp með Hafrá og fram Hafrárdal. Þegar Hafrárdal sleppir, kemur varðaður vegur og liggur hann austan við Urðarvatn og vestan í Kerlingarhnúk. Þegar vötnunum sleppir, beygist vegurinn lítið eitt í vestur og svo í hásuður, og skal ávallt stefna á Laugafell, til þess komið er að Geldingsá. Síðan liggur vegurinn nokkuð vestur, og norðan og vestan við nyrðri Polla að Jökulsá, og áfram í suðvestur í syðri Polla, sem var gamall áfangastaður. Úr Pollum liggur vegurinn í suðvestur og skal ávallt hafa Hofsjökul á vinstri hönd. Örnefni á þessari leið eru: Bleikáluháls og Lambahraun, og liggur vegurinn í gegnum hraunið, og skal svo halda sömu stefnu með Jöklinum suður í Álftabrekkur. Úr Álftabrekkum skal halda heldur meir í vestur að Blöndu, þaðan sömu stefnu austan við Kjalhraun og í Gránunes.”
Vegur hefir einnig legið út úr Kjalvegi norður í Húnavatnssýslu. Hafa vegirnir skipst í Svartárbugum við sæluhúsið, hefir svo verið stefnt í hánorður, upp Kjalhraun, og í múla þann, er gengur fram milli Miðdala eða Þjófadala og Tjarnardala, svo norður með fjallgarði þeim, sem liggur norðvestan megin þeirra, þar til komið er að Oddnýjargili, þaðan í landnorður að Áfangahóli, hann er suður af Kólkuhól, vestan til á Kúluheiði; þaðan í landnorður vestantil við vatn það, er Þrístikla heitir, þaðan vestan við Mjóavatn og norður milli Þremundarvatna. Skammt fyrir norðan Þremundarvötn hefir vegurinn skipst sundur til Vatnsdals, Svínadals, Sléttárdals og Blöndudals. Þessi vegur byggða á milli mun vera meira en hálfur þriðji áfangi.


Ísafold, 5. nóv. 1884, 11. árg., 44. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur segir það vel hugsað að Alþingi lét það vera eitt sitt fyrsta verk, eftir að það fékk fjárráðin í hendur, að búa til ný vegalög og veita ríflegt fé til vegabóta. Hitt finnst honum verra, hvernig fé þessu hefur verið varið.

Vegabætur og vegabótafé.
I.
Það var vissulega vel hugsað og vel til fallið, að Alþingi lét það vera sitt eitt hið fyrsta verk, er það fékk fjárráðin í hendur að búa til ný vegalög og betri en þau sem áður voru, og að veita þegar allríflegan styrk úr landssjóði til vegabóta.
Styrkur þessi var fyrst 15.000 kr. um allt fjárlagatímabilið, 1876-77, síðan 15.000 á ári árin 1878 og 1879, en upp frá því 20.000 kr. á ári. Hefir þannig verið veitt til vegabóta alls 165.000 kr., síðan 1876, og mun vera búið að verja af því framundir hálft annað hundrað þúsund krónum.
Oss sem nú erum uppi, virðist þetta fjárframlag dáindis-ríflegt, svo litlu sem af er að taka.
Getur og vel verið, að niðjar vorir að mannsaldri liðnum eða síðar, sem hafa vegabótaféð ef til vill tífalt á við þetta, - að þeir munu ekki fást svo mikið um, hvað vér höfum verið smátækir.
En það er annað, sem þeim mun finnast til um, og það er meðferðin á vegabótafénu fyrstu árin framan af.
Það verður óskemmtilegur dómur. Vér getum farið nokkuð nærri um aðalatriði hans.
Það var sök sér, munu þeir segja, þótt fjárframlagið væri ekki meira en þetta fyrstu búskaparárin, hefði fénu verið vel og skynsamlega varið. En það var öðru nær. Stjórn og framkvæmd vegabótastarfanna var frámunalega ráðleysisleg.
Það var kunnáttuleysið, sem mest bagaði. Forfeður vorir kunnu hvorki að leggja niður fyrir sér, hvar best væri að hafa veginn eða hvernig hann ætti að vera lagaður, né heldur höfðu þeir vit á, úr hvaða efni vegurinn átti að vera eða hvernig saman settur.
Þá tók hitt út yfir, að það var algengt, að hafa til vegavinnu liðléttinga, er ekki gátu fengið annað að gera, og kunnu ekki hót til verka. Menn höfðu naumast hugmynd um það í þá daga hér á landi, að vegavinna er iðn, sem nema þarf eins og hvað annað, eins og t.d. smíðar.
Það er eins og þeir hafi ekki haft neitt veður af því, að vankunnáttan gerir eigi einungis verkið hálfu ver af hendi leyst, og margoft ónýtt, heldur jafnvel það af því, sem nýtilegt er, hálfu dýrara, af því að sá sem verkið kann og er vanur því, afkastar helmingi meiru en viðvaningurinn; er því aldrei gerður sá munur á kaupgjaldi fákunnandi liðléttings og velkunnandi verkamanns, að liðléttingurinn verði ekki miklu dýrari.
Af verkstjórninni kunna gamlir menn sögur, sem er bæði illt og broslegt að heyra. Skammt frá sjálfum höfuðstaðnum, undir handarjaðrinum á yfirstjórn landsins, stóð í mörg ár fyrir vegagjörð maður, sem flestir, er til þekktu, voru forviða á, að hafður skyldi vera til þess. Enginn einstakur maður mundi hafa látið sér detta í hug að setja hann fyrir verksmiðju, ef því hefði verið að skipta, eða yfir höfuð að láta hann standa fyrir yfirgripsmiklum verkum. Hann réð sér verkamenn með þeim kjörum, að hann legði þeim sjálfur til fæði, fyrir tiltekinn part af kaupinu og hann ekki lítinn; en hvernig fæðið var úti látið, um það var hann alvaldur. Nærri má geta, að ekki hafi valist til hans verkamenn af betri endanum. Auðvitað ekki aðrir en þeir, sem ekki áttu annars úrkosti. Svo var fæðið svo úti látið, að þessir vesalingar höfðu ekki hálft vinnufjör við það. Svo var skipt um þetta lið að miklu leyti á hverju ári; fáa fýsti aftur í vistina.
Með þessu liðið var nú vinnan unnin, og með því samboðinni ráðheild. Meðal annars var t. a. m. varla borið við að flytja ofaníburð í veg öðruvísi en á svokölluðum handbörum. Með þeim þurfti 2 menn til þess að flytja svo sem fjórða part af því sem einn maður gat haft á hjólbörum með gamla laginu, sem nú er orðið mjög sjaldséð, af því að það er svo óhentugt.
Allir hristu höfuðið yfir þessu ráðlagi. En þar við lenti lengi vel. Oft töluðu menn reyndar um sín á milli, að þetta væri hrapaleg brúkun á landsfé. En hins vegar var almenningi raunar ekki svo mjög sárt um þennan svo kallaða landssjóð; það eimdi eftir af hugsunarhættinum frá því fyrir fjárhagsaðskilnaðinn við Danmörku; af því að Danir héldu ranglega fé fyrir oss, þótti jafnvel fremd að því að sækja sem fastast fé í þeirra hendur; því var það lengi fram eftir, að það þótti lítil sök að hafa af landssjóði, og af óvananum við hið nýja stjórnarfyrirkomulag var almenningi miður hugfast, að það var að taka úr vara þjóðarinnar að taka úr landssjóði. Í annan stað höfðu forfeður vorir í raun og veru miklu meiri undirgefnisanda og lotningu fyrir “háyfirvöldunum” (svo nefndum) og öllum þeirra verkum heldur en nú gerist, þótt þeir töluðu oft í aðra átt. Þessi háyfirvöld áttu að vita allt og gera allt. Það var svo fáum öðrum til að dreifa til nokkurs hlutar; og þó að þessir embættismenn kynnu ekki annað en meira eða minna í lögum, og höfðu ekki öðru vanist en skrifstofustörfum – þetta var á hinni annáluðu skriffinnskuöld-, og ekki annað séð af heiminum, en Kaupmannahöfn og nokkuð af Íslandi, þá var trúin hjá almenningi og hugsunarhátturinn sá, er lýsir sér í hinum danska málshætti; “þeim guð gefur embætti veitir hann líka vit”. Fór þá oft, eins og gerðist, að embættismennirnir leiddust sjálfir á sömu trú á endanum, og héldu sig meira en vaxna margs konar störfum, er allir vita nú að þarf sérstaka kunnáttu til, sérstakt nám, allt eins yfirgripsmikið og vandasamt eins og þeirra embættisnám.
Eitt af þessum störfum var nú að ráða og segja fyrir um vegagjörð. Það sem engum kemur nú til hugar hér á landi og engum kom þá til hugar í öðrum löndum að trúa öðrum fyrir en mannvirkjameisturum (ingenieurs), það létu forfeður vorir lögfræðinga sína gjöra, ýmist eina saman eða með ráði einhverra þeim jafnsnjallra.
Ágætt sýnishorn af þeirri ráðsmennsku er hin alræmdi Svínahraunsvegur, sömuleiðis örskammt frá höfuðstað landsins. Vegur þessi var fyrst og fremst lagður yfir þvert hraunið, í stað þess að hafa hann þar sem hann er nú, að mestu fyrir norðan það eða yfir Norðurvelli, sem var miklu fyrirhafnarminna og meira en tilvinnandi fyrir ekki meiri krók; því þar sem hraun eru fyrir, er í lengstu lög betri krókur en kelda. Vegurinn var lagður þvert yfir hraunið, en þó engan veginn beint, heldur með stórum hlykk, svo stórum, að nam fullum fimmta hluta allrar vegalengdarinnar yfir hraunið. Þó kastar tólfunum, þegar vér heyrum, hvernig vegurinn var gerður. Hann var hafður allur upphækkaður, hér um bil jafnt hvort heldur voru hæðir eða lautir, hleðsla hans var þannig gerð, að grjótinu var aðeins hróflað saman, en hvergi raðað eða eiginlega hlaðið. Ofan í þessa urð var síðan hrúgað mold og efst strokið yfir með sandi. Þetta leit dável út þegar vegurinn var nýgerður. En sem nærri má geta skolaði rigningin moldinni burtu mjög bráðlega og var þá eftir ber urðin, er allar skepnur forðuðust meira en hraunið sjálft.

Nú er að vita, hvað þessi snilldarlega vegargjörð kostaði. Svínahraunsvegurinn var allur rúm 3000 faðmar, að áðurnefndum 600 faðma hlykk meðtöldum, eða ¾ míla, og kostaði nær 14.000 kr. eða meira en 4 ½ kr. faðmurinn.
Þetta var nú hinn upphaflegi kostnaður. Eftir 2-3 vetur var nauðugur einn kostur að fara að gera við veginn allan saman. Það var gert fyrst með þeim hætti að bera ofan í hann aftur, því var haldið áfram í tvö sumur, með miklum mannafla, og lokið við á þeim tíma hér um bil 2/3 af allri vegalengdinni eða tæplega það. Það kostaði um 4.500 kr.
Þegar svo langt var komið, uppgötvuðu menn, að vegurinn mundi litlu bættari, og sáu þá að eigi mundi annað stoða en að rífa upp alla hina eldri hleðslu, ef hleðslu skyldi kalla, og flórleggja allt saman, og bera síðan möl þar á ofan.
Á þessu var byrjað þriðja sumarið, sumarið 1884, flórlagður þá hér um bil ¼ hluti vegarins, og borið ofan í þann kaflann að nokkru leyti. Það kostaði 3.500 kr.
Taldist þá svo til, að viðlíka áframhaldi mundi þessi hin nýja umbót á veginum öllum kosta heldur meira en minna en hin upphaflega vegargjörð.
Og vegurinn þá allur fullgjörður, þessir ¾ hlutir úr mílu, langt yfir 30.000 kr., eða svo sem 10-12 kr. faðmurinn.
Fór þá að renna á menn tvær grímur.
II.
Af ýmsum ástæðum er ekki hægt að tilfæra hér nema kafla og kafla úr þessu yfirliti yfir vegabótaframkvæmdirnar fyrstu búskaparár landsins, er vér hugsum oss niðja vora höfunda að. Einn kaflinn mundi t.d. líklega verða hér um bil á þessa leið: -
Eftir nokkur ár fór alþingi að ympra á því, hvort ekki mundi ráð að reyna að fá til landsins vegfróðan mann frá útlöndum til þess að standa hér fyrir vegagjörð, þótt ekki væri nema eitt sumar rétt til reynslu. Það stundi þessu upp með hálfum hug, því það vissi ekki hvernig stjórnin kynni að taka þess konar nýbreytni, sem óvíst var að dæmi fyndist til í dönskum tilskipunum frá síðari árum. Þingmenn höfðu lesið það um Pétur mikla t.d., að þegar hann tók fyrir sig að koma þjóð sinni á framfarabraut annarra Norðurálfuþjóða, þá var það hans fyrsta verk að útvega sér menn frá öðrum löndum, er betur kunnu en Rússar, til að segja þeim til og stýra ýmsum framfaratilraunum þar í landi. Þingmenn höfðu meira að segja veður af, að á líkan hátt mundu flestar framfarir annarra þjóða yfir höfuð komnar að upphafi, jafnvel Dana sjálfra líka, og ímynduðu sér að Íslendingum væri ekki vandara um en þeim, né heldur hitt, að þeir þyrftu þess síður við en aðrir. Eftir vorum hugsunarhætti, þeirra er nú erum uppi – segja niðjar vorir enn fremur -, hefði það verið sjálfsagður hlutur, að stjórnin sjálf, framkvæmdastjórinn, hefði upptökin að þess konar framfaraviðleitni. En hugsunarhátturinn var annar í gamla daga. Menn voru af gömlum vana löngu hættir að hugsa sér stjórnina öðruvísi en eins og dauðan hlut, er ekki hreyfði sig til nokkurs hlutar af sjálfsdáðum. Hún var eins og maskína, er þótti góðra gjalda vert að skilaði aftur út um annan endann því sem látið var inn um hinn, ekki eftir tvær mínútur, eins og slátrunar- og matreiðsluvélin, heldur eftir misseri og þaðan af lengri tíma. Frekara var eigi til ætlast að jafnaði, og sjálf þóttist stjórnin hafa meira en leyst hendur sínar með slíkum skilum. Það var jafnvel eigi fínt að gera meira, og það sem ekki er “fínt”, það er dauðadæmt.
Nema hvernig fór um uppástunguna um vegfræðinginn?
Það fór svo, að fyrst leiddi stjórnin málið hjá sér svo lengi sem hægt var, og svaraði síðan, þegar hún var búin að eyða vegabótafénu um það fjárhagstímabil til annars,, að það yrði nú að bíða í þetta sinn, af því að nú vantaði fé til þess. Stjórninni var svo tungutöm þessi setning frá þeim tímum, að hún ein hafði fjárráðin í höndum.
Til þess nú að þessu yrði ekki við barið oftar, tiltók þingið í næstu fjárlögum ákveðna upphæð til að útvega fyrir útlendan vegfræðing, 2.500 kr. hvort árið 1884 og 1885. Óvíst er hvort þetta hefði samt sem áður haft nokkurn árangur, hefði ekki einn mikils metinn og framtakssamur þingmaður tekið að sér að vera í útvegum um manninn fyrir stjórnarinnar hönd. Hann fékk manninn, og hann vel valinn, þar, sem sjálfsagt var að fá hann, vegna líkra landshátta, en það var í Noregi. Hafði einu sinni áður komið til landsins útlendur verkfræðingur, til að rannsaka brúarstæði á Þjórsá og Ölfusá, en hann varð endilega að vera danskur, og afleiðingin var sú, að verið var síðan í hálfan mannsaldur að þrátta um það, vort tiltækilegt væri að brúa árnar eða ekki, og hvar ætti að hafa brýrnar, í stað þess, að hefði sá, sem þetta rannsakaði fyrstu, verið maður verklega kunnugur viðlíka ám og líku landslagi, mundi hann hafa getað skorið úr þessu máli til fullnustu þegar í stað og þar með gjört enda á allri þrætu.
Hinn norski vegfræðingur kom, vorið 1884. En landsstjórnin var sjálfri sér lík. Hún hafði þá eigi haft hina minnstu fyrirhyggju til að hagnýta sér hann að neinu ráði. Þar sem hans þurfti helst við, og hægast var að ná til hans og nema af honum, gat hann ekki komist að, af því að þar voru hinir innlendu vegagjörðasnillingar fastráðnir fyrir og þurftu að afla sér fjár og frama eitt sumarið enn. Niðurstaðan varð þá sú, að hann var sendur út á landshorn og látinn dunda þar við lítinn vegarspotta, með fáeinum hræðum, er, voru fengnar að föngum til, sinn maðurinn hvern daginn, þegar þeir höfðu ekki annað að stunda, og sem ekki skyldu hinn útlenda mann. Í stað þess að fá honum valið lið, svo margt, sem efni leyfðu, saman safnað úr öllum landsins fjórðungum, til þess að leiðbeiningin yrði sem best notuð og kunnáttan dreifðist sem allra víðast undir eins, eftir því sem kostur var á.
Hinum norska vegfræðing – hann hét Hovdenak – bæði blöskraði og sárnaði þessi ráðsmennska svo mjög, að hann vildi eigi gefa kost á sér oftar hingað til lands til slíkra hluta. Hann var ötull maður, vel að sér og samviskusamur, og undi því mjög illa, að för hans hafði borið hálfu minni ávöxt en til var ætlast, þótt öðrum væri um að kenna.
Fjarri fór því samt sem áður, að för hans yrði árangurslaus. Þessir vegaspottar, sem hann gerði, báru langt af því, sem sést hafði áður hér á landi. Þeir voru lausir við óþarfa-hlykki og mishæðir, með velgjörðum rennum á báðar hliðar. Voru því hálfu greiðfærari fyrir það og vörðust miklu betur skemmdum. En það sem mest var í varið, var það, að þessi fyrsti norski vegfræðingur, er hér vann að vegagjörð, tók fyrir sig þegar í upphafi að hafa vegina eigi brattari en svo, og þannig gerða að öðru leyti, að vel mætti koma þar við vagni. Áður hafði lítið verið hugsað um að forðast miklar brekkur. Menn vorkenndu ekki mikið lungunum í skepnunum. Og að hugsa til að hafa hér vagnvegi, þótti þá slíkt stórræði, að það væri eigi takandi í mál. Því hefir orðið að gera að nýju nær alla vegi, sem lagðir voru hér á landi fyrstu 10-12 árin framan af.
III.
Áður en Hovdenak kom til sögunnar, hafði það menn frekast vita engum dottið í hug að nota hallamæli við vegagjörðir. Og svo var heimskan rík og hugsunarleysið, að þegar ferðamenn sáu hina miklu sneiðinga, sem Hovdenak bjó til upp Vestdalsheiði fyrir austan, þá formæltu þeir slíkri vitleysu í sand og ösku, að lengja svona veginn um helming eða meir. En það fór af, þegar þeir sáu, að hinn nýi vegur hans var jafn fljótfarinn og sá gamli, með því að það mátti skeiðríða hann upp og ofan, en munurinn sá, að á gamla veginum var hesturinn kominn að spreng af mæði, þegar upp kom, en blés ekki nös eftir nýja veginn. ---
- Þessi tilraun til að skoða sjálfan sig í skuggsjá ókominnar aldar mætti vera tilefni að vakna við og breyta til batnaðar ráðlagi voru í þessu efni.
Vér vonum fyrst og fremst, að nú verði ráð í tíma tekið með vegfræðing næsta sumar, bæði að ráða hann í tíma, fá honum nógu mikið og haganlegt verkefni, og sér í lagi gerðar í tíma ráðstafanir til að hann fái þá verkamenn, úr ýmsum landsfjórðungum, er numið geti af honum svo sem kostur er á. Síðan veitti ekki af að halda áfram með útlenda vegfræðinga að staðaldri, þangað til einhverjir innlendir væru orðnir þeim jafnsnjallir og gætu tekið við af þeim; mundi ráð að þingið styddi efnilega menn til þeirra hluta. Þetta fákænsku-kák, er hingað til hefir átt sér stað, einkum á Suðurlandi – það mun hafa verið talsvert skárra í öðrum landsfjórðungum, - má með engu móti líðast framar; það er óhæfileg fjársóun.
En um vegabæturnar sjálfar er það að segja, að einsætt er að snúa sem skjótast við blaðinu og hætta að leggja fjárgötur og hrossatroðninga, en hafa það reglulega vagnvegi, það lítið sem gert er af nýjum vegum, og þá auðvitað helst í byggð, þar sem þéttbýlast er. Láta sér að öðru leyti nægja að ryðja hina gömlu vegi svo, að þeir séu ekki alveg ófærir, eða viðlíka færir og þeir hafa lengst af verið.
Þetta mun þykja mikið í munni. En hvaða forsjálni eða framsýni er það, að vita fyrir víst, að hér hljóta að komst á vagnvegir með tímanum, ef landið leggst ekki í eyði von bráðar, og halda samt áfram að eyða stórfé í vegagjörðir, sem þá eru ónýtar? Eða hafa menn hins vegar gjört sér glögga grein fyrir, hve ómetanleg hlunnindi er að vagnvegum? Auk margvíslegra þæginda er það bæði mikill vinnusparnaður og sér ílagi stórkostlegur hestahaldssparnaður. Fækkun hrossa á heyjum og högum um helming, eða jafnvel miklu meir, greiðir götu fyrir fjölgun annars penings að svo miklum mun, að það má vera þungur vegabótaskattur, sem vegur til nokkurra muna upp á móti þeim gróða. Hins vegar stoðar ekki að láta koma hik á sig fyrir það, þótt ekki sé að hugsa til að fá vagnvegi um allt land á fáum árum. Það hlýtur að standa mjög lengi á því, hvort sem byrjað er á því fyrr eða síðar; en því lengur sem vér látum dragast að byrja á því, því lengra á það í land. Vér verðum að hafa þolinmæði og sýna þrek og sjálfsafneitun í þessu sem öðrum meiri háttar framkvæmdum, sem eiga að vera til frambúðar. Vér megum ekki setja það fyrir oss, þótt fæstir, sem nú lifa, geti átt von á að njóta til nokkurrar hlítar ávaxtanna af þessum framkvæmdum, eða þótt þær komi misjafnt niður á ýmsa landsins parta. Þjóðfélagið tekur jafnt fyrir alda sem óborna; því á allt, sem það framkvæmir, að vera eigi síður gert ókomnum kynslóðum til hagsældar. Þá fyrst er þjóð komin á óyggjandi framfarabraut, er slík fyrirhyggja fyrir ókomnum kynslóðum og þar af leiðandi sjálfsafneitun lýsir sér í öllum hennar framkvæmdum. Því menningarmeiri sem þjóðin er, því framsýnni er hún; Skrælinginn hugsar eigi fyrir morgundeginum.
Að hugsa hærra en að koma hér á vagnvegum og þar til heyrandi brúm yfir vatnsföll er að smíða sér loftkastala. Járnbrautir geta aldrei orðið almennar hér á landi; landið getur ekki orðið svo þéttbýlt, að svo dýrir vegir svari kostnaði, nema ef til vill á stöku stað og af sérstökum ástæðum. En lánist það sæmilega, sem nú er farið að reyna annarsstaðar, að koma við gufuvögnum á einföldum akvegum, án járnbrautar, þá verður það vort hjálpræði. Þá mundi oss eigi þess iðra, að vér hefðum varið vegabótafé voru í vagnvegi.