1884

Ísafold, 14. maí 1884, 11. árg., 20. tbl., bls. 78:

Um brúargerð yfir Ölvesá og um póstvegi.
Eftir Þorlák Guðmundsson alþingismann.
“Enginn veit hvenær þessi dagur muni koma”.
Svo var það og fyrir skemmstu, að enginn vissi, hvenær þeir dagar mundu koma, að Skjálfandafljót og Elliðaárnar yrðu brúaðar; en þetta næstliðna ár hefir ekki látið sig vera án vitnisburðar, þó vér ekki tökum það sem árgæsku-ár, sem það þó var, af forsjóninni gefið í sannri þörf. Allir tímar hafa að vísu eitthvað merkilegt að færa, er gefur teikn, ef eftir er tekið, um það, hvort þjóðirnar eru á framfara- eða afturfarabraut í þessu eða hinu. Það er hið merkilegasta tímans teikn, að Íslendingar séu á framfarabraut, þó hægt fari, í því að bæta samgöngurnar, að þessi 2 nafnkenndu vatnsföll hafa verið brúuð á árinu 1883; að þessu leyti hefir það ekki látið sig vera án vitnisburðar, sem framfaraár.
Hér er unnið fleira en eitt; það er ekki einungis gagnið sem af því leiðir, sem þó verður ómetandi. Það er annað, sem engu er minna í varið: að hér með er byrjað, hér með er ísinn brotinn, hér með sýnt, að það má brúa ár á voru landi. Það sannast hér sem oftar, að hálfnað er verk þá hafið er. – Það er ekki hvað minnst undir því komið, þegar byrjað er á einhverjum þjóðlegum fyrirtækjum, að byrjað sé vel og rétt, að fyrstu tilraunirnar heppnist, hvort heldur er t. a. m. að koma upp skólum til alþýðumenntunar, eða bæta samgöngurnar, og þessi tvö atriði, menntun alþýðunnar og að bæta samgöngurnar svo fljótt og vel sem unnt er, munu vafalaust hin þýðingarmestu verkefni, er liggja fyrir nútíðarmönnum, því vanþekking og samgönguleysi eru hin þyngstu þjóðmein vor, eins og margra annarra heimsjarðarbúa.
Það, sem ég hér ætlaði að minnast á, er brúargerðin yfir Ölvesá og aðalpóstvegir; nú sem stendur veit enginn maður hvenær sá dagur muni koma, að þingið verði svo stórhugað, og leyfi sér það frægðarorð, að veita fé til þessa, ef það er meira en skylda þess að brúka svo verklega landsfé, en mola það ekki niður í launabætur og eftirlaun, eða til annarra smámuna, sem enga sér staði; samt hygg ég að flestir muni vera vissir um að þetta verði gert, ekki einungis fyrr eða síðar, heldur á næsta eða öðru þingi hér frá. Það er fullkunnugt, hverjar tilraunir hafa verið gjörðar til að fá þessu nauðsynjaverki framgengt, og skal ég því hafa sem minnst við að taka upp sögu málsins á þingi eða annarsstaðar. Þeim mönnum, er þetta mál liggur þyngst á hjarta, er ekki ókunnugt um, hverjir það eru, sem þar hafa lagst í þjóðgötu framfaranna og strítt á móti straum; en eins og dropinn holar bergið blátt, eins mun straumur framfaranna, framknúður af afli þarfarinnar, sannleikans og réttlætisins, ryðja burtu því sem í veginum stendur, hvað sem það svo heitir. Ámæla skal ég engum sérstaklega, það vinnur ekki málinu gagn. – Það þótti sem von var mörgum af þeim, er hér áttu mestan hlut að máli, illa til takast, þegar frumvarp þingsins 1879 visnaði upp í höndum stjórnarinnar. Það er nú svo, að þeim er búinn bíður, finnst jafnan langt, þeim þjáða, þeim af samgönguleysinu undirokaða, er þetta ekki láandi; en þó getur stundum verið betra að hjálpin dragist nokkuð, en hún komi fyrr, og sé þá þeim annmörkum bundin, að hjálpþurfar naumast eða ekki geta undir risið. - Hefði nú frumvarpið orðið að lögum, má telja víst, að verkið hefði verið framkvæmt, og þá lánið orðið sú byrði, er héruðin hefðu ekki undir risið með harðæri og fellir, er þá dundi yfir; það má því eins vel skoðast sem heppni, að frumvarpið ekki varð að lögum, enda var það ofurhugi að taka slíkt lán, byggður á hinni brýnu þörf. Það verður heldur ekki skoðað öðruvísi en sem ónærgætni og ósanngirni að þvinga vissa parta af landinu til að taka slík stórlán því til framkvæmdar, sem er rétt skoðað almennings gagn og sama sem að neita þeim um það sem gera þarf. Því mun nú verða svarað, að hér sé um meira að ræða en brúa Ölvesá; annar fiskur liggi undir steini, það er Þjórsá. Það virðist að vera það sjálfsagða þegar kringumstæður leyfa, ef brúarstæði fæst; hér er ekki verið að fara með nein undirhyggjuráð.
Landssjóður er sá Þór, sem á að fara í austurveg og berja á tröllum. Þegar sýslu- og sveitarfélög eru farin að berja á hinum minni tröllum og næturvofum, sem staðið hafa á þjóðvegum, síðan land byggðist, og hindrað ferð og framkvæmdir, ógnað lífi og limum margra, eyðilagt sumar, þá getur það engum dulist, að hér fer verulega að slá skugga á þingið í þessu mikilsverða máli; það verður ekki með gildum ástæðum barið við féskorti, reynslan er búin að sýna, að hér má ná ærnu fé án þess að leggja nýja beina skatta, og enn munu nóg ráð til að ná meiru fé, enda þó af væri létt ábúðar- eða lausafjárskatti; það stefnir allt að því, að sú skoðun nái festu hjá þjóðinni og þinginu, að landssjóður eigi að kosta aðalpóstveg um landið, og þar á meðal að brúa hinar stærri ár á þeim leiðum. Þingið er komið inn á þessa skoðun, þrátt fyrir hin núgildandi vegalög, og er allt af meir og meir að fjarlægjast þau, eins og þingmaður Borgfirðinga (Gr. Th.) sagði á sama þingið (þingmaðurinn er þar í með), og það má segja að þetta hafi gengið þegjandi í gegn, það er að styrkja póstvegi í byggðum með því að leggja fé til móts við sýslusjóðinn þeim til endurbóta. Þetta hefir þannig myndast, eins og þegar ein réttarvenja skapast af sjálfu sér, af því, að tímans rás og þörfin segir eða réttara sýnir þegjandi, að svona hlýtur það að vera; það má öllum vera ljóst, að sýsluvegagjaldið í heild sinni og einstökum héruðum er ónógt til að gjöra hina mörgu og erfiðu byggðu vegi í stand, og er þó tilfinnanlegt fyrir gjaldendur með afleiðingum arðæris og öðrum þungum sköttum, er á þeim hvíla. Það er mikil bót í máli með kostnaðinn til aðalpóstveganna, að ekki þarf að kosta nema einn veg yfir Kjósar- og Borgarfjarðarsýslur og allt upp í Stafholtstungur. Það er því sjálfsagt, að Borgfirðingar muni halda þessu fram og þá þingmaður þeirra gefa því meðhald sitt, og þar á meðal, að Hvítá í Borgarfirði verði á sínum tíma brúuð, og ætla ég þetta engu minna vert en þó þeir (Borgfirðingar) fengju gufubát á Faxaflóa, enda sýnist að kaupmannastéttin, sem orðin er allfjölmenn hér í kringum flóann, ætti að koma því fyrirtæki á fót. Sama er að segja um Reykjavík og þingmann þess kjördæmis, sem um Borgfirðinga og þingmann þeirra; allt það, sem bætir samgöngurnar, og þá undir eins eykur viðskiptin við höfuðstað landsins, verður hans gagn og sómi, og hann mun hvorutveggja með þurfa. Bærinn hlýtur því og þingmaður hans að hlynna svo að þessu máli, sem unnt er, svo er og um fleiri kjördæmi og þingmenn þeirra, því hér kemur saman þörf og gagn einstakra héraða, við þörf og gagn alls landsins. Ég skal nú engan veginn segja, að þeir 9 þingmenn, sem greiddu atkvæði með brúargerð yfir Ölvesá á síðasta þingi, séu í öllu frjálslyndari en hinir, er voru móti því; það mun samt ekki verða sagt, að þessir 9 séu til jafnaðar í öllu ógætnari eða óhagsýnni í meðferð á landsfé, þegar á fleira er litið; það gefur hinar bestu vonir um framgang málsins á næsta þingi, að það fékk 9 atkvæði hrein og bein, og má segja 10, því þingmaður Dalamanna var í orði og anda með málinu, og 2 greiddu ekki atkvæði, líklega af því að þeir hafa þó fundið ærnar ástæður með því, enda finna þau allir og mótstöðumenn líka. Það má því segja, að hér stæði málið engu ver en þó það hefði fallið með jöfnum atkvæðum. Það er því ekki rétt sem blaðið Heimdallur segir (“eftir því sem alþingi hefir tekið í brúarmálið, verður ekki von á styrk úr þeirri átt”). Um undirtektir efri deildar efri deildar hefir maður ekki neitt bókstaflega fyrir sér, því hér þurfti ekki að kenna þeim konungkjörnu um: neðri deild sá um að hleypa ekki málinu svo langt; en ætlun mín er, að ekki svo fáir þingmenn þar mundu verða með málinu, og það sumir hinna konungkjörnu. Víst er um það, að hinn núverandi landshöfðingi var því mjög hlynntur 1879, í þeim búningi er það var þá í fyrir þinginu, og það er einmitt hans skoðun, að landssjóður eigi að taka að sér póstvegina í byggðum á sama hátt og fjallvegina (sjá tímarit Bókmenntafél. 1. 159-60).
Þegar um það er rætt, að póstgöngur hafa verið bættar á síðasta þingi, þá er það nú að vísu nokkuð meira en á pappírnum; þó eru þessar endurbætur ekki nema hálfverk meðan póstvegir ekki eru betur endurbættir en búið er. – Póstum er skipað að vera hér í dag og þar á morgun; þeir eiga að fara yfir byggðir og óbyggðir, á sumum stöðum yfir vegarmynd og sumum hreinar vegleysur, yfir stór vötn, sem oft geta verið allavega ófær, þó þeir upp á líf og dauða með sig og gripi sína brjótist það á ferju eða á ónýtum ís, og er þá oft margra manna lífi stofnað í háska, ferju- og fylgdarmanna og annarra er slást í för með. Póstarnir eru vafalaust undir öllum þessum kringumstæðum þeir verst höldnu menn, af þeim er taka laun sín úr landssjóði, og það er allt annað að vera embættismaður í Reykjavík, þó hann hafi nokkuð að gera, þegar verkahringurinn er allur innan 4 veggja, en að vera vetrarpóstur enda hvar sem er á landinu. Svo eru einlægar kvartanir hvað póstar séu lengi á ferðinni og stundum er póstmeistaranum um kennt, en sjaldan því er mest veldur: vegaleysi og brúarleysi á stærri og smærri vatnsföllum, enda er ekki við að búast að geta valið úr mönnum í þessa stöðu eins og þyrfti með þeim kjörum er þeir nú hafa.
Mér þætti fróðlegt að sjá, ef einhver vildi með góðum og gildum ástæðum hrekja þá skoðun, að landsjóður eigi að kosta alla aðalpóstvegi um landið, og þar á meðal leggja fé til brúargjörðar á þeim vatnsföllum, er brúuð verða á þeim leiðum.
Það mun vera einsdæmi um heim allan, að í nokkru landi, þar sem þing er, sem hefur fjárveitingarvald, ekki minna en vér, safni fé í sjóð ár eftir ár, en láti slík nauðsynjaverk sem brúargerð yfir Ölvesá óframkvæmd þing eftir þing, en þar á móti lána ekki alllítið fé út til einstakra manna, til að reisa sér vegleg hús o. fl. Það verður naumast varið, að þessi þjóðbúskapur er ekki hásigldur á haföldum heims-framfaranna.
Hér er ekki nema eitt fyrir hendi: ef að hinar stærri ár ekki fást brúaðar af almannafé, þá verða menn að sitja og sofa í sömu hlekkjunum og hoppa í sömu höftunum sem feður þeirra. Ekki er um að tala; sýslurnar geta ekki tekið slík stórlán.
Það er verið að hringja þeirri bjöllu, að hér megi koma á dragferjum. Þær kosti svo lítið. Það má segja, ef farið yrði að brúka landsfé til þess, hvort heldur beinlínis eða með láni til héraðanna, að ekki verði feigum forðað; það lítur út fyrir, að landssjóður verði ekki í þetta sinn uppétinn sem hungurforði, en að verja honum til dragferju, álít ég að gangi því næst.
Hvort er annars betra, að byrja húsið svo vel, að það standi í 50 ár, eða svo lélega, að það þurfi að endurbyggjast á hverjum 5 árum, og geta þar til ekki brúkað það nema 3-4 mánuði af árinu. Slíkar ferjur eru óveruleg meinabót, og koma hvorki póstum né öðrum að liði, þegar mest á ríður, en verða þá að liggja uppi og fúna niður undir klaka og krapi. Þær mundi og eyða meiru fé á ¼ parti aldar, en fastabrú kostaði, sem varaði fleiri aldir, ef náttúru-umbrot ekki grönduðu henni.

Ég ætla nú að treysta því, að þeir háttvirtu herrar og þjóðfulltrúar, sem nú eiga sæti á þingi Íslendinga, vilji nú eignast sjálfir, þegar þeir í síðasta sinn á kjörtímanum ganga af þingi, það framfara- og frægðarorð, heldur en gefa það og geyma öðrum, sem, ef til vill, setjast í sæti þeirra á nýjum kjörtíma, að hafa greitt atkvæði með því, að landssjóður takið að sér aðalpóstvegina, og þá þar á meðal að brúa Ölvesá.
Þó að enginn viti nú sem stendur, hvenær sá dagur muni koma, að Ölvesá verði brúuð, þá get ég ekki betur sé, en að margt bendi til þess, og gefi bestu vonir um, að bjarma muni upp af þessum degi í lok næsta Alþingis.
(Ritað á sumardaginn fyrsta 1884)


Ísafold, 14. maí 1884, 11. árg., 20. tbl., bls. 78:

Um brúargerð yfir Ölvesá og um póstvegi.
Eftir Þorlák Guðmundsson alþingismann.
“Enginn veit hvenær þessi dagur muni koma”.
Svo var það og fyrir skemmstu, að enginn vissi, hvenær þeir dagar mundu koma, að Skjálfandafljót og Elliðaárnar yrðu brúaðar; en þetta næstliðna ár hefir ekki látið sig vera án vitnisburðar, þó vér ekki tökum það sem árgæsku-ár, sem það þó var, af forsjóninni gefið í sannri þörf. Allir tímar hafa að vísu eitthvað merkilegt að færa, er gefur teikn, ef eftir er tekið, um það, hvort þjóðirnar eru á framfara- eða afturfarabraut í þessu eða hinu. Það er hið merkilegasta tímans teikn, að Íslendingar séu á framfarabraut, þó hægt fari, í því að bæta samgöngurnar, að þessi 2 nafnkenndu vatnsföll hafa verið brúuð á árinu 1883; að þessu leyti hefir það ekki látið sig vera án vitnisburðar, sem framfaraár.
Hér er unnið fleira en eitt; það er ekki einungis gagnið sem af því leiðir, sem þó verður ómetandi. Það er annað, sem engu er minna í varið: að hér með er byrjað, hér með er ísinn brotinn, hér með sýnt, að það má brúa ár á voru landi. Það sannast hér sem oftar, að hálfnað er verk þá hafið er. – Það er ekki hvað minnst undir því komið, þegar byrjað er á einhverjum þjóðlegum fyrirtækjum, að byrjað sé vel og rétt, að fyrstu tilraunirnar heppnist, hvort heldur er t. a. m. að koma upp skólum til alþýðumenntunar, eða bæta samgöngurnar, og þessi tvö atriði, menntun alþýðunnar og að bæta samgöngurnar svo fljótt og vel sem unnt er, munu vafalaust hin þýðingarmestu verkefni, er liggja fyrir nútíðarmönnum, því vanþekking og samgönguleysi eru hin þyngstu þjóðmein vor, eins og margra annarra heimsjarðarbúa.
Það, sem ég hér ætlaði að minnast á, er brúargerðin yfir Ölvesá og aðalpóstvegir; nú sem stendur veit enginn maður hvenær sá dagur muni koma, að þingið verði svo stórhugað, og leyfi sér það frægðarorð, að veita fé til þessa, ef það er meira en skylda þess að brúka svo verklega landsfé, en mola það ekki niður í launabætur og eftirlaun, eða til annarra smámuna, sem enga sér staði; samt hygg ég að flestir muni vera vissir um að þetta verði gert, ekki einungis fyrr eða síðar, heldur á næsta eða öðru þingi hér frá. Það er fullkunnugt, hverjar tilraunir hafa verið gjörðar til að fá þessu nauðsynjaverki framgengt, og skal ég því hafa sem minnst við að taka upp sögu málsins á þingi eða annarsstaðar. Þeim mönnum, er þetta mál liggur þyngst á hjarta, er ekki ókunnugt um, hverjir það eru, sem þar hafa lagst í þjóðgötu framfaranna og strítt á móti straum; en eins og dropinn holar bergið blátt, eins mun straumur framfaranna, framknúður af afli þarfarinnar, sannleikans og réttlætisins, ryðja burtu því sem í veginum stendur, hvað sem það svo heitir. Ámæla skal ég engum sérstaklega, það vinnur ekki málinu gagn. – Það þótti sem von var mörgum af þeim, er hér áttu mestan hlut að máli, illa til takast, þegar frumvarp þingsins 1879 visnaði upp í höndum stjórnarinnar. Það er nú svo, að þeim er búinn bíður, finnst jafnan langt, þeim þjáða, þeim af samgönguleysinu undirokaða, er þetta ekki láandi; en þó getur stundum verið betra að hjálpin dragist nokkuð, en hún komi fyrr, og sé þá þeim annmörkum bundin, að hjálpþurfar naumast eða ekki geta undir risið. - Hefði nú frumvarpið orðið að lögum, má telja víst, að verkið hefði verið framkvæmt, og þá lánið orðið sú byrði, er héruðin hefðu ekki undir risið með harðæri og fellir, er þá dundi yfir; það má því eins vel skoðast sem heppni, að frumvarpið ekki varð að lögum, enda var það ofurhugi að taka slíkt lán, byggður á hinni brýnu þörf. Það verður heldur ekki skoðað öðruvísi en sem ónærgætni og ósanngirni að þvinga vissa parta af landinu til að taka slík stórlán því til framkvæmdar, sem er rétt skoðað almennings gagn og sama sem að neita þeim um það sem gera þarf. Því mun nú verða svarað, að hér sé um meira að ræða en brúa Ölvesá; annar fiskur liggi undir steini, það er Þjórsá. Það virðist að vera það sjálfsagða þegar kringumstæður leyfa, ef brúarstæði fæst; hér er ekki verið að fara með nein undirhyggjuráð.
Landssjóður er sá Þór, sem á að fara í austurveg og berja á tröllum. Þegar sýslu- og sveitarfélög eru farin að berja á hinum minni tröllum og næturvofum, sem staðið hafa á þjóðvegum, síðan land byggðist, og hindrað ferð og framkvæmdir, ógnað lífi og limum margra, eyðilagt sumar, þá getur það engum dulist, að hér fer verulega að slá skugga á þingið í þessu mikilsverða máli; það verður ekki með gildum ástæðum barið við féskorti, reynslan er búin að sýna, að hér má ná ærnu fé án þess að leggja nýja beina skatta, og enn munu nóg ráð til að ná meiru fé, enda þó af væri létt ábúðar- eða lausafjárskatti; það stefnir allt að því, að sú skoðun nái festu hjá þjóðinni og þinginu, að landssjóður eigi að kosta aðalpóstveg um landið, og þar á meðal að brúa hinar stærri ár á þeim leiðum. Þingið er komið inn á þessa skoðun, þrátt fyrir hin núgildandi vegalög, og er allt af meir og meir að fjarlægjast þau, eins og þingmaður Borgfirðinga (Gr. Th.) sagði á sama þingið (þingmaðurinn er þar í með), og það má segja að þetta hafi gengið þegjandi í gegn, það er að styrkja póstvegi í byggðum með því að leggja fé til móts við sýslusjóðinn þeim til endurbóta. Þetta hefir þannig myndast, eins og þegar ein réttarvenja skapast af sjálfu sér, af því, að tímans rás og þörfin segir eða réttara sýnir þegjandi, að svona hlýtur það að vera; það má öllum vera ljóst, að sýsluvegagjaldið í heild sinni og einstökum héruðum er ónógt til að gjöra hina mörgu og erfiðu byggðu vegi í stand, og er þó tilfinnanlegt fyrir gjaldendur með afleiðingum arðæris og öðrum þungum sköttum, er á þeim hvíla. Það er mikil bót í máli með kostnaðinn til aðalpóstveganna, að ekki þarf að kosta nema einn veg yfir Kjósar- og Borgarfjarðarsýslur og allt upp í Stafholtstungur. Það er því sjálfsagt, að Borgfirðingar muni halda þessu fram og þá þingmaður þeirra gefa því meðhald sitt, og þar á meðal, að Hvítá í Borgarfirði verði á sínum tíma brúuð, og ætla ég þetta engu minna vert en þó þeir (Borgfirðingar) fengju gufubát á Faxaflóa, enda sýnist að kaupmannastéttin, sem orðin er allfjölmenn hér í kringum flóann, ætti að koma því fyrirtæki á fót. Sama er að segja um Reykjavík og þingmann þess kjördæmis, sem um Borgfirðinga og þingmann þeirra; allt það, sem bætir samgöngurnar, og þá undir eins eykur viðskiptin við höfuðstað landsins, verður hans gagn og sómi, og hann mun hvorutveggja með þurfa. Bærinn hlýtur því og þingmaður hans að hlynna svo að þessu máli, sem unnt er, svo er og um fleiri kjördæmi og þingmenn þeirra, því hér kemur saman þörf og gagn einstakra héraða, við þörf og gagn alls landsins. Ég skal nú engan veginn segja, að þeir 9 þingmenn, sem greiddu atkvæði með brúargerð yfir Ölvesá á síðasta þingi, séu í öllu frjálslyndari en hinir, er voru móti því; það mun samt ekki verða sagt, að þessir 9 séu til jafnaðar í öllu ógætnari eða óhagsýnni í meðferð á landsfé, þegar á fleira er litið; það gefur hinar bestu vonir um framgang málsins á næsta þingi, að það fékk 9 atkvæði hrein og bein, og má segja 10, því þingmaður Dalamanna var í orði og anda með málinu, og 2 greiddu ekki atkvæði, líklega af því að þeir hafa þó fundið ærnar ástæður með því, enda finna þau allir og mótstöðumenn líka. Það má því segja, að hér stæði málið engu ver en þó það hefði fallið með jöfnum atkvæðum. Það er því ekki rétt sem blaðið Heimdallur segir (“eftir því sem alþingi hefir tekið í brúarmálið, verður ekki von á styrk úr þeirri átt”). Um undirtektir efri deildar efri deildar hefir maður ekki neitt bókstaflega fyrir sér, því hér þurfti ekki að kenna þeim konungkjörnu um: neðri deild sá um að hleypa ekki málinu svo langt; en ætlun mín er, að ekki svo fáir þingmenn þar mundu verða með málinu, og það sumir hinna konungkjörnu. Víst er um það, að hinn núverandi landshöfðingi var því mjög hlynntur 1879, í þeim búningi er það var þá í fyrir þinginu, og það er einmitt hans skoðun, að landssjóður eigi að taka að sér póstvegina í byggðum á sama hátt og fjallvegina (sjá tímarit Bókmenntafél. 1. 159-60).
Þegar um það er rætt, að póstgöngur hafa verið bættar á síðasta þingi, þá er það nú að vísu nokkuð meira en á pappírnum; þó eru þessar endurbætur ekki nema hálfverk meðan póstvegir ekki eru betur endurbættir en búið er. – Póstum er skipað að vera hér í dag og þar á morgun; þeir eiga að fara yfir byggðir og óbyggðir, á sumum stöðum yfir vegarmynd og sumum hreinar vegleysur, yfir stór vötn, sem oft geta verið allavega ófær, þó þeir upp á líf og dauða með sig og gripi sína brjótist það á ferju eða á ónýtum ís, og er þá oft margra manna lífi stofnað í háska, ferju- og fylgdarmanna og annarra er slást í för með. Póstarnir eru vafalaust undir öllum þessum kringumstæðum þeir verst höldnu menn, af þeim er taka laun sín úr landssjóði, og það er allt annað að vera embættismaður í Reykjavík, þó hann hafi nokkuð að gera, þegar verkahringurinn er allur innan 4 veggja, en að vera vetrarpóstur enda hvar sem er á landinu. Svo eru einlægar kvartanir hvað póstar séu lengi á ferðinni og stundum er póstmeistaranum um kennt, en sjaldan því er mest veldur: vegaleysi og brúarleysi á stærri og smærri vatnsföllum, enda er ekki við að búast að geta valið úr mönnum í þessa stöðu eins og þyrfti með þeim kjörum er þeir nú hafa.
Mér þætti fróðlegt að sjá, ef einhver vildi með góðum og gildum ástæðum hrekja þá skoðun, að landsjóður eigi að kosta alla aðalpóstvegi um landið, og þar á meðal leggja fé til brúargjörðar á þeim vatnsföllum, er brúuð verða á þeim leiðum.
Það mun vera einsdæmi um heim allan, að í nokkru landi, þar sem þing er, sem hefur fjárveitingarvald, ekki minna en vér, safni fé í sjóð ár eftir ár, en láti slík nauðsynjaverk sem brúargerð yfir Ölvesá óframkvæmd þing eftir þing, en þar á móti lána ekki alllítið fé út til einstakra manna, til að reisa sér vegleg hús o. fl. Það verður naumast varið, að þessi þjóðbúskapur er ekki hásigldur á haföldum heims-framfaranna.
Hér er ekki nema eitt fyrir hendi: ef að hinar stærri ár ekki fást brúaðar af almannafé, þá verða menn að sitja og sofa í sömu hlekkjunum og hoppa í sömu höftunum sem feður þeirra. Ekki er um að tala; sýslurnar geta ekki tekið slík stórlán.
Það er verið að hringja þeirri bjöllu, að hér megi koma á dragferjum. Þær kosti svo lítið. Það má segja, ef farið yrði að brúka landsfé til þess, hvort heldur beinlínis eða með láni til héraðanna, að ekki verði feigum forðað; það lítur út fyrir, að landssjóður verði ekki í þetta sinn uppétinn sem hungurforði, en að verja honum til dragferju, álít ég að gangi því næst.
Hvort er annars betra, að byrja húsið svo vel, að það standi í 50 ár, eða svo lélega, að það þurfi að endurbyggjast á hverjum 5 árum, og geta þar til ekki brúkað það nema 3-4 mánuði af árinu. Slíkar ferjur eru óveruleg meinabót, og koma hvorki póstum né öðrum að liði, þegar mest á ríður, en verða þá að liggja uppi og fúna niður undir klaka og krapi. Þær mundi og eyða meiru fé á ¼ parti aldar, en fastabrú kostaði, sem varaði fleiri aldir, ef náttúru-umbrot ekki grönduðu henni.

Ég ætla nú að treysta því, að þeir háttvirtu herrar og þjóðfulltrúar, sem nú eiga sæti á þingi Íslendinga, vilji nú eignast sjálfir, þegar þeir í síðasta sinn á kjörtímanum ganga af þingi, það framfara- og frægðarorð, heldur en gefa það og geyma öðrum, sem, ef til vill, setjast í sæti þeirra á nýjum kjörtíma, að hafa greitt atkvæði með því, að landssjóður takið að sér aðalpóstvegina, og þá þar á meðal að brúa Ölvesá.
Þó að enginn viti nú sem stendur, hvenær sá dagur muni koma, að Ölvesá verði brúuð, þá get ég ekki betur sé, en að margt bendi til þess, og gefi bestu vonir um, að bjarma muni upp af þessum degi í lok næsta Alþingis.
(Ritað á sumardaginn fyrsta 1884)