1882

Tenging í allt blaðaefni ársins 1882

Ísafold, 25. mars 1882, 9. árg., 5. tbl., bls. 20:
Björn Björnsson búfræðingur tekur vegina til umtalsefnis, því það sé helsta skilyrði fyrir framförum hverrar þjóðar, að samgöngur séu greiðar.

Um vegabætur
(Eftir Björn Björnsson búfræðing)
Vér Íslendingar erum á eftir tímanum. Þetta er setning sem vér nú erum farnir að venjast við að heyra. Vér vitum það því, og ættum að finna til þess, að það er hryggilegt ástand. Þessi tilfinning ætti aftur að uppörva oss til að leitast við, að breyta þessu ástandi til batnaðar. Ég vil eigi segja, að engin viðleitni sé til þess, en mikið vantar á, að hún sé nægileg eða ávallt í rétta stefnu. Ég vil hér taka vegina til umtalsefnis, af því það er eitt hið fyrsta og helsta skilyrði fyrir framförum hverrar þjóðar, að samgöngurnar séu greiðar; en hve mjög landi voru er bótavant í því efni, er kunnugra en um þurfi að ræða.
Margt er það sem veldur hinum ógreiðu samgöngum hjá oss. Á landi eru það fjöll, vatnsföll, fen og foræði, á sjó eru það boðar og brim, sem hindra umferðina og gjöra hana erfiða og alla flutninga mjög kostnaðarsama. Það hlýtur að kosta meiri fyrirhöfn og vera meira torveldi undirorpið að greiða samgöngurnar hér á landi, en víða annarsstaðar; en þó mun það geta látið sig gjöra að bæta þær, og það verður að gjörast, ef land vort á nokkra framtíð fyrir höndum. Eftir ásigkomulagi landsins verður það hyggilegast, að nota sjóinn að svo miklu leyti sem það er mögulegt; er því nauðsyn á, að laga samgöngurnar á sjó fyrst, þannig, að til allra flutninga sé sjóvegurinn notaður inn í innstu firði, víkur og árósa sem komist verður á skipum. Til þess ætti að hafa gufuferjur þar sem því verður við komið. En til þess að hafa vissar og tryggar stöðvar (Stationer) fyrir þessar ferjur, þarf að velja vel staðina, og jafnvel laga eða búa um þá, ef þarf og verður. Frá þessum ferjustöðum eða hafnarstöðum, sem undir eins yrðu verslunarstaðir, ætti svo að leggja landvegina út um sveitirnar.
Ég verð að álíta það fyrirkomulag sem nú er á vegabótum vorum eigi hið heillavænlegasta fyrir framtíðina. Þó vér séum nú á eftir tímanum, þurfum vér eigi að fylgja gangi framfaranna fet fyrir fet á sama hátt og þær þjóðir hafa gjört, sem nú eru á undan oss; vér getum tekið beina stefnu eftir fyrirrennurum vorum á braut framfaranna, þó þeir stundum hafi farið krókótt; því fyr getum vér komist á líkt stig og þeir. En því lengur sem vér höldum áfram, að eyða vorum litlu kröftum og efnum í viðhald hinna ógreiðu og óvaranlegu vegi eftir hinu gamla formi, því seinna komumst vér á hið rétta stig. Það er t.a.m. mjög óheppilegt að kosta út mörgum þúsundum árlega til fjallvegaruðnings, (t.d. á Kaldadalsvegi og Grímstunguheiðarvegi o. fl.), sem eigi er bót að nema eitt eða tvö ár eftir, og gjörir þar að auki eigi einu sinni almennt gagn í bráð, en eftir nokkurn tíma liðinn má búast við að það verði alveg óþarft verk. Eftir því sem sjóvegsferðirnar aukast og batna hætta menn að nota fjallvegina. En sé sú ástæða færð fyrir viðhaldi fjallveganna, að þeir séu ómissandi nú, þá færi ég þá þýðingarmiklu ástæðu aftur þar á móti, að við það að bæta úr þessari stundarnauðsyn nokkurra manna, verður ómögulegt, eða í hið minnsta mikið torveldara en annars mætti vera, að fullnægja einu aðalskilyrðinu fyrir vexti og viðgangi allrar þjóðarinnar framvegis. Svo lengi sem vér höldum áfram að eyða kröftum vorum til viðhalds fjallaveganna, getum vér litlu kostað til gufubáta, hafna, lendinga o. fl. viðvíkjandi sjóferðum, eða til brúa og betri vega í byggðunum. Það er líkt á komið með vegina og með húsabyggingarnar. Eigi að byggja nýtt og betra hús, hættir maður að viðhalda hinu gamla, en byggir hið nýja af þeim kröftum, sem annars hefðu þurft hinu til viðhalds. Alþingi er húsbóndi veganna, og getur á sama hátt bætt hag þjóðarinnar með því að vinna henni í haginn og byrja í tíma á því að verja fé því, er það veitir til vegabóta, á þann hátt sem best má verða fyrir framtíðina. Land vort er eigi svo peningabyrgt, að það geti eytt miklu til þeirra verka, sem hafa einungis stundar þýðingu, svo sem er vegaruðningur. Mestu varðar að það, sem gjört er með almenningsfé, sé verulegt og varanlegt eða hafi framfaralega þýðingu fyrir landið eða þjóðina.
Með tilliti til vegagjörðar vil ég geta þess, að eigi varðar minna að vegurinn sé haganlega lagður en að frágangurinn sé að öðru leyti góður; en í því hefir mönnum mjög oft mistekist; þar sem brúvegur hefir verið gjörður, hefir hann oft verið lagður svo, að hann annað hvort liggur fyrir áföllum eða er of brattur svo eigi er að hugsa til, að hann geti orðið notaður fyrir æki á sínum tíma. Vil ég til dæmis taka Öskjuhlíðarveg upp frá Reykjavík. Til þess vegar hefir miklu verið kostað; þó er hann svo úr garði gjörður, að hann naumast verður notaður þegar farið yrði að nota æki almennara; hann er of erfiður; hann liggur beint upp og ofan hæðirnar, sumstaðar með halla sem 1: 9 – 10% en hægt hefði verið að leggja hann þar sem hallinn er mjög lítill, með því að sneiða fyrir hæðirnar1. Menn verða að gæta þess, að á vegi er láréttur bugur (fyrir hæð; horizontal) betri en lóðréttur (yfir hæð; vertical), og að það er óhyggilegt að kaupa prýði beinna vega fyrir æfinlega erfiðleika. Eigi er þess heldur ætíð nægilega gætt, að afstýra skemmdum af vatnsrennsli; það getur máske kostað árlegan íburð að eigi hefir verið varið fáum dagsverkum meira í fyrstunni til þess að gjöra nægilegt ræsi fyrir vatnsrennslið meðfram veginum.
Hvað sjálfri vegagjörðinni viðvíkur, má geta þess, að efnið í veginn verður að nokkru leyti að velja eftir ásigkomulagi jarðvegarins þar sem veginn á að leggja. Einkum er áríðandi, að leggja vegina haganlega, svo að þeim sé sem minnst hætta búin af skriðum, vatnsflóðum eða vatnsrennsli. Til þess að vegirnir standist vatnsrennsli þurfa síður þeirra að vera grasgrónar, og eiga því að vera byggðar af grashnausum (en eigi úr grjóti, sé vatnsrásar von) með miklum halla (minnst 45°), og skal grasrótar-reinin ná dálítið upp á vegbrúnina. Eigi vel að vera, er best að leggja lag af smásteinum (kastmöl; Puksteen) á veginn, áður en mölinni er ekið á hann. Þó vegurinn blotni, veðst hann þá aldrei dýpra en ofan að því smásteinalagi. Það þarf eigi að vera breiðara en 2/3 vegarins; en liggja skal það eftir honum miðjum. Þetta sparar kostnað í viðhaldinu. Þar sem brúa á blaut mýrarsund, er það óþarft að leggja grjót undir; það sekkur, en þéttir þó eigi jarðveginn nægilega og er því of dýrt. Mest er um að gjöra að fá slíkar mýrar svo vel ræstar fram, að eigi standi vatn þar sem vegurinn á að liggja. Verður því að grafa verulega skurði fram úr mýrinni og beggja megin vegarins svo langt frá, að eigi sé hætt við að vatnið grafi undan honum. Fryst skal þá leggja undirlagið af torfi því og hnausum, er upp úr skurðunum kemur, en fylla síðan upp í og jafna yfir með leir eða möl. Eigi má steinsetja slíkar brýr fyr en eftir eitt eða tvö ár; því þær verða að vera fullsignar áður. Standi vegurinn á hörðum jarðvegi, má byggja hann af grjóti að öllu öðru leyti en því, að jafnað sé með möl yfir, og að grashnausar séu í brúnunum; því þegar brúnirnar grasgróa, er síður hætt við að þær rasi út, eða að steinar haggist í þeim. Vegirnir eiga að vera minnst 10-14 feta breiðir, svo þeir verði á síðan notaðir fyrir sleða og vagna, ef einhvern tíma kæmi sá tími, að menn færu að nota hér æki, sem ég vildi óska að yrði sem allra fyrst. Einkum ætti sleða-akstur á vetrum með hestum að vera almennari en er, því þá myndar náttúran víða góða vegi, þar sem annars er ógreiðfært, og þarf engu til þeirra að kosta.
1) Eins er vegurinn yfir Kamba á Hellisheiði hin mesta ómynd sakir of mikils halla, sem á löngum vegi ætti aldrei að vera meir ein í mesta lagi 1:12.


Ísafold, 5. apríl 1882, 9. árg., 6. tbl., bls. 22:
Ísafold segir það óskandi að sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu sjái sem fyrst til þess að Elliðaár verði brúaðar.

Styrkur af landssjóði til brúargjörða.
Af fé því, sem Alþingi í sumar veitti til að styrkja aðgjörðir á sýsluvegum á aðalpóstleiðum, hefir landshöfðinginn 6. febr. þ. á. ákveðið, að verja skuli 2.500 kr. í sumar í norður- og austuramtinu; af þeim fær amtsráðið 1.900 kr til úthlutunar, en 600 kr. hefir hann veitt sem styrk til að brúa Valagilsá í Skagafirði. Slíkar brýr eru einhverjar hinar nytsömustu vegabætur, þar sem þeim verður komið við án of mikils kostnaðar; slæmt er að þurfa að fara um illan veg, en verra er að geta alls eigi komið ferð sinni áfram eða þurfa ef til vill til þess að leggja líf sitt í hættu; og víða eru það aðeins smá-ár, er brúa mætti með litlum kostnaði, sem þessu valda; meðal þeirra eru eflaust engar, er gjöra eins mörgum mönnum farartálma eins og Elliðaárnar, af því umferðin er hvergi eins mikil og þær einatt illar yfirferðar að vetrinum; það er því bæði óskandi og vonandi að sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu sjái sem fyrst um, að þær verði brúaðar og ætti henni að vera það því hægra sem nú mun mega fá til þess mikinn styrk úr landssjóði, því allar aðalpóstleiðirnar liggja yfir ár þessar.


Þjóðólfur, 24. júlí 1882, 34. árg., 16. tbl., forsíða:
Árnesingur vill ekki álasa sýslunefnd Gullbringu- og Kjósasýslu fyrir að brúa ekki Elliðaárnar og ekki heldur fyrir það að hann var næstum drukknaður á sýsluvaðinu.

(Aðsent)
Á síðastliðnum vetri kom ég að Elliðaánum. Þær voru því nær ófærar, frost mikið, allt á klepru og eigi álitlegt að fara yfir þær. Ég fór nú að hugsa um það, hvernig best væri yfir þær að komast og helfjrósa svo ekki á eftir. Fann ég þá fljótt, að ég var enginn alþingismaður með ekkert í kollinum nema hálfvitlaus breytingaratkvæði, svo að mér varð lítt til ráða. Ég var líka einn, og gat ekki látið ganga til atkvæða um það, er mér hugkvæmdist. Það kvað vera gott fyrir þá, er finna einhverjar vitleysurnar, að láta aðra fallast á þær með atkvæðagreiðslu, því þá bera aðrir ábyrgðina.
Ég fór nú eftir því eina ráði, er ég fann til að krókna ekki úr kulda, ef ég kæmist yfir um árnar. Ég hafði tvenna sokka og tvennar buxur, nýprjónaðar nærbuxur og þar utan yfir vaðmálsbuxur lélegar. Og gott er að eiga góða húsbændur, sem búa mann vel út í öll ferðalög. Ég settist nú á klepraðan stein, fór úr sokkunum og báðum buxunum, og þar á eftir aftur í utanyfirbuxurnar og aðra sokkana, en batt nærbuxurnar með hinum sokkunum um háls mér og hlýaði það vel.
Nú fól ég mig guði á vald, og þar næst sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu með því að fara út í Norðurána, rétt þarna á sýslunefndarveginum og sýsluvaðinu góða, sem allir kvað vera skyldir að fara yfir og hvergi annarsstaðar. Þó ég sé kallaður hugmaður á sjó og landi, kom í mig skelkur, þegar ég var kominn lítið eitt út í ána. Mér varð ósjálfrátt að hörfa aftur í herrans nafni og gleyma því að ganga sýslunefndarinnar með vegalögunum löggilta vað. Það er nú svona að verða hræddur við dauðann. Reyndi ég svo að komast yfir ána á öðrum stað, og tókst mér það, þó að þar ekki væri sýsluvað. Þegar ég komst yfir árnar, var ég votur og klakaður, og þá er ég í mínum lélegu utnayfirbuxum settist á klakaðan stein, ætlaði allt að verða samfrosta, rassinn, buxurnar og steininn. Ég fór nú í mínar þurru nærbuxur og sokka, og kom svona klæddur að Bústöðum; þar fékk ég góðan greiða og heitan sopa, því þau hjón, sem þar voru, hafa hjúkrað mörgum votum og köldum.
Svo er nú þessi saga búin, og af því að ég fyrir þetta var jafngóður eftir sem áður, segi ég sögu þessa til eftirbreytni fyrir aðra. Mér kemur ekki til hugar að álasa eða hallmæla sýslunefndinni með einu orði að áin var einmitt ófær á sýslunefndarvaðinu, en fær annarsstaðar, og ef ég nú hefði drukknað þarna rétt á sýsluvaðinu, þá hefði ég ekki álasað henni fyrir það, eins og skiljanlegt er, og er vonandi, að herra Þ.G. hefði ekki gjört það. Heldur ekki álasa ég sýslunefndinni, þó hún ekki vilji kaupa planka í brýrnar fyrir 38 aura alinina; það er allt of dýrt fyrir fátækan almúga, og þar eð þetta strand ekki fyllti hvern árós með plönkum, væri rétt að bíða eftir nýju strandi, þar sem að plankarnir rækju upp í sjálfan kjaftinn á ánum, og þangað til erum við dónarnir ekki of góðir að vaða úr okkur iljaostinn í blessuðum ánum. Ég er alveg samdóma herra Þ.G.; hann er skarpvitur, nærgætinn og þekkir allar hliðar lífsins eða meira en þá einu, sem sé framhliðina; hann þekkir hina, eða afturhliðina, sem ber þungan; og nú innfellur mín einfaldlega spurning til hans: Hver hefði átt að kosta útför mína, ef ég hefði drukknað þarna rétt á sýslunefndarveginum, og líkið rekið upp í Seltjarnarneshreppi? Var það Mosfellshreppur, eða Seltjarnarneshreppur, eða hvorugur þeirra? Mér kemur þetta til hugar, af því að nýlega varð stríð á milli Ölfus og Selvogs út af greftrun af nokkrum mannsbeinum, er fundust uppi á fjalli. Það kvað hafa kostað mikinn tíma, heilabrot, pappír og skriftir næstum því eins mikið og deilan þar syðra um það, hver ætti að kosta uppfræðingu fáfróðs unglings, er komið var fyrir hjá presti; en þó ekki eins mikill og sá, sem leiddi af því borgarstríði, sem gaus upp í Gullbringusýslu um það, hver það væri, sem ætti að kosta sveitabækurnar. Til blóðsúthellinga mun ekki hafa komið, nema ef að einhver óskilagemsinn hafi látið líf sitt svo að lítið beri á, og er Ísafold kunnugast um það. Ég er samdóma Þ.G., að um þessar mundir sé í mörg horn að líta, en ef hann vildi gefa sig við þeim málum, sem nú taka mikinn tíma, eins og þessi mál gjöra, og hann vildi leggja sig eftir einhverjum stórræðum, þá gæti hann unnið landinu mikið gagn með því, að hleypa brúarmálinu fram af sér, og lofa öðrum minni háttar mönnum að reyna sig á því.
Árnesingur.
Vér höfum ekki viljað neita grein þessari um Elliðaárnar inntöku í blað vort, en það er tvennt, er vér viljum taka fram út af henni.
1. Árnesingurinn var einn á ferð, svo að hann getur aðeins einn borið söguna. Vér vitum að nokkuð líkt hefir komið fyrir, og skorum á menn að skýra oss frá hrakförum yfir árnar, og ættu þeir að nafngreina sig um leið.
2. Um deilu út af greftrun á mannsbeinum má lesa í Stjórnartíðindum B 1881, bls. 156, og um kostnað við sveitabækur í B 1882, bls. 1.
Vér höfum heyrt marga kvarta yfir því, að sýslunefndin ekki leggi brú yfir árnar, og þessi ritgjörð sýnir, að það sé nú hollara að byrja á framkvæmdinni en að halda því máli til streitu að leggja engar brýr, eða eyða málinu eins og afturhaldsmaðurinn Þ.G. hefir viljað gjöra í Skuld.
Ritstj.


Þjóðólfur, 18. nóv. 1882, 34. árg., 27. tbl., bls. 108:
Sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu hefir af ráðið að leggja brú yfir Elliðaárnar.

Brú á Elliðaánum.
Vér getum nú glatt marga ferðamenn með því, að segja frá því, að sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu hefir af ráðið að leggja brú yfir Elliðaárnar, og á nefndin þakkir skilið fyrir það, að hún nú ætlar að ganga skörulega fram í mál þetta. Það er altalað, að skoðun hr. Balds á ánum í fyrra sumar hafi til einskis leitt, og að í Rvík sé jafnvel fleiri en einn, sem vilji takast verk þetta á hendur, enda höfum vér frétt að áreiðanlegur smiður hafi boðist til þess að ganga frá brúnum og leggja allt til í þær fyrir 12-1300 kr. að fráskilinni hleðslu á stöplunum undir þær, en hvað hún mundi kosta, höfum vér eigi heyrt.


Tenging í allt blaðaefni ársins 1882

Ísafold, 25. mars 1882, 9. árg., 5. tbl., bls. 20:
Björn Björnsson búfræðingur tekur vegina til umtalsefnis, því það sé helsta skilyrði fyrir framförum hverrar þjóðar, að samgöngur séu greiðar.

Um vegabætur
(Eftir Björn Björnsson búfræðing)
Vér Íslendingar erum á eftir tímanum. Þetta er setning sem vér nú erum farnir að venjast við að heyra. Vér vitum það því, og ættum að finna til þess, að það er hryggilegt ástand. Þessi tilfinning ætti aftur að uppörva oss til að leitast við, að breyta þessu ástandi til batnaðar. Ég vil eigi segja, að engin viðleitni sé til þess, en mikið vantar á, að hún sé nægileg eða ávallt í rétta stefnu. Ég vil hér taka vegina til umtalsefnis, af því það er eitt hið fyrsta og helsta skilyrði fyrir framförum hverrar þjóðar, að samgöngurnar séu greiðar; en hve mjög landi voru er bótavant í því efni, er kunnugra en um þurfi að ræða.
Margt er það sem veldur hinum ógreiðu samgöngum hjá oss. Á landi eru það fjöll, vatnsföll, fen og foræði, á sjó eru það boðar og brim, sem hindra umferðina og gjöra hana erfiða og alla flutninga mjög kostnaðarsama. Það hlýtur að kosta meiri fyrirhöfn og vera meira torveldi undirorpið að greiða samgöngurnar hér á landi, en víða annarsstaðar; en þó mun það geta látið sig gjöra að bæta þær, og það verður að gjörast, ef land vort á nokkra framtíð fyrir höndum. Eftir ásigkomulagi landsins verður það hyggilegast, að nota sjóinn að svo miklu leyti sem það er mögulegt; er því nauðsyn á, að laga samgöngurnar á sjó fyrst, þannig, að til allra flutninga sé sjóvegurinn notaður inn í innstu firði, víkur og árósa sem komist verður á skipum. Til þess ætti að hafa gufuferjur þar sem því verður við komið. En til þess að hafa vissar og tryggar stöðvar (Stationer) fyrir þessar ferjur, þarf að velja vel staðina, og jafnvel laga eða búa um þá, ef þarf og verður. Frá þessum ferjustöðum eða hafnarstöðum, sem undir eins yrðu verslunarstaðir, ætti svo að leggja landvegina út um sveitirnar.
Ég verð að álíta það fyrirkomulag sem nú er á vegabótum vorum eigi hið heillavænlegasta fyrir framtíðina. Þó vér séum nú á eftir tímanum, þurfum vér eigi að fylgja gangi framfaranna fet fyrir fet á sama hátt og þær þjóðir hafa gjört, sem nú eru á undan oss; vér getum tekið beina stefnu eftir fyrirrennurum vorum á braut framfaranna, þó þeir stundum hafi farið krókótt; því fyr getum vér komist á líkt stig og þeir. En því lengur sem vér höldum áfram, að eyða vorum litlu kröftum og efnum í viðhald hinna ógreiðu og óvaranlegu vegi eftir hinu gamla formi, því seinna komumst vér á hið rétta stig. Það er t.a.m. mjög óheppilegt að kosta út mörgum þúsundum árlega til fjallvegaruðnings, (t.d. á Kaldadalsvegi og Grímstunguheiðarvegi o. fl.), sem eigi er bót að nema eitt eða tvö ár eftir, og gjörir þar að auki eigi einu sinni almennt gagn í bráð, en eftir nokkurn tíma liðinn má búast við að það verði alveg óþarft verk. Eftir því sem sjóvegsferðirnar aukast og batna hætta menn að nota fjallvegina. En sé sú ástæða færð fyrir viðhaldi fjallveganna, að þeir séu ómissandi nú, þá færi ég þá þýðingarmiklu ástæðu aftur þar á móti, að við það að bæta úr þessari stundarnauðsyn nokkurra manna, verður ómögulegt, eða í hið minnsta mikið torveldara en annars mætti vera, að fullnægja einu aðalskilyrðinu fyrir vexti og viðgangi allrar þjóðarinnar framvegis. Svo lengi sem vér höldum áfram að eyða kröftum vorum til viðhalds fjallaveganna, getum vér litlu kostað til gufubáta, hafna, lendinga o. fl. viðvíkjandi sjóferðum, eða til brúa og betri vega í byggðunum. Það er líkt á komið með vegina og með húsabyggingarnar. Eigi að byggja nýtt og betra hús, hættir maður að viðhalda hinu gamla, en byggir hið nýja af þeim kröftum, sem annars hefðu þurft hinu til viðhalds. Alþingi er húsbóndi veganna, og getur á sama hátt bætt hag þjóðarinnar með því að vinna henni í haginn og byrja í tíma á því að verja fé því, er það veitir til vegabóta, á þann hátt sem best má verða fyrir framtíðina. Land vort er eigi svo peningabyrgt, að það geti eytt miklu til þeirra verka, sem hafa einungis stundar þýðingu, svo sem er vegaruðningur. Mestu varðar að það, sem gjört er með almenningsfé, sé verulegt og varanlegt eða hafi framfaralega þýðingu fyrir landið eða þjóðina.
Með tilliti til vegagjörðar vil ég geta þess, að eigi varðar minna að vegurinn sé haganlega lagður en að frágangurinn sé að öðru leyti góður; en í því hefir mönnum mjög oft mistekist; þar sem brúvegur hefir verið gjörður, hefir hann oft verið lagður svo, að hann annað hvort liggur fyrir áföllum eða er of brattur svo eigi er að hugsa til, að hann geti orðið notaður fyrir æki á sínum tíma. Vil ég til dæmis taka Öskjuhlíðarveg upp frá Reykjavík. Til þess vegar hefir miklu verið kostað; þó er hann svo úr garði gjörður, að hann naumast verður notaður þegar farið yrði að nota æki almennara; hann er of erfiður; hann liggur beint upp og ofan hæðirnar, sumstaðar með halla sem 1: 9 – 10% en hægt hefði verið að leggja hann þar sem hallinn er mjög lítill, með því að sneiða fyrir hæðirnar1. Menn verða að gæta þess, að á vegi er láréttur bugur (fyrir hæð; horizontal) betri en lóðréttur (yfir hæð; vertical), og að það er óhyggilegt að kaupa prýði beinna vega fyrir æfinlega erfiðleika. Eigi er þess heldur ætíð nægilega gætt, að afstýra skemmdum af vatnsrennsli; það getur máske kostað árlegan íburð að eigi hefir verið varið fáum dagsverkum meira í fyrstunni til þess að gjöra nægilegt ræsi fyrir vatnsrennslið meðfram veginum.
Hvað sjálfri vegagjörðinni viðvíkur, má geta þess, að efnið í veginn verður að nokkru leyti að velja eftir ásigkomulagi jarðvegarins þar sem veginn á að leggja. Einkum er áríðandi, að leggja vegina haganlega, svo að þeim sé sem minnst hætta búin af skriðum, vatnsflóðum eða vatnsrennsli. Til þess að vegirnir standist vatnsrennsli þurfa síður þeirra að vera grasgrónar, og eiga því að vera byggðar af grashnausum (en eigi úr grjóti, sé vatnsrásar von) með miklum halla (minnst 45°), og skal grasrótar-reinin ná dálítið upp á vegbrúnina. Eigi vel að vera, er best að leggja lag af smásteinum (kastmöl; Puksteen) á veginn, áður en mölinni er ekið á hann. Þó vegurinn blotni, veðst hann þá aldrei dýpra en ofan að því smásteinalagi. Það þarf eigi að vera breiðara en 2/3 vegarins; en liggja skal það eftir honum miðjum. Þetta sparar kostnað í viðhaldinu. Þar sem brúa á blaut mýrarsund, er það óþarft að leggja grjót undir; það sekkur, en þéttir þó eigi jarðveginn nægilega og er því of dýrt. Mest er um að gjöra að fá slíkar mýrar svo vel ræstar fram, að eigi standi vatn þar sem vegurinn á að liggja. Verður því að grafa verulega skurði fram úr mýrinni og beggja megin vegarins svo langt frá, að eigi sé hætt við að vatnið grafi undan honum. Fryst skal þá leggja undirlagið af torfi því og hnausum, er upp úr skurðunum kemur, en fylla síðan upp í og jafna yfir með leir eða möl. Eigi má steinsetja slíkar brýr fyr en eftir eitt eða tvö ár; því þær verða að vera fullsignar áður. Standi vegurinn á hörðum jarðvegi, má byggja hann af grjóti að öllu öðru leyti en því, að jafnað sé með möl yfir, og að grashnausar séu í brúnunum; því þegar brúnirnar grasgróa, er síður hætt við að þær rasi út, eða að steinar haggist í þeim. Vegirnir eiga að vera minnst 10-14 feta breiðir, svo þeir verði á síðan notaðir fyrir sleða og vagna, ef einhvern tíma kæmi sá tími, að menn færu að nota hér æki, sem ég vildi óska að yrði sem allra fyrst. Einkum ætti sleða-akstur á vetrum með hestum að vera almennari en er, því þá myndar náttúran víða góða vegi, þar sem annars er ógreiðfært, og þarf engu til þeirra að kosta.
1) Eins er vegurinn yfir Kamba á Hellisheiði hin mesta ómynd sakir of mikils halla, sem á löngum vegi ætti aldrei að vera meir ein í mesta lagi 1:12.


Ísafold, 5. apríl 1882, 9. árg., 6. tbl., bls. 22:
Ísafold segir það óskandi að sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu sjái sem fyrst til þess að Elliðaár verði brúaðar.

Styrkur af landssjóði til brúargjörða.
Af fé því, sem Alþingi í sumar veitti til að styrkja aðgjörðir á sýsluvegum á aðalpóstleiðum, hefir landshöfðinginn 6. febr. þ. á. ákveðið, að verja skuli 2.500 kr. í sumar í norður- og austuramtinu; af þeim fær amtsráðið 1.900 kr til úthlutunar, en 600 kr. hefir hann veitt sem styrk til að brúa Valagilsá í Skagafirði. Slíkar brýr eru einhverjar hinar nytsömustu vegabætur, þar sem þeim verður komið við án of mikils kostnaðar; slæmt er að þurfa að fara um illan veg, en verra er að geta alls eigi komið ferð sinni áfram eða þurfa ef til vill til þess að leggja líf sitt í hættu; og víða eru það aðeins smá-ár, er brúa mætti með litlum kostnaði, sem þessu valda; meðal þeirra eru eflaust engar, er gjöra eins mörgum mönnum farartálma eins og Elliðaárnar, af því umferðin er hvergi eins mikil og þær einatt illar yfirferðar að vetrinum; það er því bæði óskandi og vonandi að sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu sjái sem fyrst um, að þær verði brúaðar og ætti henni að vera það því hægra sem nú mun mega fá til þess mikinn styrk úr landssjóði, því allar aðalpóstleiðirnar liggja yfir ár þessar.


Þjóðólfur, 24. júlí 1882, 34. árg., 16. tbl., forsíða:
Árnesingur vill ekki álasa sýslunefnd Gullbringu- og Kjósasýslu fyrir að brúa ekki Elliðaárnar og ekki heldur fyrir það að hann var næstum drukknaður á sýsluvaðinu.

(Aðsent)
Á síðastliðnum vetri kom ég að Elliðaánum. Þær voru því nær ófærar, frost mikið, allt á klepru og eigi álitlegt að fara yfir þær. Ég fór nú að hugsa um það, hvernig best væri yfir þær að komast og helfjrósa svo ekki á eftir. Fann ég þá fljótt, að ég var enginn alþingismaður með ekkert í kollinum nema hálfvitlaus breytingaratkvæði, svo að mér varð lítt til ráða. Ég var líka einn, og gat ekki látið ganga til atkvæða um það, er mér hugkvæmdist. Það kvað vera gott fyrir þá, er finna einhverjar vitleysurnar, að láta aðra fallast á þær með atkvæðagreiðslu, því þá bera aðrir ábyrgðina.
Ég fór nú eftir því eina ráði, er ég fann til að krókna ekki úr kulda, ef ég kæmist yfir um árnar. Ég hafði tvenna sokka og tvennar buxur, nýprjónaðar nærbuxur og þar utan yfir vaðmálsbuxur lélegar. Og gott er að eiga góða húsbændur, sem búa mann vel út í öll ferðalög. Ég settist nú á klepraðan stein, fór úr sokkunum og báðum buxunum, og þar á eftir aftur í utanyfirbuxurnar og aðra sokkana, en batt nærbuxurnar með hinum sokkunum um háls mér og hlýaði það vel.
Nú fól ég mig guði á vald, og þar næst sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu með því að fara út í Norðurána, rétt þarna á sýslunefndarveginum og sýsluvaðinu góða, sem allir kvað vera skyldir að fara yfir og hvergi annarsstaðar. Þó ég sé kallaður hugmaður á sjó og landi, kom í mig skelkur, þegar ég var kominn lítið eitt út í ána. Mér varð ósjálfrátt að hörfa aftur í herrans nafni og gleyma því að ganga sýslunefndarinnar með vegalögunum löggilta vað. Það er nú svona að verða hræddur við dauðann. Reyndi ég svo að komast yfir ána á öðrum stað, og tókst mér það, þó að þar ekki væri sýsluvað. Þegar ég komst yfir árnar, var ég votur og klakaður, og þá er ég í mínum lélegu utnayfirbuxum settist á klakaðan stein, ætlaði allt að verða samfrosta, rassinn, buxurnar og steininn. Ég fór nú í mínar þurru nærbuxur og sokka, og kom svona klæddur að Bústöðum; þar fékk ég góðan greiða og heitan sopa, því þau hjón, sem þar voru, hafa hjúkrað mörgum votum og köldum.
Svo er nú þessi saga búin, og af því að ég fyrir þetta var jafngóður eftir sem áður, segi ég sögu þessa til eftirbreytni fyrir aðra. Mér kemur ekki til hugar að álasa eða hallmæla sýslunefndinni með einu orði að áin var einmitt ófær á sýslunefndarvaðinu, en fær annarsstaðar, og ef ég nú hefði drukknað þarna rétt á sýsluvaðinu, þá hefði ég ekki álasað henni fyrir það, eins og skiljanlegt er, og er vonandi, að herra Þ.G. hefði ekki gjört það. Heldur ekki álasa ég sýslunefndinni, þó hún ekki vilji kaupa planka í brýrnar fyrir 38 aura alinina; það er allt of dýrt fyrir fátækan almúga, og þar eð þetta strand ekki fyllti hvern árós með plönkum, væri rétt að bíða eftir nýju strandi, þar sem að plankarnir rækju upp í sjálfan kjaftinn á ánum, og þangað til erum við dónarnir ekki of góðir að vaða úr okkur iljaostinn í blessuðum ánum. Ég er alveg samdóma herra Þ.G.; hann er skarpvitur, nærgætinn og þekkir allar hliðar lífsins eða meira en þá einu, sem sé framhliðina; hann þekkir hina, eða afturhliðina, sem ber þungan; og nú innfellur mín einfaldlega spurning til hans: Hver hefði átt að kosta útför mína, ef ég hefði drukknað þarna rétt á sýslunefndarveginum, og líkið rekið upp í Seltjarnarneshreppi? Var það Mosfellshreppur, eða Seltjarnarneshreppur, eða hvorugur þeirra? Mér kemur þetta til hugar, af því að nýlega varð stríð á milli Ölfus og Selvogs út af greftrun af nokkrum mannsbeinum, er fundust uppi á fjalli. Það kvað hafa kostað mikinn tíma, heilabrot, pappír og skriftir næstum því eins mikið og deilan þar syðra um það, hver ætti að kosta uppfræðingu fáfróðs unglings, er komið var fyrir hjá presti; en þó ekki eins mikill og sá, sem leiddi af því borgarstríði, sem gaus upp í Gullbringusýslu um það, hver það væri, sem ætti að kosta sveitabækurnar. Til blóðsúthellinga mun ekki hafa komið, nema ef að einhver óskilagemsinn hafi látið líf sitt svo að lítið beri á, og er Ísafold kunnugast um það. Ég er samdóma Þ.G., að um þessar mundir sé í mörg horn að líta, en ef hann vildi gefa sig við þeim málum, sem nú taka mikinn tíma, eins og þessi mál gjöra, og hann vildi leggja sig eftir einhverjum stórræðum, þá gæti hann unnið landinu mikið gagn með því, að hleypa brúarmálinu fram af sér, og lofa öðrum minni háttar mönnum að reyna sig á því.
Árnesingur.
Vér höfum ekki viljað neita grein þessari um Elliðaárnar inntöku í blað vort, en það er tvennt, er vér viljum taka fram út af henni.
1. Árnesingurinn var einn á ferð, svo að hann getur aðeins einn borið söguna. Vér vitum að nokkuð líkt hefir komið fyrir, og skorum á menn að skýra oss frá hrakförum yfir árnar, og ættu þeir að nafngreina sig um leið.
2. Um deilu út af greftrun á mannsbeinum má lesa í Stjórnartíðindum B 1881, bls. 156, og um kostnað við sveitabækur í B 1882, bls. 1.
Vér höfum heyrt marga kvarta yfir því, að sýslunefndin ekki leggi brú yfir árnar, og þessi ritgjörð sýnir, að það sé nú hollara að byrja á framkvæmdinni en að halda því máli til streitu að leggja engar brýr, eða eyða málinu eins og afturhaldsmaðurinn Þ.G. hefir viljað gjöra í Skuld.
Ritstj.


Þjóðólfur, 18. nóv. 1882, 34. árg., 27. tbl., bls. 108:
Sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu hefir af ráðið að leggja brú yfir Elliðaárnar.

Brú á Elliðaánum.
Vér getum nú glatt marga ferðamenn með því, að segja frá því, að sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu hefir af ráðið að leggja brú yfir Elliðaárnar, og á nefndin þakkir skilið fyrir það, að hún nú ætlar að ganga skörulega fram í mál þetta. Það er altalað, að skoðun hr. Balds á ánum í fyrra sumar hafi til einskis leitt, og að í Rvík sé jafnvel fleiri en einn, sem vilji takast verk þetta á hendur, enda höfum vér frétt að áreiðanlegur smiður hafi boðist til þess að ganga frá brúnum og leggja allt til í þær fyrir 12-1300 kr. að fráskilinni hleðslu á stöplunum undir þær, en hvað hún mundi kosta, höfum vér eigi heyrt.