1880

Ísafold, 7. apríl 1880, 7. árg., 11. tbl., forsíða:

Þjórsárbrú
Af því nú mun bráðum að því komið, að farið verði að brúa Þjórsá og Ölfusá, svo framarlega sem H. H. konungurinn staðfestir þau lög um þetta málefni, sem Alþingi samdi í sumar er var, virðist tilhlýðilegt, að lýsa hinu fyrirhugaða brúarstæði á Þjórsá eftir kunnugra manna sögusögn. Svo hagar til um stöðvar þessar, að Þjórsá fellur þar við bæinn Þjótanda niður í gljúfur er rennur í því nálægt 1 1/3 mílu vegar með afar miklum straumþunga; má svo heita, að sumstaðar reki þar einn fossinn annan. Við enda gljúfursins að neðan breiðist áin út og verður þar straumlítil og grunn. Þar leggur hana fyrst í frostum, en smátt og smátt nær ísinn lengra upp, eftir öllu gljúfrinu. Áin er þá oftast lítil, og ísskrið að, er hún ber niður fossana, er sem mulið krap; rekur straumurinn það undir lagísinn, og hnoðast það undir hann, svo að á botni stendur (*grunnstingull*); stíflast þá áin og hefst upp, svo að föðmum eða tugum faðma skiptir. Ef menn hugsuðu sér, að sjórinn við Reykjavík hæfist svo, að hann gegni upp eftir brekkunni, upp að mylnu eða hærra, þá væri það sýnishorn af því, hvernig Þjórsá belgist stundum upp á vetrum. Þannig getur staðið um mörg dægur, að hún smáhækkar, þangað til stíflan losnar og hið geysimikla vatnsmegn með íshellunni ryðst nú fram með því heljarafli, að jörðin titrar í kring, stór björg berast eins og fys langar leiðir, og allt, sem fyrir verður, umhverfist, svo að varla er þar fært um að fara á eftir. Enginn, sem hefir verið sjónarvottur að þessum aðförum Þjórsár, mun álíta, að nokkur mannvirki verði hér á landi gjörð svo rammbyggð, að fái staðist þær. Ef þetta er rétt skoðun, þá er það eitt hið fyrsta sem athuga verði við brúargjörðina, að brúin sjálf sé svo há, að áin aldrei, hversu mikið sem hún vex, nái að snerta hana, og að undirstaða brúarinnar til beggja enda sé – ekki stöpull, gjörður af mannahöndum, heldur jarðfast berg. Þessa skoðun hefir samt Vindfeld Hansen, stórsmíðafræðingur, ekki haft, þegar hann valdi brúarstæðið á Þjórsá (sbr. Alþingistíð. 1877, I., bls. 103). Þar sem brúin eftir tilmælum hans á að vera, hagar svo til, að vesturbakki árinnar er hraunberg nál. 15 ál. hátt, og neðan undir því við ána sjálfa stórgrýtisurð mikil, nál. 10 álna há og breið frá bergi að lægsta vatni. Að austanverðu er undirlendi (Fitjar) albreitt, er áin flóir eigi yfir nema í vexti, og gengur það upp að hárri heiði nokkurri (Lónsheiði), er myndar gljúfrið þeim megin. Þar sem brúin á að vera, gengur undirlendið á flatri klöpp harðri fram að sjálfri aðalánni, og er hún þar án efa mjórri (nál. 20-30 faðmar) en á nokkrum öðrum stað. Að þessu leyti virðist því þar hentugt brúarstæði, einkum þegar litið er til þess, að klöppin að austanverðu er traust til undirstöðu, og með því að ryðja frá urðinni að vestan, mundi þar einnig mega fást traust klöpp undir þann brúarsporðinn, og það var þetta, sem kom Vindfeld Hansen til að velja þennan stað. En áin verður oft harla ólík því sem hún var, þá er hann var þar. Þá hittist svo á, að hún var örlítil, og því var klöppin að austan svo vel upp úr. En þegar áin vex til muna, jafnvel á þíðu, flóir hún yfir klöppina og undirlendið fyrir ofan hana; þó er það lítið á þíðu á móti hlaupum þeim, er áður voru nefnd. Nú er það auðsætt, að laga verður stöpul fremst á klöppinni við ána undir eystri brúarsporðinn, hærri en áin nokkru sinni hefur orðið í hlaupum, eða nál. 20 álna háan, og frá honum yrði að hlaða garð yfir allt undirlendið, sem áin flóir yfir, allt upp í heiðina, þar til í bergi stendur; við það þrengist farvegur árinnar (: eins og hann er í vöxtum) um fleiri tugi faðma, en sjálfur brúarstöpullinn verður nálega í miðri á og í harðasta strengnum, og þessi stöpull og þessi landgarður eiga nú að taka móti ánni, þegar hún veltist fram gljúfrið með 10-20 álna þykkri íshellunni, og gengur óbrotin hátt eða hæst upp í stöpulinn. Þá má traustlega byggja, að hann heykist hvergi.
Nokkrum – 40-60 – föðmum ofar er sá staður, sem virðist betur fallinn til brúarstæðis. Þar er sjálf áin reyndar nokkru breiðari; en hún rennur þar á milli hamra svo hárra, að yfir þá hefir hún aldrei flóað í manna minnum; er hún þar því jafnbreið, hvort sem hún er mikil eða lítil, nál. 40 faðmar milli hamrabrúnanna. Bergið að vestan er hraunberg, og ef það þætti sjálft ekki nógu traust fyrir undirstöðu, mætti höggva bás inn í það og múra í hann stöpul, sem þó mætti ekki til muna gnæfa fram úr hamrinum, og ætti svo brúarendinn að hvíla bæði á stöpli þeim og berginu sjálfu. Á þessum stað væri brúnni óhættara en á hinum staðnum, og þó að hún sjálf yrði að vera dálítið lengri, þá væri aftur mikið unnið við það, að losast við garð þann, er þyrfti á hinum staðnum. En höfuðatriðið er, að brúin sé rammgjör, og að henni sé óhætt fyrir sérhverju flugi árinnar.


Ísafold, 7. apríl 1880, 7. árg., 11. tbl., forsíða:

Þjórsárbrú
Af því nú mun bráðum að því komið, að farið verði að brúa Þjórsá og Ölfusá, svo framarlega sem H. H. konungurinn staðfestir þau lög um þetta málefni, sem Alþingi samdi í sumar er var, virðist tilhlýðilegt, að lýsa hinu fyrirhugaða brúarstæði á Þjórsá eftir kunnugra manna sögusögn. Svo hagar til um stöðvar þessar, að Þjórsá fellur þar við bæinn Þjótanda niður í gljúfur er rennur í því nálægt 1 1/3 mílu vegar með afar miklum straumþunga; má svo heita, að sumstaðar reki þar einn fossinn annan. Við enda gljúfursins að neðan breiðist áin út og verður þar straumlítil og grunn. Þar leggur hana fyrst í frostum, en smátt og smátt nær ísinn lengra upp, eftir öllu gljúfrinu. Áin er þá oftast lítil, og ísskrið að, er hún ber niður fossana, er sem mulið krap; rekur straumurinn það undir lagísinn, og hnoðast það undir hann, svo að á botni stendur (*grunnstingull*); stíflast þá áin og hefst upp, svo að föðmum eða tugum faðma skiptir. Ef menn hugsuðu sér, að sjórinn við Reykjavík hæfist svo, að hann gegni upp eftir brekkunni, upp að mylnu eða hærra, þá væri það sýnishorn af því, hvernig Þjórsá belgist stundum upp á vetrum. Þannig getur staðið um mörg dægur, að hún smáhækkar, þangað til stíflan losnar og hið geysimikla vatnsmegn með íshellunni ryðst nú fram með því heljarafli, að jörðin titrar í kring, stór björg berast eins og fys langar leiðir, og allt, sem fyrir verður, umhverfist, svo að varla er þar fært um að fara á eftir. Enginn, sem hefir verið sjónarvottur að þessum aðförum Þjórsár, mun álíta, að nokkur mannvirki verði hér á landi gjörð svo rammbyggð, að fái staðist þær. Ef þetta er rétt skoðun, þá er það eitt hið fyrsta sem athuga verði við brúargjörðina, að brúin sjálf sé svo há, að áin aldrei, hversu mikið sem hún vex, nái að snerta hana, og að undirstaða brúarinnar til beggja enda sé – ekki stöpull, gjörður af mannahöndum, heldur jarðfast berg. Þessa skoðun hefir samt Vindfeld Hansen, stórsmíðafræðingur, ekki haft, þegar hann valdi brúarstæðið á Þjórsá (sbr. Alþingistíð. 1877, I., bls. 103). Þar sem brúin eftir tilmælum hans á að vera, hagar svo til, að vesturbakki árinnar er hraunberg nál. 15 ál. hátt, og neðan undir því við ána sjálfa stórgrýtisurð mikil, nál. 10 álna há og breið frá bergi að lægsta vatni. Að austanverðu er undirlendi (Fitjar) albreitt, er áin flóir eigi yfir nema í vexti, og gengur það upp að hárri heiði nokkurri (Lónsheiði), er myndar gljúfrið þeim megin. Þar sem brúin á að vera, gengur undirlendið á flatri klöpp harðri fram að sjálfri aðalánni, og er hún þar án efa mjórri (nál. 20-30 faðmar) en á nokkrum öðrum stað. Að þessu leyti virðist því þar hentugt brúarstæði, einkum þegar litið er til þess, að klöppin að austanverðu er traust til undirstöðu, og með því að ryðja frá urðinni að vestan, mundi þar einnig mega fást traust klöpp undir þann brúarsporðinn, og það var þetta, sem kom Vindfeld Hansen til að velja þennan stað. En áin verður oft harla ólík því sem hún var, þá er hann var þar. Þá hittist svo á, að hún var örlítil, og því var klöppin að austan svo vel upp úr. En þegar áin vex til muna, jafnvel á þíðu, flóir hún yfir klöppina og undirlendið fyrir ofan hana; þó er það lítið á þíðu á móti hlaupum þeim, er áður voru nefnd. Nú er það auðsætt, að laga verður stöpul fremst á klöppinni við ána undir eystri brúarsporðinn, hærri en áin nokkru sinni hefur orðið í hlaupum, eða nál. 20 álna háan, og frá honum yrði að hlaða garð yfir allt undirlendið, sem áin flóir yfir, allt upp í heiðina, þar til í bergi stendur; við það þrengist farvegur árinnar (: eins og hann er í vöxtum) um fleiri tugi faðma, en sjálfur brúarstöpullinn verður nálega í miðri á og í harðasta strengnum, og þessi stöpull og þessi landgarður eiga nú að taka móti ánni, þegar hún veltist fram gljúfrið með 10-20 álna þykkri íshellunni, og gengur óbrotin hátt eða hæst upp í stöpulinn. Þá má traustlega byggja, að hann heykist hvergi.
Nokkrum – 40-60 – föðmum ofar er sá staður, sem virðist betur fallinn til brúarstæðis. Þar er sjálf áin reyndar nokkru breiðari; en hún rennur þar á milli hamra svo hárra, að yfir þá hefir hún aldrei flóað í manna minnum; er hún þar því jafnbreið, hvort sem hún er mikil eða lítil, nál. 40 faðmar milli hamrabrúnanna. Bergið að vestan er hraunberg, og ef það þætti sjálft ekki nógu traust fyrir undirstöðu, mætti höggva bás inn í það og múra í hann stöpul, sem þó mætti ekki til muna gnæfa fram úr hamrinum, og ætti svo brúarendinn að hvíla bæði á stöpli þeim og berginu sjálfu. Á þessum stað væri brúnni óhættara en á hinum staðnum, og þó að hún sjálf yrði að vera dálítið lengri, þá væri aftur mikið unnið við það, að losast við garð þann, er þyrfti á hinum staðnum. En höfuðatriðið er, að brúin sé rammgjör, og að henni sé óhætt fyrir sérhverju flugi árinnar.