Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Notkun falllóðsmælinga til að ástandsmeta vegi

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Á næstu árum þarf að ráðast í auknum mæli í styrkingar og endurbætur á Íslenska vegakerfinu, en með aukinni umferð, umfangsmeira vegakerfi og eldri vegum eykst viðhaldsþörfin. Til þess að geta forgangsraðað viðhaldsaðgerðum og ákveðið hvaða viðhaldsaðgerð hentar best þarf að meta núverandi veghlot. Ástand vega er háð mörgum þáttum, og þarf því að skoða vel yfirborðið sem og það sem liggur undir yfirborðinu, en nýtt slitlag mun líklega ekki endast ef burði vegarins er ábótavant.

Hægt er að meta burð vega með nokkrum mismunandi aðferðum, en ein þessara aðferða er falllóðsmælingar. Falllóðsmælingar, ásamt sjónmati, geta gefið ágætis mynd af ástandi undirlaga vegarins, og hvort að þörf sé á frekari rannsóknum. Kostur falllóðsmælinga umfram margar aðrar mælingar er einfaldleikinn, bæði í framkvæmd mælinga sem og úrvinnslu. Ekki þarf að grafa í veghlotið, og má segja töluvert um ástandið strax eftir mælingar. Hins vegar má nýta mælingarnar betur ef uppbygging veghlots er þekkt og styrkur mismunandi laga bakreiknaður. Ef fyrstu niðurstöður gefa tilefni til eru oft gerðar aðrar rannsóknir samhliða falllóðsmælingum.

Burður vegarins gefur vísbendingar og möguleika um til hvaða viðhaldsaðgerða er rétt að grípa, en margar leiðir eru færar og hröð þróun er í styrkingum vega sem og endurnýtingu og endurvinnslu. Til þess að árangur náist þarf því að meta burð núverandi vega, meta hvar veikleiki þeirra liggur og hvers eðlis hann er. En með endurteknum mælingum og úrvinnslu má hugsanlega finna veikleika áður en skemmdir fara að koma upp á yfirborðið, en það eru mikilvægar upplýsingar fyrir veghaldara til að áætla kostað endurbóta og viðhalds til lengri tíma litið, en einnig má hugsanlega fara í auðveldar og ódýrar viðhaldsaðgerður áður en skemmdir koma upp á yfirboðið.

Vegagerðin hefur framkvæmt falllóðsmælingar í áratugi og hefur nú keypt nýtt falllóðstæki, vegna þessa er þetta góður tími til að skoða hvernig nýta má mælingarnar betur, hvernig þær passa við niðurstöður ástandsskoðunar, hvaða rannsóknir eru nágrannaþjóðir okkar að framkvæma samhliða falllóðsmælingum og hvernig eru upplýsingarnar og niðurstöðurnar samnýttar. Í þessu verkefni er ætlunin að taka saman hvernig nágrannaþjóðir okkur sem og aðrar þjóðir eru að nýta sér falllóðsmælingar, hvernig þær eru kvarðaðar, hvaða vikmörk er verið að nota fyrir mismunandi vegbyggingar og hvernig þessar upplýsingar eru notaðar í ákvarðanatökum. Hönnun vegbygginga, bæði nýjar og endurbættar, eru að verða í auknum mæli með aflfæðilegu ívafi, en til þess að hönnun geti verið aflfræðileg þurfa að liggja fyrir upplýsingar um ástand vegarins sem á að endurhanna.

Tilgangur og markmið:

 

Mikilvægt er að Íslendingar kynni sér, aðlagi og kvarði aðferðarfræði sem reynst hefur vel annars staðar í heiminum. En íslenskar aðstæður eru yfirleitt frábrugðnar erlendum aðstæðum að einhverju leiti. Hugmyndin í þessu rannsóknarverkefni er að taka saman þær aðferðir og reynslu sem nágrannaþjóðir okkar sem og aðrar þjóðir eru að beita er kemur að falllóðsmælingum. Hvernig falllóðsmælingar eru kvarðaðar, hvenær eru niðurstöðurnar ásættanlegar og hvenær ekki. Til að nýta upplýsingarnar sem verið er að afla á einnig að taka fyrir nokkra vel valda vegkafla, skoða niðurstöður falllóðsmælinga og bera þær saman við aðrar rannsóknir og ástandsmat (sjónmat).

Rannsóknarverkefnið leiðir vonandi til betri úrvinnslu á falllóðsmælingum, hvernig má nýta þær til að forgangsraða viðhaldsverkefnum og velja viðeigandi viðhaldsaðferð. Þá má einnig velta fyrir sér möguleikum á frekari nýtingu, t.d. að meta hvenær taka þurfi niður öxulþunga á vegum og hvenær er heppilegt að hleypa á umferð með umfram öxulþunga. Það gætu reynst verðmætar upplýsingar t.d. þegar reisa á vindmyllugarða eða verið er að ferja umtalsvert efni úr námum, úr skriðum og svo mætti lengi telja.