Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Vöktun jarðhitakerfis við Hveradali, samanburður mæliaðferða og áhrif á vegstæði

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Á vormánuðum 2023 fóru að koma í ljós breytingar sem hafa átt sér stað á jarðhitasvæðinu við Hveradali á Hellisheiði. Vegfarendur greindu frá gufubólstrum sem farnir voru að stíga upp úr vegstæði þjóðvegarins. Vegagerðin hefur fylgst með svæðinu síðan og komið fyrir nokkrum hitanemum undir yfirborði til að fylgjast með stöðunni. Markmið þessa verkefnis er að vakta nánar breytingarnar á jarðhitasvæðinu við Hveradali í tíma og rúmi yfir heilt ár og bera saman mismunandi vöktunaraðferðir. Þær aðferðir sem verða notaðar eru yfirlitsflug með drónum, gögn úr gervitunglum og rauntímagögn frá hitanemum sem búið er að koma fyrir við veginn. Að auki verður skoðað hver áhrif þessa aukins jarðhita kann að vera fyrir veginn og öryggi vegfarenda. Niðurstöðurnar verða birtar í skýrslu sem leitast við að ákvarða skilvirkustu aðferðina fyrir áframhaldandi vöktun svæðis og mögulega úrbætur fyrir veginn.

Tilgangur og markmið:

 

Markmið þessa verkefnis er að vakta breytingar á jarðhitakerfinu við Hveradali í tíma og rúmi og bera saman mismunandi vöktunaraðferðir. Einnig verður skoðað hver áhrif aukins jarðhita undir vegstæðinu kann að vera fyrir veginn og öryggi vegfarenda. Megintilgangur þessa verkefnis er að ákvarða skilvirkustu aðferðirnar til að fylgjast með jarðhitabreytingum í Hveradölum og átta sig á hvaða áhrif þessar breytingar hafa á vegamannvirki. Þessi þekking er mikilvæg fyrir framtíðarskipulag og viðhald vega á jarðhitasvæðum.

Meðal markmiða verkefnis verða:
Samanburður könnunaraðferða: Notaðar verða þrjár könnunaraðferðir, þar á meðal gervihnattamyndir, eftirlit með drónum og skynjaranet á jörðu niðri til að fylgjast með breytingum á jarðhitasvæðinu. Árangur, nákvæmni og hagkvæmni hverrar aðferðar verður metinn.
Áhrifagreining: Skoðuð verða áhrif jarðhitabreytinganna á vegyfirborð þjóðvegarins við Hveradali, þar sem meðal annars verður leitast við að meta áþreifanlegt tjón, viðhaldsþörf og hugsanlegar endurbætur á veghönnun.
Samþætting gagna og greining: Gögnin frá öllum könnunaraðferðum verða samþætt í einfaldan gagnagrunn sem notaður verður til að greina fylgni milli jarðhitabreytinga og áhrifa á vegamannvirki.

Rannsóknarspurning: Hverjar eru skilvirkustu aðferðirnar til að fylgjast með breytingum í tíma og rúmi á jarðhitasvæðinu við Hveradali og hvaða áhrif hafa þessar breytingar á vegstæðið.

Árangur verkefnisins verður metinn út frá:
Nákvæmni og áreiðanleiki þeirra gagna sem safnað var með þeim könnunaraðferðum sem notaðar voru.
Skilvirkni hverrar aðferðar við að spá fyrir um og skýra breytingar á jarðhitavirkni og áhrifum þeirra á vegi.
Við lok verkefnisins er stefnt að því að hafa skýran skilning á heppilegustu aðferðum við jarðhitavöktun við Hveradali og að hafa undir höndum nokkrar hagnýtar aðferðir til að draga úr áhrifum jarðhitabreytinga á vegamannvirki.