Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Landmótun og innri bygging jökulrænna landforma á Norðausturlandi Ummerki eftir forna ísstrauma

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Ísstraumar eru hraðskreiðir farvegir stórra meginjökla og flytja megnið af ís og seti sem jöklarnir skila af sér. Rannsóknir á landmótun ísstrauma eru mikilvægar til að auka skilning okkar á umfangi og virkni þeirra og myndun landforma. Tilgátur hafa verið settar fram um ísstrauma í hinum íslenska meginjökli á síðasta jökulskeiði en takmarkaðar rannsóknir hafa verið gerðar á útbreiðslu þeirra og hegðun. Markmið þessa verkefnis er að rannsaka ummerki eftir forna ísstrauma á Norðausturlandi og þar með auka skilning okkar á landmótun, útbreiðslu og hegðun þeirra í tíma og rúmi, auk þekkingar á þeim ferlum sem stýra og stuðla að auknum skriðhraða og hnignum ísstrauma. Þetta verður gert með því að kortleggja og rannsaka jökulræn landform og setlög frá Jökuldalsheiði norður til Vopnafjarðar, Bakkaflóa og Þistilfjarðar, með margvíslegum jarð- og jarðeðlisfræðilegum aðferðum. Svæði með greinilegum ummerkjum eftir ísstrauma hafa verið skilgreind og útbreiðsla og lega landformanna benda til nokkurra ísstrauma sem hafa verið virkir á mismunandi tíma. Niðurstöður verkefnisins munu auka skilning okkar á virkni fornra ísstrauma á Íslandi og þróun íslenska ísaldarjökulsins á síðjökultíma. Einnig munu niðurstöðurnar nýtast við að skorða líkön fyrir myndum landforma undir hraðskreiðum jöklum og viðbrögðum þeirra við hlýnandi loftslagi og hækkandi sjávarstöðu. Þá mun nákvæm kortlagning auka þekkingu okkar á jarðfræði og jarðgrunni svæðisins og skýra útbreiðslu setlaga og landforma sem mörg hver geta haft hagnýtt gildi fyrir ýmis konar framkvæmdir og mannvirkjagerð.

Tilgangur og markmið:

 

Markmið verkefnisins er að rannsaka ummerki eftir forna ísstrauma á Norðausturlandi og auka skilning okkar á landmótun, útbreiðslu og hegðun þeirra og þar með sögu íslenska meginjökulsins frá hámarki síðasta jökulskeiðs fram að lokum síðjökultíma. Þetta verður gert með því að kortleggja og rannsaka jökulræn landform og setlög með margvíslegum jarð- og jarðeðlisfræðilegum aðferðum. Rannsóknarsvæðið nær frá Jökuldalsheiði norður til Vopnafjarðar, Bakkaflóa og Þistilfjarðar. Landformin sem eru rannsökuð eru straumlínulaga landform (jökulöldur og risakembur, e. drumlins and mega-scale glacial lineations), rifjagarðar (e. ribbed moraines), þvergarðar (e. transverse ridges) og sprungufyllingar (e. crevasse-squeeze ridges). Jökulöldur og risakembur eru taldar vera ein helsta vísbending um tilvist hraðskreiðra ísstrauma og er lengd þeirra talin endurspegla skriðhraða jökuls og myndunartíma. Rifjagarðar og sprungufyllingar eru hins vegar talin myndast við hnignum ísstraumsins. Myndun þessara landforma er umdeild innan jöklajarðfræðinnar en ljóst er að þau geyma mikilvægar upplýsingar um hegðun ísstrauma í tíma og rúmi. 

Rannsóknarspurningar eru eftirfarandi:

  1. Hver var útbreiðsla og afstæður aldur ísstrauma á Norðausturlandi á síðasta jökulskeiði? 
    -Þessari spurningu hefur að nokkru leyti verið svarað í grein 1, en grein 3 og 4 munu veita frekari innsýn inn í legu ísstraumana.
  2. Hvað einkennir lögun og setgerð straumlínulaga landforma og þvergarða og hvað má lesa út úr þeim um hegðun ísstrauma og þau ferli sem stuðla að auknum skriðhraða og hnignun ísstraumsins?
    -Þessari spurningu var að hluta til svarað í grein nr. 2 fyrir jökulöldur, en grein nr. 3 og 4 munu skoða innri byggingu í sprungufyllingum og rifjagörðum.
  3. Hvað einkennir hnignunarsvæði ísstraumana, og hvað stýrir staðsetningu og færslu þeirra?
    -Þessari spurningu er velt upp í grein 3 og 4.