Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Áhrif fjarvinnu á vegakerfið

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Í rannsókninni verður leitast við að kanna hvort breyting hafi orðið á ferðamynstri íbúa jaðarbyggða höfuðborgarsvæðisins (ss. íbúa Akraness, Hveragerðis, Selfoss, Þorlákshafnar, Eyrarbakka, Stokkseyri, Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Sandgerðis, Garðsins, Voga og Hafna) sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðinu og íbúa nærsveita Akureyrar (ss. íbúa Eyjafjarðarsveitar, Hörgársveitar, Svalbarðsstrandarhrepps og Grýtubakkahrepps)sem sækja vinnu til Akureyrar í kjölfar Covid-19 faraldursins. Reiknað verður út hver áhrif breytinga í tíðni ferða til vinnu (ef einhverjar hafa orðið) geti verið á heildarumferð til höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar og skoðað hver möguleg áhrif þess séu á vegakerfið.

Í sömu rannsókn verður tækifærið nýtt til að kanna hve hátt hlutfall þeirra í hópnum notar almenningssamgöngur. Einnig verður skoðað hve hátt hlutfall hefur skipt yfir í rafmagnsbíl og kannað hvaða innviði þarf að byggja upp til að styðja við almenningssamgöngukerfið og rafbílavæðingu fólks sem stundar vinnu utan búsetusvæðis.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að bæta stöðu þekkingar um áhrif fjarvinnu á ferðamynstur og þar af leiðandi á vegakerfið. Verkefnið fellur að áherslu Vegagerðarinnar á rannsóknir um samfélagsbreytingar sem hafa áhrif á þjónustuþörf vegakerfisins og val á ferðamátum. 

Lagt verður upp með að svara spurningunum: Hefur orðið breyting á tíðni ferða frá jaðarbyggðum höfuðborgarsvæðisins til höfuðborgarsvæðisins og frá nærsveitum Akureyrar til Akureyrar vegna atvinnusóknar í kjölfar Covid-19 faraldursins?

Við teljum að með þessum hætti sé hægt að gera markvissari spár um álag á vegakerfið.

Einnig verður lagt upp með að svara spurningunum: Notar þú almenningssamgöngur til að komast til og frá vinnu? Hefur þú skipt yfir í rafbíl í kjölfar Covid-19 faraldursins?

Þá verður spurt hvaða innviðauppbygging telur þú að þurfi að eiga sér stað vegna almenningssamgangna og rafbílavæðingar á leið til höfuðborgarsvæðisins/Akureyrar?

Upplýsingar um notkun á almenningssamgöngum og rafbílanotkun úrtaksins munu vonandi gefa vísbendingar um þörf á innviðauppbyggingu í kringum bæði almenningssamgöngur og rafbíla.

Til að bæta stöðu þekkingar verður að lokum einnig spurt um hindranir í að sækja vinnu um lengri leið, ss. þjónustu á vegum og hvort viðkomandi neyðist til að vinna fjarvinnu (að fullu/eða einhverju leyti) vegna samgönguerfiðleika.