Almenn verkefni 2023

Heiti verkefnis : 

Aldur jökulgarða og jökulhörfun á Brúaröræfum

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Jökulræn setlög og landform á Norðausturlandi hafa á undanförnum árum verið kortlögð ítarlega frá Þistilfirði suður á Jökuldalsheiði. Sýnt hefur verið fram á að dreifing og gerð landformanna endurspeglar legu fornra ísstrauma í íslenska ísaldarjöklinum. Talið er að þessir ísstraumar hafi verið virkir fram á Yngra Dryas kuldaskeiðið fyrir 12,900 – 11,700 árum síðan. Fornar strandlínur og aldursgreiningar benda til að þá hafi rönd jökulsins staðið rétt utan við strönd Norðausturlands, en síðan rétt innan við ströndina fyrir um 10,400 árum (á Preboreal skeiði). Næsta jökulstaða með þekktan aldur er síðan við norðurjaðar Vatnajökuls frá 1810-1890, um 100 km innar í landinu. Á Jökuldalsheiði og Brúaröræfum eru víða ummerki um jarðarstöðu jökla í formi jökulgarða og endasleppra sanda, sem bendir til að hörfun ísaldarjökulsins á nútíma (eftir 10,400 ár) hafi ekki verið samfelld heldur gerst í skrefum. Þessi landform eru hins vegar óaldursgreind og því er saga hörfunarinnar og þróun jökulsins á nútíma ekki vel þekkt. Um miðja vegu milli Vopnafjarðar og Vatnajökuls liggur Skessugarður og rétt innar er Fiskidalsgarður. Enn innar, á Brúaröræfum, eru garðar sem kenndir eru við Búrfellsstíg og Þorláksmýrastíg. Markmið þessa verkefnis er að greina aldur þessara jökulgarða með svokallaðri geimgeislunaraðferð (e. cosmogenic exposure dating) og gjóskulagafræði. Með tengingum aldursgreininga við landmótun eykur verkefnið þekkingu okkar á hnignun íslenska ísaldarjökulsins og varpar ljósi á þróun stórra jökla á tímum hlýnandi loftslags. Niðurstöður verkefnisins nýtast við að skorða líkön fyrir þróun íslenska ísaldarjökulsins og auka þekkingu okkar á jarðfræði og jarðgrunni svæðisins og náttúru Íslands.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur þessa verkefnis er að auka skilning okkar á hnignun íslenska meginjökulsins og fornra ísstrauma á Norðausturlandi með því að aldursgreina jökullandform og jökulgarða í Vopnafirði, á Jökuldalsheiði og Brúaröræfum (mynd 1). Aldursgreining landforma er eðlilegt framhald rannsókna undanfarinna ára sem miðast hafa að því að kortleggja og rannsaka jökulræn setlög og landform upp af Vopnafirði, Bakkaflóa, Þistilfirði og á Jökuldalsheiði með margvíslegum jarð- og jarðeðlisfræðilegum aðferðum (Benediktsson o.fl.2022a). Þær rannsóknir standa enn þar sem kannað er hvernig landmótun svæðisins og dreifing, setgerð og bygging landforma tengist legu, virkni og hörfun fornra ísstrauma. Þar hefur setfræðilegum og jarðeðlisfræðilegum aðferðum verið beitt til að varpa ljósi á setgerð og byggingu landforma og þau ferli sem stuðla að auknum skriðhraða og mótun lands undir hraðskreiðum jöklum. Rannsóknir undanfarinna ára hafa skilað mikilvægum upplýsingum um landmótun og jarðgrunn svæðisins, dreifingu setlaga og landforma sem mörg hver hafa hagnýtt gildi fyrir ýmis konar framkvæmdir og mannvirkjagerð. Jökulhörfun á þessum hluta landsins er hins vegar fremur illa þekkt og því er spurningin um hvenær ísstraumar hörfuðu af svæðinu einnig áleitin. Til að svara henni er nauðsynlegt að afla frekari gagna og safna sýnum til aldursgreininga. Sumarið 2022 var 23 sýnum safnað til greininga á afhjúpunaraldri (e. cosmogenic exposure dating), í Vopnafirði og á Skessugarði og Fiskidalsgarði á Jökuldalsheiði. Ætlunin sumarið 2023 er að safna sýnum af Búrfellsgarði og Þorláksmýragarði á Brúaröræfum og klára þannig sýnatöku á sniði frá ströndu í Vopnafirði langleiðina að norðurjaðri Vatnajökuls. Þannig má varpa ljósi á hvenær þessi landform komu undan jökli og hvort hörfun ísaldarjökulsins inn til landsins hafi verið samfelld eða gerst í stökkum. Það gefur aftur færi á að meta hvernig íslenski ísaldarjökullinn brást við hlýnandi loftslagi í upphafi nútíma.