Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Malarslitlög. Hefur brothlutfall, kornalögun og efnisstyrkur malarslitlaga meira vægi en leirmagn Þarf íblandað malarslitlagsefni aðra ...

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Á síðustu árum hefur orðið meiri skilningur að vinna malarslitlög með íblöndun efna. Þá er annaðhvort leirríkum fínefnum blandað saman við brotna möl eða brotna klöpp eða þá að brotið efni er blandað inn í jarðefni sem er fínefnaríkt (leirríkt).

Margar malarslitlagsnámur á Íslandi eru snauðar af rakaheldnum fínefnum (leir) sem þarf til þess að malarslitlagið nái bindingu. Núverandi kröfur samkvæmt Efnisgæðariti Vegagerðarinnar eru að leirmagn, þ.e. korn minni en 0,002 mm, þurfi að vera á bilinu 10-30%. Getur hugsast að kröfurnar séu of háar þar sem það getur reynst oft erfitt að fá plastískan leir hér á landi?  Væri óhætt að lækka hlutfallið þannig það væri meiri hvatning til að fara eftir leiðbeiningum Efnisgæðaritsins?

Rannsókn sem verkefnastjóri vann að um malarslitlög í Bárðardal gaf til kynna að malarslitlög með gott brothlutfall, lögun, styrk og leirmagn í lágmarki liggi ekkert verra úti í vegi en malarslitlög með sömu gæði en með hærra leirmagni.

Þrátt fyrir að kröfum sé náð með lágmarks leirmagn í íblöndun þ.e. þegar brotin möl og/eða brotin klöpp er blandað saman við leirríkt jarðefni þá bendir allt til þess að ef mölin og klöppin er nokkuð hrein,  þá virðast íblönduðu leirríku fínefnin ekki ná að þekja steinefnakornin.  Það virðist sem efnin nái ekki að blandast saman, þannig að aðskilnaður á sér stað. Þegar efninu er svo keyrt út í veg, aðskilur sig hluti steinefnakornanna sem eru hrein og fín út til vegaxlar og gera þar af leiðandi ekkert gagn.

Í þessu rannsóknaverkefni verða nokkur malarslitlagsefni borin saman, þ.e. óblönduð malarslitlagsefni og íblönduð malarslitlagsefni. Öll eiga þau það sameiginlegt að vera með gott brot, góða lögun og sterk. Íblandað malarslitlagsefni er búið til úr tveimur mismunandi jarðmyndunum þ.e. leirríku fínefni sem er bætt í brotna möl eða brotna klöpp, meðan óblandaða malarslitlagsefnið er búið til úr jarðefni sem þarf ekki að blanda með leirríku efni og hefur allt til þess að bera að verða gott malarslitlagsefni. Hugsanlega þarf íblandaða steinefnið aðra meðhöndlun ef þannig malarslitlagsefni er keyrt út í veg skömmu eftir að það var malað og fínefni ekki náð að þekja steinefnakornin.

Engar verklagslýsingar eru til hjá Vegagerðinni hvernig best er að dreifa rykbindiefni á malarvegi til að hefta ryk. Hér á landi er salt yfirleitt alltaf notað til rykbindingar. Aðferðirnar sem notaðar eru,  hafa verið breytilegar milli svæða Vegagerðarinnar og einnig hversu miklu magni er dreift á hvern kílómetra. Það er því áhugavert að bera saman nokkrar mismunandi aðferðir við að dreifa salti í malarslitlög og sjá hvort einhver munur sé á.

Tilgangur og markmið:

 

Markmiðið með verkefninu er að stuðla að betri þekkingu þegar  kemur að malarslitlögum og er verkefnið þríþætt.

Í fyrsta lagi er tilgangurinn  að athuga hvort brothlutfall, kornalögun og efnisstyrkur malarslitlagsefna geri meira fyrir malarslitlagsefnið en hátt magn leirs. Markmiðið er því að skoða hvort brot, kleyfni og styrkur efnisins er með meira vægi og hvort minnka megi kröfur um leirmagn í Efnisgæðariti Vegagerðarinnar.

Í öðru lagi er tilgangurinn að skoða íblönduð malarslitlagsefni, sérstaklega með fínefnaþakningu, þ.e. ef t.d. brotin áreyramöl og leirríku efni er blandað saman við gerð malarslitlags.  Hversu öruggt er þá að kornin nái viðloðun í efnisblöndunni ? Þetta er nýr hluti í verkefninu, en hann kemur til vegna óvæntra uppgötvana  í þessu verkefni. Markmiðið er að skoða hvort brotin möl/ klöpp sem er blandað með leirríkum fínefnum þurfi að standa lengur eftir vinnslu, þannig að efnin nái að samlagast. Einnig hvort þau þurfi meiri rykbindingu en óblandað leirríkt malarslitlagsefni.

Í þriðja lagi er tilgangurinn að skoða hvaða verklag henti best þegar rykbindiefni eins og salti er dreift út í veg og verða fjórar mismunandi aðferðir skoðaðar. Markmiðið er að skoða hvaða aðferð hentar best með tilliti til nýtingu salts og meta hvort breyta þurfi verklagi við útlögn og búa til verklýsingar.