Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Rannsóknir og vöktun á hreyfingum við vegstæði Siglufjarðarvegar um Almenninga með síritandi GNSS staðsetningatækni

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Með nútíma GNSS tækni er hægt að mæla hreyfingar berghlaupa í rauntíma með hárri tímaupplausn. Töluverð vandræði hafa skapast vegna sigs og láréttra færslna á vegstæði  Siglufjarðarvegar um Almenninga síðan hann var lagður árið 1968. Mest er truflunin á um 5-6 km löngum kafla frá Hraunum að Almenningsnöf. Þónokkur vinna hefur farið fram á svæðinu á undanförnum áratugum til að kortleggja og rannsaka hreyfingarnar. Þrjú stór og nokkur minni berghlaup hafa verið kortlögð á svæðinu. Nyrst er Tjarnardalaberghlaupið, svo Þúfnavallaberghlaupið og Hraunaberghlaupið syðst. Sameiginlegt með öllum þessum berghlaupum er að töluverð hreyfing er á efnismössum þeirra í dag, bæði þar sem vegstæðið liggur og eins utan þess. Mælingar á hreyfingum með GNSS (GPS) staðsetningartækni hafa hingað til verið gerðar u.þ.b. einu sinni á ári á nokkrum fastmerkjum í skriðunni. Mestar eru hreyfingarnar í Hrauna- og Tjarnardalaberghlaupunum þar sem hreyfingar nálgast um 1 m á ári við vegstæðið. Aftur á móti er ekki vel þekkt hvenær þessar hreyfingar verða, þ.e. hversu miklar hreyfingar verða í sambandi við ákafa úrkomuviðburði, og hversu mikið skrið er á berghlaupinu þess á milli. Markmið þessa verkefnis er að þróa aðferðir til að vinna úr og túlka gögn úr nokkrum síritandi GNSS mælum sem áformað er að setja upp vorið 2022. Úrvinnsla mæligagna verður bæði í rauntíma og með eftirávinnslu, til að fá sem mest út úr mælakerfinu bæði með tilliti til vöktunar (rauntímaúrvinnsla) og nákvæmni (eftirávinnsla). Færsluhraðar mælistöðva verða metnir milli sérstæðra skriðatburða, sem einnig verða borin kennsl á. Einnig verða hreyfingar í skyndilegum færslum skoðaðar með hárri tímaupplausn (1 sek) og hreyfingarnar tengdar við veðurfarsgögn og aðrar mælingar á færslum til frekari túlkunar.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að bæta skilning og vöktun á hreyfingum á og við vegstæði Siglufjarðarvegar um Almenninga á um 5-6 km löngum kafla frá Hraunum í Fljótum og norður að Almenningsnöf. Nýtt kerfi síritandi GNSS mæli sem setja á upp verður notað til verksins. Kannað verður hvernig hentar best að vinna úr GNSS gögnunum, til að mynda (i) hvort betra sé að nota GNSS viðmiðunarstöð á Siglufirði eða skammt sunnan Almenninga; (ii) hvaða stillingar í úrvinnsluhugbúnaðinum RTKLIB henta best til að dempa sveiflur sem sjást oft vegna truflana í jónahvolfi; (iii) notkun einnar-stöðvar-staðsetningar (PPP) til rauntímastaðsetningar. Sjálfvirk úrvinnslukerfi í rauntíma- og eftirávinnslu verða aðlöguð að Almenningum og gagnameðhöndlun í rauntímastraumum (NTRIP) bætt ef þurfa þykir. Hreyfingar á löngum og stuttum tímaskölum verða reiknaðar og bornar saman við verðurfarsgögn til að greina orsakasamhengi veðurfarsþátta og hreyfinga.

Þær rannsóknaspurningar sem setta eru fram eru:

1. Hvernig er hentugast að setja upp úrvinnslukerfi fyrir GNSS vöktun og rannsóknir við Almenninga?

2. Við hvaða veðurfarsaðstæður eiga mestu hreyfingarnar sér stað.

3. Hvernig eru hreyfingar mismunandi hluta svæðisins milli tímabila þar sem miklar færslur eiga sér stað?