Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Eru smektít og ættingjar óvinir viðloðunarefna

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Steinefni sem notuð eru í klæðingar þurfa að þola áraun frá umferð og veðrun og auk þess þurfa þau að verja undirliggjandi lög vegarins. Klæðingarefni er efsta lag vegar og þarf því að vera sterkt og endingargott.

Rannsóknir hafa sýnt að steinefni sem notuð eru í klæðingar og eru úr sömu námu og sömu efnisvinnslu sýna mismunandi viðloðun á rannsóknarstofu eftir því hvaða viðloðunarefni er notað.  Þessar niðurstöður ásamt berggreiningu sýna, benda sterklega til þess að skaðlegar leirsteindir, eins og smektít, séu til staðar í sumum af þessum klæðingarefnum og því ástæða til að skoða betur áhrif  þeirra á viðloðun steinefna.  

Til þess að geta aðgreint skaðlegar leirsteindir frá steindum sem taldar eru hættulausar var ákveðið að nota ákveðið litarefnið sem heitir methylene blue (blámi). Í rannsókninni er tveimur aðferðum með þessu litarefni beitt. Annars vegar er notað staðlað blámapróf samkvæmt ÍST EN 933-9 sem gert er á fínefnum, þ.e. allt efni sem er undir 0,063 mm að stærð, og hins vegar eru þunnsneiðar af steinefnakornum sem hafa farið í viðloðun litaðar með litarefninu.

Safnað hefur verið steinefnasýnum úr efnishaugum úr nokkrum námum:  Bláhæð, Ofan Kleifabúa, Holtasundi, Neðri Mýrum og Háöldu. Niðurstöður forathugana gefa tilefni til að halda áfram þessum rannsóknum. Framundan er að gera stöðluð blámapróf á fínefnum úr þessum sýnum. Einnig verða þessi sýni greind nánar í þunnsneiðum, bæði ólituðum og lituðum með bláma. Þunnsneiðarnar verða auk þess skoðaðar í nýju tæki sem Jarðvísindadeild Háskóla Íslands festi nýlega kaup á. Í tækinu er hægt að skanna þunnsneiðar á fljótlegan hátt, magngreina það sem litast og greina frumefni sem finnast.

Með hliðsjón af frumniðurstöðum og þeim vandamálum sem hrundu þessari rannsókn af stað má ætla að áhrif af völdum skaðlegra leirsteinda í steinefnum sem nota á í klæðingarefni sé að einhverju leyti falið vandamál hérlendis. 

Tilgangur og markmið:

 

Markmiðið er að kanna hvort stöðluð aðferð, eins og blámapróf samkvæmt ÍST EN 933-9, nýtist til að aðgreina steinefni í klæðingar frá steinefnum með skaðlegum leirsteindum.

Tilgangurinn er að geta á markvissan og auðveldan hátt greint steinefni sem nota á í klæðingar og koma þannig í veg fyrir að steinefni með skaðlegum leirsteindum sé notað í yfirlagnir.

Rannsóknarspurningin er: Nýtist staðlað blámapróf til að aðgreina steinefni með skaðlegum leirsteindum frá skaðlausum sem nota á í klæðingar?

Þegar hefur verið safnað  steinefnasýnum úr nokkrum efnisnámum sem fengu mismunandi viðloðun á rannsóknastofu: Bláhæð, Ofan Kleifabúa, Holtasundi, Neðri Mýrum og Háöldu. Til að svara rannsóknarspurningunni verða sýnin skoðuð í þunnsneiðum, bæði ólituðum og lituðum með litarefninu bláma, og auk þess gert á þeim staðlað blámapróf.