Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Endurbætur á stoppistöðvum almenningssamgangna á landsbyggðinni

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Það er markmið stjórnvalda að árið 2024 muni 90% stoppistöðva almenningssamgangna standast hönnunar- og öryggiskröfur fyrir alla en ekki er vitað hver staðan er í dag, nema að litlu leyti en úttekt VSÓ Ráðgjafar og ÖBÍ árið 2021 leiddi í ljós að gæði stoppistaða almenningssamgangna á landi voru heldur dræm.. Í þessu verkefni verða sett fram frumhannanir af mest notuðu stoppistöðvum almenningssamgangna á landsbyggðinni sem miða að því að bæta úr þessu.

Gott aðgengi og öryggi á stoppistöðvum er lykilþáttur í að auka notkun á almenningssamgöngum sem stuðlar að auknu öryggi í samgöngum fyrir alla, því með hverjum einstaklingi sem kýs almenningssamgöngur fram yfir að aka sjálfur dregur úr líkum á umferðartengdum slysum.

Þá hafa stjórnvöld fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem á að tryggja að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi og tekið fullan þátt á öllum sviðum lífsins, þ.á m. geta farið allra sinna

ferða með þeim hætti sem það kýs, á þeim tíma sem það velur og vera tryggður hindrunarlaus  aðgangur að hinu efnislega umhverfi.

Tilgangur og markmið:

 

Í verkefninu verður horft til verkefnisins Ástand stoppistöðva á landsvísu sem VSÓ Ráðgjöf vann í samvinnu við ÖBÍ sumarið 2021.

Í upphafi verkefnis verða stoppistöðvarnar á leiðunum forgangsraðað upp á tvenna vegu: eftir notkun á þeim, og verður það gert samkvæmt upplýsingum um farþegatölur Strætó bs. og eftir núverandi gæðum þeirra, samkvæmt úttekt VSÓ Ráðgjafar. Er þessi forgangsröðun gerð til að breytingarnar komi sem flestum notendum til góðs og framkvæmdir verða á verstu stoppistöðunum, til að jafna gæði þeirra. Rúmlega 100 stoppistöðvar voru skoðaðar í fyrri vinnu, en í þessum hluta verður leitast eftir því að frumhanna 3 – 4 stoppistöðvar á hverri leið. Notast verður við þær forsendur sem VSÓ útbjó í fyrra verkefni með ÖBÍ um hvað sé góð stoppistöð almenningssamgangna.

Markmið verkefnisins er að útbúa frumdrög af útfærslum stoppistöðva almenningssamgangna á landsbyggðinni sem Vegagerðin getur nýtt annaðhvort til að ýta á sveitarfélög landsins eða farið sjálf í endurbætur á grundvelli teikninga. Fyrir svæði sem eru sérlega slæm verður einnig komið með þrepaskiptar framkvæmdir. Fyrir hverja framkvæmd verður gert gróft kostnaðarmat.

Eitt af markmiðum Ferðumst saman – Heildarstefna í almenningssamgöngum milli byggða er að árið 2024 muni 90% stoppistöðva standast hönnunar- og öryggiskröfur. Tilgangur þessa verkefnis er því að stuðla að því að þessu markmiði stjórnvalda verði náð. Þá er tilgangur verkefnisins einnig að tryggja jafnt aðgengi fatlaðra, hreyfihamlaðra og ófatlaðra einstaklinga almenningssamgöngum milli byggða og uppfylla þar með samning Sameinuðu þjóðanna sem var fullgiltur á Íslandi 2016.