Almenn verkefni 2022

Heiti verkefnis : 

Úttekt á ræsipunktakerfi neyðarbíla höfuðborgarsvæðisins

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Gerð verði úttekt á ræsipunktum fyrir forgangsakstur neyðarbíla gegnum ljósastýrð gatnamót á höfuðborgarsvæðinu.

Neyðarbílum er jafnan gefinn forgangur gegnum ljósastýrð gatnamót á höfuðborgarsvæðinu. Í stuttu máli virkar kerfið þannig að um borð í bílunum er tölva sem gefur GPS-staðsetningu bílsins og í hvert skipti sem bílinn fer yfir ræsipunkt (e. Registration point) þá virkjar það forrit á næstu umferðarljósum sem gefur grænt fyrir þá stefnu sem neyðarbíllinn er að keyra eftir og rautt á allar aðrar stefnur.

Kerfið hefur nú verið virkt í nokkur ár en ekki við öll ljósastýrð gatnamót. Fyrir notendur kerfisins, bílstjóra neyðarbílanna, mætti vera gegnsærra hvar punktarnir eru, hvar þeir mega búast við fá grænt og ef til vill rauntíma stöðu þeirra. Víða er einnig eldri týpa ljósastýringa í notkun þar sem ekki er hægt að gefa forgang með þessum hætti án þess að skipta út stýrikössum.

Í þessu verkefni verður rætt við notendur kerfisins og athugað hvað hefur gengið vel, og hvar áskoranirnar liggja helst. Einnig verða gögn nýtt frá tölvunum um borð í bílunum til að athuga hversu vel kerfið bregst við þegar kallað er á neyðarforgang, og hversu vel ræsipunktar eru staðsettir. Dæmi eru t.d. um að neyðarbílar lendi í umferðarteppum áður en komið er að ræsipunkti og þá tapast dýrmætur viðbragðstími. Einnig verður gerð kortlagning á blinda punkta kerfisins og hvar liggur helst á að uppfæra stýrikassa þannig hægt sé að tengja ljós við ræsipunktakerfið.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur og markmið verkefnisins er þríþætt:

  1. Að lækka viðbragðstíma neyðarbílakerfisins og þar með hættuna á dauðsföllum og alvarlegum afleiðingum hættulegra atburða í samfélaginu. Við slys, bruna og aðrar hættulegar aðstæður skiptir hver mínúta máli.
  2. Einnig er markmið að auka skilning notenda kerfisins, bílstjóra, og gegnsæi á því hvernig það virkar. Það auðveldar þeim að senda athugasemdir á eigendur umferðarljósanna (Vegagerð og sveitarfélög) – svo þau geti sinnt þjónustuhlutverki sínu ef eitthvað má laga/betrumbæta.
  3. Að kortleggja blinda punkta kerfisins sem hjálpar til við forgangsröðun framkvæmda.