Almenn verkefni 2021

Heiti verkefnis : 

Vilji til breytinga á vali á ferðamáta frá einkabíl yfir í almenningssamgöngur

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Kannanir Maskínu hafa sýnt að talsverður fjöldi þeirra sem aka á einkabíl, til og frá vinnu, hafa áhuga á að skipta yfir í vistvænni ferðamáta. Sem dæmi má nefna að í könnun gerð febrúar 2020 voru 76% ferða í og úr vinnu farnar á einkabílnum en einungis 42% voru helst til í að nota bílinn til þessara ferða. Flestir vildu helst nota almenningssamgöngur eða ferðast fótgangandi og á hjóli. Þessar kannanir sýna hinsvegar ekki hvað þarf til, til að fólk velji að skipta um ferðamáta. Ábati þess að breyta um ferðavenjur er margþættur en breyting á ferðavenjum er eitt lykilatriðið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Markmið um notkun almenningssamgangna sem sett hafa verið fram í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins eru afar metnaðarfull. Vel heppnuð Borgarlína sem höfðar til sem flestra er forsenda þess að markmiðin gangi eftir.   Það er því mjög mikilvægt að vita hvaða þættir það eru sem geta stuðlað að hugarfarsbreytingu mögulegra notenda.

Þessari rannsókn er ætlað að bera kennsl á þau hönnunaratriði sem uppfylla þarfir þeirra sem hafa lýst yfir vilja til að skipta út einkabílnum fyrir almenningssamgöngur. Þetta leggur áherslu á þau hönnunaratriði sem hafa áhrif á að ná stefnumarkmiðum um að draga úr notkun á einkabílnum. Það sýnir einnig hvernig stjórnvöld geta fengið meiri verðmæti úr fjárfestingu í Borgarlínunni og hvernig þörfum borgaranna verður betur mætt.

Stefnt er að því að gera svokallaða „stated preferences“ könnun, á íslensku hefur þetta stundum verið kallað upplýst val eða tjáð val. Aðferðin byggir á spurningakönnun þar sem þátttakendur könnunarinnar gefa upplýsingar, t.d. um greiðsluvilja sinn, út frá ímynduðum markaði. Með þessum aðferðum gefst kostur á að meta beinar, óbeinar og óháðar nytjar.

 

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að afla upplýsinga um hvaða þættir það eru sem hafa áhrif á vilja fólks til að nýta almenningssamgöngur, í stað einkabílsins, til ferða til og frá vinnu. Markmiðið er að hægt verði að fá niðurstöður sem svara spurningunni um hvað þurfi til, til að fá þá sem notast í  dag við einkabílinn til og frá vinnu, til að velja frekar almenningssamgöngur.

Slíkar niðurstöður eru mjög gagnlegar og jafnvel nauðsynlegar til að ná fram þeim áhrifum af Borgarlínunni sem stefnt er að í stefnumótun hennar og styrkja grundvöll hennar.