Almenn verkefni 2021

Heiti verkefnis : 

Samspil ríðandi umferðar og annarra vegfarenda á stígakerfi höfuðborgarsvæðisins

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Verkefnið felst í að rannsaka og greiða úr samspili hesta og annarra vegfarenda, með áherslu á hjólandi vegfarendur, sem nota stígakerfi höfuðborgarsvæðisins.  Í verkefninu verður lögð áhersla á að skoða innviði fyrir ólíka vegfarendahópa á stígakerfinu, hvernig þessir innviðir mætast og hvar helsta hættan er.  Verkefnið felst í vettvangsskoðun ásamt því að rætt verður við þau hestafélög sem eru að finna á höfuðborgarsvæðinu og óskað eftir upplýsingum um helstu áskoranir sem reiðmenn mæta í sínum reiðtúrum og hvar er brýnast að fara í úrbætur og með hvaða hætti.  Þá verður einnig leitað í slysagagnagrunn Vegagerðarinnar (sem byggður er á gögnum frá Samgöngustofu) og slysagögn á helstu vandamálastöðunum greind.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að auka umferðaröryggi ólíkra vegfarendahópa á stígakerfinu. Rannsóknarspurningar sem lagðar eru fram eru eftirfarandi:

  • Hver eru helstu vandamál í samspili hestaumferðar og annarrar umferðar á stígakerfi höfuðborgarsvæðisins?
  • Hvernig er best að bregðast við vandamálunum? Áhersla er lögð á eftirfarandi þætti:
    • Hönnun stígakerfisins
    • Staðsetningu stíganna í umhverfinu
    • Útfærslu stígamótanna
    • Fræðsla og leikreglur vegfarenda

Markmið verkefnisins er að greina þá staði, á stígakerfi höfuðborgarsvæðisins, þar sem vandamálin koma upp og hverjar þörfustu úrbæturnar eru hverju sinni.  Markmið verkefnisins er einnig að athuga hvort þörf sé á að setja upp hönnunarstaðal fyrir reiðvegi innan þéttbýlis eða hvort tekið sé nægilega vel á öryggiskröfum í hönnun innviða í Veghönnunarreglum Vegagerðarinnar og þeim leiðbeiningum sem nú þegar eru til.