Almenn verkefni 2021

Heiti verkefnis : 

Umferðartengd svifryksmengun í Reykjavik, Íslandi. Greining og dreifing á umferðartengdu örplasti.

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Mikilvægur uppruni örplasts,  sem oft er litið framhjá, er tengdur umferð. Örplast í svifryki myndast vegna núnings milli slitlags og hjólbarða sem veldur hjólbarðasliti. Rannsóknir á svifryki úr Hvalfjarðargöngum benda til þess að verulegur hluti umferðartengds svifryks í göngunum sé kolefnisríkt ryk, myndað annars vegna slits á hjólbörðum og hins vegar vegna slits á slitlagi vegarins. Í ljós hefur komið að hluti svifryksins myndar nokkurskonar vöndla. Vöndlarnir eru  samsett korn úr mjög fínkorna rykögnum ættuðum úr slitlaginu, bundin saman með kolefnisríkum grunnmassa. Kolefnisríki grunnmassinn er kominn frá dekkjasliti og/eða bindiefninu í malbikinu. Þar sem þessir vöndlar eru nokkuð stórir, flestir um 50 til 60 micron í þvermál, en geta orðið allt að um 100 micron á lengd. Svo stórar agnir verða ógjarnan loftbornar.

Lítið er vitað um dreifingu á örplasti í vistkerfinu við Ísland og ekkert um dreifingu umferðatengds örplasts. Markmið þessa verkefnis er að rannsaka uppruna, myndun og örlög kolefnisbundins, umferðartengds örplasts á höfuðborgarsvæðinu. 

Tilgangur og markmið:

 

Örplast finnst víða í vistkerfinu og getur verið mikill skaðvaldur, sérstaklega ef það berst til sjávar í fæðukeðjuna. Uppruni örplasts á sér stað á landi og er mjög fjölbreytilegur. Umferðartengt örplast er mikilvæg uppspretta sem lítið er rannsökuð hér á landi. Bent hefur verið á að dekkjaslit sé mikilvægur þáttur í myndun örplasts. Rannsóknir á svifryki úr Hvalfjarðargöngum benda til þess að verulegur hluti umferðartengds svifryks í göngunum sé kolefnisríkt ryk myndað annars vegar sem dekkjaslit og hins vegar sem gatnaslit. 

Lítið er vitað um dreifingu á örplasti í vistkerfinu við Ísland, en rannsóknir sem hafa verið gerðar benda til þess að örplast finnist hér eins og annars staðar. Markmið þessa verkefnis er að rannsaka uppruna myndun og örlög kolefnisbundins umferðartengds ryks á Íslandi. 

Markmið með þessu verkefni er að: rannsaka hvort fínt svifryk myndi sambærilega „vöndla“ og eru til staðar í svifrykinu í Hvalfjarðargöngum; rannsaka þátt dekkjaslits í myndun svifryks og mögulegrar „vöndlamyndunar“; rannsaka hvort svifryksmyndun vegna dekkjaslits geti leitt til örplastsmyndunar; rannsaka virkni settjarna við að safna mögulegu örplasti.

Megin rannsóknarspurningin sem leitast verður svara við er: "Hver er þáttur dekkjaslits í myndun örplasts og virkni settjarna við að fanga umferðartengt svifryk?"

Þess er vænst að niðurstöður rannsóknarinnar verði verulegt framlag til skilnings á þætti umferðar í svifryksmengun á Íslandi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum getur svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu orðið verulega mikil samanborið það sem þekkt er annars staðar á Norðurlöndum, sérstaklega í ljósi þess að jarðefnaeldsneyti er ekki notað hér á landi til kyndingar húsa.