Almenn verkefni 2021

Heiti verkefnis : 

Mælingar á færslu óstöðugra fláa í rauntíma og langtíma - Siglufjarðarvegur

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

 

Fjölmargar fjallshlíðar á Íslandi eru óstöðugar, landið er jarðfræðilega ungt og margir fláar eiga eftir að ná stöðugleika vegna rofs, hörfunar jökla og annarra ástæðna. Veðurfar er að breytast, og skriðuföll aukast í samræmi við öfgar í veðurfari. Vegkaflinn við Siglufjarðarveg er skýrt dæmi um slíka hlíð, einnig mætti nefna Hvalnesskriður. Árlega verður vart við skriður á þessum vegköflum en lítið er hægt að gera til að bæta stöðugleika vegkaflanna.

Það er hins vegar mikilvægt að fylgjast vel með færslum og hreyfingum í brekkunni, bæði í rauntíma og einnig yfir lengri tíma.

Rauntímaupplýsingar um hreyfingar geta gefið vísbendingar um skriðuföll á veginum og væri þá hægt að bregðast við með því að loka veginum, án þess að þörf væri á tilkynningu frá vegfarendum. Til lengri tíma litið er hægt að fylgjast með færslum í veginum, þ.e. með hvaða hraða jarðvegur er að færast, og ekki síður ef vart verður við aukna hröðun á færslum í hlíðinni.

Mælibúnaður og reynsla sem fæst við þetta verkefni, gæti nýst á hagkvæman máta á fleiri mælistöðum u allt land. Hægt er að fylgjast með hreyfingu upp á +/- 1-3 cm. Ef bilun verður í búnaði eða skriða fer að stað, þá verður send út viðvörun í gegnum e-mail, sms eða símtal á viðbragðs aðila.

Tilgangur og markmið:

 

Markmið verkefnisins er að setja upp mælitækni til að fylgjast með breytingum/færslum í óstöðugum fláum. Með verkefninu öðlast Vegagerðin og þjónustuaðilar hennar reynslu á notkun tæknibúnaðar sem er á heimsmælikvarða sem og tækifæri til notkunar á hugbúnaði og þekkingu við túlkun niðurstaðna frá þessum mælum. Búnaðurinn verður tengdur við sírita (e.datalogger) sem sendir svo gögnin með GSM sendi, í VDV kerfi Vista. Vegagerðin mun fá aðgang að vefviðmóti skýjalausnar þar sem hægt er að fylgjast með mæligögnum í rauntíma og fá viðvaranir ef mæligildi fara út fyrir skilgreind viðmið. Vegagerðin getur skoðað þau gögn sem er verið að safnað saman og séð þannig færslu í jarðvegi yfir lengra tímabil.

Vegagerðinni mun standa til boða að tengja fleiri mæla við uppsettan tengikassa, þar sem síritinn sem verður notaður býður upp á 5 innrásir.  Hægt er þannig að fá betri heildarmynd af stöðu jarðsigs á mælistað.

Verkefnið á gefa innsýn og öðlast reynslu við að koma fyrir mælibúnaði á mismunandi stöðum á landinu og hvað þarf mikla vinnu á mælistað til að koma búnaðinum fyrir á öruggan máta. Talsverð hætta er á skemmdum á búnaði sem er komið við vegbrúnir eða fjallshlíðar. Ljóst er að hver staðsetning kallar á nýjar áskoranir sem snýr að GSM sambandi, sólarljósi, aðgengi og jarðvegsaðstæðum.

Megin tilgangur verkefnisins er að auka umferðaröryggi til lengri og skemmri tíma við aðstæður þar sem fláar/brekkur eru óstöðugar.