Almenn verkefni 2021

Heiti verkefnis : 

Rafskútur og umferðaröryggi

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Rafskútur (Einungis verður hér fjallað um rafknúin hlaupahjól, en ekki tvíhjóla ökutæki á einum öxli.) hafa notið aukinna vinsælda hér á landi undanfarin ár og hafa þær orðið sífellt meira áberandi í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Þessi ferðamáti er kominn til að vera og er ný viðbót í hóp virkra ferðamáta sem stuðla að breyttum ferðavenjum. Vinsældir rafskúta benda til þess að íbúar höfuðborgarsvæðisins eru opnir fyrir nýjungum í samgöngum. Algengt er að rafskútur séu notaðar fyrir styttri vegalengdir og í svokallaðar „first og last mile“ ferðir, t.d. milli stoppistöðva almenningssamgangna og heimilis eða vinnu. Líklegt er að vinsældir rafskúta aukist enn frekar með tilkomu Borgarlínu.

Nýjum ferðamátum fylgja líka spurningar um umferðaröryggi og undanfarið hefur skapast umræða um mögulega aukna slysahættu vegna rafskúta. Ýmsir hafa velt fyrir sér áhrifum þeirra á umferðaröryggi s.s. hvort þær fari of hratt til þess að vera á gangstéttum, hvar þeim sé lagt og hvort hætta sé á því að ölvaðir nýti sér þennan fararmáta og stofni þ.a.l. sér og öðrum í hættu. Í verkefninu verður leitast við að svara þessum spurningum og fjölda annarra sem hafa vaknað um rafskútur m.t.t. umferðaröryggis.

Skýrt er hvaða lög og reglur gilda um rafskútur hérlendis, s.s. að hámarkshraði sé 25 km/klst, að ekkert aldurstakmark er á þær og að þeim megi ekki aka á akbraut. Vitað er að lög og reglur um rafskútur eru mismunandi á milli landa og er mikilvægt að skoða hver munurinn er, og meta hvort gera eigi einhverjar breytingar hérlendis.

Helsti ávinningur verkefnisins er sá að umræða tengd umferðaröryggi rafskúta verður upplýstari og markvissari. Verkefnið mun vekja athygli á því hversu mikilvægt er að huga að umferðaröryggismálum þegar nýir ferðamátar verða til og ferðavenjur íbúa á höfuðborgarsvæðinu breytast. Auk mun um hvort ástæða sé til að gera einhverjar breytingar í umferðarlögum um rafskútur nýtast stjórnvöldum.

Tilgangur og markmið:

 

Ljóst er að tilkoma rafskúta hefur áhrif á umferðarmynstur borgarinnar og þar af leiðandi umferðaröryggi. Tilgangur þessa verkefnis er að varpa ljósi á og kortleggja helstu þætti sem hafa áhrif á umferðaröryggi þegar kemur að rafskútum. Sjá má í fréttum að nokkuð er um slys á rafskútum og brýnt er að átta sig betur á í hvernig aðstæðum þau verða og einnig hver fjöldi þeirra er. Leitast verður við að svara fjölda spurninga sem nú þegar hafa vaknað og er hluti þeirra listaður hér að neðan.

Hvaða áhrif hafa rafskútur á umferðaröryggi? Hvaða þættir ógna öryggi notenda rafskúta? Stafar hætta af rafskútum fyrir aðra vegfarendur? Hverjir eru kostir og gallar, m.t.t. umferðaröryggis, að hafa rafskútur á gangstéttum, hjólastígum eða á götu? Hefur yfirborðsefni stíga áhrif á öryggi (malbik eða hellur)? Er ástæða til að gera breytingar á lögum og innleiða aldurstakmark fyrir þá sem nota rafskútur?

Líklegt er að einhver hegðunarmunur sé á þeim sem eiga rafskútur og þeim sem leigja þær, t.d. er fólk sem er á sínum eigin rafskútum ólíklegra til að leggja þeim úti á miðri gangstétt en þeir sem leigja af hjólaleigum. Þá verður skoðað hvort og þá hvaða takmarkanir eiga að gilda fyrir rafskútur sem teknar eru á leigu. Til dæmis hvar megi leggja þeim, hraðatakmarkanir á ákveðnum svæðum eða götum þar sem umferð gangandi er mikil og takmarkað aðgengi að rafskútum á kvöldin um helgar, t.d. vegna ölvunar eða um hávetur vegna hálku.