Almenn verkefni 2021

Heiti verkefnis : 

Samspil þéttleika byggðar og umferðarsköpunar í skipulagi

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Rík áhersla er lögð á þéttingu byggðar í yfirstandandi uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu sem og í fyrirhuguðum skipulagsáætlunum og er það m.a. í samræmi við svæðisskipulag höfuð­borgarsvæðisins. Við þéttingu byggðar er að ýmsu að huga, s.s. að aukinn þéttleiki leiðir til aukins fólksfjölda sem skapar aukna umferð. Til að stemma stigum við aukinni bílaumferð er einkabílnum oft settar þrengri skorður og öðrum ferðamátum gert hærra undir höfði. Hugmynd verkefnisins er að rýna í og mynda ramma um forsendur og samgöngulausnir þar sem fyrirhuguð er þétting byggðar. Leitast verður eftir leiðum til að stuðla að jafnvægi milli þéttleika byggðar, forsenda og umferðarsköpunar með það að markmiði að uppfylla kröfur um gæði og eiginleika hvers svæðis. Í samræmi við breyttar áherslur er þörf á greina hvort breyta þurfi aðferðafræði og forsendum er liggja að baki ákvörðunum varðandi umfang og eiginleika samgönguinnviða á skipulagsstigi. Í gildandi svæðisskipulagi er gert ráð fyrir ákveðnum þéttleika miðað við skilgreiningu svæðis en samband þéttleika og umferðarsköpunar er hins vegar ekki tekið með í reikninginn. Hingað til hefur verið stuðst við einföld viðmið þegar kemur að umferðarsköpun sem taka eingöngu mið af áhrifum þéttleika byggðar og fyrirhugaðrar starfsemi á umferðarsköpun akandi farþega. Þörf er á að líta á heildstæðari hátt á viðmið sem taka mið af eiginleikum hvers svæðis, þ.e. fjöldi vegtenginga, gæði almenningssamgangna, stefnu yfirvalda um breyttar ferðavenjur, samgöngustefnu fyrirtækja, áhrif deiliþjónusta, breytt ferðamynstur, kröfur um bílastæði o.s.frv. Þannig er ekki litið á vistvæna ferðamáta sem mótvægisaðgerð til þess að draga úr bílaumferð heldur sem hluta af samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins og sem forsendu í skipulagsferlinu. Setja má fram á einfaldan hátt lausnamiðuð viðmið til þess að einfalda greiningu samgangna á skipulagsstigi í samræmi við stefnu yfirvalda.

Tilgangur og markmið:

 

Markmið verkefnisins er að greina viðmið og forsendur sem hafðar eru til hliðsjónar við skipulagsvinnu sem taka mið af breyttum áherslum yfirvalda í byggðaþróun og samgöngumálum. Með því má skapa leiðbeinandi ramma utan um mat á umferðarsköpun og hvernig hún tengist hinu ýmsu breytum má með meiri nákvæmni til þess að áætla umferðarmagn í skipulagsvinnu. Niðurstöður slíkrar vinnu nýtast sem inntak fyrir skipulag og hönnun samgönguinnviða. Forsendurnar taka mið af þeim skilgreiningum sem hefur verið settar fram í gildandi svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og er ætlað að stýra byggðaþróun í samræmi við uppbyggingu fyrirhugaðrar Borgarlínu. Markmið þess er að uppbygging á höfuðborgarsvæðinu geti á markvissan hátt stuðlað að hagkvæmu samspili landnotkunar og samgangna. Með slíkri aðferðafræði mætti á skýran hátt meta forsendur sem taka mið af eiginleikum og markmiðum hvers svæðis fyrir sig. Slíkt verkfæri myndi nýtast t.d. á skipulagsstigi. Með því má skipuleggja viðeigandi samgöngulausnir í samræmi við þéttleika og eiginleika landnotkunar sem tekur tillit til fyrirhugaðrar uppbyggingar og þjónustu. Forsendur útreikninga og uppbyggingar taka því mið af áherslum yfirvalda, t.a.m. er varða hlutdeildar vistvænna ferðamáta o.s.frv. en ekki eingöngu fyrri reynslu. Skipulagsvald er í höndum hvers sveitarfélags fyrir sig og er því mikilvægt að skapa breiðan ramma utan um samgöngulausnir sem taka mið af skipulagsákvörðunum á fyrri stigum, t.d. í svæðisskipulagi. Með því má tryggja að markmið og hugmyndafræði gildandi svæðisskipulags verði að veruleika.