Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Samsetning og uppruni svifryks í Hvalfjarðargöngum

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Miðað við þær greiningar sem gerðar voru í þessari rannsókn á uppruna svif/fall-ryks sem safnað var úr Hvalfjarðargöngum á fyrra tímabili verkefnisins (17.01.17 til 13.06.18) má rekja uppruna ryksins að mestu til fylliefna í malbiki. Eðlilegt er að álíta að bikið eða bindiefni  slitlagsins slitni í réttu hlutfalli við hluta þess á móti hluta fylliefna. Því má segja slitlagið í göngunum sé langstærsti þáttur í uppruna fall/svif-ryks í Hvalfjarðargöngum, þ.e.a.s. grófi hluti ryksins sem myndast í göngunum. 

Ryk sem myndast vegna útblásturs frá ökutækjum sem fara um göngin, sem og vegna slits bremsuborða og dekkjaslits, eru væntanlega einnig þáttur í rykmynduninni í göngunum, samanber snefilefnagreiningar úr fyrri rannsókn. Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hluta hvers
þáttar, vegna þess að kolefnisgreiningar sem framkvæmdar voru í fyrri rannsókn misfórust. Kolefni er væntanlega meginuppistaða ryks sem myndast vegna útblásturs, dekkjaslits og þess háttar efna. Rúmþyngd ryksins mælist tiltölulega lág eða um 1 g/cm3 sem bendir til þess að verulegur hluti ryksins samanstandi af léttu efni, þ.e.a.s. öðru efni en fylliefni úr malbiki.

Markmið með þessari rannsókn er að standa betur að sýnatöku en gert var á fyrra ári og þess vænst að meira safnist af svifryki (<2.5 míkron) en gerðist í fyrri áfanga og með annari meðhöndlun sýna er þess vænst að kolefnisgreiningar verði áreiðanlegri.

Tilgangur og markmið:

 

Verkefnið var styrkt af rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar í fyrra. Sýnum var safnað sem fallryki af yfirborði rafmagnsskápa í meira en 1 ½ ár. Markmið var að greina uppruna ryksins með því að framkvæma efnagreiningar á rykinu. Í þessum greiningum komu áhrif af nagladekkjum berlega í ljós. Yfir nagladekkjatímabilið jókst magn ryksins verulega, hins vegar virtist sem samsetning ryksins breyttist lítið yfir allt árið. Uppruni ryksins var að finna í malbikinu, sem fylliefni úr malbiki. Einnig greindist töluvert af kolefni. Ekki var unnt að greina uppruna þess. Væntanlega er kolefnið annað hvort komið úr malbiki eða sem útblástur (sót)  þeirra ökutækja sem aka um göngin.

Markmið þessa verkefnis er að safna sýnum á annað veg en gert var í fyrri áfanga, að fanga svifryk í þar til gerðar síur yfir velvalin en stutt tímabil. Þess er vænst að smærri hluti svifryks (< 2,5 míkron) safnist aðallega í síurnar. Í fyrri rannsókn var stór hluti hver sýnis stærri korn en 5 til 10 míkron. Með þessu móti ætti að fást stærri hluti af fínu ryki sem innihaldi meira af útblásturstengdu svifryki heldur en fallrykið sem safnaðist ofan á rafmagnskápa í göngunum. Sýnin sem safnast verða síðan efnagreind með rafeindasmásjá og mögulega örðum aðferðum ef þurfa þykir. Markmið er gera betri kolefnisgreiningar en voru gerðar í fyrri rannsókn. Öðruvísi sýnataka og meðhöndla sýna ætti að tryggja að það takist.

Til þess að öðlast ítarlegri skilning á eiginleikum ryksins þarf að greina samsetningu á svifrykinu (<2.5 míkron).

Markmið þessa verkefnis er að greina samsetningu svifryks í Hvalfjarðargöngum og ákvarða hluta einstakra þátta sem mynda rykið.

Markmiðið er að ákvarða hluta eftirfarandi þátta í uppruna svifryks:

-Dekkjaslit (með og án nagladekkja)

-Útblástur ökutækja (sem ryk/sót)

-Slitbúnaður ökutækja (bremsuborðar o.fl.)

en einnig, þótt fyrri áfangi hafi aðallega beinst að þessum þáttum:

-Malbiksslit (bindiefni og fylliefni)

-Annað (jarðvegur, eldfjallaaska, vegsalt, o.fl.)