Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Samgöngubætur á Austurlandi

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Verkefnið Áhrif samgönguúrbóta á byggðarlög á Austurlandi snýst um að afla upplýsinga og gagna um áhrif tiltekinna samgönguúrbóta á byggðarlög í fjórðungnum. Skipta má verkefninu í tvennt. Annars vegar áhrif samgönguúrbóta sem þegar hafa átt sér stað en hins vegar áhrif samgönguúrbóta sem eru í framkvæmd eða á áætlun.

Þær samgönguúrbætur sem þegar hafa átt sér stað og verða sérstaklega skoðaðar í þessu verkefni eru Norðfjarðar – og Fáskrúðsfjarðargöng. Í fyrrnefndu göngunum eru til viðhorfsgögn frá gamalli tíð til samanburðar en lítið virðist vera til af gögnum um Fáskrúðsfjarðargöng. Rannsökuð verða áhrif þessara gangna á íbúafjölda, íbúasamsetningu, atvinnusókn, ferðamennsku, afþreyingarmöguleika, fjölda fyrirtækja, viðhorf til búsetugæða og aðra þætti. Skoðuð verða áhrif slíkra mannvirkja á byggðaþróun og hvort þau auki líkur á því að fólk flytji til viðkomandi staða. Þá verður einnig skoðað hvort verslun og þjónusta hafi aukist eða minnkað á viðkomandi stöðum. Afstaða og hegðun íbúa viðkomandi staða til gangnanna verður skoðuð sem og nágranna þeirra.

Hvað varðar samgönguúrbætur sem eru í framkvæmd eða á áætlun verður a.m.k. horft til Fjarðarheiðarganga, heilsársvegar um Öxi og vegaúrbóta á Borgarfjarðarvegi. Þar verða gerðar viðhorfskannanir og unnið út frá þeim gögnum. Þau gögn verða mikilvæg samanburðargögn fyrir sambærilega rannsókn eftir að mannvirkin hafa litið dagsins ljós. Þá er hægt að bera saman væntingar íbúa við það sem raunverulega verður.

Verkefnið mun fara þannig fram að Austurbrú mun hanna og semja spurningalista um viðhorf og skoðanir íbúa fjórðungsins til tiltekinna samgönguúrbóta. Þeim könnunum verður dreift í samstarfi við sveitarfélögin að mestu á netinu en gripið verður til úrræða til að ná til þess markhóps sem notar síður netið. Því næst verða gögnin unnin og út frá þeim verða niðurstöður svo metnar.

Listi atriða sem talin hafa verið upp í þessum texta er ekki tæmandi og gæti tekið breytingum í ferlinu

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur þessarar rannsóknar er m.a. að afla gagna og upplýsinga svo hægt sé að greina áhrif samgönguúrbóta. Niðurstöður þessarar rannsóknar munu opinberir aðilar geta notað til að rökstyðja ákvarðanir og að einhverju leyti notað til að gera sér auðveldara að forgangsraða verkefnum. Þá mun rannsóknin vonandi leiða í ljós hvort og þá hvaða innviði þarf að styrkja meðfram samgönguúrbótum. Í því samhengi er bent á að í kjölfar samgönguúrbóta hefur þjónustu heima fyrir í einhverjum tilfellum minnkað vegna þess að íbúarnir fara að sækja þá þjónustu lengra í burtu vegna bættra samgangna. Að auki mun þessi rannsókn mögulega leiða í ljós ákveðna varnagla sem bæri að varast í framtíðarsamgönguúrbótum.  
Til viðbótar verða við gerð þessarar rannsóknar til mikilvæg gögn fyrir framtíðina þegar kemur að því að meta áhrif tilvonandi samgönguúrbóta í fjórðungnum og má t.d. nefna mikilvægi þess að hafa viðhorfsgögn frá deginum í dag þegar kemur að því að meta áhrif Fjarðarheiðarganga eftir einhver ár.