Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Endurheimt staðargróðurs á framkvæmdasvæðum

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Við uppgræðslu á röskuðum framkvæmdasvæðum er í vaxandi mæli horft til þess að halda í þá ásýnd og gróðurfar sem fyrir er. Undanfarna áratugi hefur orðið hröð þróun á aðferðum sem hægt er að nýta til að endurheimta staðargróður, m.a. hér á landi. Dæmi eru um nýframkvæmdir þar sem gróðursverði af framkvæmdasvæði er haldið til haga og hann nýttur í stað hefðbundinn aðferða sem gjarnan fólust í að sá tilbúinni fræblöndu til að loka röskuðu yfirborði. Síðasta dæmið er endurnýjun Þingvallavegar, þar sem heilar gróðurtorfur voru teknar úr vegstæði og lagðar út aftur við frágang á vegfláum. Vegna þess að Þingvallavegur liggur um þjóðgarð, sem þar að auki er á heimsminjaskrá UNESCO, liggur mikið við að gróðurfari og ásýnd svæðisins sé raskað sem minnst. Þar að auki má ekki flytja gróður inn í þjóðgarða, og því var sjálfgefið að byggja á aðferðum sem nýta þann gróður sem fyrir var. 
 
Skipulögð vöktun og árangursmat gerir kleift að grípa inn í tíma ef aðgerðir skila ekki tilætluðum árangri, auk þess að bæta staðarþekkingu sem nýtist við skipulag og framkvæmd síðari verkefna. Í verkefninu VegVist, sem styrkt var af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar, var m.a. unnið að þróun aðferða við að vakta og leggja mat á árangur mismunandi uppgræðsluaðgerða í tengslum við vegagerð. Nokkur svæði voru metin út frá þeirri aðferðafræði, m.a. nýframkvæmdirnar við Þingvallaveg, sem hófust 2018. 
 
Vegna stöðu Þingvallaþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO er sérstaklega mikilvægt að eiga greinargóðar upplýsingar um framkvæmdina og fylgja árangursmati eftir. Í þessu verkefni er fyrirhugað að endurtaka og bæta við mælingar á gróðurfari og ásýnd vegfláa sem gerðar voru sumarið 2019, enda þarf árangursmat að ná yfir lengri tíma til að vera marktækt. Jafnframt er áætlað að nýta niðurstöður úr þessari og fyrri rannsóknum til að endurskoða og bæta leiðbeiningar um aðferðir við endurheimt staðargróðurs og gera þær aðgengilegar á sérstökum fræðsluvef. 

Tilgangur og markmið:

 

www.namur.is

Gerð Þingvallavegar er stærsta vegaframkvæmdin hér á landi þar sem gróðurtorfur úr vegstæði hafa verið nýttar við frágang vegfláa. Mat á árangri þeirra aðgerða er mikilvægt í ljósi þess að svæðið er á heimsminjaskrá UNESCO og til að geta lært af reynslunni um hvað gekk vel og hvað hefði mátt betur fara—enda má búast við að verkefnið geti orðið fyrirmynd fyrir síðari framkvæmdir. Til að fyrirliggjandi þekking og reynsla af endurheimt staðargróðurs nýtist sem best skiptir máli að hún sé aðgengileg fyrir þá aðila sem koma að undirbúningi, skipulagi og innleiðingu vegagerðarverkefna og annarrar mannvirkjagerðar.  
 
Þetta verkefni eru hugsað sem sjálfstætt framhald af verkefninu VegVist, sem unnið hefur verið að með hléum frá 2014 með styrkjum frá Vegagerðinni. Tilgangur verkefnisins er annars vegar að meta skammtímaárangur af uppgræðslu vegfláa Þingvallavegar með heilum gróðurtorfum úr vegstæði og hins vegar að bæta aðgengi að leiðbeiningum og rannsóknaniðurstöðum um endurheimt staðargróðurs.  
 
Markmið verkefnisins eru: 
(1) Að endurtaka mælingar sem gerðar voru í og við vegfláa Þingvallavegar sumarið 2019 (fyrsti áfangi sem lagður var 2018) og bæta við nýjum mælingum af þeim hluta vegarins sem lagður var í öðrum áfanga sumarið 2019.  
(2) Bera gróðurfar og ásýnd vegfláa saman við gróðurfar grenndargróðurs og meta (skammtíma) gróðurframvindu í vegfláunum.  
(3) Útbúa opinn fræðsluvef, þar sem hægt verður á einum stað að nálgast bæði einfaldar og ítarlegri leiðbeiningar um endurheimt staðargróðurs á framkvæmdasvæðum og helstu niðurstöður innlendra rannsókna á þessu sviði.