Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Farsímagögn inn í umferðarlíkan - framhald

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Á síðasta ári styrkti rannsóknasjóðurinn verkefnið „Farsímagögn inn í umferðarlíkan – fyrstu skref“. Því verkefni var ætlað að vera nokkurs konar frumathugun á efninu, þar sem markmiðið var að leiða í ljós þörf, umfang og helstu forsendur verkefnisins og draga fram þá möguleika sem koma til greina við lausn verkefnisins. Hluti verkefnisins var að leita samstarfs við símafyrirtækin sem voru mjög áhugasöm um að taka þátt í verkefninu, og raunar fór áhugi símafyrirtækjanna fram úr björtustu vonum. Auk þess myndaðist gott samband við þá aðila innan Reykjavíkurborgar og sáu menn þar marga möguleika sem gætu nýst þeim við frekari þróun verkefnisins.

Í þessu verkefni er ætlunin að byggja á þeim góða grunni sem myndaðist í fyrri áfanga. Búið er að svara þeim spurningum hvort þetta sé hægt og nú skal einfaldlega lagt af stað. Í samstarfi við sama símafyrirtæki og áður verður þróaður gagnastraumur (gagnalind) sem út frá farsímagögnum gefur upplýsingar um ferðahegðun fólks á höfuðborgarsvæðinu. Það sem þessi gagnastraumur skal skila af sér eru svokölluð OD-fylki sem lýsa ferðum fólks yfir tiltekið tímabil. Lögð er rík áhersla á dulkóðun, að engin gögn verði persónugreinanleg og ekki verði hægt að tengja einstakar ferðir við heimilisföng.

Ferðavenjukannanir eru góðar til síns brúks og í raun nauðsynlegar til margra hluta. Þær eru hins vegar einungis punktmæling (ef svo má segja) á ferðahegðun auk þess sem þær eru einungis framkvæmdar á nokkurra ára fresti. Upplýsingar um ferðir byggt á farsímagögnum gefur möguleika á alls konar greiningum, t.d. á dægursveiflum, áhrifum lokana, veðurs o.fl.      

Tilgangur og markmið:

 

Í fyrri áfanga þessa verkefnis var leitað svara við þeirri spurningu hvað þurfi til að geta nýtt gögn frá farsímafyrirtækjum um hreyfanleika farsímanotenda inn í umferðarlíkan.  Niðurstaðan er einróma á þá leið að þetta sé hægt, geti nýst á ýmsa vegu og ávinningurinn sé mikill fyrir marga.  Fyrst og fremst hefur verið horft á þetta út frá greiningum á umferð en möguleikarnir eru hins vegar nánast óþrjótandi. Skýrsla þess verkefnis er á lokametrunum og verður gefin út á næstu vikum.

Til að svara því hver sé tilgangur og markmið verkefnis er rétt að horfa á hvert markmið fyrra verkefnisins var. Tilgangur þess var að meta hvernig mætti standa að öflun gagna frá farsímafyrirtækjum og koma á samvinnu um öflun og vinnslu þessara gagna. Jafnframt var skoðað hvernig vinna mætti úr gögnunum þannig þau geti nýst inn í umferðarlíkan. Markmiðið var þannig að svara spurningunum hvað á að gera, hvernig á að gera það, hvernig á að nýta gögnin og hver er mögulega ávinningur af því?

Þessum spurningum hefur verið svarað á þann veg að áframhaldandi þróun er án nokkurs vafa ákjósanleg. Útkoman getur nýst á mörgum sviðum, ekki eingöngu varðandi umferðarlíkön og umferðarspár heldur jafnframt mörgum öðrum. Búnaður af þessu tagi opnar á möguleika þess að skoða flæði fólks eftir dögum eða jafnvel ákveðnum tímum dags, tilteknum atburðum o.s.frv.  Markmið þessa verkefnis er þó fyrst og og fremst að búa til gagnaveitu sem nýtist til að leggja mat á flæði umferðar, þó möguleikarnir fyrir enn frekari þróun séu nánast óendanlegir.