Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Handbók fyrir framkvæmdaeftirlit hjá Vegagerðinni

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Um er að ræða verkefni sem mannvirkjanefnd Vegagerðarinnar „Rannvirki“ setti fram sem áhersluverkefni á sínum tíma. Verkefnið hefur verið styrkt, en ekki hefur náðst að vinna að verkefninu nema að takmörkuðu leyti á undanförnum árum af ýmsum ástæðum. Á árinu 2017 var hafist handa við gerð handbókar fyrir eftirlitsaðila og er hún enn í vinnsluferli. Vorið 2019 kom út kver um eftirlit með framkvæmdum í vegagerð, en þar eru í raun einungis birtir þeir kaflar sem höfðu verið kláraðir, svo sem kaflar um eftirlit með útlögn mismunandi slitlaga, burðarlags, styrktarlags og fleira. Kverið var fjölfaldað og því dreift til eftirlitsaðila síðastliðið vor. Enn vantar þó nokkra kafla í handbókina, auk þess að leysa þarf úr nokkrum málum varðandi verksvið eftirlitsaðila, lagalega stöðu þeirra og einnig um ferli við undirbúning eftirlits. Í þessum áfanga verkefnisins verður haldið áfram gerð handbókar fyrir eftirlitsaðila, þar sem skýrt kemur fram hvað felst í þeirra starfi og hvað ekki. Farið verður ítarlega í gerð eftirlitsáætlunar í samráði við mannvirkjasvið og einnig lagalega stöðu eftirlitsaðila og skjalavistun gagna í samráði við skrifstofu forstjóra Vegagerðarinnar. Handbókin mun taka mið af endurskoðuðum verklagsreglum Vegagerðarinnar, frá hönnun, verkefnisstjórn, umsjón til eftirlits. Þegar fullbúin handbók liggur fyrir verður hún kynnt eftirlitsmönnum við verklegar framkvæmdir í vegagerð, svo og öðrum hagsmunaaðilum, svo sem hönnuðum, verkefnisstjórum, umsjónarmönnum og verktökum. Reiknað er með að meðlimir verkefnishópsins haldi námskeið fyrir eftirlitsaðila sem byggt verður á handbókinni á vormánuðum 2021.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að skýra hlutverk eftirlitsaðila í víðum skilningi við verklegar framkvæmdir Vegagerðarinnar með gerð aðgengilegrar handbókar fyrir eftirlitsaðila. Handbókin verður þannig að eftirlitsaðilar geta gripið til hennar, bæði til að minna sig á mismunandi ferli og einnig til að auðvelda samskipti við verktaka á verkstað eða á verkfundum. Markmiðið er að eftirlitið tryggi markviss vinnubrögð allra viðkomandi og að viðkomandi mannvirki uppfylli allar kröfur sem til þess eru gerðar, m.a. í útboðsgögnum. Annar tilgangur verkefnisins er að upplýsa eftirlitsaðila um eðli eftirlits með sérstöku námskeiðshaldi.