Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Áhrif hraða á magn mengandi efna frá umferð

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Umferð ökutækja, hér eftir umferð, er helsta uppspretta mengunar á höfuðborgarsvæðinu. Umferð og mengun tengd henni er ástæða þess að farið er yfir heilsuverndarmörk svifryks í nærri 75% tilfella (undanfarin 10 – 15 ár á mælistöðinni Grensás, GRE). Samkvæmt efnagreiningum er um 82% (malbik 49%, sót 31% og bremsur 2%) af svifrykinu í Reykjavík, við GRE í mars til maí 2015, vegna bílaumferðar[1]. Einnig geta köfnunarefnisoxíð vegna umferðar valdið skertum loftgæðum.

Áhrif þessarar mengunar eru þau að Umhverfisstofnun Evrópu telur að allt að 60 ótímabær dauðsföll megi rekja til útsetningar á fínu svifryki á Íslandi á hverju ári og auk þess allt að 5 dauðsföll vegna útsetningar á köfnunarefnisdíoxíði og óson[2].

Það er því mikilvægt að draga úr þessari mengun eins mikið og hratt og mögulegt er. Vitað er að magn mengandi efna fer meðal annars eftir hraða umferðar. Það flækir þó málið að sum efni aukast með auknum hraða, meðan önnur eru í lágmarki á ákveðnu bili og enn önnur jafnvel með flóknara samband.

Í þessu verkefni verður metið hvernig breyting á meðalhraða hefur áhrif á styrk helstu mengunarefna, sér í lagi PM og NOx. Hér verður bæði magn í útblæstri og vegna slits (PM) tekið með. Einnig verður skoðað hver áhrifin eru fyrir mismunandi tegundir og flokka bíla.


------
[1] Höskuldsson, P., & Thorlacius, A. (2017). Uppruni svifryks í Reykjavík. EFLA, 27 bls.
[2] European Environment Agency (EEA). 2019. Air quality in Europe. EEA Report No 10/2019. Retrieved from http://www.eea.europa.eu/publications/air-quality-in-europe-2012

Tilgangur og markmið:

 

Til að meta áhrif breytinga á hraðatakmörkunum, hraða, til að draga úr mengun er nauðsynlegt að vita hversu mikið og í hvaða átt magnið breytist. Það getur einnig verið breytilegt eftir því hvort horft er á útblástur eingöngu, eða einnig slit (og því ekki víst að niðurstaðan sé sú sama að sumri og vetri).

Helstu markmið og tilgangur verkefnisins eru því að:

* Reikna áhrif breytinga á umferðarhraða á uppsprettur:

  -Mengunar vegna útblásturs gasa (m.a. NOx).

  - Svifryksmengunar vegna útblásturs.

  - Svifryksmengunar vegna slits (m.a. malbik).

* Metin verða áhrif hraðabreytinga á magn mengandi efna:

  - Eftir tegund mengunar.

  - Eftir tegund bifreiða; sér í lagi fólksbíla og stærri farartækja.

* Niðurstöður verða settar í samhengi við núverandi mengun.