Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Greining gagna úr veggreini til ástandsskoðana

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Árið 2018 fjárfesti Vegagerðin í nýjum búnaði, veggreinir. Veggreinirinn auðveldar mælingar og mat á ástandi vega. Möguleikarnir til úrvinnslu eru margir en hægt er að fá upplýsingar um hjólför, hrýfi, yfirborð, lagþykktir og svo mætti lengi telja. Grunnbúnaður veggreinis er:

· Novatel GPS loftnet með IMU leiðréttingarbúnaði

· Tveir leysi (laser) mælar – annar niðurvísandi þannig að hægt sé að fá nákvæma mælingu á vegyfirborði (t.d. hjólfaramælingar) og hinn uppvísandi t.d. til að mæla þversnið jarðgangna. Hægt er að vinna saman þessar mælingar við GPS staðsetningu og fá þá nákvæmt punktský, eða landlíkan af veginum og á svæðinu í kringum veginn.

· Þrívíddar hröðunarnemi er staðsettur hægra megin á afturás og notaður til að mæla hrýfi eða sléttleika vegar í lengdarstefnu.

· Greenwood leysi (laser) skannar, en þeir meta hrýfi beggja hjólfara.

· Þrjár myndbandsupptökuvélar eru á toppboga auk hitamyndavélar og fyrir miðju mastri er 360° myndavél.

· Þrjár jarðsjár eru á veggreininum, tvær 2Ghz til að nákvæmnisgreina efstu lög í veghloti og svo 400 Mhz fyrir dýpri mælingar í vegi, allt niður á 5 metra.

Með veggreininum var keyptur hugbúnaður, Road Doctor, sem er notaður til að vinna úr mælingum sem framkvæmdar eru með veggreininum, en einnig má tengja falllóðsmælingar, upplýsingar úr slitlagabankanum og fleira inn í hugbúnaðinn.

Með stór gagnasett sem þessi og fjölbreytta möguleika til úrvinnslu er mikilvægt að koma sér saman um hvernig er best að nýta upplýsingarnar. Íslenska vegakerfið er byggt upp af mismunandi vegbyggingum, við ólík skilyrði þess vegna er nauðsynlegt að leggjast í rannsóknarvinnu og skoða hvernig aðrar þjóðir eru að nýta gögnin og þróa aðferðir sem henta íslenska vegakerfinu. Til þess að niðurstaðan verði sem best er verkefnið samstarfsverkefni á milli hönnunar- og framkvæmdadeildar þ.a. ólík sjónarmið og reynsla komi fram.

Tilgangur og markmið:

 

Íslenska vegakerfið er stórt og víðfemt og þess vegna áskorun að fylgjast með ástandi þess og forgangsraða fjármunum sem fást í viðhald og endurbætur. Með nýjum veggreini er miklum upplýsingum safnað saman, en leggjast þarf í rannsóknar- og þróunarvinnu til þess að tryggja að gögnin nýtist veghöldurum og hönnuðum sem best.

Verkefnið fellst í þróun á vinnslu gagna úr veggreini Vegagerðarinnar, þ.a. nýta megi betur þá möguleika sem veggreinirinn bíður upp á. Teknir yrðu fyrir 2-5 km kaflar (einn með malbiki og annar með klæðingu) sem væru greindir og búið til sniðmát sem nýta mætti við greiningu vandamálakafla. Gögnin sem koma úr veggreininum og við falllóðsmælingar gefa mikla möguleika við ástandsmat og til að bera kennsl á brotmyndir vega. Verkefnið yrði samvinnuverkefni hönnunar- og framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar til þess að tryggja að ólík sjónarmið komi fram og afurðin nýtist sem best. Þannig væri þetta fyrsta skrefið í þróun afurðar sem væri hægt að nýta og þróa áfram.

Það sem við mögulega mætti skoða í væri t.d.:

·         Hjólfaradýpt

·         Veltigreining

·         IRI

·         Falllóðsmælingar

·         Raki í malbiki og undirbyggingu

·         Þykkt laga í veginum greind með jarðsjá

Samhliða vinnslu gagnanna þyrfti að setja fram viðmiðunargildi um það hvenær ástand vega er ásættanlegt og hvenær ekki. Einnig væri mögulega hægt að þróa einhvers konar einkunnargjöf fyrir vegi þar sem vegnir eru inn mismunandi þætti sem mældir eru. Einnig er vel hugsanlegt að einhver „trend“ um samhangandi þætti komi í ljós. Markmiðið er því að nýta gögn veggreinisins með markvissum hætti, bæði við mat á viðhaldsaðgerðum og hönnun styrkinga og endurbygginga.