Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Virkar hraðahindranir

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Hraðakstur er víða vandamál í umferðinni.  Verði slys aukast líkur á meiðslum því meiri sem hraði ökutækja er.  Einnig eykst viðbragðstími ökumanna eftir því sem að hraðinn er meiri.  Á Íslandi liggur þjóðvegurinn í gegnum mörg þéttbýli og það er oft áskorun að ná niður ökuhraða þegar ekið er um þéttbýlið.  Skiptar skoðanir eru á að lækka hámarkshraða á þjóðvegum í gegnum þéttbýlin.  Oft dugar ekki til að breyta leyfilegum hámarkshraða, til þess að ná hraða niður þarf oft að fara í hraðatakmarkandi aðgerðir.  Erfitt getur verið að útfæra lausn sem hentar ólíkum hópum vegfarenda, t.d. fara lausnir sem eru æskilegar gangandi og hjólandi vegfarendum ekki endilega vel við umferð stærri ökutækja.  Svokallaðar "virkar hraðahindranir" (e. active speed bumps) hafa verið settar upp í ýmsum útfærslum víða í nágrannalöndunum.  Í Svíþjóð hefur verið lögð áhersla á þróun ákveðinnar virkrar hraðahindrunar sem hafa reynst Svíunum afar vel og rannsóknir sýna að ávinningurinn er svipaður, í fækkun umferðarslysa, og þegar hraðamyndavél er sett upp.  Í stuttu máli þá virka þessar gerðir hraðahindrana á þann veg að skynjari mælir hraða ökutækja og virkjar hraðahindrunina sé ökutæki ekið of hratt. 

Í þessu rannsóknarverkefni er ætlunin að kynna sér þessa lausn vel, hvar hún hentar og hvað þarf til til þess að koma slíkri lausn upp.  

Í þessu rannsóknarverkefni er ætlunin að kynna sér þessa lausn vel, hvar hún hentar og hvað þarf til til þess að koma slíkri lausn upp.  

 

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að finna hentugan stað til þess að prufa þessa gerð hraðahindrunar. Skoða þarf vel staðsetninguna út frá ökutækjasamsetningu, hvort hraði sé vandamál og umhverfi vegarins.  Í framhaldinu verður lausnin mátuð við staðinn og gangi allt upp þá er stefnt á að útfæra lausnina af sjóði umferðaröryggisaðgerða fyrir árið 2021.  Markmiðið með virkum hraðahindrunum er að koma í veg fyrir hraðakstur á þjóðvegum í gegnum þéttbýli með lausn sem hefur ekki neikvæð áhrif á þungaflutninga og stærri ökutæki sem þurfa að komast leiðar sinnar.

Rannsakendur ætla að kynna sér vel hvað þarf til þess að koma upp virkri hraðahindrun, hvaða búnað þarf, skilti og fl. sem fylgir lausninni.  Markmið verkefnisins er að undirbúa uppsetningu virkrar hraðahindrunar sem yrði framkvæmd árið 2021.  Reynsla nágrannalandanna á sambærilegum lausnum verður einnig könnuð.  Rannsakendur eru með tengiliði í Svíþjóð sem sérhæfa sig í ákveðinni lausn af virkri hraðahindrun.