Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Áhrif vinds á farartæki - Þróun reiknilíkans

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Markmið verkefnisins er að meta hvers lags vindaðstæður eru hættulegar farartækjum á vegum landsins. Við vindaðstæður er átt við að taka mið af vindhraða, stefnu vindsins miðað við stefnu farartækisins, aðstæður á vegi og hraða farartækisins. Slys sem geta orðið eru að farartæki rennur, snýst, lyftist eða veltur. Farartækjunum er skipt upp í flokka þar sem stærð og þyngd þeirra hafa áhrif á slysahættu.

Til þess að meta þessar hættuaðstæður er útbúið og unnið með reiknilíkan sem byggir að mestu leyti á útreikningum úr greinum og rannsóknum um þetta viðfangsefni, innlendum sem erlendum. Útreikningarnir taka mið af vindhraða, hraða farartækis, stefnu vinds og farartækis, núningi farartækis við veg, stærð og þyngd farartækis ásamt styrkleika áhrifa vindsins á farartækið. Þar sem þessir útreikningar eru viðamiklir og fyrirbærið flókið þarf að einfalda ýmis atriði við gerð líkansins. Það skilar grafi sem sýnir hvort farartæki er í slysahættu við þær aðstæður sem gefnar eru upp.

Niðurstöðurnar eiga að hjálpa Þjónustudeild Vegagerðarinnar við mat á því hvenær rétt er að loka vegum vegna vindaðstæðna.

Í fyrsta áfanga verkefnisins (styrkveiting Rannsóknarsjóðs 2019) hefur líkanið verið byggt upp í fyrstu útgáfu. Í framhaldinu þarf að skoða umferðarslys sem hafa átt sér stað við aðstæður þar sem vindur spilaði inn í og bera saman við niðurstöður líkansins. Einnig skal nýta upplýsingar um sérlega vindasama staði landsins til þess að hægt sé að skoða þá sérstaklega í líkaninu.

Búið er að setja upp einfalt viðmót fyrir líkanið og það mun þróað frekar í samráði við notendur á Þjónustudeild Vegagerðarinnar. Einnig verða flokkar farartækjanna skoðaðir betur. Eins og er eru flokkarnir þrír; smárútur, tómar/hálftómar rútur og flutningabílar og fullar rútur og flutningabílar. Þeir voru valdir í fyrsta áfanga þar háum farartækjum er hætta búin í hvassviðri. Hins vegar er nauðsynlegt að fá niðurstöður fyrir minni farartæki (einkabíla) líka og því verður vinna lögð í það.

Tilgangur og markmið:

 

Verkefnið styður með beinum hætti við það hlutverk Vegagerðarinnar að stuðla að öruggum og hagkvæmum samgöngum.

Afurð verkefnisins er reiknilíkan sem Þjónustudeild Vegagerðarinnar mun nýta með beinum hætti í ákvarðanatöku um lokun vega í varhugaverðum vindaðstæðum. Bættur grundvöllur fyrir þá ákvarðanatöku er mikilvægur þar sem réttar tímasetningar á lokun vega hafa mikla þýðingu frá öryggis- og efnahagslegum sjónarmiðum.

Reiknilíkanið er byggt upp í verkefninu með því að vinna úr alþjóðlegum rannsóknum á viðfangsefninu, hagnýta þær í útreikningum og setja niðurstöður fram í notendaviðmóti.