Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Nýting malbikskurls í burðarlag vega

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Alþjóðakröfur til endurvinnslu, endurnýtingar og endurnotkunnar úrgangsefna eru að aukast. Einnig eru kröfur til efnisurðunar að aukast, bæði hvað varðar magn og gæði þess efnis sem er urðað. Á Íslandi hefur undanfarin ár og áratugi verið fræst ofan af malbiki sem þarf að endurnýja; vegna þessa hafa safnast saman haugar af malbikskurli. Malbikskurl er gott efni sem best væri að nýta í nýtt malbik en nauðsynlegt er að hafa fleiri notkunar möguleika, og er þá hægt að nýta efnið í burðarlag vega og stíga. Á hinum Norðurlöndunum er vel þekkt að nýta efnið í burðarlag vega bæði óbundin sem og bikbundið burðarlag.

Haustið 2019 var lagður út tilraunakafli á Krýsuvíkurvegi þar sem malbikskurlið var notað á mismunandi hátt:

·   Kafli 1: Óbundið burðarlag, 100% efni úr námu

·   Kafli 2: Óbundið burðarlag, 20% malbikskurl og 80 % efni úr námu

·   Kafli 3: Óbundið burðarlag, 40% malbikskurl og 60 % efni úr námu

·   Kafli 4: Óbundið burðarlag, 60% malbikskurl og 40 % efni úr námu

·   Kafli 5: Efra, 100% malbikskurl (5 cm) og neðra, óbundið burðarlag, 100% efni úr námu (10 cm)

·   Kafli 6: Efra, kaldblandað malbik (5 cm) og neðra, óbundið burðarlag, 100% efni úr námu (10 cm)

Þegar burðarlagið var lagt út var tekin kornakúrfa, bikinnihald mælt, framkvæmt plötupróf ofan á burðarlagið ásamt falllóðsmælingu. Einnig var kaflinn mældur með veggreini Vegagerðarinnar.

Þar sem styrkur burðarlags með malbikskurli getur stífnað með tímanum er nauðsynlegt að halda áfram að fylgjast með tilraunakaflanum sem og öðrum vegum þar sem malbikskurl hefur verið nýtt. Ásamt því að halda áfram að mæla og skoða þróun vega þar sem malbikskurl hefur verið nýtt, þarf einnig að kortleggja betur reynslu annarra þjóða í nýtingu malbikskurls í burðarlag vega.

Til stendur að leggja annan tilraunakafla í sumar þar sem kafli 1, 2, 3 og 6 verða endurteknir, en mögulega verður kaldblandaða malbikið lagt þykkara.

Tilgangur og markmið:

 

Endurvinnsla og endurnýting iðnaðarúrgangs er alltaf að aukast í heiminum í dag. Hugmyndin í þessu rannsóknarverkefni er að kanna möguleika á endurvinnslu og endurnýtingu malbikskurls í burðarlag vega. Kanna þarf hvernig aðrar þjóðir nýta efnið og eiginleika efnisins þegar það er komið í veghlotið. Hugmyndin er að líta til hinna Norðurlandanna en einnig að líta til leiðbeiningarita sem Vegagerðin hefur gefið út.

Leggja út tilraunakafla þar sem malbikskurl er nýtt og fylgjast með breytingum á eiginleikum burðarlagsins s.s. stífni og burðarþoli með tíma.

Rannsóknarverkefnið leiðir vonandi til minni uppsöfnunar malbikskurls þar sem efnið verði nýtt í burðarlag vega. Höfundar telja að malbikskurl sé gott efni sem réttast væri að nýta í efstu lög vegarins.