Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Notkun þurrdokku og efnisins Humidur við bryggjuviðgerðir

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Sumarið 2018 fékk Sjótækni (áður Fiskeldisþjónustan) umboð hér á landi fyrir fyrirtækið Acotec í Belgíu sem sérhæfir sig í viðgerðum á mannvirkjum í sjó eða vatni hvort heldur sem er úr steypu eða stáli. Notað er sérstakt efni, Humidur, sem flöturinn er úðaður með og er unnið við viðgerðirnar í sérstakri þurrdokku eða þurrkví við þilin þannig að ekki þarf að gæta flóðs og fjöru við viðgerðirnar og hægt að vinna fyrir neðan vatnsborð. Við viðgerðina er allt þilið hreinsað af lífrænum efnum og soðið í götin sem myndast hafa. Þegar gert hefur verið við götin er þilið sandblásið og efninu Humidur úðað á stálþilið til að verja það fyrir álagi af völdum lífvera og sjávar. Efnið Humidur er margreynt við ýmsar aðstæður um allan heim og hefur sýnt sig að vera sterkt og endingargott auk þess sem það er umhverfisvænt og seytir ekki efnum út í umhverfið. Efnið hefur hins vegar ekki verið prófað enn þá við íslenskar aðstæður en ætlunin með þessu verkefni er að fá reynslu á notkun þess hér á landi.

Stálþilið á viðlegukanti í Tálknafjarðarhöfn var byggt upp úr 1980 og brýn þörf er orðin á viðgerð þar sem við skoðun 2017 kom í ljós að komin eru göt á þilið og hætt við að fyllingarefni sé farið að leka út. Sjótækni og Tálknafjarðarhreppur hafa hug á að prófa aðferðafræði og tækni Acotec við viðgerð á þilinu og fá þannig reynslu af þessum viðgerðum hér á landi.  Ætlunin er að þessi viðgerð verði unnin sem tilraunaverkefni um framkvæmd og kostnað við notkun þurrdokkar og viðgerða á stálþilinu með efninu Humidur. Í framhaldi verður fylgst með ástandi þilsins næstu árin og þannig fæst reynsla af endingu efnisins Humidur við íslenskar aðstæður. Þessa reynslu verður síðan hægt að nýta við viðgerðir annars staðar á landinu.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að prófa notkun þurrdokku við bryggjuviðgerðir á Tálknafirði þar sem reynir á íslenskar aðstæður við viðgerðir á stálþili í sjó með nýjum aðferðum hér á landi. Þurrdokkan er látin síga í sjó við þilið, fest við þilið með þéttikanti og sjó síðan dælt úr dokkunni þannig að unnið er í þurru umhverfi við viðgerðina og starfið ekki bundið af flóði og fjöru. Efninu Humidur er síðan úðað á þilið og myndar það húð á stálþilinu sem ver það fyrir eyðingu náttúruafla og hindrar ásætur í að festast við þilið. Efnið er umhverfisvænt og hefur ekki áhrif á lífríki.

Markmið verkefnisins er að svara spurningunni um hvernig tæknin við notkun þurrdokku og aðferðafræði hennar nýtist við íslenskar aðstæður auk þess sem reynsla fæst af notkun efnisins Humidur hér á landi. Jafnframt gengur verkefnið út á að byggja upp gagnabanka varðandi kostnað við verkefnið, endingu efnisins Humidur við íslenskar aðstæður og verklag við viðgerðina. Stefnt er að markvissri skráningu á öllum þáttum verksins frá upphafi til enda með myndatökum, sýnatökum, mælingum og rannsóknum. Þessar skráningar verða síðan nýttar við áframhaldandi rannsóknir á stálþilinu til að geta sýnt fram á endingu efnisins við raunverulegar aðstæður hér á landi. Með því móti er byggður upp gagnabanki um notkun efnisins sem hægt er að vísa í þegar verið er að meta viðgerðarþörf á mannvirkjum í sjó og vatni. Þessa aðferð má nota við að sinna viðhaldi á stálþiljum og steypuflötum svo sem í brúarstöplum og víðar þar sem ágangur sjávar og vatns mæðir mikið á og ná niður rekstrarkostnaði við viðhald þeirra. Jafnframt fæst reynsla á verklag og kostnað við notkun þurrdokku Acotec við viðgerðir á mannvirkjum undir sjávarmáli við íslenskar aðstæður.