Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Deiliskipulag þjóðvega í þéttbýli

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Á síðustu árum og áratugum hefur það aukist jafnt og þétt að unnið er deiliskipulag fyrir vegsvæði, þegar kemur að framkvæmdum á vegakerfinu. Þetta á sérstaklega við þar sem vegir eru í þéttbýli. Ætla má að á næstu árum muni þessi þróun halda áfram. Kemur það m.a. til  vegna krafna um að upplýsa almenning um veghelgun, hljóðvist og öryggismál, og tilkomu Borgarlínu. Með Borgarlína verður töluverð aukning á tilvikum þar sem unnið er deiliskipulag fyrir vegsvæði, þar sem samþætta þarf ólíka samgöngumáta og landnotkun innan vegsvæðisins.

Ekki er augljóst hvort og þá hvenær er æskilegt að unnið sé deiliskipulag vegna framkvæmda á vegum. Þar að auki eru þau deiliskipulög sem þegar hafa verið unnin fyrir vegsvæði ólík og ekki rammi til staðar fyrir þau atriði sem æskilegt er að sé tekið tilli til eða fjallað um við gerð deiliskipulags vegsvæða í þéttbýli.

Til að draga fram þau atriði sem þarf að hafa í huga í sambandi við deiliskipulag vegsvæða, fjallar verkefnið annars vegar um hvort og þá hvenær skuli vinna deiliskipulag fyrir þjóðvegi í þéttbýli. Hins vegar er fjallað um þá þætti og úrlausnaratriði sem þarf að leysa þegar unnið er deiliskipulag fyrir vegsvæði.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að svara spurningunni hvort og þá í hvaða tilvikum skuli vinna deiliskipulag fyrir þjóðvegi í þéttbýli; og draga fram þau atriði sem þarf að hafa í huga þegar unnið er deiliskipulag fyrir vegsvæði í þéttbýli.

Verkefnið er talið eiga erindi við Vegagerðina þar sem Vegagerðin hefur í mörgum tilfellum frumkvæði að slíkum verkefnum, í samvinnu við sveitarfélögin

Til að svara spurningunni um hvort og þá hvenær skuli unnið deiliskipulag fyrir vegi í þéttbýli verða eftirfarandi þættir lagðir til grundvallar:

 • Lög og reglur sem fjalla um deiliskipulag og vegi.
 • Greining á þeim deiliskipulagsáætlunum sem hafa þegar verið unnar fyrir vegsvæði á höfuðborgarsvæðinu.
 • Viðtöl við Vegagerðina, Skipulagsstofnun og skipulagsfulltrúa sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Í þeim tilvikum þegar unnið er deiliskipulag fyrir vegsvæði geta komið upp fjölmörg atriði sem ekki er augljóst hvernig er æskilegt að útfæra í skipulagsvinnunni. Fjallað verður um eftirfarandi þætti sem tengjast vinnslu deiliskipulagsáætlana fyrir vegsvæði, sem og þau atriði sem gætu komið fram í greiningu og í viðtölum. Eftirfarandi þættir verða lagðir til grundvallar í þeirri vinnu:

 • VSÓ Ráðgjöf hefur á síðustu mánuðum unnið að gerð deiliskipulags fyrir Vesturlandsveg innan Mosfellsbæjar fyrir og í samráði við Vegagerðina og Mosfellsbæ. Sú reynsla mun nýtast til að leggja mat á hvaða þættir það eru sem nytsamlegt er að draga fram, hvað varðar vinnslu á deiliskipulagi fyrir þjóðveg í þéttbýli.
 • Dæmi um þessa þætti eru:
  • Afmörkun skipulagsmarka
  • Afmörkun veghelgunarsvæðis
  • Afmörkun veghelgunarsvæða fyrir framtíðargatnamót (mislæg, hringtorg eða önnur útfærsla)
  • Aðliggjandi deiliskipulagsáætlanir
  • Auglýsingaskilti og önnur mannvirki á vegsvæði
 • Samráð  við Vegagerðina, Skipulagsstofnun og skipulagfulltrúa sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
 • Greining á  skipulagsáætlunum sem þegar hafa verið unnar fyrir vegsvæði á höfuðborgarsvæðinu. Unnið verður yfirlit um efnistök skipulagsáætlana, til að sjá hvort til staðar sé rauður þráður í nálgun þeirra. Óskað verður eftir að fá umsagnir Skipulagsstofnunar, Vegagerðarinnar og mögulega annarra hagaðila við samþykktar skipulagsáætlanir til að draga fram hvaða útfærslur eru æskilegar við framsetningu deiliskipulags.