Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Deiliskipulag á lágsvæðum - Leiðbeiningarit

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Á síðustu árum hefur á Íslandi, eins og annars staðar í heiminum, færst í aukana að áhugi sé á að byggja á lágsvæðum og um leið er unnið að deiliskipulagi slíkra svæða. Dæmi um þetta eru uppbygging á Norðurbakka í Hafnarfirði, Austurbakka í Reykjavík og í vinnslu eru skipulagsáætlanir fyrir Kársnes í Kópavogi og Höfða í Reykjavík, sem koma til með að verða í uppbyggingu á næstu árum og áratugum. 

Samhliða hafa rannsóknir sýnt fram á að staða sjávar hefur verið hækkandi og kemur væntanlega til með að gera áfram. Þrátt fyrir að hækkun sjávar gæti mismikið eftir svæðum og óvissa er um hversu mikil sú hækkun gæti orðið, þá er mikilvægt að skipulagsáætlanir, sem og aðrar áætlanir, taki tillit til þessa áhrifamikla þáttar.

Verkefnið setur fram á einfaldan hátt þau atriði sem tengjast skipulagi lágsvæða og hvers konar skilmála sé æskilegt að setja í deiliskipulagi til að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum sjávarhækkunar og flóða.

Tilgangur og markmið:

 

Hækkun sjávar og áhrif þess á mannvirki hefur verið í brennidepli á síðustu árum en telja má að nokkur vöntun sé á því að skipulag lágsvæða taki föstum tökum á þessum mikilvægu þáttum.

Markmið verkefnisins er annars vegar að draga fram og greina þau lög og reglugerðir sem fjalla um skipulag lágsvæða, og hins vegar að setja fram á einfaldan hátt helstu atriði sem þarf að hafa í huga þegar unnið er deiliskipulag á lágsvæðum. Um er að ræða gátlista sem tekur á kröfum um skipulag á lágsvæðum, þar sem hækkun sjávarstöðu af völdum loftslagsáhrifa getur haft áhrif.

Forsenda þess að verkefnið er talið eiga erindi við Vegagerðina er að Siglingasvið Vegagerðarinnar er umsagnaraðili fyrir aðalskipulag og deiliskipulag lágsvæða. Gátlisti sem þessi getur aðstoðað skipulagshöfunda við að setja fram skipulagsáætlanir sem fjalla um og sýna þau atriði sem þarf að fjalla um við uppbyggingu á lágsvæðum, áður en þau koma til umsagnar Vegagerðarinnar. Tilgangur verkefnis er ekki að koma með heildarlausn um hvernig eigi að vinna deiliskipulag á lágsvæði, enda eru aðstæður á hverjum stað ólíkar og til dæmis ekki raunhæft að setja sama gólfkóta á öllum svæðum. Heldur er listinn upptalning á því sem skipulagshöfundur þarf að taka til athugunar, skýra frá eða eftir atvikum óska eftir umsögn eða úttekt frá fagaðilum. Í einhverjum tilfellum getur tilgangur gátlistans verið sá að skipulagshöfundur sýnir hæðarsetningu húsa og tekur fram í hvaða hæðarkerfi hæðarsetningin er. En borið hefur á því að þessar upplýsingar komi ekki fram í þversniði deiliskipulags og í einhverjum tilvikum hefur vafist fyrir fólki hvaða hæðarkerfi er notast við, hvort um er að hæðarkerfi svæðis, svo sem Hæðarkerfi Reykjavíkur, hæðarkerfi Landmælinga Íslands eða hæðarkerfi Sjómælinga.