Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Vegagerðin

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Markmiðin, sem gilda á tímabilinu 2016-2030, eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs á gildistímanum. Aðalsmerki Heimsmarkmiðanna er að þau eru algild og því hafa aðildarríkin skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi.

Ríkisstjórn Íslands hefur í júní 2018 samþykkt forgangsröðun við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna hérlendis. Forgangsmarkmiðin endurspegla áherslur stjórnvalda við innleiðingu Heimsmarkmiða næstu árin. Í verkefninu verður skoðað hvernig Vegagerðin getur innleitt markmið sem að henni snúa. Nokkur markmið Ríkisstjórnarinnar tengjast verkefnum Vegagerðarinnar, t.d. þegar fjallað er um áreiðanleika innviða (markmið 9 um nýsköpun og uppbyggingu), hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum (markmið 7 um sjálfbæra orku), áhersla á almenningssamgöngur (markmið 11 um sjálfbær samfélög) og um fækkun umferðarslysa (markmið 3 um heilsu og vellíðan). Skoðaðir verða fleiri þættir í starfsemi Vegagerðarinnar sem tengjast öðrum markmiðum, t.d. varðandi nýtingu auðlinda, úrgangsmál og jafnréttismál.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að setja fram forgangsmarkmið Vegagerðarinnar vegna innleiðingar Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Settar verða fram tillögur að mælikvörðum og matsþáttum til að fylgjast með þróun þessara þátta.

Verkefnið fellur að áherslu Rannsóknarsjóðsins varðandi umhverfismál þar sem áhersla er á sjálfbæra þróun og betri nýtingu auðlinda. Verkefnið fellur að rannsóknarstefnu Vegagerðarinnar og markmiða sjóðsins um að hafa frumkvæði að rannsókna- og þróunarstarfi sem stuðlar að því að Vegagerðin geti sinnt hlutverki sínu sem og að afla nýrrar þekkingar og innleiða hana í starfsemi Vegagerðarinnar.

Verkefnið styður við markmið 4.4 í Samgönguáætlun um umhverfislega sjálfbærar samgöngur og markmið 4.2 um öryggi í samgöngum.