Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Áhrif vega á þéttleika fugla

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Það er vel þekkt erlendis að umferð hefur áhrif á lífslíkur fugla og allt að 340 milljónir fugla deyja árlega vegna árekstra við ökutæki á vegum í Bandaríkjum. Vegir hafa einnig áhrif á þéttleika varpfugla en áhrifin geta verið breytileg eftir tegundum, gróðurhæð og umferðarþunga. Hávaði frá umferð getur haft áhrif á fugla sem treysta á söng til að halda óðali og ná sér í maka. Rannsóknir erlendis sýna að áhrifin af umferð er til staðar og er því meiri eftir sem umferðin er meiri.

Íslenski úthaginn er heimili margra fuglastofna sem eru einstakir á heimsvísu og endurspeglast þessi sérstaða í fjölda alþjóðlegra samninga sem Íslendingar eru aðilar að. Því er mikilvægt að vita hver áhrifin eru á fugla við nýlagningu eða uppbyggingu vegar, bæði vegna vegarins og umferðar um hann (fjöldi bíla yfir sumar (SDU)).

Hér á landi voru gerðar fyrstu athuganir á áhrifum umferðar á fugla sumarið 2018. Rannsóknin var að mestu leyti gerð á Suðurlandi en einnig nokkrar athuganir á Suðvesturlandi og Vesturlandi. Niðurstöður sýndu að þéttleiki nokkurra algengra mófuglategunda lækkaði marktækt í nálægð við vegi og þeim fækkaði meira við umferðaþyngri vegi.

Suðurland er afar frjósamt og er því áhugavert að skoða áhrif umferðar víðar til að draga megi víðtækari ályktanir um samband umferðar og fugla. Stefnt er að því að stækka sýnið sem aflað var sumarið 2018 með mælingum á tengslum fuglaþéttleika og umferðar víðar. Þó góðar vísbendingar fengjust um tengsl fugla við vegi, vantar enn nokkuð á tölfræðilegt afl til að byggja þau líkön sem duga til að spá megi almennt fyrir um hver áhrif vegagerðar verða á fuglaþéttleika. Slík líkön hafa mikið hagnýtt gildi t.d. fyrir umhverfismat og náttúruvernd.

Tilgangur og markmið:

 

Markmiðið rannsóknanna er að búa til spálíkön sem gera kleyft að spá fyrir um áhrif vega á þéttleika íslenskra mófugla. Þá er hægt að áætla áhrif vegagerðar á fugla áður en vegir eru lagðir eða uppbyggðir.

Í rannsókninni 2018 voru notaðir vegir með <500 SDU og >1000 SDU en niðurstöður sýndu að vel er hægt að nota breiðari umferðaskala þrátt fyrir litla sýnastærð. Í þessari rannsókn verða gerða athuganir á fuglum við vegi frá 1-20.000 SDU með áherslu á 100-5.000 SDU.

Rannsóknin 2018 var gerð að mestu leyti á Suðurlandi en það svæði er afar frjósamt vegna gosbeltisáhrifa. Rannsóknir hafa sýnt að munur er á þéttleika fugla í úthaga og á túnum miðað við frjósemi þess svæðis. Því er áhugavert að skoða áhrifa vega/umferðar á fugla utan Suðurlands og þar með geta betur staðfært niðurstöðurnar á allt landið. Til þess verður Vesturlandi  bætt við sem athugunar svæði en samhliða verða gerðar athuganir á Suðurlandi.

Niðurstöðurnar geta hjálpa til við að meta umhverfisáhrif vegna vegaframkvæmda. Einnig væri hægt að notast við niðurstöður þessara rannsókna til að spá áhrifum á fugla vegna umferðaraukningar t.d. vegna fjölgun/fækkun ferðamanna.