Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Samsetning og uppruni svifryks í Hvalfjarðargöngum

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Markmið með þessari rannsókn er að kanna eiginleika svifryks í Hvalfjarðargöngum. Þess er vænst að niðurstöður rannsóknarinnar verði verulegt innlegg í skilningi á þætti umferðar í svifryksmengun á Íslandi, sérstaklega þó á Höfuðborgarsvæðinu. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum getur svifryksmengun á Höfuðborgarsvæðinu orðið verulega mikil, sérstaklega í ljósi þess að jarðefnaeldsneyti er ekki notað hér á landi til kyndingar húsa. Á tímabilinu frá 17.01.17 til 13.06.18 var ryksýnum safnað úr Hvalfjarðargöngum. Sýnin voru tekin yfir tímabil þegar nagladekki voru í notkun og þegar sumardekk voru í notkun. Sýnum af ryki var safnað af ofan á skápum göngunum. Búið er að greina samsetningu grófari hluta sýnanna eða sk fallryk (> 10 micron) en eftir er að greina samsetningu á fínkorna ryki, s.k. svifryk (< 10 micron). Gerð var grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í skýrslu til Spalar, skýrslan fylgir þessari umsókn sem viðhengi.

Segja má að malbikið í göngunum sé langstærsti þáttur í uppruna fallryks í Hvalfjarðargöngum. Ryk sem myndast vegna útblásturs frá ökutækjum, sem fara um göngin, sem og vegna slits bremsuborða og dekkjaslits eru einnig stór þáttur í rykmynduninni í göngunum. Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hluta hvers þáttar. Rúmþyngd ryksins mælist tiltölulega lág eða um 1 g/cm3 sem bendir til þess að verulegur hluti ryksins sama stendur af léttu efni. Ljóst er að utan að komin efni eins og t.d. jarðvegur, foksandur eða eldfjallaaska eru a.m.k. ekki stór hluti ryksins í Hvalfjarðargöngum

Tilgangur og markmið:

 

Í fyrri áfanga verksins var sýnum safnað yfir um 1½ ár. Ekki stendur til að safna fleiri sýnum heldur verður unnið með þau sýni sem búið er að safna. Í fyrri áfanga rannsóknarinnar var unnið með sk fallryk. Í seinni áfanga verður unnið með fínna ryki eða sk svifryk.  Niðurstöður fyrri áfanga benda til þess að uppruni ryksins sé aðalega að finna í malbikinu og að nagladekk séu höfuðorsök fyrir framleiðslu á rykinu. Ástæða fyrir því að safna ryki úr göngunum er að sú að rykmyndun í göngunum er mikil og tiltölulega auðvelt að safna sýnum af rykinu. Gengið er út frá því að umferðartengd rykmengun, þ.e.a.s. rykmyndun á höfuðborgarsvæðinu sé sambærileg þeirri mengun sem myndast í Hvalfjarðargöngum. Af þessum sökum eru rykið í göngunum góður analog fyrir það ryk sem fellur til á Höfuðborgarsvæðinu. Þótt svifryksmengun á götum úti geti verið sýnileg, er erfitt (en gerlegt) að safna sýnum af svifryki í nægjanlega miklu magni til þess að gera ítarlegar rannsóknir á eiginleikum þess. Þar að auki er erfitt að greina uppruna svifryks, vegna fjölþættra breyta sem hafa áhrif á samsetningu og eiginleika þess. Í Hvalfjarðargöngum virðist, mjög lauslega áætlað, vera 10 sinnum meira svifryk en td á Grensásvegi. Af þessum sökum er tiltölulega auðvelt að safna sýnum af ryki í nægjanlegu magni til ítarlegrar rannsóknar í Hvalfjarðargöngum. Ástæða fyrir tiltölulega mikilli svifryksmengun er augljóslega afmörkuð rými Hvalfjarðarganga. Auk þess sem veðurfarsþættir eins og vindur og úrkoma eru ekki til staðar í Hvalfjarðargöngum. Með því að útiloka veðurfarsþætti er hægt að einblína á umferðatengda svifryksmengun

Þess er vænst að niðurstöður rannsóknarinnar verði verulegt innlegg í skilning á þætti umferðar í svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum getur svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu orðið verulega mikil samanborið það sem þekkt er annars staðar á Norðurlöndum sérstaklega í ljósi þess að jarðefnaeldsneyti er ekki notað hér á landi til kyndingar húsa.