Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Áhrif af innleiðingu deilibíla á ferðavenjur og bílaeign

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Tilgangur þessa rannsóknaverkefnis er að meta áhrif sem deilibílaþjónusta hefur á ferðavenjur og bílaeign íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Framkvæmd verður viðhorfskönnun meðal meðlima deilibílaþjónustunnar Zipcar til að svara hvort og með hvaða hætti aðgengi að deilibílum hefur áhrif ferðavenjur og bílaeign.

Ferðavenjukannanir og rannsóknir hérlendis og erlendis sýna að sá þáttur sem dregur einna mest úr líkum þess að fólk noti almenningssamgöngur er einkabílaeign og hefur það áhrif á næstum alla þætti þess hvernig við ferðumst daglega. Ljóst er að einkabílaeign hefur mikil áhrif á ferðavenjur á höfuðborgarsvæðinu en að meðaltali er 1,5 bíll á heimili skv. nýjustu ferðavenjukönnun á höfuðborgarsvæðinu.

Mikilvægur liður í að auðvelda íbúum að lifa án einkabílsins (eða koma í veg fyrir að fleiri en einn bíll sé á heimili) er aðgengi að deilibíl. Hraðari vöxtur deilibíla getur því verið mikilvægur liður í að ná markmiðum um breyttar ferðavenjur á höfuðborgarsvæðinu.

Deilibílaþjónusta á höfuðborgarsvæðinu hefur verið aðgengileg í tiltölulega stuttan tíma sbr. við erlendar borgir en deilibílaþjónustan Zipcar hóf rekstur hér á landi haustið 2017. Árið 2018 hófst svo samstarf á milli Zipcar og Strætó þar sem árskorthafar Strætó fá fría áskrift (og klukkustundarnotkun) með Zipcar. Engar rannsóknir hafa verið gerðar hérlendis á því hvort aðgengi deilibíla á höfuðborgarsvæðinu hafi nú þegar áhrif á ferðavenjur og einkabílaeign meðal þeirra sem nýta sér þjónustuna í dag. Rannsókn þessi yrði því sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Vonast er til þess að rannsóknin greini frá tækifærum fyrir sveitarfélög og skipulagsyfirvöld til að styðja við vöxt deilibíla á Íslandi.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur og markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á hvort aðgengi að deilibílum hefur áhrif á ferðavenjur, einkabílaeign ásamt viðhorfi til einkabílaeignar.