Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Áhrif breytinga Skeiðarárjökuls á farveg og rennsli Súlu.

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Skeiðarárjökull hefur rýrnað mikið á síðustu áratugum, jökullinn hefur hopað og jökulsporðurinn breyst. Þessu hafa fylgt breytingar í farvegum fallvatna frá jöklinum.  Allar meginkvíslar (Skeiðará austast, Sæluhúsakvísl, Gígjukvísl og Súla vestast ) sem áður dreifðu úr sér niður sandana renna nú að hluta til með sporðinum og sameinast í Gígjukvísl. Einnig hefur eðli jökulhlaupa undan jöklinum breyst á þessum tíma. Litlar líkur eru á stórum hlaupum frá Grímsvötnum, af þeirri stærð sem algeng voru frá miðri 20. öld til 1996 og  nær engar líkur á hlaupi líku hamfarahlaupinu haustið 1996, vegna breytinga á ísþröskuldi, rennslisleiðum og þykknunar íshellunnar (Pálsson, 2018). Jafnframt er Grænalón sem var uppspretta tíðra jökulhlaupa í Súlu nú að mestu leyti horfið.

Í þessu verkefni verða skoðaðar breytingar á jöklinum og farvegum vestast. Farvegur Súlu hefur frá 2016 legið til austurs og suðurs yfir til Gígjukvíslar, um lægð í landi sem fyrir nokkrum árum var undir jökli. Í áratugi lá farvegurinn nær beint til suðurs um skarð og sameinaðist Núpsvötnum, þetta skarð stendur hærra en núverandi farvegur. Það sem helst ógnar stöðugleika hins nýja farvegar er  hugsanlegt framhlaup jökulsins, en hann hefur áður gengið fram um allt að 1 km. Í slíku framhlaupi gæti jökull lagst yfir farveginn og stíflað hann.  Einnig er mögulegt að framhlaup gæti haft áhrif á ísstíflu Grænalóns sem þá gæti safnað vatni á ný og þaðan komið jökulhlaup.

Í verkefninu verður farið yfir fyrirliggjandi gögn af svæðinu, þar á meðal botnkort, yfirborðshæðarlíkön (m.a. verða ný hæðarlíkön búin til úr fáanlegum loftmyndum), skoðaðar verða loftmyndir, breytileg lega jökulsporðsins rakin og aðrar mælingar sem geta varpað ljósi á þróun jökulsins. Vonast er til að þessi gögn getu varpað ljósi á þróun Skeiðarárjökuls og farvegs Súlu í næstu framtíðar.

Tilgangur og markmið:

 

Rýrnun Skeiðarárjökuls síðustu ár hefur haft mikil áhrif á umferðarmannvirki á Skeiðarársandi. Skeiðarárbrú, lengsta brú landsins, var tekin úr notkun 2017 og 70 m löng brú yfir Morsá tekin í notkun í staðinn, en Skeiðará hvarf úr farvegi sínum og fór að renna til Gígjukvíslar 2008. Ekki er ólíklegt að brúin yfir Núpsvötn hljóti svipuð örlög, nú þegar Súla sem áður bar undir hana meginhluta vatnsins er hætt að renna þangað. Þróun Skeiðarárjökuls skiptir því miklu máli varðandi skipulagningu umferðarmannvirkja sunnan jökulsins. Markmið verkefnisins er að skoða breytingar á vestanverðum jöklinum og landinu framan við hann, meta líklega þróun næstu áratugi og áhrif þeirrar þróunar á farveg Súlu.