Skilgreining:
Hreinsun og umhirða vegsvæðis eru eftirfarandi aðgerðir:
- Hreinsun grjóthruns af vegyfirborði
- Hreinsun á minni háttar skriðuföllum
- Viðgerðir á og hreinsun grjótneta
- Hreinsun og umhirða vegsvæðis, göngustíga innan vegsvæðis, flóðgátta á milli akbrauta, bannsvæða, jarðgerðra hljóðmúra, öryggisgirðinga svo og hvíldar-, keðjunar, vigtunar- og eftirlitsstaða, áningarstaða og sæluhúsa með tilheyrandi búnaði
- Reglubundin sópun akbrautar, axla og gatnamóta
- Umhirða umferðareyja, kantsteina, vegghleðsla og vegfláa
- Hreinsun foksands af vegi
- Hreinsun úr brunnum og niðurföllum
|
Aðgerðalýsing:
Grjóthrun eða skriðuföll á akbraut sem getur skapað hættu fyrir vegfarendur skal hreinsa um leið og fært þykir (sjá tíðnitöflu). Ef hrun eða skriðuföll geta valdið frekara tjóni á vegi eða öðrum mannvirkjum skal gera lágmarksaðgerðir um leið og fært þykir. Aðra hreinsun skal vinna samhliða öðrum verkefnum á svæðinu þó eigi síðar en einum mánuði frá því að hrun átti sér stað.
Grjótnet skal yfirfara og lagfæra a.m.k. einu sinni á ári. Ef grjóthrun eða aurskriður fylla í netin þannig að notagildi þeirra verður ófullnægjandi skal hreinsað úr þeim og gera við skemmda hluta eins fljótt og unnt er.
Hreinsun rusls á vegsvæði á vegum í þjónustuflokki 1-3 skal ljúka eins fljótt og unnt er að vorinu og vera lokið fyrir júní. Með öðrum vegum skal rusl hreinsað samtímis og stikur eða umferðarmerki eru lagfærð eða þegar önnur vinna á sér stað á svæðinu. Handsá skal í minni háttar skemmdir á uppgræddu vegsvæði eða áningarstöðum.
Akbrautir og axlir skulu sópaðar að vori til ef þörf er á, en að öllu jöfnu er miðað við að ekki sé sópað nema sérstök ástæða þyki til. Sópa skal öll vegamót a.m.k. einu sinni á ári og skal því lokið fyrir 1. júní ár hvert. Sópun gatnamóta skal hagað þannig að þau séu ætið svo hrein að ekki skapist hætta af fyrir vegfarendur.
Hreinsa þarf reglulega úr brunnum og niðurföllum þar sem þau eru til staðar og skal tíðni hreinsana ákveðin út frá fyrri reynslu og þá sérstaklega með tilliti til þess hvort vegur er sandborinn að vetri til eða ekki.
Undirgöng og göngustíga skal sópa og hreinsa skal niðurföll í undirgöngum a.m.k. einu sinni að vori. Grasi vaxnar umferðareyjar og vegsvæði skal slá eftir þörfum yfir sumartímann.
Áningarstaði skal hreinsa reglulega og sjá til þess að upplýsingatöflur séu réttar, með því að láta viðkomandi umsjónaraðila vita þegar breytinga er þörf, og að töflurammar séu málaðir og annar búnaður sé ávallt hreinn og í góðu ástandi. Tæma skal sorpílát (þar sem þau eru til staðar) nægjanlega oft til að þau yfirfyllist ekki. Á þeim áningarstöðum þar sem hætta er á að lausamunir s.s. borð og sorpílát geti orðið fyrir skemmdum að vetrarlagi skal koma þeim fyrir til geymslu og viðhalds fyrir 15. október og skal þá jafnframt miðað við að búnaðurinn sé kominn aftur á sinn stað í lok maí.
Yfirfara skal ástand og búnað sæluhúsa a.m.k. tvisvar sinnum á ári og þá að hausti og vetri.
Tíðnitafla:
Þjónustuflokkur | Hreinsun grjóthruns og skriðufalla sem getur skapað hættu | Hreinsun rusls á vegsvæði |
1 | Strax | 2 svar á ári |
2 | Strax | Árlega |
3 | Innan eins dags | Árlega |
4 | Innan 3 daga | Samhliða yfirferð stika, umferðarmerkja eða þegar önnur vinna á sér stað |
Safn- og landsvegir | Innan 7 daga | Samhliða yfirferð stika, umferðarmerkja eða þegar önnur vinna á sér stað |