Matsskýrslur
  • Leið-B

Vestfjarðavegur (60), Bjarkalundur - Eyri, Matsskýrsla (vegna endurupptöku)

20.1.2015

Vegagerðin hefur farið þess á leit við Skipulagsstofnun að neytt verði heimildar í stjórnsýslulögum og/eða óskráðum almennum heimildum stjórnvalda til endurupptöku mála til að taka aftur upp hluta úrskurðar vegna umhverfismats um byggingu nýs vegar á sunnanverðum Vestfjörðum, leið B í 2. áfanga verksins sem liggur um Teigsskóg. Upphaflega matsskýrslan er hér birt ásamt beiðninni um endurupptöku og öðrum gögnum.

Varðandi endurupptökubeiðnina sem er til meðferðar hjá Skipulagsstofnun þá má senda inn athugasemdir til Skipulagsstofnunar, Laugavegi 166, 105 Reykjavík og/eða í netfangið skipulagsstofnun@skipulagsstofnun.is til og með 23. febrúar næstkomandi.

Úr inngangi matsskýrslunnar frá 2005:

Í skýrslu þessari eru metin áhrif framkvæmdarinnar: Vestfjarðavegur nr. 60, Bjarkalundur-Eyri, á nánasta umhverfi framkvæmdasvæðisins. 

Framkvæmdinni verður skipt í þrjá áfanga. Í áfanga 1 sem er frá Bjarkalundi að Þórisstöðum koma tvær leiðir til greina: Inn fyrir Þorskafjörð eða þverun hans. Áfangi 2 er frá Þórisstöðum að Kraká í Gufufirði. Þrjár leiðir koma til greina: B, C og D. Leið B liggur út Þorskafjörðinn að vestanverðu og þverar Djúpafjörð og Gufufjörð. Leið C liggur að mestu á núverandi vegi að Hálsá í Djúpafirði en þaðan liggur hún út að vestanverðu og yfir Gufufjörð. Leið D liggur að mestu á núverandi vegi en þverar Gufufjörð innarlega. Áfangi 3 er frá Kraká og að Eyri í Kollafirði og liggur að mestu á núverandi vegi en nokkrir kostir koma til greina við Skálanes.

Markmið framkvæmdarinnar eru bættar vegasamgöngur annars vegar innan Reykhólahrepps og hins vegar af Hringvegi vestur um til Vestur-Barðastrandarsýslu og til norðanverðra Vestfjarða.

--------

Vegna endurupptökubeiðni 2015:
Vegagerðin áætlar að byggja nýjan Vestfjarðaveg milli Bjarkalundar og Melaness í Reykhólahreppi. Framkvæmd þessi var lögð fram til mats á umhverfisáhrifum á árinu 2005. Með erindi þessu er þess farið á leit við Skipulagsstofnun að neytt verði heimildar í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og/eða óskráðrar almennrar heimildar stjórnvalda til endurupptöku mála til að taka aftur upp þann hluta úrskurðar stofnunarinnar frá 28. febrúar 2006 er lýtur að veglínu B í 2. áfanga verksins. Frekari rökstuðning er að finna í bréfinu um endurupptökubeiðni hér að neðan.

Matsskýrslan 2005 (Varðandi teikningar með matsskýrslunni má sjá veglínur í teikningahefti sem fylgir endurupptökunni).