Matsáætlanir
  • Kort af framkvæmdasvæðinu

Dynjandisheiði og Bíldudalsvegur - tillaga að matsáætlun

18.5.2018

Vegagerðin hefur sent Skipulagsstofnun til ákvörðunar tillögu að matsáætlun varðandi framkvæmdina Vestfjarðavegur (60) um Dynjandisheiði og Bíldudalsvegur (63) frá Bíldudalsflugvelli að Vestfjarðavegi á Dynjandisheiði, í Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ, í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.

Fyrirhugað er að endurbyggja Vestfjarðaveg (60) um Dynjandisheiði, á kafla sem nær frá Hörgsnesi í Vatnsfirði, langleiðina að Mjólkárvirkjun í Borgarfirði. Einnig er fyrirhugað að endurbyggja Bíldudalsveg (63) á kafla sem nær frá Bíldudalsflugvelli á Hvassnesi að Vestfjarðavegi í Helluskarði á Dynjandisheiði. Framkvæmdin er í tveimur sveitarfélögum, Vesturbyggð í Vestur-Barðastrandarsýslu og Ísafjarðarbæ í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Markmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða. Hún ásamt Dýrafjarðargöngum er lokahnykkurinn við gerð heilsárshringvegar um Vestfirði.