Kynningargögn

Breikkun og lagfæringar á Dimmuborgavegi (884) í Mývatnssveit

27.9.2013

Dimmuborgir - afstöðumyndVegagerðin fyrirhugar endurbætur á Dimmuborgavegi (884) í Skútustaðahreppi í Mývatnssveit. 

Dimmuborgavegur sem er 1,3 km langur liggur frá Mývatnssveitarvegi (848) að bílastæði við Dimmuborgir. Núverandi vegur er lagður klæðingu en hann er aðeins einbreiður með útskotum til að mætast. Hann fylgir landslaginu, er bæði hæðóttur og krókóttur og á honum eru nokkrar blindar beygjur. 

Fyrirhugað er að breikka veginn í því vegarstæði sem hann liggur nú, með lágmarks raski á óhreyfðu landi meðfram veginum. Áætluð efnisþörf til vegagerðarinnar er um 6-7 þús. m3. Fyrirhugað er að ráðast í framkvæmdir haustið 2013 og ljúka þeim vorið 2014.
 
Framkvæmdin telst ekki matskyld skv. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 með síðari breytingum en kanna þarf matsskyldu framkvæmdarinnar skv. 6 gr. laga um mat á umhverfisáhrifum skv. viðauka 2.10.c, þar sem um er að ræða vegaframkvæmd utan þéttbýlis á verndarsvæði. 

       1. Vegaframkvæmdin liggur um verndarsvæði Mývatns og Laxár sem vernduð eru með                           sérstökum lögum nr. 97/2004
        2. Vegaframkvæmdin liggur um jaðar friðlýsts svæðis Dimmuborga
        3. Núverandi vegur liggur í grennd við fornleifar sem njóta verndar samkvæmt lögum nr.                       80/2012.   

Þegar kynningarskýrsla vegna framkvæmdanna var prentuð lágu ekki fyrir upplýsingar um fornleifar á svæðinu. Umsögn Minjastofnunar Íslands um fornleifar hefur því verið bætt við kynningarskýrsluna. Einnig hefur teikningu 4, sem sýnir fornleifar í grennd við veginn, verið bætt við skýrsluna. Vegagerðin mun kynna fornleifarnar fyrir verktakanum og merkja þær með gulum borða áður en framkvæmdir hefjast.

Framkvæmdum verður hagað þannig að neikvæð áhrif þeirra verði sem minnst og haft verður samráð við hagsmunaaðila sem framkvæmdina varðar. Vegagerðin telur að framkvæmdin hafi fremur lítil umhverfisáhrif nema hvað varðar betri samgöngur og bætt umferðaröryggi á veginum.