Kynningargögn

Djúpvegur (61) um Seljalandsós og Seljalandsá í Álftafjarðarbotni

27.6.2011

Vegagerðin kynnir með skýrslu þessari fyrirhugaðar endurbætur á 0,6 km kafla á Djúpvegi (61) um Seljalandsós og Seljalandsá í Álftafjarðarbotni í Súðavíkurhreppi. Djúpvegur er stofnvegur. Djúpvegurinn ásamt Vestfjarðavegi (líka stofnvegur) frá Dalsmynni í Borgarfirði að Djúpvegi í Geiradal í Reykhólahreppi er aðalvegurinn milli norðanverðra Vestfjarða og Hringvegar. Djúpvegurinn er TERN-vegur (hluti af Trans European Road Network).

Ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum á Ísafirði þann 5. apríl 2011 að veita 350 m.kr. til vegagerðar á Vestfjörðum, umfram þær fjárveitingar sem eru á samgönguáætlun. Vegagerðinni er falið faglegt val á verkefnum.

Framkvæmdasvæðið er í Súðavíkurhreppi og nýr vegkafli fer um land jarðanna Minni-Hattardals, Seljalands og Svarfhóls.

Vegagerðin hefur lengi viljað byggja nýjar brýr á Seljalandsós og Seljalandsá. Núverandi brýr voru smíðaðar árin 1956 og 1957 og eru því komnar nokkuð til ára sinna. Nýjar brýr verða af álíka lengd og núverandi brýr, en tveggja akreina í stað einnar akreinar. Áformað er að nýjar brýr á Seljalandsós og Seljalandsá komi rétt neðan núverandi brúa, í þá veglínu sem sýnd er á teikningu 3. Nýr vegkafli verður um um 0,6 km langur. Núverandi vegur er með alltof krappri beygju austan brúar á Seljalandsósi og telst því hættulegur. Stytting vegna breytinganna er um 89 m.

Þessi kynning á framkvæmd tekur einnig til helstu umhverfisáhrifa fyrirhugaðrar vegaframkvæmda, þar sem hún er tilkynningarskyld skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Aflað hefur verið gagna um ýmsa umhverfisþætti s.s. gróður, fugla og leirur. Niðurstaða Vegagerðarinnar er að vegbætur í
Álftafjarðarbotni hafi ekki í för með sér veruleg neikvæð umhverfisáhrif.

Kynningarskýrsla

Sérfæðiskýrslur